Auðmýktin

Auðmýktin

Guðspjall: Matt: 18: 1-20 Lexia: Sálm: 8: 2-10 Pistill: 1. Kor. 16: 13-14

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

"Hver er mestur?". Þessa spurningu höfum við e.t.v. ekki heyrt mjög oft en þó er henni varpað fram á vetttvangi hins daglega lífs þar sem kapphlaupið endalausa um lífsgæðin er háð. Þar er ekki spurt að leikslokum því að mikið vill meira. Lífsgæðamaginn tekur alltaf við í þessum heimi. Heimurinn setur sér sínar eigin reglur og þær brjóta oft í bága við kristilegt siðgæði þar sem tillitsseminni er t.d. lítill gaumur gefinn. Þar eru réttindi manna fótum troðin af þeim sem gera þá kröfu að verða mestir,- að gnæfa upp úr sökum menntunar sinnar, áhrifa eða auðs.

Í dag er allt hægt að kaupa fyrir peninga nema himnaríki. Það kaupir sig enginn inn í himnaríki. Á líkklæðunum eru engir vasar. Þar verða annars konar lóð lögð á vogarskálarnar en pyngjan og skjaldarmerkið. En hvers konar gæði eru það þá sem fá náð fyrir augum Guðs?

Af guðspjalli dagsins má ráða að það er fyrst og fremst auðmýktin. Aðeins sú persóna sem hefur auðmýkt barnsins er borgari í ríki Guðs. Persónulegur metnaður og alkunnleik, persónulegt álit og hagnaður er nokkuð sem hæfir ekki kristnum einstaklingi. Sá sem vill fylgja Jesú Kristi á að gleyma sjálfum sér í hollustu gagnvart honum og í þjónustu sinni gagnvart samferðamönnum sínum.

Lærisveinarnir komu til Jesú og spurðu hann: "Hver er mestur í himnaríki?" Hann svaraði þeim með því að setja lítið barn á meðal þeirra og sagði að ef þeir yrðu ekki eins og þetta barn myndu þeir aldrei komast inn í ríki Guðs.

Af spurningu lærisveinanna má ráða að þeir vissu ekkert hvað himnaríki var. Jesús sagði þeim: "Nema þér snúið við". Hann vildi vara þá við vegna þess að þeir voru að fara algjörlega í ranga átt, þeir stefndu frá himnaríki en ekki til þess.

Í lífi sérhvers manns kemur upp sú spurning hvert hann stefni? Ef hann stefnir að því að uppfylla metorðagirnd sína, ef hann aflar sér persónulegra vinsælda og langar til þess að verða öllum kunnur þá stefnir hann lífi sínu í ógöngur því að sá sem vill vera borgari í himnaríki verður að gleyma sjálfum sér og leitast við að gefa líf sitt í þjónustu fyrir náungann. Svo lengi sem maður álítur að hann sjálfur sé mikilvægastur í heiminum þá snýr hann baki sínu í himnaríki. Ef hann langar einhvern tíman til þess að komast inn í himnaríki þá verður hann að snúa við og ganga í hina áttina.

Jesús tók barn. Sú sagnahefð varð til að þegar þetta tiltekna barn óx ur grasi þá var það þekkt fyrir að vera Ignatíus frá Antiokkíu sem síðar varð mikill þjónn kirkjunnar og þekktur rithöfundur og að lokum píslarvottur fyrir Krist. Ignatíus fékk skírnarnafnið "Theophoros" sem þýðir "sá sem Guð ber", og hefðin segir að hann hafi fengið þetta nafn vegna þess að Jesús tók hann á kné sér. Vel gæti það verið rétt. En líklegri er sú skýring að Pétur lærisveinn hafi spurt hann og að Jesús hafi tekið son hans og sett hann á meðal þeirra. En það er vitað að Pétur hafi verið giftur.

