Jesús Kristur var og er málsvari fátækra. Í ljósi þess hefur þjóðkirkjan rekið öflugt hjálparstarf um áratuga skeið. Á hérvistardögum sínum beindi Jesús sérstaklega þjónustu sinni að hinum fátæku og undirokuðu. Hann þekkti köllun sína er hann las forðum úr Spádómsbók Jesaja í samkunduhúsinu:
,,Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.” (Lúkas 4. 18-19).
Saga Jesú sýnir okkur ítrekað að hann talaði til þeirra sem voru félagslega lægst settir í þjóðfélaginu eins og fátækir, konur, Samverjar, holdsveikir, börn og tollheimtumenn. Hann talaði einnig til þeirra sem voru betur settir, en tók skýrt fram að allt fólk þyrfti að iðrast synda sinna og snúa sér til Guðs, óháð félagslegri stöðu þess. Í þessu sambandi sagði hann ríka unglingnum að selja allar eigur sínar og gefa fátækum. (Matteus 19. 16-30).
Jesús sagði:
,,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.”(Matteus 22.39). Þegar hann var spurður að því hver væri náungi hans sagði að hann að hann væri sá sem væri í neyð, einnig hinn sem teldist til félagslegra dreggja samfélagsins.
Hann sagði:
,,Þegar þú gerir veislu þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum og munt þú sæll verða.” (Lúkas 14.13).
Þegar Jesús bregður upp mynd af dómsdegi kemur fram að allar þjóðir muni safnast frammi fyrir honum og hann muni skilja þær að eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Hann segir við sauðina: ,,Komið þér, sem faðir minn á og blessar...því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta. Og þá munu hinir réttlátu segja: ,,Hvenær sáum við þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka?” Og þá mun hann svara og segja: ,,Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.” (Matteus 25.31-46).
Jesús bar umhyggju fyrir fólki í neyð. Hann saddi hungur fimm þúsunda manna sem höfðu safnast saman til að hlýða á hann. (Markús 6. 30-44).
Í ljósi þessara orða og athafna Jesú felst innanlandsaðstoð hjálparstarfs kirkjunnar í ráðgjöf, matargjöfum, fataúthlutun, margs konar styrkjum vegna lyfja, barna og náms. Hjálparstarfið hefur varið yfir 80 milljónum króna í innanlandsaðstoð á árinu og mataraðstoð fengu yfir fimm þúsund fjölskyldur.
Þetta mikilvæga starf er allt unnið í anda Krists sem var og er málsvari fátækra og gleymum ekki að hann gaf okkur fyrirmæli um að elska náungann og láta gott af okkur leiða.
Í þessu sambandi er við hæfi að minnast orða Margétar Jónsdóttur, skáldkonu:
Lát mig iðja, lát mig biðja, lífsins faðir, Drottinn hár. Lát mig þreytta, þjáða styðja, þerra tár og græða sár, gleðja og fórna öll mín ár.