Engar krossfestingarmyndir er að finna í fornum rústum hins kristna menningarheims, ekki heldur í borginni eilífu, Róm. Hins vegar gefur að líta fjölda annarra myndefna frá fyrstu öldum kristninnar í hinum auðuga myndheimi katakombanna, meðal annars er þar fjölbreytt úrval mynda af síðustu kvöldmáltíðinni. Myndir af Jónasi í hvalnum setja sterkan svip á umhverfið og sama máli gegnir um önnur myndverk úr sögum og sögnum Gamla testamentisins sem frumkristnin túlkaði sem fyrirmyndun um upprisunnar.
Krossfestingarmyndir koma fyrst til sögu á fimmtu öld og fjölgar síðan hægt og sígandi. Við gætum jafnvel hugsað sem svo að kristindómurinn hefði á þeim tímum tekið eins konar u-beygju og skyndilega veitt dauðdaga Jesú nýja athygli.
Fyrsta þekkta myndin af krossfestingunni er fjarri því að minna á miðaldamyndverk af þeim atburði, þar sem þjáningin er sett á oddinn. Svo er ekki hér, á útskornum myndfleti á kirkjuhurð Santa Sabína kirkjunnar á Aventínhæð. Ekki er stærðinni fyrir að fara, ferðamaðurinn þarf að ganga nánast alveg upp að hurðinni til að greina þrjá krossfesta menn á einum myndfleti hurðarinnar; sá í miðjunni er stærstur, það er þá Jesús. Myndirnar eru gerðar í sýrlenskum stíl, ef til vill í einni þeirra fornu menningarborga sem sprengjurnar dynja á þessa dagana.
Kannski þurfti enga mynd af krossfestingunni, svo nákvæm er lýsing guðspjallamannanna. Við gleymum stund og stað þegar við lifum okkur inn í atburðarásina. Tilfinningar lifna, endurminningar, hugrenningar, í návist hins óhugnanlega birtist umkomuleysi mannsins, varnarleysi hugsjónamannsins, afhjúpun múgsins. Hér er ein þeirra viðmiðana lífsins sem þarfnast engra skýringa. Þjáning og dauði eins manns setur mannlega tilvist í brennipunkt. Tekinn af lífi fyrir það eitt að sýna hvað í því felst að vera mennskja. Fyrir það lét hann lífið. Hann setti mennskuna í sviðsljósið, hann setti manninn í sviðsljósið.
Á Kjarvalsstöðum hangir um þessar mundir allstór mynd á vegg gerð á því gróskumikla ári 1969, á blómatíma sextíu og átta byltingarinnar. Hún sýnir krossfest svín og er eftir finnska listamanninn Harro Koskinen og ber enska heitið Pig Messiah eða Svínamessías. Einnig hér verður krossinn að viðmiðun þess heims þar sem þjáningin fellur mönnum og skepnum í skaut. Hér er táknmynd sem alla snertir og allir skilja. Reyndar vitum við ekki hvað listamanninum gekk til, það stendur hvergi skrifað við myndina. Enda er það okkar áhorfendanna að túlka. Kannski vildi listamaðurinn minna á skepnurnar: „gleymum ekki lífríkinu í heild sinni“. Eða þá að hann var orðinn þreyttur á krossfestingunni og vildi hafa eitthvað léttara, glaðlegra og frumlegra að horfa á. Eða hann kærir sig ekki lengur um að horfa á þennan krossfesta og þjáða mann. Það skyldi þó ekki vera að hann snerti okkur of náið, of djúpt.
Hvað sjáum við annars þegar við horfum á krossfestinguna? Er það mannleg reynsla aldanna, umkomuleysi og ótti mannsins sem blasir við augum? Eða erum við að horfa á verk múgsins sem virðir ekkert, ekki einu sinni það sem skiptir hann sjálfan óendanlega miklu máli? Erum við að horfa á verk hins óréttláta yfirvalds sem dæmir óróaseggina í ystu myrkur fyrir að hafa aðra skoðun? Eða kannski hið trúarlega vald sem hefur farið inn á valdsvið mannsins sem því tekst ekki að beygja undir ok sitt nema með þeim hætti sem hér blasir við?
