Áhættan

Áhættan

Þegar þessi kunnuglegu atriði sameinast gerist eitthvað innra með okkur. Sagan minnir okkur á fyrri reynslu, önnur jól, fólk sem okkur þykir vænt um. Kannski kallar sagan fram draumana um jólin sem við aldrei upplifðum en þráðum svo heitt. Jól þar sem mamma og pabbi eru edrú. Jól án sorgar.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
25. desember 2013
Flokkar

Við þekkjum þessa sögu svo vel. Ég las jólaguðspjallið fyrir öll fermingarbörnin mín í síðasta tímanum fyrir jólin og þegar ég byrjaði að lesa: “Og það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara um að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina” tók ég eftir því að mörg fermingarbarnanna hreyfðu varirnar og fóru með textann með mér. Þetta gerðist í öllum hópunum. Sum fóru með allan textan uppáhátt og önnur fóru með hluta hans í ljóði.

Við þekkjum þessa sögu svo vel því við heyrum hana á hverju ári, í jólahelgileiknum í skólanum, í kirkjunni, í útvarpi, sjónvarpi og jafnvel á netinu.

Við þekkjum þessa sögu svo vel því að hún fjallar um svo kunnuglega hluti sem við þekkjum öll. Við könnumst líklega flest við misjafnlega vel heppnuð ferðalög og fullbókuð hótel. Mörg okkar þekkja meðgöngu og fæðingu af eigin reynslu eða af frásögum annarra. Við þekkjum gleðina yfir nýfæddu barni á kaldri nóttu, óhefðbundnar fjölskylduaðstæður og mörg okkar hafa verið fólkið sem fékk fréttirnar og dreif sig í heimsókn án þess að velta fyrir sér hvort nýbakaða móðirin sé búin að jafna sig eftir fæðinguna.

Þegar þessi kunnuglegu atriði sameinast gerist eitthvað innra með okkur. Sagan minnir okkur á fyrri reynslu, önnur jól, fólk sem okkur þykir vænt um. Kannski kallar sagan fram draumana um jólin sem við aldrei upplifðum en þráðum svo heitt. Jól þar sem mamma og pabbi eru edrú. Jól án sorgar.

Þessi hversdagslega saga um ung hjón sem eiga von á sínu fyrsta barni við erfiðar aðstæður minnir okkur einnig á að aðstæður okkar eru misjafnar, að við höfum ekki stjórn á öllum hlutum.

Þegar Guðdómurinn gerðist manneskja gerðist það ekki með neitt sérstaklega yfirnáttúrulegum hætti þó reglulega sé verið að upphefja getnaðinn og fæðinguna svo hún verði Guði sæmandi. Enda var hefð fyrir því að þegar manneskjur með stór hlutverk fæddust þá voru sagðar magnaðar sögur um fæðinguna og jafnvel getnaðinn. Ein af ástæðunum fyrir þessum sögum er mögulega sú að margar manneskjur hafa átt erfitt með að kyngja því að frelsari heimsins hafi vaxið í legi konu og fæðst í heiminn á þennan hefðbundna hátt eins og önnur börn. Já, og hvað þá orðið til með venjulegum gamaldags getnaði. Því er helst haldið fram í okkar kristnu hefð að getnaður hafi orðið á yfirnáttúrulegan hátt og María því verið hrein mey bæði fyrir og eftir fæðingu. En við vitum hvernig börnin verða til. Og ég get ekki séð að nokkuð verði minna heilagt við Jesú Krist þótt hann hafi orðið til á hefðbundinn hátt. En hver veit? Guði er jú ekkert ómöuglegt. Hvorki hið flókna nér hið einfalda.

Þessi kærleikskraftur sem Guð er ákvað að deila kjörum okkar að fullu með því að gerast manneskja, verða til og fæðast eins og hver önnur manneskja. Ef eitthvað er þá eykur það einmitt alvöru atburðarins hversu lítið upphafinn hann er. Sú hugmynd að Guð hafi tekið áhættu með því að ganga fullkomlega inn í kjör okkar þegar Guð gerðist manneskja gerir þessa sögu hátíðlega og fullkomna. Því þannig birtir Guðdómurinn kærleikann sjálfan í verki.

Guð tók áhættu því fæðingar eru aldrei áhættulausar og hvað þá á þessum tíma þegar læknavísindanna naut ekki við á sama hátt og nú. Hverri fæðingu fylgdi áhætta og enn í dag lifa ekki öll börn eða mæður af fæðinguna, meðgönguna eða einu sinni fyrsta árið.

Ég held að Guð hafi valið að deila kjörum okkar fullkomlega þegar hún/hann gerðist manneskja til þess að sýna okkur að við erum hluti af guðdómnum og að guðdómurinn er hluti af okkur. Til þessa að verða eitt með okkur og til þess að við yrðum eitt með Guði og gætum treyst Guði fyrir aðstæðum okkar, kjörum og lífi.

Þegar ég heyri þessa sögu finn ég ilm af kanil og piparkökum. Ég sé fyrir mér litla sveitakirkju þar sem ég sit hjá foreldrum mínum og systur og reyni að syngja með í “Í dag er glatt í döprum hjörtum”. Ég sé fyrir mér hátíðleg jól þar sem við öll klæðumst sparifötum og eru góð við hvert annað. Þar sem við megum borða meiri óhollustu en venjulega. En ég sé líka fyrir mér jól þar sem við reynum að brosa í gegnum tárin og kalla fram þessa mikilvægu stemmingu þegar sorgin yfirskyggir allt. Og ég sé fyrir mér kvíðafull jól þar sem reynt er að púsla saman lífinu svo að börnin upplifi gleðileg jól.

Um jólin reynum við flest að leggja okkur fram. Við viljum svo gjarnan skapa gleðileg jól fyrir þau sem okkur þykir vænt um, fólkið okkar og okkur sjálf. Líka þegar heimurinn er ekki eins og hann á að sér að vera.

Kannski er þetta eitt af kraftaverkum jólanna. Að við skulum alltaf reyna að gera vel við okkar fólk og leggja okkur fram um að gera þennan tíma hátíðlegan þó stundum sé það með tárvotum augum og þyngslum fyrir brjósti. Að það skuli skipta okkur máli að allar manneskjur eigi gleðilega upplifun af jólunum.

Á hverjum degi um allan heim fæðast börn undir stjörnubjörtum himni, í útihúsum, á sjúkrahúsum, í höllum og í kofum. Þessi börn eru kannski ekki Guð en í þeim öllum býr Guð. Guð tekur sér bólfestu í hverju einasta barni sem verður til og er hluti af því. Við erum þessi börn. Og öll eigum við val um að finna þetta guðlega í okkur, rækta það og kynnast því eða láta það vera. En það er þarna. Lítið fræ sem aldrei hættir að vaxa ef við hlúum að því.

Þetta er ástæðan fyrir því að þú ert einstök/einstakur. Guð gefi þér gleðileg jól. Amen.