Ótrúlega holdleg trú

Ótrúlega holdleg trú

Ég var að lesa bók sem ber heitið Bítlaávarpið og er eftir Einar Má Guðmundsson. Þetta er saga stráks sem tilheyrir hinni svonefndu 68-kynslóð. Í bókinni er lýst þessu undarlega tímabili, þessum skilum í mannkynssögunni, sem urðu fyrir áhrif Bítla og blómabarna. Stórskemmtileg bók. Ég skellihló upphátt af og til á leið minni í gegnum þessa ágætu bók sem lýsir tíma sem hafði jafnframt mikil áhrif á sjálfan mig.

[Jesús sagði:] En nú fer ég til hans, sem sendi mig, og enginn yðar spyr mig: Hvert fer þú? En hryggð hefur fyllt hjarta yðar, af því að ég sagði yður þetta. En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer, sendi ég hann til yðar. Þegar hann kemur, mun hann sanna heiminum, hvað er synd og réttlæti og dómur, syndin er, að þeir trúðu ekki á mig, réttlætið, að ég fer til föðurins, og þér sjáið mig ekki lengur,og dómurinn, að höfðingi þessa heims er dæmdur.??Enn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú. En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann. Hann mun ekki mæla af sjálfum sér, heldur mun hann tala það, sem hann heyrir, og kunngjöra yður það, sem koma á. Hann mun gjöra mig dýrlegan, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt sem faðirinn á, er mitt. Því sagði ég, að hann tæki af mínu og kunngjörði yður. Jóh.16.5-15
Ég var að lesa bók sem ber heitið Bítlaávarpið og er eftir Einar Má Guðmundsson. Þetta er saga stráks sem tilheyrir hinni svonefndu 68-kynslóð. Í bókinni er lýst þessu undarlega tímabili, þessum skilum í mannkynssögunni, sem urðu fyrir áhrif Bítla og blómabarna. Stórskemmtileg bók. Ég skellihló upphátt af og til á leið minni í gegnum þessa ágætu bók sem lýsir tíma sem hafði jafnframt mikil áhrif á sjálfan mig.

Skil í sögunni

Sögu heimsins má skipta í tímabil og það er líklega ekki fyrr en löngu eftir að tilteknir atburðir hafa átt sér stað að hægt er að meta þá af einhverju viti. Lífið er svo oft þannig, að það verður aðeins skilið eftir á – með því að horfa í baksýnisspegilinn.

Ef við gjóum öðru auga í baksýnisspegil eigin tilveru, hvað sjáum við þá? Hvaða skil urðu í lífi okkar, hvaða beygjur tókum við, yfir hvaða hæðir var farið, hvernig voru dalirnir? Öll eigum við án efa minningar um atburði sem standa upp úr þegar litið er til baka, hæðir sem lyfta sér upp úr landslaginu. Og við eigum líklega líka minningar um dali, dimma dali, þar sem við reikuðum myrka stigu einsemdar, sorgar, mótlætis, höfnunar, óréttar. Lífsbókin okkar skiptist í kafla. Lífið er eins og saga og stundum skáldsögu líkust eða ævintýri, spennusögu.

Stundum líður okkur þannig að við þráum breytingar, jafnvel algjör umskipti, nánast nýtt líf ef svo má að orði komast. Og slíkt undur getur gerst.

Hjartaþegar

Ég fermdi eitt sinn dreng sem veiktist alvarlega ári síðar. Hjartað hans eyðilagðist vegna vírussýkingar. Fermingarsystkin hans komu í kirkjuna og við báðum fyrir honum. Hann beið á sjúkrahúsi, líf hans fjaraði út og þá loksins á elleftu stundu kom gleðifregnin: Það er komið hjarta! Hann gat fengið nýtt hjarta, hjarta úr annarri manneskju. Og hann lifði og hefur síðan þegið enn annað hjarta. Líf Helga Einars Harðarsonar er kraftaverk. Sama má segja um skapgerð hans og glaðbeitta vonina sem virðist aldrei yfirgefa hann. Og þau eru mörg sem tekist hafa á við erfiðleika í lífinu og sýnt ótrúlegt æðruleysi og eru okkur hinum fyrirmynd. (Sjá lexíuna hér að neðan sem útskýrir samhengið)

Margir foreldrar berjast einnig hetjulegri baráttu og bera þungar byrðar vegna barna sem orðið hafa fyrir áfalli eða eru heft á einhvern hátt. Þau eru okkur fyrirmynd um æðruleysi og þrautseigju.