Er krossinn ekki einmitt afhjúpun, magnþrungið, ódauðlegt tákn aldanna, þar sem stríðið og baráttan, þar sem vonskan og hatrið djúpt í tilvist mannsins kemur upp á yfirborðið í árásarhneigð undirokaðrar þjóðar? Fer hér fram afhjúpun á hinu sanna eðli mannsins, þar sem jafnvel sá sem ekkert hafði til unnið verður að játa uppgjöf sína, angist og örvæntingu: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig“? Og felst ekki jafnvel í þeim orðum að Guð hafi yfirgefið þennan heim, manninn í angist sinni? Krossinn sé eins konar yfirlýsing um sigur hins vonda í guðlausum heimi? Sýnir krossinn ekki einmitt að maðurinn er vondur og þolir ekki þann sem vinnur hin góðu verk umhyggju og fórnfýsi? Við gætum þess vegna alveg eins haft svínið. Baráttan er vonlaus. Hinn sterki sigrar, hinn veiki er dæmdur til að tapa, hverjar sem hugsjónir hans kunna að vera.
Í mannskilningi Charles Darwins, sem var að mörgu leyti undirstaða undir eitt og annað í kristnum mannskilningi langt fram á tuttugustu öld og jafnvel enn, er inntakið þetta: Maðurinn elskar sjálfan sig frá fæðingu, í huga hans skiptir hann sjálfur öllu máli. Hann er ekki hæfur til neinna jákvæðra samskipta af eigin hvötum. Eigin afkoma er honum efst í huga. Það gleður hann mest af öllu þegar hann getur komið keppinautum sínum á kné, það sýnir styrk hans innan hópsins. Grunnhvatir hans eru af þeim sökum í eðli sínu fjandsamlegar, hann er svo sannarlega fjarri því að vera góður í sínu innsta eðli. Kannski vildi finnski listamaðurinn eiga orð við þennan mannskilning.
Í athyglisverðum fyrirlestri, sem ég hlýddi á við háskólann í Vínarborg fyrir réttri viku, dró fyrirlesarinn, sem er þekktur svissneskur geðlæknir og taugalíffræðingur og raunar einnig prófessor í læknisfræði, upp áhugaverða mynd sem fær mörg okkar áreiðanlega til að horfa á krossinn úr nýrri og óvæntri átt. Honum var þessi arfur frá nítjándu öld, sem lýsir sér í neikvæðum mannskilningi, ofarlega í huga. Hann lýsir sér í setningum sem við þekkjum eins og „lífið er barátta“, „maðurinn er að upplagi eigingjarn og sjálfselskur“, „hinn sterki hlýtur að sigra en hinir veikari munu tapa“.
Fyrirlesarinn taldi að þessar kenningar um að maðurinn eigi að vera í viðvarandi viðbragðsstöðu sjálfum sér til varnar og til þess að valda öðrum ótta og tjóni hafi hvergi haslað sér betur völl en fjármálaheiminum. Þar lifi nítjándu aldar kenningar um baráttu allra gegn öllum góðu lífi.
Þau andstæðu viðhorf, sem eru að ryðja sér til rúms, ganga út á að horfa á málið frá sjónarhorni fyrrgreindra fræðigreina sem telja sig geta fært að því rök, að slíka baráttu sé ekki að finna í hinum smæstu einingum lífkerfisins: genin vinna ekki hvert gegn öðru heldur er samvinnan kjarni málsins. Samkeppni er með öðrum orðum óþekkt í undirstöðum lífkerfisins.
Og svo verðlaunar líkaminn allt sem gott er með því að senda boðefni sem halda sársauka í skefjum, senda vellíðunarhormón (oxýtózín) inn í taugakerfi manna og skepna. Eitt hlutverk þeirra er að efla traust manna á meðal, m.a. eru þau grunnurinn að því að nýfætt barnið treystir móður sinni og þar með þessum heimi. Lífkerfið verðlaunar hvaðeina sem lýtur að umhyggju og ástúð, hvert umhyggjusamt augnatillit, hvert faðmlag launar það með því að senda hin góðu boðefni af stað þar sem þau vinna sín verk heildinni til góða. En með sambærilegum hætti sé það spart á slíkar sendingar þegar ástúðinni er haldið í skefjum, þegar einstaklingar eru niðurlægðir og vanvirtir, getur svo farið að lífkerfið svari með örvæntingarfullum viðbrögðum árásarhneigðarinnar. Sambærileg mynd birtist í rannsóknum á félagsfræðilegu atferli mannsins. Þar blasir við afar jákvæð mynd mannsins.
Efnahagskerfið hvílir á miskunnarlausri baráttu, þar sem allir sem hafa aðra skoðun eru litnir hornauga, þeir sem benda á auðlegð fegurðarinnar eru sakaðir um að trufla eðlilegan gang kerfisins, þeir sem benda á misrétti í efnahagskerfi heimsins eru sakaðir um að vera óraunsæir hugsjónamenn, þeir sem benda á misrétti sem eina afleiðingu af efnahagskerfi vesturlanda eru sakaðir um skammsýni og barnaskap og vei þeim sem ætla sér að trufla gang mála með því standa vörð um lífríkið.