Jesús sagði að í börnunum gætum við séð þá eiginleika sem einkenna eiga þann mann sem tilheyrir himnaríki. Það fylgja börnum margir fallegir eiginleikar t.d. það að undrast yfir einhverju, að fyrirgefa og gleyma jafnvel þegar fullorðnir og foreldrar meðhöndla þau á óréttlátan hátt eins og þeir gera oft. Þá má nefna sakleysi barnanna og fúsleika þeirra til að læra.

Jesús var vafalaust að hugsa um þessa eiginleika í fari barnanna. En aðrir eiginleikar leituðu fastar á huga hans. Hann gerði sér grein fyrir því að barn er gætt þremur eiginleikum sem gerir það að tákni fyrir þá sem eru borgarar í himnaríki.

Í fyrsta lagi og ekki síst er barnið gætt auðmýkt. Það tranar sér ekki fram heldur vill það frekar draga sig í hlé. Barnið sækist ekki eftir yfirburðum heldur vill það búa við framaleysi. Það er aðeins þegar það vex úr grasi og kynnist heiminum og þeirri baráttu um völd og áhrif sem þar fer fram að auðmýktin hverfur og barnið fer þá sem fullorðinn einstaklingur að taka þátt í hinni hörðu samkeppni.

Í öðru lagi er barnið háð einhverjum. Það reiðir sig á einhvern. Það er eðlilegt fyrir sérhvert barn að reiða sig á einhvern. Það getur aldrei hugsað sér að það geti horfst í augu við lífið upp á eigin spýtur. Það er fullkomlega ánægt með það að reiða sig algjörlega á þá sem þykja vænt um sig og annast sig. Ef menn gætu borið slíkt traust til Guðs þá myndu þeir öðlast nýjan styrk og frið.

Í þriðja lagi má nefna traust barnsins. Barnið er ósjálfrátt háð öðrum og það treystir því að þörfum þess verði mætt. Þegar við erum börn þá getum við ekki keypt okkar eigin mat eða föt, samt efumst við ekki um það að við fáum mat til að borða og föt til að klæðast. Og við efumst ekki um að við fáum notið húsaskjóls og hlýju þegar við komum heim.

Þegar við erum börn þá förum við oft í ferðalag án þess að ætla okkur að borga fargjaldið og án þess að vita hvernig við getum náð til ákvörðunarstaðar okkar. Þrátt fyrir það efumst við ekki um að foreldrar okkar bjargi okkur og hjálpi okkur að ná leiðarenda.

Auðmýkt barnsins er grundvöllur kristinnar hegðunar þess gagnvart samferðafólki sínu. Og áreiðanleiki þess og traust er grundvöllur hins kristna viðhorfs til Guðs, föður allra.

Jesús er í guðspjallinu að kenna um börn. Við verðum að muna að Gyðingar notuðu orðið barn í tvöfaldri merkingu. Þeir notuðu hina bókstaflegu merkingu eins og við þekkjum hana. En almennt þá kallaði kennari nemendur sína syni sína eða dætur. Þess vegna merkir orðið barn einnig byrjanda í trúnni, þann sem ekki er orðinn grundvallaður í trú sinni, þann sem nýlega hefur byrjað á hinum rétta vegi en getur fallið út af honum hvenær sem er.

Jesús segir að hver sem tekur á móti einu slíku barni í sínu nafni taki á móti sér. Þess vegna má segja að sá sem kennir barni geri það ekki aðeins barnsins vegna heldur vegna Jesú sjálfs. Það að taka við einu slíku barni felur í sér að taka við persónu sem er gædd eftirsóknanverðri auðmýkt. Í þessum heimi er mjög auðvelt að veita þeirri persónu mesta athygli sem er þrætugjörn og áleitin og full sjálfstrausts. Það er auðvelt að veita þeirri persónu mesta athygli sem á heimsvísu hefur vegnað vel í lífinu. Það má vel vera að jesús sé að segja með þessu að mikilvægasta fólkið sé ekki það sem hefur klifið hæst í þjóðfélagsstiganum á kostnað þeirra sem fyrir neðan eru heldur sé það hljóðláta fólkið, auðmjúka og einfalda fólkið sem á innra með sér hjarta barnssálarinnar.

