Matt. 5.13-16 Op. 33.1-3 5.Mós. 33.1-3
Heyr, himna smiður, hvers skáldið biður, komi mjúk til mín, miskunnin þín. Því heit eg á þig, þú hefur skaptan mig, ég er þrællinn þinn, þú ert Drottinn minn
Þetta bæanarvers er eftir Kolbein Tumason frá árinu 1208 og er sálmur 308 í sálmabókinni auk þess að vera elstur allra íslenskra sálma og raunar á Norðurlöndum.
Og ekki aldeilis fallinn í gleymskunnar dá, því í fréttum fjölmiðla nýlega kom fram, að ekkert íslenskt verk fer nú víðar um heimsbyggðina á Youtube en Heyr himnasmiður við lag Þorklels Sigurbjörnssonar í flutningi söngsveitarinnar Árstíðir. Á verkið hafa hlustað hátt í fimm milljónir manna, og erlendir tónlistarflytjendur spyrja nú ákaft eftir nótum og texta. Þetta sálmavers er sannarlega ljós heimsins og stendur á ljósastiku, ef gripið er til líkingar úr guðspjallinu sem helgað er Allra heilagra messu, og ég las frá altarinu. Þar segir Jesús: „Þannig lýsi ljós yðar á meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum“.
Kolbeinn Tumason hefur líklega ekki gert sér í hugarlund, að þetta sálmavers ætti eftir að fara um heimsbyggðina átta öldum eftir hans dag og enn síður með þeirri tækni sem nú er í boði.
Og mikið hefur fólkið í landinu oft tekið undir í bænakalli Kolbeins: „Heyr himna smiður, kom til mín, þú ert Drottinn minn“. Hið heilaga ákall um nálægð Guðs og blessun og hefur verið yrkisefni listarinnar um aldir og allt fram á þennan dag og einmitt þar sem listin hefur risið hæst af tign og reisn og vafið saman menningu og bænamál kynslóðanna: „Heyr himna smiður, kom til mín, þú ert Drottinn minn“. Þetta er ákallið og játningin sem sameinað hefur þjóð í einum sið í meira en 1000 ár og er á ljósastiku þar sem lýsir yfir allt hið fegursta sem við þráum að megi skrýða blómlegt líf með ástinni, réttlætinu og menningunni sem við skynjum í boðskap Jesú Krists.
Eigi að síður hafa háværar raddir á öllum tímum reynt að kveða niður þetta ákall, skyggja á ljósið á ljósatikunni, afhelga hið heilaga, úthýsa öllu sem minnir á Guð og nærveru hans, og sérstaklega á meðan leikur sæmilega í lyndi í þjóðlífinu. Á stórum stundum, þegar mikið er í húfi og alvara lífsins á í hlut, þá hljóðnar vantrúin augnablik. Minnst var í kirkjum látinna í snjóflóðunum á Flateyri 27. október 1995, þegar tuttugu ár voru liðin frá þeim hörmulega atburði,- og með bæn og blessun. Sár minning, sem þjóðin deilir með aðstandendum af hluttekningu og biður góðan Guð um huggun og von. Þessi atburður minnir á, að við búum í harðbýlu landi þar sem náttúruöflin skekja umhverfið og ekki verður við neitt ráðið. Gagnvart því ógnarvaldi má maðurinn sín lítils.
Kolbeinn Tumason andaðist í bardaga í Viðinesi 37 ára að aldri árið 1208. Þar var barist með með mannsins valdi og fékk hann stein í ennið sem varð hans bani. Og enn er barist í heiminum, en nú með háþróuðum tæknivæddum vopnum, og saklaust fólk að langstærstum hluta fórnarlömb í þeim hamförum. Fólk í hrakningum á flótta frá heimkynnum sínum er sár birtingarmynd um það. Þetta er svo þvert á allar væntingar okkar um frið í heimi þar sem tæknin og vísndin hafa áorkað svo miklu með afrekum sínum lífinu til farsældar og hefðu talist til kraftaverka fyrr á tímum.
