Af ösku og endurskoðun

Af ösku og endurskoðun

En kannski er það eins með hraunið og Biblíuna, eitthvað gerist í samtímanum og sá atburður varpar nýju ljósi á hlutina. Ævafornt hraunið í kringum höfuðborgarsvæðið nær einhvern veginn betur að skírskota til raunveruleikans þegar hraun rennur annars staðar á landinu og það rignir ösku í lífi okkar. Biblían verður líka skiljanlegri þegar við berum hana saman við atburðina í samtíma okkar og samsömum okkur þeirri mannlegu reynslu sem í henni er lýst.

Skalholt Af ösku Fíngerðar agnirnar hafa svifið í loftinu. Það er aska í grasinu, í gluggakistunni, jafnvel í skónum okkar. Það er meiri segja svart grugg í kaffibollunum sem við drukkum úti í sólinni. Öskufall. Einkennileg upplifun sem vekur undrun, jafnvel ugg eða ótta. Unglingurinn á heimilinu veltir því fyrir sér hvort drykkjarvatnið okkar geti mengast og dagblöðin kenna okkur að þvo bílana á réttan hátt svo örfínu gleragnirnar nái ekki að rispa lakkið og rúðurnar. Já, nýr og sérkennilegur vinkill á tilveruna. Náttúran virðist óstýrilátari og óútreiknanlegri en áður, við svo lítil og máttvana. Á öðrum stöðum á landinu okkar hefur fólk vaðið ösku og reyk svo vikum skiptir og þegar askan fellur hjá okkur skiljum við örlítið betur hvað þau hafa glímt við og finnum til samkenndar. En svo vitum við líka fullvel að hvorki eldgos né öskufall eru ný af nálinni, hvorki hér á landi né annars staðar. Við þurfum ekki að fara langt til að sjá hraunbreiðurnar, Hafnarfjarðarhraun, Þingvallahraun og hraunið á Hellisheiðinni. En svo mörg þessar hrauna runnu yfir landið fyrir mörg hundruð árum, í grárri forneskju að því er okkur finnst og hingað til höfum við ef til vill lítið velt því fyrir okkur hvað gekk á þegar þessi náttúruundur áttu sér stað. En þessi nýja reynsla síðustu daga færir okkur skilning.

Biblían og trúin Biblían, trúarrit okkar kristinna manna á sér þó nokkuð lengri sögu en mörg hraunanna sem við sjáum í kringum okkur. Yngsti hluti hennar er til dæmis skrifaður rúmum 800 árum áður en síðasta hraunið rann um Bláfjallasvæðið. Textarnir eru því margir hverjir mjög gamlir, sumir flóknir og torskildir enda sprottnir úr menningu og samfélögum sem eru okkur framandi. Femíniskir guðfræðingar hafa bent á að margir finni litla samsvörun með þeim textum Biblíunnar sem lesnir eru í helgihaldi kirkjunnar. Frá upphafi hafa líka verið skiptar skoðanir um túlkun þessa trúarrits og tvö megin sjónarmið tekist á , er Biblían orð Guðs í bókstaflegri merkingu eða geymir hún orð fólksins um reynslu sína af Guði ? Á öllum tímum hefur Biblían svo verið misnotuð á margs konar hátt og dæmisaga dagsins er þar engin undantekning. Fjöldi fólks um allan heim finnur þó huggun, styrk og hvatningu til trúar í Biblíunni. Hún talar til fólks því hún ber með sér einföld og eilíf sannindi um mannlega tilvist, sorg og sársauka, völd og valdleysi, ástríður og örvæntingu.

Í nýju ljósi En kannski er það eins með hraunið og Biblíuna, eitthvað gerist í samtímanum og sá atburður varpar nýju ljósi á hlutina. Ævafornt hraunið í kringum höfuðborgarsvæðið nær einhvern veginn betur að skírskota til raunveruleikans þegar hraun rennur annars staðar á landinu og það rignir ösku í lífi okkar. Biblían verður líka skiljanlegri þegar við berum hana saman við atburðina í samtíma okkar og samsömum okkur þeirri mannlegu reynslu sem í henni er lýst. Ef við veltum hlutunum betur fyrir okkur tala ef til vill bæði Biblían og hraunin meira til okkar en okkur grunar.

