Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“ Lúk 13.6-9
Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og drottni Jesú Kristi.
Það er mikill heiður að vera treyst til að prédika. Það er vandasamt verkefni. Það er meira að segja engu líkara en að íslenskum prestum hafi farist það svo illa úr hendi í gegn um tíðina að núorðið er varla hægt að segja neitt ljótara um málflutning nokkurs manns en það að hann sé að „prédika“. Og fræg er sagan af fínu frúnni sem fór í kirkju einhvern tímann þegar presturinn fann sig knúinn til að lesa aðeins yfir söfnuðinum og snupra hann fyrir framgöngu sína í einhverju siðferðilegu álitamáli sem þá var á döfinni. Konan var ekki ánægð með ræðuna og vatt sér upp að prestinum í kirkjukaffinu á eftir og tilkynnti honum með þjósti að hún færi sko ekki í kirkju til að láta prédika yfir sér! Gott og vel. Við förum ekki í kirkju til að láta prédika yfir okkur. En til hvers förum við þá í kirkju? Það er kannski einn af harmleikjunum í sögu kristindómsins að í gegn um tíðina hafa kristnir menn ekki einu sinni getað verið sammála um tilganginn með þessu sem þeir þó eiga allir sameiginlegt: Þeir sækja kirkju. Til hvers?
Miðaldakirkjan skigreindi kirkjusókn sem guðsþakkarverk. Messugjörð og bænahald var til að þóknast Guði. Menn unnu sér inn prik hjá Guði með því að mæta í kirkju og bættu fyrir brot sín með því að fara með bænaromsur og sækja kirkju í stað þess að ... bæta fyrir brot sín. Gegn þessu reis siðbótin svokallaða. Við förum í kirkju til að flytja lofgjörð og þakkargjörð. Við förum ekki í kirkju til að vinna okkur inn prik hjá Guði. Við förum ekki í kirkju til að Guð elski okkur. Við förum í kirkju af því að Guð elskar okkur. Hann elskaði okkur að fyrra bragði. Hann gaf son sinn svo að við mættum lifa. Meiri kærleika á enginn en sá sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir aðra. Ef einhver getur tekið við slíkri gjöf án þess að finna til þakklætis, finna sig knúinn til þakkargjörðar ... þá er það á milli hans og Guðs. Ég hef ekkert umboð til þess að vísa neinum út í ystu myrkur.
En eftir að hafa tekið við þessari stórkostlegu gjöf í hjarta sér, eftir að hafa upplifað sig sem hluta af sköpunarverkinu og aðnjótanda þess stórkostlega kærleikverks ... Því sköpunarverkið er kærleiksverk Guðs. Guð er kærleikur og kærleikur getur ekki hverfst um sjálfan sig, hann krefst andlags. Heimurinn er skapaður til að vera andlag við kærleika Guðs. Eftir að hafa opnað hjarta sitt fyrir þessum stórkostlega kærleika þá er tilhugsunin um að fara á mis við hann, að finna ekki til þessa alltumlykjandi þakklætis og auðmýktar ... sú tilhugsun er bæði dapurleg og myrk.
En við förum ekki bara til kirkju til að þakka Guði fyrir kærleika hans. Við förum líka með ákveðnar væntingar í farteskinu. Þessar væntingar tjáum við berum orðum í hinni klassísku upphafsbæn. Við förum til að heyra hvað Guð vill segja okkur, „hvað þú vilt við mig tala í þínu orði“, eins og það er orðað. Og við bætum við að fyrir þetta orð viljum við iðrast synda okkar, trúa á Jesú í lífi og dauða og taka framförum í kristilegu hugarfari og líferni. Þetta eru engar smáræðis væntingar. En hvað þýðir þetta allt saman?
