1. Pét. 2.21-25
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Set samviskuna í þvott með handklæðum og nærfötum. Held svo út í daginn samviskulaus.
Á morgun verð ég með hreina samvisku.
Þannig yrkir Hulda Sigurdís Þráinsdóttir á Egilsstöðum. Ljóðið heitir Hrein samviska og er að finna í nýútkominni bók hennar, Umrót.
Set samviskuna í þvott...
Liðinnar viku verður trúlega minnst í sögu íslenskra þjóðmála fyrir röð óvenjulegra viðburða. Fram var komið í fjölmiðlum að nokkrir af ráðamönnum landsins hefðu ekki staðið sig sem skyldi þegar að því kom að miðla upplýsingum um fjárhagslega hagsmuni sína. Flestir virtust sammála um að ekki hefðu verið framin lögbrot en deilt var um siðferðilega hlið mála og hver hefði nógu hreina samvisku til að geta sinnt áfram trúnaðarstörfum sínum, eða mannlegum hirðisstörfum.
Pistillinn úr 1. Pétursbréfi sem við heyrðum hér á undan kemur einmitt inn á sekt og samvisku - og hlutverk hirðis. Í dag, á öðrum sunnudegi eftir páska, færir hefð kirkjunnar okkur til íhugunar myndir Ritningarinnar um hirðinn og hjörðina hans.
Eitt af því sem er svo stórkostlegt við orð Jesú í guðspjöllunum er að dæmisögurnar hans eru ekki sagðar á einhvers konar „himnesku“ heldur eru þær meira og minna sprottnar upp úr hversdagslegum hlutum. Jesús leit í kringum sig og dró líkingar sínar af atburðum, umhverfi og störfum daglega lífsins, af því sem allir gátu skilið. Lítið korn sem verður að stóru tré. Kona, sem bakar brauð og notar örlítið súrdeig, sem hefur áhrif á allt brauðið. Kaupmaður, sem selur allt sem hann á fyrir eina dýrmæta perlu. Eilífðin leynist víða meðal mannanna ef vel er að gáð.
Og svo er það fjárhirðirinn, sá sem gætir kinda fyrir rándýrum og öðrum hættum. Þessi myndlíking um Drottin sem fjárhirði sem gætir hjarðar sinnar, var auðvitað vel þekkt úr trúarhefð Gyðinga löngu fyrir daga Krists. Við sungum hér áðan 23. Davíðssálm, „Drottinn er minn hirðir,“ sem Jesús hefur kannski lært sem barn. „Ég er góði hirðirinn“ segir Jesús. Og eftir að hann er upprisinn og stiginn inn í eilífðina er þessi líking áfram notuð og er að finna á nokkrum stöðum í bréfum postulanna í Nýja testamentinu, t.d. í pistlinum sem ég las hér á undan: „Nú hafið þið snúið ykkur til hans sem er hirðir og biskup sálna ykkar.“
Í pistlinum bendir Pétur postuli á Krist sem fyrirmynd. Gríska orðið sem býr að baki þessu orði í þýðingunni, fyrirmynd, getur m.a. þýtt skriftaræfingu þar sem barn á að líkja eftir því sem búið er að skrifa. Okkur sem viljum fylgja Kristi er þannig falið að reyna að fylgja því mynstri sem hann hefur áður dregið upp.
Pétur útskýrir þessa fyrirmynd Krists nánar í pistlinum og segir: „Hann drýgði ekki synd og svik voru ekki framin í munni hans. Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt og hótaði eigi er hann leið, heldur fól það honum á vald sem dæmir réttvíslega“ (1Pt. 2.22-23).
Og talandi um svik og illmælgi. Við vorum að tala um hreina samvisku hér áðan og atburði undanfarinna daga á vettvangi þjóðmálanna. Við hljótum öll að sammælast um að gerðar séu ríkar kröfur um heilindi til þeirra sem trúað er fyrir valdstjórninni, og jafnvel enn ríkari kröfur en þær sem skjalfestar eru í lögum eða siðareglum. Kirkja Krists hlýtur á sinn hátt að fagna og taka undir allar kröfur sem lúta að heiðarleika, virðingu og auðmýkt. Þau sem vilja gegna opinberum embættum þurfa auðvitað að minnast þess að störf þeirra ber að líta á sem þjónustu enda er orðið embætti náskylt öðru orði, ambátt. Það dugir víst ekki alltaf að setja samviskuna „í þvott með handklæðum og nærfötum“ svo vitnað sé í ljóðið hennar Huldu Sigurdísar. Þess vegna er það líka gleðiefni að búa í samfélagi þar sem fólk lætur í sér heyra þegar því er misboðið af ráðamönnum eða öðrum sem eiga að njóta trausts, og að hlustað sé á þær raddir.
Vikan sem leið kveikir hins vegar einnig fleiri spurningar sem tengjast samvisku okkar sem einstaklingar eða samfélag, t.d. þessar:
Verða þegar fram komnar upplýsingar ennþá alvarlegri í hugum okkar, þegar þær eru settar fram í sjónvarpsþætti með dramatískri tónlist og myndvinnslu sem ætlað er að gera ráðamennina vandræðalega?
Fer það saman að knýja á um hreinni samvisku annarra úr ræðustóli Alþingis en haga jafnframt eigin orðfæri þannig að forseti þingsins þarf að slá í bjöllu og biðja menn að forðast „svigurmæli“?
Fer það saman að mæta til fjöldafundar þar sem barist er fyrir bættu siðferði, og skilja um leið eftir sig ókjör af rusli á jörðinni og matvæladrullu á þinghúsi þjóðarinnar?
Og eiga börn erindi á mótmælafundi þar sem þau halda á skiltum með óhefluðu orðfæri?
Stundum er eins og okkur vanti heildarmynd hlutanna, eða eigum erfitt með að sjá þá frá öðru sjónarhorni en okkar eigin.
Í gær skírði ég litla stúlku hér í kirkjunni og fimm ára gamall stóri bróðir hennar tók stoltur við kertaljósinu af altarinu fyrir hennar hönd eins og gjarnan er gert. Hann var að vísu ekkert á því að sinna þessu hlutverki fyrir nokkrum dögum þegar mamma hans spurði hann hvort hann vildi halda á skírnarkertinu þegar litla systir yrði skírð. Hann svaraði í einlægni: „En hvernig á ég þá að geta borðað kökuna?“ – Hugmyndin sem drengurinn hafði um þennan hátíðisdag nægði honum ekki til að sjá heildarmyndina! Við gleymum því stundum að við sjáum kannski bara eitt sjónarhorn eða hluta af heildarmyndinni.
Eitt af því sem mig langar að láta liðna viku minna mig á er þess vegna að gleyma ekki að líta í minn eigin barm þegar ég felli dóma yfir siðferði annarra.
Annað atriði sem ég vil líka láta þessa atburði verða mér til áminningar um, er að líta til Jesú Krists sem þess hirðis sem einn veitir fullkomna fyrirmynd, án svika og syndar og illmælgi.
Í umróti dægurmálanna felst léttir í að snúa sér til hans, sem er með orðum Péturs postula í textanum, „hirðir og biskup sálna okkar“.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.