Fræðimenn sem um þessi efni hafa fjallað hafa bent á eitt umhugsunarvert atriði í hinum herskáa mannskilningi nítjándu aldar sem enn lifir góðu lífi okkar á meðal. Það er hernaðarhugsunin. Í þeim tilgangi að þjálfa unga menn til að fella óvini sína á blóðvelli stríðsins fundu menn upp stríðsleiki, það undirbjó hugann til þess sem talin voru eðlileg viðbrögð hermanna og voru í því fólgin að fella menn án þess að hafa af því frekari áhyggjur. Leikir af sama toga eru nú meðal vinsælasta efnis sem uppvaxandi kynslóðir una sér við til skemmtunar og afþreyingar. Þannig festum við enn í sessi mannskilning sem leitast ekki við að vera í samræmi við inntak lífkerfisins heldur í andstöðu við það.
En hvað um krossinn í þessu samhengi? Hvaða skilaboð sendir krossfestingin hér og nú, hrópandi múgurinn við veg þjáningarinnar og þjáning hins krossfesta í myrkrinu sem leggst yfir Golgata? Sendir hann þau skilaboð að allt sé baráttu háð, hinn sterki muni sigra, náttúran muni velja þá úr sem standa sig ekki í baráttu lífsins og þá sé allt á réttri leið?
Sendir krossinn ekki þau skilaboð að árásarhneigð mannsins vakni þegar hann skynjar eigin vanmátt, þegar hann skynjar hvernig lífið hefur svikið hann, hvernig þrá hans til þess sem gott er, til umhyggju og ástúðar, til mannúðar og réttlætis hefur brugðist, hvernig allt það besta sem hann ber í sjóði sínum hefur verið fótum troðið?
Sá sem hangir á krossinum boðaði ekki stríð allra gegn öllum, hann flutti ekki þann boðskap að hinn veiki skyldi dæmdur úr leik en hinn sterki, voldugi og vígbúni heimur skyldi sigra.
Hlaut hann ekki að verða fórnarlambið, hlaut ekki að koma að því að hann yrði festur á krossinn? Beið hann lægri hlut, fyrir valdsins mönnum, fyrir múgnum sem hafði lítið fyrir því að hrópa „krossfestu, krossfestu hann“?
„Guð minn Guð minn hví hefur þú yfirgefið mig?“ Myrkur sálarinnar leggst yfir, ótti mannsins og angist um að vera einn og yfirgefinn í vonlausum heimi, er engum framandi lífsreynsla. Einnig Jesús óttaðist myrkur sálarinnar, að vera yfirgefinn af Guði, ofurseldum tilgangslausum heimi þar sem ekkert hefur neina merkingu, þar sem ekkert er öðru betra né merkara. Einnig Jesús drakk þann kaleik biturrar reynslu í botn.
En er það ekki einmitt reynsla trúarinnar að þannig sé málinu ekki farið, maðurinn er ekki yfirgefinn af Guði, það sýnir sól páskanna sem leggst yfir sögusviðið og breytir öllu. Í hundrað þrítugasta og níunda Davíðssálmi (7 o.áfr.) lesum við um þann skilning trúarinnar þar sem Guð er einmitt nærri þeim þjáða, sem hrópar eins og Jesús á krossinum:
Hvert get ég farið frá anda þínum og hvert flúið frá augliti þínu? Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar. Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf, einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.
Guð kemur til mannsins í þjáningunni, í myrkri sálarinnar, í örvæntingu hugans: einnig þar er hann nærri. Lúther sagði að „aðeins með því að horfa til reynslu mannsins yrði guðfræðingurinn góður guðfræðingur“, það á einnig við um trúna, reynslan staðfestir trúna, hún opnar nýja vídd, þar sem maðurinn skynjar návist Guðs. Trúin snýst ekki um trúarkenningar eða trúarjátningar, heldur ekki um trúarlegt atferli. Hún snýst um reynslu mannsins, trúin er málefni mannsins, hún varðveitir þrá hans og löngun til Hans sem gefur honum hugrekki til að lifa og kjark til að vera manneskja.
„Væri það ekki gott“, skrifaði þýska skáldið Martin Walser í skáldsögu sinni um Bodenvatnið á áttunda áratugnum, „Væri það ekki gott ef maður gæti aðlagast öllu. Og þyrfti ekki að standa fyrir máli sínu. Þá kæmist allt í jafnvægi, það væri [...] ég-leysi [...]. – En, nei annars, maður verður í það minnsta að láta eins og maður sé eitthvað.“
Þannig veltir skáldið fyrir sér forsendum mennskunnar. Hún verður ekki að veruleika nema í fullri alvöru, þar gildir sýndarmennskan ekki lengur. Skáldið vissi hvað það var, þetta ég-leysi, yfirborðskennd mannúð, sem auðveldar manninum að berast með straumnum. Skáldið valdi sjálft hinn kostinn, áhættuna og fyrirhöfnina sem felst í því að vera eitthvað, vera í það minnsta það sem maður er og vill vera undir formerkjum mannúðar og mennsku.