Og hvernig er nú hægt að miðla Guðs orði án þess að „prédika“ yfir fólki? Liggur það ekki nokkuð ljóst fyrir, núna tvöþúsund árum eftir að Nýja testamentið, heilög ritning okkar kristinna manna, var ritað og eftir tvöþúsund ára samfelldan lestur og útleggingu á efni þess, hvað Guð vill við okkur tala í sínu orði? Hve lengi er hægt að tala um og útleggja, að það sem við viljum að aðrir menn gjöri okkur skulum við og þeim gjöra, án þess að boðskapurinn verði endurtekningasamur og staglkenndur? Á hve marga mismunandi vegu er hægt að boða þennan einfalda sannleika þannig að hann sé ávallt nýr og ferskur?
Karl nokkur fór eitt sinn í kirkju. Þegar hann kom heim spurði konan hans um hvað presturinn hefði talað. „Hann talaði um syndina,“ svaraði karlinn. „Og hvað sagði presturinn um syndina,“ spurði konan. Karlinn svaraði: „Hann var á móti henni.“
Var þetta góð prédikun? Að minnsta kosti komst boðskapurinn til skila, skýrt og skilmerkilega. Það er hægt að drekkja einfaldasta boðskap í orðavaðli og mærð. En talaði boðskapurinn til karlsins í kringumstæðum hversdagsins? Hafði hann sérstakt gildi fyrir hann í þeim áþreifanlegum viðfangsefnum sem hann þurfti að fást við í dagsins önn? Eða var prédikunin jarðsambandslaust hjal um upphafin hugtök án snertingar við hinn daglega raunveruleika? Mér finnst sagan gefa það í skyn, en það þarf ekki að vera. Kannski sofnaði karlinn bara undir prédikuninni og gat ekki haft stakt orð eftir. En þá vaknar spurningin hvort prédikun sem svæfir áheyrendur standist lágmarkskröfur. Eru ekki ábyggilega allir vakandi?
Hvers vegna förum við til kirkju? Spurningin er í raun röng. Við förum ekki til kirkju. Við erum kirkja. Það sem við förum til er bara hús, bygging úr steypu og stáli. Kirkja er fólk. Fólk á ferð með guði. Lýður Guðs. Kirkja er samfélag. Kirkjan kemur saman í húsinu til að eiga samfélag í trú.
Í dag er gamlársdagur og texti dagsins fjallar um annað tækifæri. Hann er ekki leiðsögn við garðyrkju, þótt eflaust gæti hann gagnast sem slíkur líka. Á tímamótum sem þessum er hefð fyrir því að staldra við og líta um öxl, gera upp árið sem er að líða, horfa fram á veginn og reyna að gera sér í hugarlund hvað nýtt ár kunni að bera í skauti sér. Á þessum degi berjum við okkur ekki á brjóst og hreykjum okkur af afrekum ársins, heldur krjúpum við í auðmýkt og minnum okkur á að Guð gefur okkur annað tækifæri.
Jesús notaði málfar og líkingar sinnar eigin ritningar til að koma boðskap sínum á framfæri. Fíkjutréð og víngarðurinn eru klassísk tákn fyrir lýð Guðs í spámannsritum Gamla testamentisins. Fyrstu áheyrendur þessarar dæmisögu hafa þekkt vel þessi orð Jesaja spámanns: „Því að víngarður Drottins er Ísraels hús og Júdamenn ekran sem hann ann. Hann vænti réttlætis en sá blóði úthellt, vænti réttvísi en neyðaróp kváðu við (Jes 5.7).“ Þau, sem Jesús sagði þessa sögu, hafa ekki farið í neinar grafgötur með það að þau sjálf voru fíkjutréð. Þeim var ekki heldur hulið hver ávöxturinn var sem vænst var af þeim; réttlæti og réttvísi. En öfugt við Jesaja spámann, sem hótar öllu illu, útlegð, hungri og helju, þá gefur Jesús fíkjutrénu annað tækifæri. Eitt ár enn.
