Enginn hroki er í elskunni

Enginn hroki er í elskunni

Spekingar og hyggindamenn eru líklega samnefnarar yfir okkur manneskjurnar þegar við teljum okkur vita allt, þegar við teljum okkur hafa rétt fyrir okkur, þegar við teljum okkur hafa höndlað sannleikann. Elskan og hrokinn fara nefnilega illa saman.

Biðjum:


Ljósfaðir, viltu leiða mig,

ljá mér þinn sterka arm,

svala þorsta' og sefa harm,

í sannleika skapa undur ný,

beina mér birtuna í. (Sálmur 728:4) Amen.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Dómur

 

Í trúarjátningunni segjum við eftirfarandi, um Jesú Krist:

 

... mun koma aftur að dæma lifendur og dauða.

 

Ég skil þennan texta þannig að Kristur sé stöðugt að koma, hann er ávallt nærri og dæmir lifendur og dauða. Nú á þessari stundu, í gær, í dag og á morgun.

 

Dæmir.

 

Hver er dómur Krists?

 

Dómur Krists liggur sem rauður þráður í gegnum Biblíuna alla. Dómurinn er kærleiksdómur.

Heimurinn er dæmdur til að vera elskaður af Guði. Við erum öll dæmd til að vera elskuð af Guði, Guð elskar þig og mig. Guð elskar heiminn.

 

Það er staðan. Elskan krefst síðan tengsla, eins og við þekkjum úr mannlífinu. Kærleikurinn virkjast þegar við ræktum tengsl, heilbrigð, lífgefandi tengsl. Guð elskar okkur, það er upphafsstefið og svo er það okkar að bregðast við því, svara því kalli, eða ekki, viljum við tengjast Guði?

 

Verk Krists í heiminum

 

Guðspjallatexti dagsins er hreint dásamlegur. Þarna eru ein frægustu stefin um nærveru Jesú Krists, hann segir m.a.: „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“

 

Þessi texti, þessi orð Jesú, eru ákall um nærveru, samfylgd, samfélag. Þarna birtist einnig loforð um að hann muni veita okkur hvíld, hvíld í sálinni.

 

Það er reynsla margra í nútímanum að við erum þreytt á sálinni. Það virðist vera reynsla kynslóðanna einnig, því þessi texti er nær 2000 ára gamall og svo virðist sem það hafi verið samtímafólki Jesú mikilvægt að heyra þennan boðskap. Heyra boðskapinn um nærveru Guðs og hvatningu þess efnis að maðurinn finni hvíld í sálinni.

 

Þarna rétt á undan í guðspjallinu talar Jesús um verk sín hér í heimi, hann rifjar upp með lærisveinum sínum hvað hann er búinn að gera í heiminum:

 

„Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi.“

 

Sannarlega undur, þau verk sem Kristur vann og vinnur í heiminum. En svo segir hann í framhaldinu:

 

Frá dögum Jóhannesar skírara og til þessa er ríki himnanna valdi beitt og árásarmenn reyna að hremma það.

 

Vald og árásarmenn. Hvorugt á pláss í ríki himnanna, samkvæmt þessu, því aftur, Guð elskar heiminn. Valdníðsla og árásir eiga ekki heima í elskunni, eðli elskunnar er að hún blómstrar í tengslum, en ekki þar sem valdi er beitt eða árásum.

 

Auðmýkt og mildi

 

Leiðin að tengslum við Guð, er í gegnum auðmýkt og mildi. Auðmýktin og mildin opna fyrir nándina, nándina við kærleiksríkan Guð.

 

Við þekkjum það úr okkar eigin samskiptum, þar sem við erum í kærleiksríkum tengslum, þar sem ástin blómstrar, þar sem lífið er hvað dýrmætast. Við komumst þangað gjarnan í gegnum berskjöldun, þ.e. ekki með því að hafa allt á hreinu og vita allt best, heldur með því að kannast við brestina í okkar eigin lífi, deila þeim með þeim sem okkur eru kærastir, og reyna að mætti að verða betri í dag en í gær. Þar sem við viðurkennum frekar bjálkann í eigin auga, í stað þess að vera upptekin af flísinni í auga náungans.

