Hver mun velta steininum?

Hver mun velta steininum?

fullname - andlitsmynd Gunnar Kristjánsson
27. mars 2005
Flokkar

Þá er hvíldardagurinn var liðinn, keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum?

En þegar þær líta upp, sjá þær, að steininum hafði verið velt frá, en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju og þær skelfdust. En hann sagði við þær: Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjá, þarna er staðurinn, þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann, eins og hann sagði yður. Mark 16.1-7

Enn er myrkur þegar konurnar halda út fyrir borgina, það læðist í spor þeirra þar sem þær nálgast gröfina. Það var einnig myrkur í sál þeirra þegar þær lögðu af stað og umræðuefni þeirra á leiðinni virðist hafa verið steinninn þungi, hann hvílir á þeim eins og mara enda er Golgata ennþá í hugum þeirra. Þær bjuggust ekki við neinu óvenjulegu.

Eins og aðrir dagar hefst páskadagur í myrkri næturinnar. Páskarnir hefjast í myrkri við gröf dauðans. En brátt roðar sólin austurhimininn. Páskar fjalla um átök ljóss og myrkurs, lífsins og dauðans.

Konurnar hugga sig við ilm blómanna, sem þær halda á, en svo beinist kvíði þeirra aftur að steininum: “Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum?” Þannig ritar Markús.

Hann slær hér sinn eigin streng í þessari elstu páskafrásögn guðspjallanna. Í knappri sögu sinni teflir Markús steininum fram af stílfræðilegri ástæðu. Hinir guðspjallamennirnir fóru síðan að dæmi hans. Steinninn vísar til hinna þungu tilvistarspurninga sem vakna með konunum og lærisveinahópnum öllum. Hann er táknmynd fyrir fargið sem hvílir á þeirra eigin hjarta: hvað verður nú þegar þessu mikla ævintýri er lokið, þessari stuttu sögu sem breytti lífi hópsins frá Galíleu? Hvað verður nú um okkur og um málstaðinn sem olli svo miklu uppnámi og gaf svo mörgum nýja von?

Svipaða táknmerkingu steinsins þekktu Grikkir til forna. Sísifosi konungi í Korintuborg var refsað fyrir að leika á dauðann. Á hann var lagt að velta þungum steini upp fjallshlíð, en steinninn valt jafnharðan niður aftur þegar hann nálgaðist brúnina og þannig án afláts í það óendanlega. Steinninn er ímynd hins þunga oks forgengileika og dauða sem maðurinn ber frá vöggu til grafar.

Í frásögn Markúsar kveður skyndilega við nýjan tón; steinninn fær nýtt hlutverk: óttinn er ekki lengur táknmið hans heldur vonin, hann er ekki lengur merkingarberi kvíðans heldur ímynd gleðinnar, nú er það ekki lengur okið sem hann vísar til heldur lausnin: “En þegar þær líta upp, sjá þær, að steininum hafði verið velt frá, en hann var mjög stór.” Steinninn er orðinn partur af nýju fagnaðarerindi fyrir þennan heim.

Því fór samt fjarri að læriveinarnir og aðrir, sem með þeim voru, hafi tekið þeim fagnandi þegar þær fluttu tíðindin um steininn og gröfina, síður en svo. Tómas neitaði að trúa og hann var ekki sá eini. Mattheus ritar alveg undir lok guðspjallsins þessa umhugsunarverðu athugasemd sem á við um upprisu Jesú meðal annars, hann segir: “... sumir voru í vafa”. Hann er að tala hér um lærisveinana, þá sem stóðu næst Jesú, innsta hringinn. Sumir þeirra voru í vafa, þrátt fyrir upprisuna. Kannski var Mattheus sjálfur í vafa, kannski ert þú í vafa hlustandi góður. Og hvað um Jesúm sjálfan: efaðist hann á krossinum þegar hann hrópaði í örvæntingu: Guð minn hví hefur þú yfirgefið mig?

Efinn er samofinn frásögnum guðspjallanna og gefur upplýsingar um viðbrögð lærisveinanna við sögum af upprisu Jesú og birtingu hans eftir upprisuna. Raunar er efinn samofinn trúnni, því að engin trú er hugsanleg án efa – og skyldi nokkur efi vera til án trúar? Trú er ekki í því fólgin að leggja trúnað á hvaðeina sem sagt er og þaðan af síður að afneita heilbrigðri skynsemi.

Aftur á móti felst trúin í því að vera gagntekinn af spurningunni um trúna, geta ekki sleppt henni, koma að henni aftur og aftur, allt lífið. Þannig var trú lærisveinanna, þeir trúðu – en þeir efuðust líka.

Hinn upprisni birtist sumum lærisveinunum og sumir snertu hann – en samt voru þeir í vafa. Engu að síður urðu páskarnir til þess að snúa dæminu við, allt breyttist, lærisveinarnir voru gagnteknir nýjum krafti og þeir urðu farvegur hins nýja í þessum heimi. - Hvað er það?