Kannski munum við koma hér saman að ári. Og kannski munum við heyra þennan sama texta lesinn aftur. Og hann mun ekki hafa breyst. Þar mun enn segja: „Herra, lát það standa enn þetta ár.“ Hann mun ekki hafa breyst þannig að þar standi: „Herra, tréð fékk tækifæri í fyrra, eitt ár enn. Það brást. Höggvum það þá núna.“
Þetta er mjög uppörvandi fyrir kirkjuna. Þá á ég fremur við embættismannastéttina sem veitir henni forstöðu en lýðinn sjálfan sem er á leið með Guði. Embættismannastéttin er ekki kirkjan, hún þjónar aðeins tilgangi leiðsögumanna og, þegar hún stendur sig vel, klyfjahesta á þessari leið. Hún er ekki Saga-Class farþegarnir, frekar en nokkrir aðrir. Á þessari leið er aðeins almennt farrými. Við erum öll, hvert og eitt okkar, prestar í þessu samfélagi. Það er eitt af grundvallaratriðum lútherskrar guðfræði.
Kirkjan fær að standa eitt ár enn, þótt hún hafi margvíslega brugðist í hugsunum, orðum og gjörðum, eins og segir í syndajátningunni. Við þurfum ekki að líta aftur til miðalda til að sjá dæmi þess. Við þurfum ekki að draga fram krossferðirnar eða kristilegar réttlætingar evrópskra nýlenduherra á ofbeldinu og kúguninni sem þeir beittu frumbyggja Afríku, Asíu og Norður- og Suður-Ameríku við að sölsa undir sig lönd þeirra og auðlindir.
Við vitum allt um það hvað á kirkjunni hefur dunið, ekki bara á þessu ári heldur undanfarin ár. Við vitum líka hvernig hún hefur brugðist ... við. Óþarfi er að efa góðan vilja kirkjunnar og kirkjunnar fólks, en góður vilji er ekki það sama og réttlæti og réttvísi í raun, ávextirnir sem Guð væntir af okkur.
Árið sem fer í hönd mun marka tímamót í sögu kirkjunnar. Nýr biskup verður valinn og líka nýr vígslubiskup á Hólum. Á árinu sem er að líða var kjörinn nýr vígslubiskup í Skálholti. Þannig að á tveim árum eru þrjú æðstu embætti Þjóðkirkjunnar mönnuð upp á nýtt. Mikilvægt er að vel takist til við valið. Áhugavert verður að fylgjast með umræðunni sem fram mun fara í því sambandi og í raun er ekki seinna vænna að hrinda henni af stað. Þessi umræða ætti ekki að snúast um persónuleika, fas og þokka biskupsefnanna – þótt auðvitað sé mikilvægt að nýir leiðsögu- og talsmenn kirkjunnar séu ekki einhverjir fráhrindandi durtar. Nei, að mínu mati og margra annarra ætti umræðan að snúast um eðli embættanna; lútherskan embættisskilning. Hvað er biskup? Til hvers er ætlast af honum? Jú, hann er æðsti embættismaður kirkjunnar. En á bak við orðið „embætti“ er annað orð: „ambætti“.
