Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar og höfðu menn gætur á honum. Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“ Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. Og Jesús mælti við þá: „Ef einhver ykkar á asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp þótt hvíldardagur sé?“ Þeir gátu engu svarað þessu.Jesús gaf því gætur hvernig boðsgestir völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: „Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið að manni þér fremri að virðingu sé boðið og sá komi er ykkur bauð og segi við þig: Þoka fyrir manni þessum. Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur er þér er boðið og set þig í ysta sæti svo að sá sem bauð þér segi við þig þegar hann kemur: Vinur, flyt þig hærra upp! Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“ Lúkas 14:1-11
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Í gulnuðum reyni sat þröstur og söng út í logngrátt rökkrið flaug upp og stráði laufum af grannri greinsteig eins og lítill fönix úr fölskvuðum eldi haustsins hvarf inn í brjóst mitt og syngur þar dægrin löng. (SH)
Haustið er tími hinna mörgu lita og litbrigða í náttúrunni. Tími þar sem skammdegið tekur að hreiðra um sig, um leið og laufin safnast saman undir húsvegg. Haustlægðirnar hver af annari minna okkur hressilega á að sólríkir sumardagar eru að baki. Þessi árstími hefur verið mörgu ljóðskáldinu yrkisefni og ljóðlínur Snorra Hjartarsonar sem ég las hér áðan, fanga vel þá von sem í haustinu býr, þó um margt minni það einnig á fallvaltleika lífsins. Grasið visnar og sumarblómin fölna vegna þess lögmáls sem náttúran lýtur, þar sem hver árstíð tekur við að annari áreynslulaust. Þegar við þannig stöndum frammi fyrir hringrás og lögmáli náttúrunnar er ekki laust við, að við finnum til auðmýktar gagnvart því undri sem í því leynist. Auðmýktin brýst fram þegar við finnum á áþreifanlegan hátt fyrir smæð okkar gagnvart því sem öllu öðru er stærra og máttugra. Þetta höfum við mörg fundið þegar við fengum börnin okkar nýfædd í fangið. Eða þegar við á sorgarstundu höfum staðið við dánarbeð og fundið að ekki er annað hægt en sætta sig við takmarkanir mannlegs lífs og vonar. Auðmýktin á þeim stundum er sönn, því hún birtist gagnvart því sem við reynum og finnum, að hið stórbrotna sem ekki er á mannlegu valdi, er samt svo raunverulegt að það yfirskyggir allt. Í slíkum aðstæðum veljum við okkur ósjálfrátt ysta sætið svo vísað sé í guðspjall þessa helga dags.
Þar beinir Jesús Kristur sjónum okkar að auðmýktinni. Þessari tilfinningu sem er sönnust þegar hún er birtist ósjálfrátt en getur líka breyst í neikvæða merkingu þegar við erum auðmýkt eða auðmýkjum aðra. Jesús gaf því gætur hvernig menn völdu sér hefðarsætin og tók dæmi til að útskýra hvernig við bæði getum upphafið og auðmýkt með vali okkar einu saman. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða. Sjálfur var hann í húsi eins af höfðingjum farísea en þeir voru sá hópur manna sem best taldi sig þekkja lögmálið og leit á það sem ófrávíkjanlega skyldu sína og annara að fara eftir hverjum bókstaf þess. Meðal þess sem lögmálið sagði fyrir um, var hvernig hvíldardagurinn hinn sjöundi dagur vikunnar, skyldi í hávegum hafður. Ekki var til dæmis leyfilegt að stunda nokkra vinnu á hvíldardeginum og ekki einu sinni elda mat. Höfðu menn í húsi faríseans sérstakar gætur á Jesú þar sem um hvíldardag var að ræða þegar öllum reglum lögmálsins skyldi fylgt. Já, þeir höfðu auga með honum, eins og þeir biðu eftir því að hann gerði eitthvað sem þeim var ekki þóknanlegt. Jesús þekkti þá og spurði hvort leyfilegt væri að lækna á hvíldardegi eða ekki. En fræðmennirnir gátu engu svarað. Jesús hafði hins vegar auga á manni sem var sjúkur frammi fyrir honum. Jesús sá neyð hans og læknaði hann, þó svo að það kynni að brjóta í bága við túlkun faríseana á lögmálinu. Því rétt eins og hvíldardagurinn var til mannsins vegna en ekki maðurinn vegna hvíldardagsins eins var það um lögmálið með öllum þeim mikilvægu reglum, boðum og bönnum sem það geymdi. Það var til vegna mannsins og átti sér þá takmörkun að neyð manna, sjúkleiki, sorg, hamingja eða velferð var alltaf í forgrunni þess starfs sem Jesús var sendur til að vinna. Hann var uppfylling lögmálsins því kærleikur hans til manna gekk lengra en áður hafði þekkst. Kærleikur hans var frá Guði kominn til þess að leysa manninn aftur til sín. Hans vilji var að eiga hjarta mannsins og yfirfylla það af kærleika sínum. Í þeim kærleika læknaði hann sjúka manninn á hvíldardegi og í þeim sama kærleika vill hann mæta okkur hverju og einu í dag. Og til þess að leggja enn frekari áherslu á kærleiksverk sitt, tók hann dæmi af sætaskipan til borðs þar sem menn völdu sér hefðarsæti til að upphefja sjálfa sig. Jesús valdi sér hins vegar alltaf ysta sætið, alltaf án nokkura skilyrða, því hann valdi að starfa og deila kjörum með hinum fáttæku, sjúku, útskúfuð og hröktu í samfélaginu. Hann stóð mitt á meðal þeirra sem minnst máttu sín til þess að vera þeim sá frelsari sem upphæfi þau, lyfti þeim upp til nýs lífs, blessunar og vonar. Þegar við lesum guðspjallið og leitum að boðskap dæmisögunnar þá sjáum við hvernig fagnaðarerindi guðspjalltextans er fólgið í Jesú Kristi sjálfum. Fagnaðarerindið um son Guðs sem lægði sjálfan sig og varð mönnum líkur og hlýðinn allt til dauða á krossi. Hann var auðmýktur okkar vegna, til þess að við mættum eiga í honum líf í fullri gnægð, vitandi það með vissu að hann hefur ætíð auga með okkur á sinn jákvæða hátt. Hann þekkir okkur, veit hvers við þörfnumst. Hann þekkir hamingju okkar jafnt sem sorgir, þekkir kvíða okkar og áhyggjur og er tilbúinn að mæta öllu því með kærleika sínum og miskunnsemi.
