Sálm.40, 2 - 6, Jak. 3, 8 - 18, Matt. 12, 31 - 37
Stýr minni tungu að tala gott og tignar þinnar minnast, lát aldrei baktal, agg né spott í orðum mínum finnast. Amen.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður voru og Drottni Jesú Kristi.
Óneitanlega er það með ugg og ótta sem maður nálgast þessi hörðu orð meistarans um það, sem ekki verður fyrirgefið, um orð sem valda sakfelling og glötun. Og þó vitum við innst inni ofur vel að orð er máttur, orð er áhrif. Í orðum okkar býr andi og sál. Við þekkjum öll að orð blessa, hughreysta, sefa og gleðja, og eins særa og meiða og deyða. Orð skapa og orð móta, orð opna, orð brúa, greiða veg samskiptum, orð ljúka upp og leysa og orð loka og læsa. Orð eru dýr, þessi andans fræ, / útsáin, dreifð fyrir himinblæ segir Einar Benediktsson í ljóði sínu um Davíð konung. Og hann segir líka: Eitt bros fær dimmu í dagsljós breytt, sem dropi breytir veig heillar skálar. Þel getur snúist við atorð eitt. Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Hve oft leyndist strengur í brjósti sem brast við biturt andsvar, gefið án saka.....
- þetta þekkjum við öll og um þetta er Jesús að tala. „Af orðum þínum muntu sýknaður, og af orðum þínum muntu sakfelldur verða.“ Jakob postuli er líka ómyrkur í máli í pistli dagsins. Það er eins og hann sé að lýsa veruleika sem við þekkjum vel í íslensku samfélagi er hann segir:„...hvar sem ofsi og eigingirni er þar er óstjórn og hvers kyns spilling.“ En, segir hann „sú speki sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus. En friðflytjendur uppskera réttlæti og frið.“
„Af orðum þínum muntu sýknaður, og af orðum þínum muntu sakfelldur verða.“ segir Jesús. Orð okkar skipta máli. Mönnum gleymist það í óðaverðbólgu orðanna sem veður stjórnlaust áfram. Orðaflaumurinn endalausi sem á okkur dynur, endalaus vaðall ótal útvarpsrása, sjónvarps, blaða og tímarita, auglýsinga og áróðurs, bloggheima og fasbókarfærslna hefur valdið gengisfellingu orðsins. Menn missa æ meir traust á gildi og vægi orðanna í mannlegum samskiptum. Hve oft heyrum við ekki: „Þetta eru bara orð.“ Kennarar tala til nemenda sinna árum saman, en í huga nemendanna situr á tíðum eftir tilfinningin: „Þetta eru bara orð. Það er ekkert að marka.“ Prestar flytja boðskap sinn viku eftir viku, ár eftir ár, en safnaðarfólkið er ósnortið og hugsar: „Þetta eru bara orð. Það er ekkert að marka.“
Stjórnmálamenn og leiðtogar flytja ræður, segja álit sitt og gefa út yfirlýsingar, en þeir sem hlusta segja: „Þetta eru bara orð. Það er ekkert að marka.“ Stóryrðin fjúka, særandi, móðgandi um náungann og menn segja: „Það er ekkert að marka.“ Menn bulla og blaðra, kommenta og læka á netinu og menn segja: „Þetta eru bara orð, það er ekkert að marka.“ Og afleiðingin er að orðið, sem á að mynda brú milli fólks, tjá hugsanir, tilfinningar, hugmyndir, skoðanir, skapa samkennd og samfélag, líf, gerir það ekki lengur. Það er ekki lengur grundvöllur samskipta, gjaldmiðill, sem tjáir raunveruleg verðmæti, heldur marklaust hjal. Afleiðingin er að manneskjan verður heyrnarlaus og sljó gagnvart því sem máli skiptir. Það lokast á spekina að ofan. „Formæling illan finnur stað, fást mega dæmin upp á það.“ segir í Passíusálmunum „Blót og formæling varast vel...“ segir þar líka. Þessi og önnur heilræði Passíusálmanna kunni gamla fólkið og leitaðist við að hafa fyrir börnunum. Og eins var oft farið með þessa gömlu vísu þegar einhverjum hrökk blótsyrði af vörum : „Blótaðu ekki, bróðir minn, böl það eykur nauða, engum hjálpar andskotinn allra síst í dauða.“ Svo virðist sem leikreglur málsins séu ekki virtar, hvað þá þau kurteisisviðmið í orði og æði sem áður fyrr þóttu sjálfssögð. Grófyrði alls konar virðast hafa áunnið sér þegnrétt í daglegu tali, jafnvel dónaorð og klúryrði á ensku eru viðhöfð opinberlega og í fjölmiðlum og þykir ekkert tiltökumál, jafnvel ekki úr munni og pennum embættismanna og presta.
Velsæmismörkin hafa færst til. Og er það ekki bara allt í lagi? Er ekki málið í stöðugri mótun og landamæri hins viðurkennda og viðmið þess sem hæfir á stöðugri hreyfingu? Áreiðanlega. En.... En. Einu sinni, endur fyrir löngu, var sagt: „Hvílíkir tímar þegar hirðfíflið er tekið alvarlega en hlegið er að prestinum!“ Er það lýsing á okkar tímum, okkar menningu, gengisfelling orðanna, máttleysi boðunarinnar? Þegar ekkert er heilagt framar, ekkert sem fær manninn til að hljóðna og hlusta eftir orði og vilja Guðs? Það er alvörumál.