Biskupinn er í raun lægsti þjónn kirkjunnar. Hann er hirðir hirðanna, þjónn þjónanna. Marteinn Lúther, hugsuðurinn sem við kennum okkar evangelísk-lúthersku þjóðkirkju við, var ekki hrifinn af orðinu kirkja. Í raun sneiðir hann almennt hjá því í ritum sínum. Orðið sem er í miklu meira uppáhaldi hjá honum er þýska orðið „Gemeinde“ – samfélag ... söfnuður. Lýður Guðs. Marteinn Lúther afhenti veraldlegum höfðingjum ytri umsýslu kirkjustofnunarinnar til að hinir vígðu þjónar gætu einbeitt sér algerlega að trúarlegum skyldum sínum. Hann gaf ekki ríkinu kirkjustofnunina, eins og haldið hefur verið fram, hann lagði aðeins fjár- og eignaumsýslu hennar í hendur hins opinbera. Ég segi fyrir mitt leyti, eftir að hafa lokið embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands, að ef ég hefði viljað mennta mig til framkvæmdastjóra opinberrar stofnunar þá hefði ég varla getað valið óheppilegra fag. Til hvers þurfum við biskupa? Þetta er spurningin sem við ættum að mínu mati að velta fyrir okkur í aðdraganda biskupskjöra á komandi ári. Er biskupinn talsmaður kirkjunnar, fjölmiðlafulltrúi hennar? Eða er hann framkvæmdastjóri hennar? Það er fráleitt sjálfgefið að sá eða sú sem er afbragðsmanneskja í öðru verkefninu valdi hinu með sama sóma. Viljum við biskup sem ræður við hvort tveggja með viðunandi hætti eða viljum við biskup sem er framúrskarandi í öðru og lætur þá sem eru afburðafólk í hinu um hitt? Og í hvoru viljum við að biskupinn sé fremstur meðal jafningja? Ég er ekki í nokkrum vafa um það hvernig Marteinn Lúther hefði svarað þeirri spurningu. Kirkjuskipanin ætti samkvæmt lútherskum embættis-skilningi og kenningunni um hinn almenna prestdóm að vera grundvölluð á valddreifingu og lýðræði. Þjóðkirkja Íslands einkennist af miðstýringu og höfðingjaræði. Greina má þróun í átt til aukins lýðræðis ef grannt er skoðað. En að mínu mati og margra annarra þarf að skoða leiðinlega grannt til að greina hana. Þessi þróun lýsir sér til dæmis í því að á nýafstöðnu kirkjuþingi var ákveðið að fjölga þeim sem hafa kosningarétt í biskupskjöri til muna. Það þýðir að í stað þess að tveir eða þrír fulltrúar sóknarinnar fái að taka þátt í því að velja biskup verða þeir fjórir eða fimm. Þetta er auðvitað spor í rétta átt. Að mati þess sem hér talar væri þó nær lagi að kalla þetta smávægilegt hænufet í rétta átt. Er ekki í því fólginn styrkur fyrir þá, þau eða þær, sem verða biskupar á árinu sem fer í hönd, að hafa stuðning sem flestra? Í umræðunni um þetta atriði létu ýmsir í ljós áhyggjur af því að ef allir sem tilheyra kirkjunni gætu kosið biskup væri hætta á lýðskrumi, populisma. Jafnvel kosninga-baráttu sem væri ekki á færi venjulegs fólks. Þeir sem þannig tala hafa vissulega nokkuð til síns máls. Lýðræði býður upp á lýðskrum. Við höfum dæmi um það úr lýðræðissamfélögum nærri okkur – og hugsanlega úr okkar eigin lýðræðissamfélagi – að menn hafa komist til valda með því að lofa öllu fögru, segja allt sem til vinsælda horfði burtséð frá því hvort nokkuð væri raunhæft við loforðin. Afleiðingarnar hafa verið slæmar, jafnvel skelfilegar. Popúlismi – vinsældahyggja. Þetta er raunverulegt áhyggjuefni. En það er mat þess, sem hér talar, að sem stendur séu önnur áhyggjuefni meira aðkallandi og brýnni en það að Þjóðkirkjan sé að verða hættulega vinsæl. Við erum öll, hvert og eitt okkar, prestar í samfélaginu sem er kirkja Guðs á jörð. En samt er þetta samfélag skipulagt