„Lífið er erfitt.
Það er mikill sannleikur, einn af þeim mestu. Það er mikill sannleikur vegna þess að þegar við horfumst í augu við þann sannleika, þá vinnum við bug á honum. Þegar við höfum lært að lífið er erfitt, þegar við í reynd skiljum og höfum sætt okkur við það, þá hættir lífið að vera erfitt. Með því að sætta okkur við þá staðreynd, hættir hún að skipta okkur máli.”
Þannig hefst ein af þekktari sjálfshjálparbókum 20. aldarinnar, The Road Less Travelled, eftir bandaríska sálgreininn M. Scott Peck. Það sem aðgreinir bók Peck frá þeim ódýru lausnum, sem flestar sjálfshjálparbækur bjóða, er áhersla hans á að það séu engar ódýrar lausnir til. Þess í stað boðar hann sálfræðimeðferð, sérílagi sálgreiningu, sem aðferð til að hraða Leiðin[ni] til andlegs þroska, eins og bókin heitir í íslenskri þýðingu, en viðurkennir jafnframt að meðferð sé einungis verkfæri til að hraða för okkar á þroskaferlinu.
Hin fáfarni vegur sem Peck leggur til felur í sér - aga, sem hann segir geta leyst öll verkefni sem lífið færir manni, - ást, sem hann telur vera grunninn að því að geta agað líf sitt og - náð, sem að hans mati birtist í þeirri sammannlegu reynslu að heimurinn haldi með manni, sé maður að ganga vegin til heilbrigðis og aukins andlegs þroska.
Bókin er vissulega búin vankönntum en ofurtrú hans á sálgreiningu endurspeglar þann tíðaranda við lok sjöunda áratugarins þegar allir sem höfðu efni á sóttu sálfræðimeðferð og höfundinum hefur verið legið á hálsi fyrir að geta sjálfur ekki lifað að fullu samkvæmt hugsjónum sínum. Hún hefur þó staðist tímans tönn að því leiti að hún er til þessa dags ein söluhæsta sálfræðibók allra tíma og hugrökk tilraun til að samþætta trúarleg viðhorf og klíníska sálfræði en bókin byggir á samtölum hans við skjólstæðinga.
Titill bókarinnar er vísun í ljóð eftir bandaríska skáldið Robert Frost, sem ber heitið The Road not taken eða í þýðingu Andrésar Björnssonar Gatan sem ekki var gengin (Tímaritið Andvari 1/88 1963):
Tvær götur skárust í gulum skógi; og leitt var mér að geta eigi gengir báðar og vera einn vegfarandi – lengi stóð eg og horfði eftir annarri svo langt sem augað eygði, þangað sem hún sveigði inn í lágskóginn.Þá tók eg hina og taldi jafngóða, og kannski var það réttmætt, því að hún var gróin og þurfti að troðast þrátt fyrir það, að umferðin þarna hafði í rauninni gengið þær nálega jafnt.
Og þennan morgun lágu göturnar jafnt með laufum, sem ekki höfðu sortnað af traðki. Ó, eg geymdi þá fyrri til annars dags! Þó vissi eg, hvernig gata leiðir á götu og efaði, að eg kæmi nokkurn tíma aftur.
Andvarpandi segi eg svo frá: Einhvern tíma fyrir óralöngu greindust tvær götur í skógi – og eg – eg valdi þá, sem minna var gengin, og þess vegna hefur allt farið sem fór.
Það kostar hugrekki að fara ótroðnar slóðir í lífinu en það er þess virði ef maður varðveitir á þeirri vegferð heilindi sín og fylgir því sem hjartað býður frekar en að þóknast væntingum samfélagsins. Sú sannindi sem sálfræðingurinn boðar eru sannarlega ekki ný eða frumleg, heldur hafa verið meginþráður kristindómsins frá upphafi, en það er hinsvegar nokkuð til í því mati hans að flest viljum við festast í viðjum vanans og hættum því að vaxa sem manneskjur, þar til erfiðleikar knýja okkur um að endurskoða venjur okkar og heimsmynd.
Sá agi sem um ræðir er fjórþættur og felst í - getunni til að geta frestað umbun, að vera ekki háður duttlungum þess að krefjast hluta strax heldur geta beðið til að öðlast ríkari verðlaun síðar, - getunni til að axla ábyrgð á eigin lífi, jafnt gjörðum sínum og tilfinningum, - getunni til að standa við orð sín, að vera sannsögull og að fylgja eftir því sem maður hefur sagst ætla að gera, - og getunni til að halda lífi sínu í jafnvægi, að bregðast við af yfirvegun þegar það mæta manni vonbrigði eða erfiðleikar á lífsleiðinni.