Sumum finnst trúin vera farvegur hins gamla, jafnvel úreltra sjónarmiða. Þeim finnst trúin vera sá vettvangur í lífi mannsins þar sem hann varðveitir – og stendur vörð um – það sem alltaf hefur verið, þar verjist maðurinn nýrri þekkingu og nýju áreiti og þar að auki sé trúin – og trúarbrögð almennt – oft gróðrarstía fordóma og jafnvel ofstækis. Oft getur svo verið, en er það þá ekki vegna þess að maðurinn sjálfur, lokaður inni í sínum litla heimi, hefur lagað trúarbrögðin nað sjálfum sér, þetta þekkjum við úr kristinni trú ekki síður en öðrum trúarbrögðum.

Þegar betur er gáð til sögu og samtíðar er trúin einmitt farvegur hins nýja, hún er umbyltandi afl sem losnar sífellt úr læðingi, endurskapandi kraftur sem ögrar kyrrstöðu og fastheldni við það sem úr sér er gengið aftur og aftur með ýmsum hætti í tvöþúsund ár. Þegar við horfum á Jesúm og lærisveina hans leynir það sér ekki að þar er hópur sem vill leysa manninn úr lokuðum heimi til nýs skapandi og gefandi lífs.

Páskarnir eru hátíð hins óvænta og nýja. Páll postuli túlkar páskana sem nýja sköpun. Páskarnir eru umbrot nýrrar sköpunar, það er hans guðfræði. Ný birta skín inn í myrkur grafarinnar þar sem ekkert líf er, ný von kviknar með lærisveinunum óttaslegnu. Páskasólin er vísun í orð sköpunarsögunnar “verði ljós”.

Einmitt á páskum stendur þessi hugrakki og róttæki hópur á tímamótum. Jesús og flokkur hans hafði reynt á þolrifin hjá trúarleiðtogum og ögrað stjórnvöldum, og þeir höfðu einnig gengið fram af almennum borgurum. Hið nýja er ögrandi.

Í eftirfarandi orðum úr nýlegri ævisögu, þar sem vitnað er í orð söguhetjunnar á páskum 1963 er eitt dæmi, þar segir: “Jesús er upprisinn, þessi dagur einkennist af gleði og þakklæti, á þessum degi gerðist afdrifaríkasta bylting sögunnar, bylting sem snýst um ást og umhyggju… , um allsherjarnávist guðdómsins í lífi mannsins; þessi hátíð merkir frelsun mannsins frá kúgun og ofbeldi en hún felur í sér skuldbindingu við mannúð og mennsku.”

Þessi orð skrifaði ungur stúdent, sem síðar varð ímynd 68-byltingarinnar, stúdentaleiðtoginn Rudi Dutschke (1940-1979) sem varð fyrir tveim byssukúlum sem þutu gegnum heilann og skildu eftir sig ógræðanleg sár. Þetta gerðist á útifundi á skírdag 1968, í sama mánuði og Martin Luther King féll fyrir byssukúlu annars ofstækismanns sem þoldi ekki heldur hinn kjarnmikla boðskap um réttlæti og mannúð.

Stúdentaleiðtoginn Rudi Dutschke átti hins vegar rúman áratug ólifaðan við miklar þjáningar. En vonina um betra þjóðfélag missti hann aldrei, vonina um réttlátt og skapandi samfélag. Hann lést á aðfangadag jóla 1979.

Eins og páskasólin skein inn í myrkur grafarinnar þannig verður vonin til í myrkri vonleysisins. Páskarnir eru hvatning til nýrra verka og meira en það: Hvatning til að leggja mikið í sölurnar fyrir þann dýrmæta málstað sem þeir snúast um. Litli hópurinn í Jerúsalem, sem beið í ótta og örvæntingu bak við læstar dyr á páskadagsmorgun, er kallaður til nýs hlutverks, hér er vaxtarsproti nýs samfélags sem óttast hvorki konunga né keisara því að einn er konungur hans og það er Jesús. Hér sitja allir við sama borð, borð kvöldmáltíðarinnar, þangað sem aðgangur er öllum opinn, háum sem lágum, Gyðingum og Grikkjum. Hér er ekki gerður greinarmunur á konum og körlum, kynþættir skipta engu og börn eru hafin til vegs og virðingar. Þannig eru lýsingarnar.

Þetta er hið nýja samfélag, þetta er páskahópurinn sem kennir sig við Jesúm Krist sem er mitt á meðal þeirra, upprisinn í hjörtum þeirra. Framgang hins hugrakka samfélags fékk ekkert hindrað, það leggur af stað aftur og aftur, óbundið öllum jarðneskum hagsmunum, brennandi í andanum. Það sýnir sagan.

