Í náungasamfélagi sjáum við þarfir og hagsmuni hvers annars og virðum þau sem eru ólík og ókunn okkur. Verkin sem eiga að móta viðhorfið til náungans eru talin upp í Biblíunni: Þér gáfuð mér að eta, þér gáfuð mér að drekka, þér hýstuð mig, þér klædduð mig, þér vitjuðuð mín, þér komuð til mín (Matt. 25). Þessi verk hafa í trúarhefðinni verið nefnd miskunnarverk og þau standa fyrir ábyrga afstöðu til náungans og mynda grundvöll samhjálpar og velferðar.
Trú og trúarmenning helst ekki óbreytt á milli kynslóða. Hún tekur sífelldum breytingum. Við hljótum því að spyrja okkur eftir hvaða miskunnarverkum er kallað í samtímanum?
Fyrir nokkrum árum var leitað til almennings að svari við þessari spurningu. Niðurstaðan var: Þú ert í hópnum, ég stend með þér, ég tala vel um þig, ég geng með þér dálítinn spöl, ég deili með þér, ég heimsæki þig, ég bið fyrir þér.
Þetta eru miskunnarverk samtímans. Þau kallast á við mannlegar þarfir eins og þær birtast hjá okkur Íslendingum í dag. Við viljum tilheyra stærri heild, eiga vini og vera stolt af landi og þjóð. Við þurfum að finna að við sitjum ekki ein uppi með sára og erfiða reynslu heldur höfum pláss til að vinna úr henni og vaxa. Við þurfum að halda reisn okkar, líka í aðstæðum sem kreppa. Við viljum finna að við erum ekki ein.
Miskunnarverkin eru unnin í þágu annarra. Þau eru endurspegla samfélag sem er gott að tilheyra. Þau byggja á framtaki einstaklingsins vegna þess að hver og einn hefur frelsi til að þjóna náunganum. Þau marka leið sem við getum gengið saman í átt að góðu samfélagi, náungasamfélagi.