Æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar hefur verið haldinn fyrsta sunnudag í marsmánuði um árabil. Á fyrstu árunum voru þetta miklar hátíðir þar sem heilu bæjarfélögin voru undirlögð af hátíðahöldum.
Í fjölbreytileika samfélagsins hefur æskulýðsdagurinn fengið nýja mynd.
Nú er mikil virkni í söfnuðum landsins meðal fermingarbarna á þessum degi. Fermingarbörn lesa gjarnan ritningarlestra, eða hafa samið bænir og helgileiki sem þau flytja sjálf. Auk þess hafa æskulýðsfélög þar sem þau eru starfandi lagt deginum lið.
Starf meðal unglinga í söfnuðum landsins gengur í bylgjum eins og gengur með allt æskulýðsstarf hvort sem það er á vettvangi íþrótta, lista eða kirkjunnar.
Nú er mikill uppgangur í æskulýðsstarfi kirkjunnar og var ég þeirrar ánægju aðnjótandi s.l. haust að vera þátttakandi í Landsmóti æskulýðsfélaganna, sem haldið var á Egilsstöðum. Þar voru saman komnir um 600 unglingar af öllu landinu. Dagskráin var þétt, bæði með uppbyggilegum erindum og hópastarfi, en að sjálfsögðu miklu af skemmtilegheitum inn á milli.
Unglingarnir gleymdu ekki kjarna kristindómsins, sem er kærleikur, og notuðu mótið til að safna fyrir brunnum í Malaví, en ungmenni frá Malaví voru einmitt gestir á mótinu.
Þó slík mót séu afar mikilvæg til að treysta vináttuböndin og finna fyrir samkennd þá er mikilvægasta starfið unnið heima í söfnuðunum. Þess vegna er æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar svo mikilvægur heima hjá hverjum og einum og þar fá börn og unglingar að njóta sín.
Í ár er yfirskrift æskulýðsdagsins: Hendur Guðs – hendur okkar. Með þessari yfirskrift er mint á þá staðreynd að við erum öll kölluð með kostum okkar og göllum til að vinna verk Guðs hér á jörðu með þeim höndum sem Guð gaf okkur. Við skulum skoða hvernig haldið verður upp á æskulýðsdaginn í okkar söfnuði og standa svo saman um að efla og hann og styrkja í framtíðinni.