Þetta skapandi samfélag páskanna er líka prófsteinn á kirkjuna á hverjum tíma: er hún samfélag eins og það var í öndverðu, er hún athvarf þeirra sem skapandi eru, er hún vettvangur hinna hugrökku, skjól þeirra sem ryðja brautina, athvarf hugsjónamanna, vígi hinna róttæku byltingarmanna sem feta óttalaust í fótspor Jesú og litla hópsins frá Galíleu? Er faðmur hennar opinn fyrir þeim sem lifa á jaðrinum í samfélaginu, sem berjast fyrir rétti sínum, sem leita logandi ljósi að mannúð og mennsku í hörðum og miskunnarlausum heimi?

Skapandi erum við þegar við þorum að halda út í óvissuna, þegar við greiðum nýjum hugmyndum veg. Í sköpuninni er líf, í kyrrstöðunni er dauði.

Gleði páskanna felst í því að segja “já” við lífinu, sínu eigin lífi og annarra. Gleðin kostar ekkert, hún felst í lífsafstöðu, í skapandi lífsviðhorfum þar sem við lærum að nýju að njóta þess sem einfalt er.

Segjum “já” í huga okkar við leikjum barnsins, við lífsþrá unglingsins, stöndum með þeim sem þora að tjá eigin skoðun þrátt fyrir andstöðu, stöndum með þeim sem eru í minnihluta gegn ofurvaldi meirihlutans, verjum rétt hins smáa á tímum sem hefja sigurvegarana á stall, styðjum þá sem leita þess sem satt er, fagurt og gott á tímum sem hneigjast til sýndarmennsku.

Málið snýst um návist Guðs í lífi mannsins, um nýja von í þessum heimi, einnig í lífi fanganna í Abu Ghraib fangelsinu við Bagdhad sem stóðu uppi á kassa með poka yfir höfðinu og rafleiðslur festar á útlimi og kynfæri og hlustuðu á hæðnishróp þeirra sem stóðu umhverfis, sumir með myndavél í höndum, þarna er Golgata nútímans. Páskarnir eru boðskapur til allra þeirra sem líða og þjást í myrkri vonleysis og haturs í þessum heimi, til þeirra sem allar einkaþotur sveigja hjá og enginn minnist, til þeirra sem hafa lokast inni í eigin heimi. Páskarnir snúast um að brjóta vald dauðans á bak aftur, vald haturs og hefnda, miskunnarleysis og harðneskju. Páskarnir eru hátíð sem á morgunsólina að tákni, hina sterku birtu sem hrekur myrkrið á braut.

Málið snýst um að vera gagntekinn af þeim spurningum sem trúin sýst um: hvað er lífið, til hvers lifi ég? Og að vera gagntekinn af Jesú sem óþrjótandi uppsprettu mannúðar og mennsku. Boðskapur páskanna er tækifæri, sem vekur þessi viðbrögð, “já”, ég er tilbúinn til að leggja hinum skapandi öflum lið, ég er tilbúinn til að ganga til hinna umkomulausu, til hinna óttaslegnu, til hinna fátæku.

Í ævintýrinu Næturgalinn eftir H.C. Andersen bægði næturgalinn dauðanum úr hjarta keisarans með söng sínum. Kannski er skáldið að tala þarna um upprisuna, söngur fuglsins, sem kenndur er við nóttina, kemur til keisarans um nótt með söng sinn og hrekur dauðann úr hjarta hans.

Það er einnig inntak páskanna, það er boðskapur um nýja og óvænta gleði sem nær dýpst inn í vitund mannsins, til vitundar hans og vilja, til alls þess besta sem býr í hjarta hans. Hið nýja vekur löngun mannsins til góðra verka, til nýrrar löngunar til að tjá sig og eiga samfélag við aðra um góð verk í rökkvuðum heimi. Mælikvarðinn á mannúð og mennsku er sá mælikvarði sem Jesús lagði sjálfur með sínu eigin fordæmi: með umhyggju, miskunnsemi og sáttfýsi. Páskarnir leysa manninn úr viðjum dauðans, úr helgreipum hins gamla og forgengilega, undan oki hins ímyndaða öryggis hins viðtekna þar sem hann tortryggni til hins nýja liggur við hvert fótmál.

Líkt og næturgalinn bægir dauðanum úr hjarta keisarans koma páskarnir með nýtt hugrekki til að lifa á öld kvíðans, á tímum ofbeldis þegar hinn hörðu gildi hafa framgang.

Þess vegna eru þeir hátíð gleðinnar, þess vegna er litur þeirra gulur, þess vegna gleðjumst við og fögnum á þessari lífsins og vorsins hátíð.

Amen.

Dr. Gunnar Kristjánsson er prestur á Reynivöllum og prófastur í Kjalarnessprófastsdæmi. Flutt í útvarpsmessu á páskadegi, 27. mars 2005. Textar: Textar: Sálm 118:14-24; 1.Kor. 15.1-8a; Mark. 16.1-7.