Eitt sinn stóð myndhöggvari við vinnu sína við stóran marmarahnullung á vinnustofu sinni. Höggin buldu á meitlinum og steinflísarnar flugu í allar áttir. Lítill drengur stóð þar hjá og skildi ekkert í þessum hamagangi. En þegar hann kom í vinnustofuna nokkrum vikum seinna sá hann sér til undrunar gríðarstórt og mikilúðlegt ljón þar sem marmarablokkin hafði staðið. Gagntekinn kallaði hann upp yfir sig: “Heyrðu! Hvernig vissirðu að það var ljón í grjótinu?” Stundum kann okkur að finnast líf okkar hulið, týnt inn í hnullungi sem nakinn stendur og getur sig ekki hreyft. Guð þekkir hins vegar hvað í okkur býr. Hann þekkir þá mynd, þá persónu sem hann skapaði og þá sál sem hann lagði okkur í brjóst. Og meira en það því hann sendi son sinn Jesú Krist til þess að kalla fram þá mynd. Því ef við leyfum honum að móta okkur með kærleika sínum sem birtist okkur í orði og anda Guðs þá munum við umbreytast – frelsast til þess lífs sem á í sér óteljandi möguleika okkur til blessunar. Þá er ekki um að ræða stöðnun í takmörkunum vonleysis heldur þá óumræðilegu fjölbreyttni vonarinnar sem styrkir og eflir líf okkar til allra góða verka. Drottinn okkar og frelsari hefur trú á okkur, möguleikum okkar og vilja, hann er bjartsýnn fyrir okkar hönd og jákvæður í okkar garð. Tilbúinn að leiðbeina okkur með orði sínu og hvetja okkur áfram í krafti kærleikans sem breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.
Í vikunni sem leið fór fram merk vísindatilraun í Genf þar sem líkt var eftir öreindakrafti sem talinn er að hafi átt sér stað í alheiminum sekúdubroti eftir að hann varð til. Ég verð að viðurkenna að það tók mig nokkra stund er ég heyrði fréttina að átta mig á að um raunverulega tilraun var að ræða, en ekki lýsingu úr nýrri spennusögu svo óraunveruleg þótti mér þessi tilraun. En hún var gerð, tókst vel og mikið var fagnað af vísindarmönnunum. Takmarki þeirra var náð eftir mikla vinnu og niðurstöður eflaust merkar þegar frá líður. Já möguleikar mannsins eru miklir til þess að reyna að skilja og átta sig á tilurð alheimsins og má sjá í þeirri viðleitni þá sammannlegu löngun að reyna að skilja grunnforsendur lífs, veruleikans sem á sér bæði upphaf og endir. Þessi þrá mannsins hefur fylgt honum alla tíð allt frá því menn ristu í klettavegg sjálfmynd sína eða drógu fram á striga eða festu í ljóðlínur túlkun sína á lífinu eða umhverfi. Vísindamaðurinn reynir að líkja eftir Miklahvelli sem talinn er af sumum marka upphaf alheimsins meðan listamanninn leitast við að fanga tilfinningar. Báðir geta þeir þá sýnt hver með sínum hætti þó, hvernig lífið er í innsta kjarna sínum, lífið sem þú hefur í hendi þér. Veruleikinn er þannig fangaður með mismunandi hætti og útskýrður með enn ólíkari hætti þó svo niðurstöðurnar virðast alla vega mér, vera áþekkar enda hvorki vísinda- né listakona. Því einhvern veginn virðist það vera svo sem lífið sé fyst greinanlegt í samskiptum – já jafnvel öreinda. Við erum kölluð til lífs og til samfélags. Við erum sköpuð til samfélags við Guð og náunga okkar. Og í því samfélagi mótast lífið út frá innsta kjarna sínum. Okkur eru lögð verkfæri í hönd af algóðum Guði sem gefur okkur vald og val til þess lifa í samræmi við köllun okkar. Allt okkar líf gengur á einn eða annan hátt út á samskipti við aðra hvort sem um er að ræða nána ástvini, fjölskyldu, vinnufélaga eða nágranna svo dæmi séu tekin. Og í þeim samskiptum reynir á sætaskipanina. Hvar veljum við okkur sæti? Hjá hverjum viljum við sitja? Ef við leyfum okkar innri manni að ráða sem mótaður er í og fyrir kærleika Krists er svarið augljóst. Og er ekki í ljósi þess dýrmætara að afla sér þeirrar visku en gulls og ágætara að afla sér skynsemi en silfurs? Getur ekki enda verið að veruleikinn hinn eini sanni sé að finna rétt utan við gluggann þinn. Sérð þú þar ef til vill þröst á gulnuðum reyni sem lyftir sér upp til himins á ný? Megi söngur hans ylja sálu þinni og algóður Guð umvefja þig líknandi kærleika sínum.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.