Í texta dagsins sem lesinn var frá altarinu hér áðan heyrðum við dæmisögu Jesú úr einu guðspjallanna. Dæmisögur eru í eðli sínu einfaldar sögur á yfirborðinu, en túlkun þeirra getur verið bæði fjölþætt og margslungin. Jesús sagði þær gjarnan til að hrista upp í mannskapnum og krefja áheyrendur sína um frjóa hugsun.

Í guðspjallinu er dæmisagan sögð í samhengi trúar og trúarsamfélags. Guð er veislustjórinn en söfnuðurinn er of önnum kafinn til að mæta til veislunnar, til að heyra fagnaðarerindið og fylgja kallinu. Slík túlkun hvetur þau sem trúa til að líta í eigin barm og spyrja sig hvort þau séu stödd í veislunni eða hafi ef til vill þurft að sinna mikilvægari málefnum en Guði. Að sjálfsögðu er öllum einstaklingum hollt að líta í eigin barm og velta því fyrir sér hversu mikið rými sé fyrir trúariðkun í lífi þeirra. En getur Þjóðkirkjan sem stofnun og samfélag trúaðra nýtt sér dæmisögu Jesú og litið í eigin barm?

Ákall til endurskoðunar Í dæmisögu dagsins er áherslan á óraunhæfar afsakanir, sjálfsréttlætingu, endurskoðun og endurmat. Tilvonandi veislu gestir sem höfðu boðað komu sína tóku ekki ábyrgð á eigin skuldbindingum. Þeir báru fram óraunhæfar afsakanir og réttlættu sjálfa sig svo gestgjafinn varð að endurmeta stöðuna og endurskoða gestalistann. Hvað með kirkjuna ? Hvernig býður Þjóðkirkjan til veisluborðs í nafni Guðs? Er kirkjan trúverðug og tekur hún ábyrgð eða hefur hún kannski tilhneigingu til að réttlæta sjálfa sig? Og er hún tilbúin til heiðarlegrar endurskoðunar ?

Í Þjóðfélagsumræðu síðustu mánuði hefur þjóðinni einmitt orðið tíðrætt um ábyrgð, afsakanir, og réttlætingu og krafa samtímans er skýr; endurskoðun á öllum sviðum samfélagsins. Þessa kröfu hefur fólk innan Þjóðkirkjunnar í síauknu mæli tekið til sín. Síðastliðið haust var til að mynda haldin ráðstefna í Skálholti undir yfirskriftinni Þjóðkirkjan og lýðræðið. Markmið ráðstefnunnar var að skapa gagnrýna umræðu um lýðræði og menningu Þjóðkirkjunnar og fjalla um stöðu hennar í samfélaginu. Mikill áhugi var á ráðstefnunni sem sést best á því að hún er talin ein fjölmennast ráðstefna sem haldin hefur verið í Skálholti.