Agi væri íþrótt en ekki uppspretta andlegs þroska ef honum fylgdi ekki kærleikur og þar er jafn mikilvægur kærleikur í eigin garð og í garð annarra. Peck heldur því fram að hugmyndir vesturlandabúa um ást séu á villigötum og að ævintýraþrá þess að lifa í ævarandi sælu eftir að hafa hitt hina einu sönnu eða draumaprinsinn standi í vegi fyrir mörgum. Ást er ekki tilfinning að mati Peck, heldur það val að taka þá áhættu að elska vitandi það að við verðum óhjákvæmilega fyrir vonbrigðum. Þannig ást á ekkert skylt við meðvirkni eða það að verða blindaður af ástarbríma, heldur er meðvituð þjónusta við náungann á jafningjagrundvelli og krefst sem slík aga. Ást er að elska maka sinn eins og hann er og Peck líkir hjónabandi við tjaldbúðir í fjallgöngu þar sem hjón geta átt skjól og stuðning hvert hjá öðru við að lifa lífi sem er í senn sjálfstætt og samofið hjónabandinu. Kærleikurinn er grundvöllur aga og þjónustu við aðra og með því að vaxa í andlegum þroska er hægt að horfast í augu við tilhneigingu okkar til krefjast ástar af öðrum og þiggja þess í stað þann kærleika sem aðrir hafa fram að færa.
Agi og kærleikur eru verkfæri til vaxtar og með þeim getum við vaxið í skilningi á þeirri náð sem stendur okkur öllum til boða óháð því hverju við trúum. Peck nálgast trú og trúarbrögð með hætti sem var á undan sinni samtíð en hann taldi að allir aðhylltust í reynd trúarbrögð í þeirri merkingu að eiga heimsmynd og/eða Guðsmynd sem skilgreinir viðhorf þeirra til lífsins. Fólk sem elst upp við öryggi og ást í æsku treystir því öllu jafna betur að heimurinn sé öruggur staður en þau sem alast upp við hörku eða afskiptaleysi. Þannig skilgreinir tilfinningalíf okkar þá heimsmynd sem við göngum útfrá. Með því að skoða og endurskilgreina heimsmynd okkar og Guðsmynd getum við öðlast aðgang að þeirri náð og þeirri elsku sem kristin trú boðar að búi að baki sköpuninni. Þar skarast að mati Peck heimur trúarinnar og viðfangsefni sálfræðinnar en sú heimsmynd sem býr í brjósti okkar hefur úrslitaáhrif á velferð okkar og vellíðan sem manneskjur.
Í guðspjalli dagsins hefur Jesús hina svokölluðu kveðjuræðu Jóhannesarguðspjalls þar sem hann leiðbeinir fylgjendum sínum áður en hann gengur veg píslarsögunnar að frelsunarverki krossins. Lúther lagði mikla áherslu á þátt trúarinnar í sálarlífi mannsins og talaði gegn þeirri verkaréttlætingu sem hann taldi Kaþólska kirkjuna boða á sinni tíð. Sú arfleifð hefur skilað sér í túlkun kveðjuræðunnar í okkar hefð til þessa dags. Jesús sagði: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig (Jh 14.6).”
Jesús er hér að tala um líf vort handan þessa lífs en ef hann ætti við afstöðu eða trúarlega skoðun hefði hann notað aðra líkingu en vegur, sem vísar til ferðalags og aðgerða frekar en til afstöðu. Sá vegur sem Jesús boðar Tómasi og fylgjendum sínum er fólginn í fordæmi hans og lífsgöngu og í þeirri göngu er að finna leyndardóminn að baki því að sjá föðurinn að baki tilveru okkar. Jesús ferðaðist um hinn fáfarna veg aga, kærleika og náðar og M. Scott Peck fer ekki í grafgötur í bók sinni með þá fyrirmynd sem lífshlaup Jesú er honum.
Beittasta gagnrýni Peck er sú að vesturlandabúum hættir til að hafa þröngt sjónarhorn á lífið, þrátt fyrir að telja sig upplýstari en nokkur kynslóð eða menning í mannkynssögunni. Það getur birst í vísindalegri naumhyggju, eftirsókn eftir efnislegum gæðum eða ofurtrú á mikilvægi skoðana og afstöðu. Í hans huga helst þroski manneskjunnar í hendur. Félagslegur, sálfræðilegur og trúarlegur þroski leiðir allur að sama marki, sem er heilbrigði sálarlífsins og sönn hamingju. Vegurinn til hamingjunnar er að horfast í augu við þá staðreynd að lífið er erfitt og hafa á hverjum tíma fúsleika til að vaxa á þeirri vegferð að vera manneskja.
Þar er Jesús mikilvægur vegvísir sem ástundaði fullkominn aga, fórnandi manngæsku og boðaði náð Guðs og kærleika í verki. „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið” er ekki upphafin guðfræðileg sannindi heldur ákall til þroska og þess að ganga í takt við fyrirmynd frelsarans. Þar geta verkfæri á borð við sálgreiningu og sálfræðilega meðferð verið gagnleg en þroski okkar birtist á endanum í þeirri gæsku sem við auðsýnum náunga okkar og leiðir af sér líf. Þroskastig okkar getum við mælt með þeirri mælistiku sem hann sjálfur setti: „Ef þér trúið ekki orðum mínum trúið þá vegna sjálfra verkanna (Jh 14.11).”