Á það reynir daglega. Erum við ekki sífellt minnt á það fólk sem hér leitar skjóls frá fjarlægum löndum, fólk sem glímir við að tala tungumál okkar og laga sig að nýju samfélagi svo langt frá heimsins vígaslóð. Mætir það samfélagi sem er stílað inn á baráttuna eða samvinnuna, mætir það samfélagi sem bíður þess með opinn faðminn? Rætist draumur þess um mannúðarsamfélag? Er okkar samfélag mannúðarsamfélag?
Sú kirkja sem kennir sig við hinn krossfesta hlýtur að tala mál líðandi stundar, hún hlýtur að fást við reynslu mannsins og tilfinningar hans, spurningar hans um eigin tilvist. Í orðræðu trúarinnar býr sannleikur hennar, inntak og merking. Og „sannleikur trúarinnar birtist – svo ég vitni í franska félagsheimspekinginn Bruno Latour –í því að hún vekur okkur að nýju, hún kemur til móts við tilfinningu okkar fyrir merkingu þess að vera manneskja, merkingu þess að vera til.“ Með öðrum orðu: ekki eins og ég-laus múgurinn við krossinn, heldur eins og Hann sem gaf allt vegna þess sem er gott, fagurt og satt, vegna þeirrar heilögu þrenningar sem hvert mannsbarn þráir innst í hjarta sínu.
Í hinni trúarlegu orðræðu komum við orðum að því sem skiptir okkur mestu máli, já: öllu máli. Við notum trúarlega orðræðu um það dýrmætasta, um mannréttindi sem eru heilög, um virðingu mannsins sem er heilög, um ástina sem er heilög. Síðasta vígi mennskunnar er í hinu heilaga, þar sem maðurinn er óskráður, þar er hann án kennitölu, þar nær enginn til hans nema inn Heilagi, þar finnur hann sér borgið í faðmi hans, í trúnni er mennsku okkar borgið. – Eigum við þá að horfa til hins krossfesta? Eigum við að vænta okkur einhvers af honum? Eða var fjöldinn á réttri leið í niðurbrotinni, lífsfjandsamlegri sjálfsmynd sinni?
Hvað finnst okkur: Var Jesús á réttri leið? Er hans erindi ekki óyggjandi? Er það ekki þess vegna sem við höfum kross um hálsinn, hið dýrmæta tákn mannúðarinnar og þeirrar mennsku sem hleypur ekki af hólmi þegar móti blæs, sem missir aldrei móðinn, sem horfir ekki framhjá þeim sem liggja við veginn. Á Jesús ekki erindi inn í þennan heim, sem er ofurseldur hugmyndum um baráttu allra gegn öllum, þar sem mannúðin er víða lúxus, og réttlætið aðeins fyrir suma?
Snýst málið ekki um mannúð? Hugtak sem hefur enga merkingu í hugum milljóna barna og unglinga sem vaxa úr grasi við stríð og mannlega grimmd, sem velur úr hina hæfustu en lætur hina liggja áfram í valnum.
Hvers vegna er mynd hins krossfesta svo ágeng? Er það ekki vegna þess að hann er maðurinn sem við viljum líkjast, sem við viljum að móti þennan heim. Í mynd hins krossfesta birtist ímynd mennskunnar og mannúðarinnar sem á erindi til allra tíma og allra manna.
Við getum deilt um trúarkenningar og trúfræði – en gegnir ekki öðru máli um þá sem sýna með lífi sínu og dauða hvers eðlis trúarreynslan er, sú reynsla sem gefur lífi mannsins djúpa merkingu. Er það ekki spurning um hvað er satt sem skiptir máli, hvað er gott og hvað er fagurt?
Allt birtist okkur í honum sem lifði og dó eins og lífið hefði óendanlega dýrmætan tilgang. Sú vitund og sú reynsla afhjúpar ekki vonsku mannsins heldur þá von sem honum er gefin, og það er einmitt í voninni, ástinni og í trúnni sem hin góðu gildi verða að veruleika í lífi mannsins og setja í gang vellíðunarhvatana sem gefa honum löngun til að lifa skapandi og gefandi lífi. – Það kostaði Jesúm lífið að koma þeim skilaboðum áleiðis.