Fyrstu skrefin Í vef- og fjölmiðlum síðustu vikur og mánuði hefur einnig farið fram áhugaverð umræða á svipuðum nótum. Í kjölfar kosningaúrslita skrifar dr. Hjalti Hugason prestur og prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands áhugaverðan pistil á vef kirkjunnar, www.tru.is. Þar veltir hann því fyrir sér hvort kirkja framtíðarinnar kjósi að vera valdaflokkur eða grasrótarhreyfing. Í sama miðli er að finna svipaða hvatningu til endurskoðunar í pistli sr. Skúla Sigurðar Ólafssonar sóknarprests í Keflavíkurkirkju. Þar setur Skúli fram áhugaverðar spurningar t.d. um það hvort þjóðkirkjan taki mið af þörfum þjóðarinnar þegar hún skipuleggur starfsemi sína. Skúli spyr: ,,Miðast helgihaldið og þjónustan við þennan litla minnihluta sem er á heimavelli í kirkjunum? Hversu margir þekkja ritúalið – kunna sögu þess og geta hummað messutónið með sjálfum sér eftir að heim er komið úr messunni? Hvernig tilfinning er það fyrir efasemdarfólk að sitja á kirkjubekk? Hvaða aðdráttarafl hafa viðburðir í kirkjunni? Hvers vegna segir fólk sig úr kirkjunni og væri einhver leið að bjóða því að ganga í hana að nýju?“ Þá má einnig benda á málflutning hóps presta og guðfræðinga sem gagnrýna afstöðu þjóðkirkjunnar til nýstaðfestra hjúskaparlaga. Ýmsir prestar halda úti bloggsíðum og skrifa áhugaverðar greinar um stöðu mála og annar hópur guðfræðinga og presta sem kalla sig G8 og hafa fjallað um guðfræðina og hrunið í fjölmiðlum.

Umræða af þessu tagi er að mínu mati einstaklega jákvæð og skapandi og sýnir að þjóðkirkjufólk hefur þegar stigið skref í átt til endurskoðunar. Slík umræða er mikilvægt fyrir kirkju sem vill eiga erindi við samtíma sinn og geta af einlægni svarað trúarlegum þörfum fólksins í landinu, fólks sem oft á tíðum trúir á Guð en telur sig eiga litla samleið með helgihaldi kirkjunnar. En rökræðan má ekki einskorðast við þann þrönga hóp sem starfar og hrærist innan kirkjunnar. Hún þarf að ná til alls samfélagsins, til þeirra sem sitja á kirkjubekkjunum að ekki sé talað um þá sem af einhverjum orsökum kjósa sjaldan eða aldrei að verma bekkina. Umræðan er vissulega hvatning til að koma á samtali milli þjóna kirkjunnar og þeirra sem henni er ætlað að þjóna. Hvernig getur þú sem best liðsinnt kirkjunni þinni í slíkri endurskoðun?

Af ösku og kærleika Guð hefur boðið þér til veislunnar, til samfylgdar og þjónustu og það er kirkjunnar að koma þeim boðum áleiðis á skýran, einfaldan og aðgengilegan hátt. Og það er kirkjunnar að skapa rými fyrir nærandi trúarlega upplifun sem þjónar þeim sem trúa. Þess vegna eru einkunnar orð íslensku þjóðkirkjunnar, biðjandi, boðandi , þjónandi. Boðskapur kristinnar kirkju er sá að Guð sem skapaði þig í sinni mynd elskar þig á einstakan hátt og tekur á móti þér af alúð og einlægni í hvert sinn sem þú snýrð þér til hans, sama hvað á undan er gengið. Í því kristallast kærleikur Guðs til manna og vald þessa kærleika hefur ekki áhuga á yfirráðum eða þvingunum heldur miðlar það fyrst og fremst græðandi krafti.

Já kærleikur Guðs liggur alltaf í loftinu og undir margskonar kringumstæðum virðist hann nánast jafn áþreifanlegur og askan úr jöklinum. Askan sem komin er djúpt úr iðrum jarðar er hluti af byggingarefni jarðarinnar sem leggur grunninn að landinu okkar. Á sama hátt eru orð Biblíunnar og reynsla okkar af Guði stöðugasti grundvöllurinn sem við getum byggt á. En ólíkt öskunni sem í of miklu magni getur skemmt og eyðilagt getur kærleikur Guðs aldrei orðið of mikill eða særandi. Og það er einmitt þannig sem við þekkjum hann, Kærleikur Guðs er alltaf græðandi og þjónar alltaf lífinu sjálfu.

Textar: Jes 25.1, 6-9; 1Jóh 3.13-18 og Lúk 14.16-24