Skáldið Sigurður Einarsson frá Holti orti: Margt atorð er verra en óhappaverk, þótt í ást sé það tjáð, ef síhugalt, gáð sjálfsþóttans traust og hið ríka ráð / réttlætis þess, er aldrei skrikar, stýrir orðum og allri dáð. Mér ægir för þess, er aldrei hikar, aldrei grunar, hvað spöngin er veik, sem ber oss heila úr lífsins leik, unz landi er náð.
Þetta er vel orðað, og víst er að er oft er það „sjálfsþóttans traust“ sem „...stýrir orðum og allri dáð. „Mér ægir för þess, er aldrei hikar, aldrei grunar, hvað spöngin er veik, sem ber oss heila úr lífsins leik....“
Guðlast er allt sem hæðir vilja Guðs, eins og það þá talað er um sannleikann eins og hann væri tál. Og guðlast er líka það sem hæðir Guð þótt guðs nafn sé ekki beinlínis á vörum. Ranglætið og ofríkið og ofbeldið hæðir Guð. Þegar bænin er orð án innistæðu, tilbeiðslan, trúin er einungis á yfirborðinu, yfirskin guðhræðslu, kærleikurinn í orðum einum.
Sagt er að þegar páfinn kom í opinbera heimsókn til Manila á Filippseyjum þá breiddu næturklúbbarnir og hóruhúsin yfir æsandi og eggjandi auglýsingaskiltin sín með litríkum borðum með kveðjunni: „Hjartanlega velkominn, heilagi faðir!“ Og jafnskjótt sem bílalestin var farin hjá voru borðarnir rifnir niður. Er það kannski eins með hjörtu okkar og orð? Trúrækni okkar og tilbeiðslu? Þau eru óvægin orð Drottins hjá spámanninum Amosi í Gamlatestamentinu: „Ég hata, ég fyrirlít hátíðir yðar og hefi enga unun af hátíðarsamkomum yðar... Burt frá mér með glamur ljóða þinna, ég vil ekki heyra hljóm harpna þinna. Lát heldur réttinn vella fram sem vatn og réttlætið sem sírennandi læk!“ - Þarna er ekki talað um smekk og orðbragð, þarna er talað um líf, um anda, þarna er verið að tala um samhengi orða og breytni, trúar og lífernis. Lát heldur réttinn vella fram sem vatn og réttlætið sem sírennandi læk! – hann er að tala um ferskt og frjóvgandi lindarvatn en ekki „læk“ eins og á fasbókinni! Nei, hjartans lindir og það sem af þeim streymir og nærist. Jesús fullyrðir að af gnægð hjartans mæli munnurinn. Að góður maður, góð manneskja, beri gott fram úr góðum sjóði hjarta síns, en vond manneskja það sem er vont úr vondum sjóði. Við viljum ekki hugsa þannig um annað fólk. En meistarinn er ómyrkur í máli. Honum er mikið niðri fyrir og í mun að brýna okkur í að varðveita hinn góða sjóð hið innra þar sem trúin býr, vonin vakir og kærleikurinn sprettur fram. Og það fer ekkert milli mála þegar svo er.
Orðin móti huga manns og hjartalag. Þau eru andans fræ. Í spekimálum Gyðinga segir: Gættu hugsana þinna, því þær verða að orðum. Gættu orða þinna, því þau verða að verkum. Gættu að verkum þínum, því þau verða að venju. Gættu að venjum þínum, því þær verða að skaphöfn. Gættu að skaphöfn þinni, því hún verður örlög þín. Við viljum helst ekkert heyra um dóm Guðs, sakfelling. Þó merkir það ekki annað en það að Guð virðir vilja mannsins, og tekur mark á orðum okkar og athöfnum. Ef við viljum ekki heyra hið heilnæma orð og góða, ef við lokum á spekina að ofan, þá kemur að því að við heyrum ekki meir, hlustirnar lokast og hjartað með, maður glatar möguleikum sínum að heyra og þekkja og elska Guð. Lengi vel er manni það alls ekki ljóst. Við tökum alla jafna ekki eins vel eftir því sem hverfur og hinu sem kemur. Einn vordag finnst okkur birta um bæinn og tilveran fái nýjan lit og hljóm, af því að lóan er komin. En við tökum aldrei eftir því þegar síðasta lóan kveður. Áður en maður veit af er hún horfin, og haust og vetur er yfir og allt um kring. Þessvegna er það sem Kristur varar enn og aftur við: Gætið að! Vakið! Gef gaum að orðum þínum, því af ávöxtunum þekkist tréð. Orð þín eru ávextir sálar þinnar, andans fræ. Gættu þess vegna að því hvað þú hugsar og geymir í hjarta þínu, gættu að því að þú sért ekki á leið út í ógöngurnar burt frá Guði og vilja hans, burt frá ríki og möguleikum fyrirgefningarinnar, miskunnseminnar, friðarins inn í guðvana, vonlausa, haustmyrkrið kalda.
Sá sem flutti þau orð, sem eru guðspjall dagsins, hann er sá sem er ORÐIÐ, orðið sem varð hold, líf, maður á jörð, orðið sem skapar, orðið sem endurleysir, orðið sem læknar, sýknar og náðar og vill fá að ummynda hjörtu okkar og líf til sinnar myndar. Eitt orða minna megnar að fyrirdæma mig, skv. guðspjalli dagsins. En hitt veit ég, að eitt orða HANS, frelsarans, megnar að sýkna mig. Því vil ég leita eftir að heyra þau og leyfa þeim að snerta hjarta mitt, orð fagnaðarerindisins: Fylg þú mér! Trúðu á Guð, trúðu á mig! Syndir þínar eru fyrirgefnar! Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.