Það að taka við einu slíku barni getur einnig merkt að við eigum að bjóða barnið velkomið, annast það og elska og veita því þá kennslu sem þarf til þess að gera það að góðum einstaklingi.

Við sjáum Krist sjálfan í sérhverju barni.

Hver vill tæla við falls eitt af þessum börnum sem Jesús lifir í ?

Það er ekkert verra til í þessum heimi en að eyðileggja sakleysi einhvers. Sá sem verður fyrir því hefur það á samviskunni alla ævi. Einhver sagði eitt sinn sögu af gömlum manni sem var að deyja. Hann átti mjög erfitt í banalegunni og svo virtist sem hann hefði samviskubit út af einhverju. Að lokum fékkst hann til þess að segja hvers vegna hann hefði svona mikið samviskubit. Maðurinn sagði svo frá: "Þegar við vorum drengir og lékum okkur þá snerum við skiltum á vegamótum við þannig að vegvísarnir vísuðu í öfuga átt. Og ég hef aldrei hætt að hugsa um það síðan hversu margt fólk fór í ranga átt vegna þess sem við gerðum".

Ef maður kennir einhverjum að syndga þá væri betra fyrir viðkomandi að vera sökkt í sjávardjúp með mylnustein hengdan um háls eins og segir í guðspjalli dagsins. Þessi mylnusteinn var svo stór að það þurfti asna til þess að snúa honum. En stærð mylnusteinsins sýnir fram á hversu sakfellingin var mikil og alvarleg.

Gyðingar óttuðust sjóinn. Þeir álitu að himinninn væri staður þar sem enginn sjór væri. Fyrir sérhvern gyðing þá var sjórinn tákn fyrir hina algjöru eyðileggingu.

Það má segja að heimurinn sé syndum hlaðinn. Enginn getur lifað í þessum heimi án þess að mæta freistingum syndarinnar. Þetta á sérstaklega við um þann einstakling sem fer frá vernduðu heimili þar sem engin ill öfl hafa haft áhrif á hann. Jesús segir: "Þetta er vissulega satt að þessi heimur er fullur af freistingum, það er óhjákvæmilegt í heimi sem syndin hefur komið inn í . En sú staðreynd minnkar ekki ábyrgð þess manns sem veldur því að öðrum verði fótaskortur á vegilífsins.

Við vitum að þetta er heimur freistinga. Þess vegna er það skylda kristins manns að fjarlægja ásteytingarsteina og leggja þá aldrei í veg fyrir nokkurn mann. Þetta merkir að það er ekki aðeins synd að setja slíkan stein í veg fyrir nokkurn mann, það er einnig synd að færa hann inn í aðstæður, kringumstæður eða umhverfi þar sem hann getur mætt slíkum ásteytingarsteini.

Jesús gefur í skyn að börnin hafi um sig englahirð. Og þegar hann segir að englarnir sjái jafnan auglit Guðs föður á himnum þá merkir það að þeir hafa beinan aðgang að Guði. Við sjáum fyrir okkur mynd af imneskri hirð þar sem uppáhalds hirðmennirnir, ráðherrarnir og embættismennirnir hafa greiðan aðgang að konunginum. Guð lítur svo á að börnin séu svo mikilvæg að verndarenglar þeirra hafi alltaf rétt til þess að ganga til fundar við sig.

Okkar hlutverk sem foreldra og uppalenda hlýtur í ljósi þess sem hér hefur verið rætt að liggja í því að hlúa að þessum dýrmætu eiginleikum sem búa innra með börnunum og stuðla að því að þau geti veitt þeim í góðan farveg þjóðinni til heilla.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.