þannig að það eina, sem mörgum finnst þeir geta gert til að hafa áhrif á það, er að skrá sig úr því. Kannanir sýna að Íslendingar eru upp til hópa ánægðir með kirkjuna sína, prestinn sinn og starfið sem unnið er af kirkjunni í hverfinu þeirra. Nánast öll óánægjan virðist beinast að æðstu yfirstjórn kirkjunnar. Samt er þetta samfélag skipulagt þannig að úrsagnirnar bitna aðeins á sóknarkirkju þess sem segir sig úr Þjóðkirkjunni, þeim þætti í starfi kirkjunnar sem mest ánægja er með. Flestar sóknir í landinu búa sig nú undir 15% – 20% niðurskurð. Þetta bitnar á æskulýðsstarfi, félagsstarfi eldri borgara, kóra- og tónlistarstarfi og öðru félagslífi og félagsþjónustu kirkjunnar í nærumhverfi þess sem segir sig úr henni. Auðvitað eru úrsagnir úr Þjóðkirkjunni að einhverju leyti hluti af eðlilegri þróun í átt til afhelgaðra samfélags, fjölmenningar og fleiri valkosta og aukins umburðarlyndis í trúmálum. En ef Þjóðkirkjan bregst ekki við þessari þróun með neinum hætti á hún ekki von á góðu. Henni ber að endurskoða og endurskipuleggja sjálfa sig. Ekki færa þetta til nútímalegra horfs, því núverandi ástand er mjög nútímalegt, raunar fordæmalaust. Nei, kannski væri ráð að færa þetta til upprunalegra horfs. Hvað myndi gerast ef biskupsstofa yrði einfaldlega lögð niður, biskupsembættin yrðu lögð niður og Þjóðkirkjan yrði ekki annað en regnhlífarhugtak yfir lausbeislað samband sóknarkirkna sem skipulagðar yrðu sem fríkirkjur og byggðar á grasrótinni ... samfélög? Ég er ekki endilega að mæla því bót eða leggja það til. En þetta er spurning sem á fullan rétt á sér og krefst þess að vera rædd. Ef við ætlum að kjósa okkur biskupa, er þá ekki sjálfsagt að við séum með það alveg á hreinu til hvers við þurfum þá? Og að við þurfum þá yfirhöfuð? Kannski er það að bera í bakkafullan lækinn að hamast svona endalaust á blessaðri Þjóðkirkjunni og það við þetta tækifæri. En það er hefð fyrir því á þessum tímamótum að vera svolítið pólitískur. Ég vil því taka fram að orð mín hér má alls ekki skilja sem svo að ég sé að fullyrða að hjá Þjóðkirkjunni sé allt í kaldakolum. En ef kirkjan ætlar ekki að bregðast sínum spámannlegu skyldum og vera tekin alvarlega þegar ástæða er til að „prédika“ yfir fólki, verður hún að þola að prédikað sé yfir henni. Sá sem gagnrýnir má ekki vera yfir gagnrýni hafinn. Kirkjan þarf að bjóða upp á samtal, bregðast við gagnrýni og svara henni en ekki snupra alla gagnrýni um leið og hún kemur fram, eins og hún sé yfir hana hafin vegna þess eins að hún er kirkja. Hver hlustar á þann sem ekki hlustar sjálfur? Ég nefndi spámannlegt hlutverk kirkjunnar. Hún á að tala máli réttlætis og réttvísi. Hún á að bera ávexti andans. Annars verður hún um síðir höggvin upp og kannski hengd upp á vegg þar sem hún fær að visna og þjóna hlutverki þurrskreytingar við brúðkaup og jarðarfarir. Án efa mun hún gegna því hlutverki vel. En kirkja er svo miklu meira en það. Í kirkjunni er unnið mikið og gott starf, hún veitir mikilvæga félagslega þjónustu, huggun í nauðum og græðandi, lífgefandi samfélag. Hún verður ekki bara að tala máli réttlætis og réttvísi heldur að ganga á undan með góðu fordæmi og auðsýna réttlæti og réttvísi í hvívetna, í öllu sínu starfi, skipulagi og framgöngu. Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá, sagði Jesús Kristur. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen. Prédikun flutt í Egilsstaðakirkju 31. 12. 2011