Nú segja nokkrir að vitið og máttur mannsins hafi tekið svo einstæðum framförum, að Guð er óþarfur og maðurinn geti orðið fullkominn af sjálfum sér. En ekki hefur vitinu tekist draga úr vopnaskaki og ófriði í heiminum, sem er þó á mannsins valdi, heldur gefið í með tólum og tækjum sínum, og nú gildir að ógnin, hótunin um að beita vopnum, sé helsta trygging fyrir friði og öryggi í samskiptum ríkja. Er þetta dæmi um það hvernig maðurinn misnotar valdið með viti sínu eða veit ekki hvað hann er að gera?
Það verður svo oft í lífinu eins og postulinn sagði: Það sem ég vil, það geri ég ekki, og það sem ég geri, vil ég ekki. Maður í vellystingum nútimans virðist oft svo ráðviltur, riðar í þægindum sínum í leitinni að hamingjunni og lendir svo gjarnan í því uppskera tómið í vonleysinu, þrátt fyrir alla þekkingu og tækni.
Mikil er þörfin, að heilagt ljósið á ljósastikunni megi lýsa skært og yfir það sem er fagurt og gott, glæða von, vekja til ábyrgðar. „Heyr, himna smiður, kom til mín, þú ert Drottinn minn“.
Einar Bendiktasson sagði einu sinni: „Mannapinn horfði svo lengi til himins, að hárin hættu að vaxa á enni hans“. Hér kemur fram sú skoðun, að maðurinn hafi þróast til mennsku sinnar með því að uppgötva himininn sem tákn hins æðra. Annað skáld sagði að maðurinn hafi lagt af sér dýrshaminn, þegar hann reisti altari í fyrsta sinn. Er maðurinn hættur að horfa til himins eða sjá altarið í lífi sínu? Hvar er himininn og altarið í lífi nútímans?
En samt er hún svo krefjandi heilög vonin um að hið fagra, góða og fullkomna sé í nánd, þar sem innsta þrá er friður, bænin sem beinist upp í himininn hjá Guði og fann sér áþrefanlegan stað í heilögu altari á jörðinni þar sem ómar: „Heyr, himna smiður, kom til mín, þú ert Drottinn minn“. Þess vegna er kirkjan heilagur staður. Þetta sjáum við líka vel í listinni hvort sem horft er til bókmennta, tónlistar, myndlistar eða byggingarlistar þar sem blómgast falleg og göfug menning, eins og við njótum hér í þessu fallega húsi, hljómfögrum söngnum og gefandi Guðsorði. Og þetta finnum við vel innra með okkur sjálfum, ekki síst þegar á reynir og alvaran á í hlut.
Þá er himininn og altarið í hjarta þínu.
Um þá reynslu fjallar Biblían og saga mannsins hér og nú þar sem reynir á traustið á Guði sem sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga myrkri heldur hafa ljós lífsins“. Þar er Guð.
Á allra heilagra messu beinum við sjónum frá altarinu til himins í minningu látinna ástvina okkar. Þær minningar eru samofnar kærleikans ljósi á þeirri ljósastiku sem er á meðal okkar helgustu gæða.
Að mega fela látinn ástvin í arma miskunnar og ástríkis Guðs er mikill styrkur, ekki aðeins náð sem helgast af blessun og kærleika, heldur skapar frið í hjarta, von í sálina, kjark og þrek til að halda áfram.
Það er trú, að treysta Guði, og án þess að spyrja hvernig, heldur treysta, eins og nýfætt og ósjálfbjarga barnið sem lagt er í faðminn á móður og föður og getur ekkert annað gert en að treysta þeim miskunnsömu og kærleiksríku höndum. En minningarnar um samfylgd og samvistir frá gengnum dögum eigum við hvert fyrir sig í dýrmætum fjársjóði og deilum mörgum þeirra með hvert öðru, það allt sem auðgar og gefur lífinu svo mikið gildi. Minningar sem við getum treyst og blómgast af heilögu ljósi. Þá ómar í hjarta: „Heyr, himna smiður, kom til mín, þú ert Drottin minn“. Amen.