Ótrúlega holdleg trú

Það er komið hjarta! Við erum hjartaþegar. Algjör skil hafa orðið í sögu okkar. Við höfum fengið nýtt hjarta, segir spámaðurinn og boðar nýtt líf sem Guð einn getur gefið. Esekíel átti erindi við Ísraelsmenn í sinni samtíð. Hann boðaði þeim nýja tíma, nýjan veruleika, sem fólginn var í því að fylgja Guði og lifa í samræmi við lögmál hans. Það var forsenda fyrir því að þeir gætu áfram lifað í landinu og í friði við Guð og aðra menn. Í Gamla testamentinu er ítrekað minnt á samhengið á milli þess að hlýða lögmáli Guðs og lífshamingjunnar. Lesið til dæmis 1. Davíðssálm þar sem þetta kemur einkar skýrt fram. En Ísraelsmönnum mistókst þetta í rás sögunnar og sú þjóð sem nú berst fyrir tilveru sinni í Palestínu, Ísraelsþjóðinni virðist enn mistakast þetta hrapalega. Þess vegna gerðist Guð maður í Jesú Kristi til að birta mönnum, ekki bara Ísraelsmönnum heldur öllum mönnum að ný skil hafa orðið í veraldarsögunni. Þessi skil eru grundvöllur kirkjunnar. Hún heldur á lofti vitnisburðinum um holdtekju Guðs, að Guð gerðist maður. Þess vegna halda kristnir menn jól. Kirkjan heldur líka upp á annan atburð hjálpræðissögunnar, dauða Jesú fyrir syndir mannkyns og upprisu hans frá dauðum. Þriðji stórviðburðurinn er svo úthelling heilags anda sem við fögnum með sérstökum hætti á hvítasunnuhátíðinni, nú innan skamms. Þessir þrír atburðir, fæðing, upprisa og úthelling andans eru í raun einn samhangandi atburður sem segir okkur þetta: Guð hefur komið með nýtt hjarta, ný viðmið, nýtt líf, andlegt líf. En þetta andlega líf er um leið holdlegt ef svo má segja, efnislegt. Eða með öðrum orðum: andi og efni sameinast. Guð glæðir efnið lífi, umbreytir allri sköpuninni, endurfæðir okkur fyrir kraft heilags anda. Kristin trú er ótrúlega holdleg!

Guð glæðir efnið lífi

Jesús er að tala um þetta undur í guðspjalli dagsins. Hann er að kveðja fylgjendur sína. Það er þeim til góðs að hann fari, segir hann. Þeir verða að læra að standa á eigin fótum, treysta andanum í eigin brjósti. Við erum í sömu sporum og þeir sem fyrstir fengu andann. En andi Guðs í brjósti manns getur ekki starfað óháður orði Guðs. Þess vegna verðum við að heyra orðið, hlýða á það útlagt, syngja um það, tilbiðja Guð, taka þátt í himneskri veislu hans í messunni, neyta gjafa hans og njóta. Þannig getur orðið og andinn leitt okkur og frelsað. Andi og efni í einingu.

Ertu andleg persóna? Hvers vegna kemur þú til kirkju? Er það til að leita hins andlega? Líklega er svarið já við þessum spurningum. En svarið sem trúin gefur okkur í leitinni að ljósi og sannleika felst í því að snúa aftur til hins efnislega, til daglegs lífs og þar eigum við að umfaðma fólk af holdi og blóði, efnislegt fólk. Við eigum að njóta gjafa jarðar, mats og drykkjar, efnislegra gæða, í þakklæti og af tilbeiðslu til Guðs. Efnið er helgað af Guði. Þurfamaður ert þú mín sál, þiggur af Drottni sérhvert mál, fæðu þína og fóstrið allt, fyrir það honum þakka skalt, kvað sr. Hallgrímur.

Andlegur sannleikur í efninu

Í umgengni við efnið, við aðra menn, mun Guð leiða okkur í sannleikann um lífið og sá sannleikur er fólginn í því að lifa lífinu, njóta lífsins í þjónustu við lífið, í þjónustu við fólk af holdi og blóði. Er það ekki dásamlegt að veröldin og hið efnislega er helgað af Guði? Jólin eru hátíð holdtekjunnar, hátíð þess viðburðar að Guð gerðist maður. Veröldin er Guði þóknanleg. Guð elskar þennan heim. Hann elskar trén og blómin, malbikið og málninguna, húsin og göturnar, matinn og drykkinn sem við neytum, leikina sem við tökum þátt í, menninguna sem svellur af lífi, veislurnar heima og að heiman, ferðalögin, vináttuna, meira að segja holdlegan unað og jafnvel sjálft kynlífið. Lífið er gjöf Guðs en því ber að lifa með ábyrgum hætti, með því að umgangast jörðina af varúð og fólk af einstakri alúð. Ekkert af því sem nefnt var á nafn má hlutgera eða gera að skurðgoði. Við megum aldrei misnota aðra manneskju eða gera hana að verslunarvöru eða staðalímynd eins og t.d. er gjarnan gert við konur þegar þær eru notaðar, misnotaðar, til að auglýsa söluvöru. Allt slíkt er saurugt í augum Guðs. Og postulinn segir í pistli dagsins: „Leggið því af hvers konar saurugleik og alla vonsku og takið með hógværð á móti hinu gróðursetta orði, er frelsað getur sálir yðar.“

Himnesk sameining efnis og anda

Við finnum ekki lífið með því að flýja lífið, við finnum ekki sannleikann með því að hafna hinu efnislega og ætla að lifa í einhverjum andlegum heimi sem flýr hið daglega líf. Við getum ekki flúið út í eyðimörk og gerst einsetumenn. Guð er ekki þar. Hann er hér, mitt í mannlífinu, á götum og torgum, hér í Vestubænum, Guð á þorpsgötunni, Gott im Dorfe eins og þýski guðfræðingurinn orðaði það.

Orð Guðs og sakramenti smjúga inn í sálu okkar og líkama. Við heyrum orðið og neytum brauðs og víns sem felur í sér líf og starf Jesú Krists, holdtekju hans á jörðu, kenningar hans, dauða og upprisu, eilíft líf og himinn Guðs. Allt er það gjöf Guðs.

Lífið er veisla. Njótum og neytum með ábyrgum hætti. Guð er góður og lífið er gott!

Dýrð sé Guði, föður og synir og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.