 

Auðmýkt og mildi eru gjarnan leiðirnar að farsælum tengslum, þegar um er að ræða elsku og dýpt tengsla og samskipta. Þegar við opnum okkur fyrir þeim aðila sem er okkur kærastur, gerist eitthvað mikilvægt í okkar eigin hjarta og lífi, við verðum heilli, við verðum sannari.

 

Í þessu samhengi skil ég orðin, í guðspjalli dagsins um spekingana og hyggindamennina.

Jesús segir:

 

þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum.

 

Hulið einhverjum, af hverju?

 

Þessi djúpi og ómetanlegi sannleikur um Guð, sem elskar, sem vill vera í tengslum, sá sannleikur er hulinn spekingum og hyggindamönnum, eins og þeir eru kallaðir í þessum forna texta.

 

Spekingar og hyggindamenn eru líklega samnefnarar yfir okkur manneskjurnar þegar við teljum okkur vita allt, þegar við teljum okkur hafa rétt fyrir okkur, þegar við teljum okkur hafa höndlað sannleikann. Elskan og hrokinn fara nefnilega illa saman.

 

Gríski heimspekingurinn Sókrates fann hvað hann vissi lítið, með aukinni þekkingu. Eftir því sem hann öðlaðist meiri þekkingu, fann hann hvað hann skorti mikið.

 

Ég tel að þetta tengist þessu.

 

Þetta tengist einnig þeim orðum sem finna má í Biblíunni, í Orðskviðum Salómons er segir: „Að óttast Drottin er upphaf spekinnar og að þekkja Hinn heilaga er hyggindi.“ (Orðskviðirnir 9:10)

 

Spekingar og hyggindamenn í þessu samhengi, þurfa ekki á neinum öðrum að halda. Þeir eru ekki að leita að neinum tengslum, því þeir hafa þetta allt á hreinu.

 

Smælingjarnir, eins og þeir eru kallaðir í þessu texta, þrá tengsl. Þeir hafa þörf fyrir tengsl, þess vegna blasir þessi sannleikur við okkur, manneskjunum, þegar við líðum skort, þegar skóinn kreppir í lífinu, þegar við höfum ekki allt á hreinu.

 

Hvaða manneskja er í þessu samhengi annað en smælingi?

Þegar við horfum til þess hve líf okkar er smátt miðað við heiminn, tímann og eilífðina. Þegar við sjáum okkur í hinu stóra samhengi lífsins, undrumst þetta líf sem við fáum að lifa, fjölbreytileika þess og stærð, allt það getur maðurinn aldrei haft á hreinu.

 

Er augu okkar opnast fyrir þeim kærleikans dýptum þá hljótum við að undrast, við hljótum að þakka, við hljótum að þrá tengsl við þann algóða, kærleiksríka Guð, sem er allt í öllu, sem er í öllu, yfir öllu, undir öllu, yfir og allt um kring, og einnig í hjarta þínu.

 

Bænin

 

Andsvar mannsins við þeim tengslum er síðan bænin. Bænin er andvarp okkar til Guðs sem trúin okkar segir að sé með okkur alla daga, allt til enda veraldar.

 

Sá Guð vill bera með okkur þungann í lífinu og erfiðið. Sá Guð vill veita okkur hvíld, eins og segir í texta guðspjallsins, þessum dásamlega texta Jesú um nærveru:

 

Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“

 

Stundum finnum við þá nærveru eftir á. Ef við höfum staðið í ströngu, upplifað missi eða sorg, eða annað sem lífið ber til okkar, þá gæti reynsla okkar verið svipuð og sú sem Sigurbjörn Einarsson biskup setti fram í sálmi einum, sem hljóðar svo:

 

1 Mig dreymdi mikinn draum: Ég stóð

með Drottni háum tindi á

og horfði yfir lífs míns leið,

hann lét mig hvert mitt fótspor sjá.

 

2 Þau blöstu við. Þá brosti hann.

„Mitt barn,“ hann mælti, „sérðu þar,

ég gekk með þér og gætti þín,

í gleði’ og sorg ég hjá þér var.“

 

3 Þá sá ég fótspor frelsarans

svo fast við mín á langri braut.

Nú gat ég séð hvað var mín vörn

í voða, freistni, raun og þraut.

 

4 En annað sá ég síðan brátt:

Á sumum stöðum blasti við

að sporin voru aðeins ein.

Gekk enginn þá við mína hlið?

 

5 Hann las minn hug. Hann leit til mín

og lét mig horfa´ í augu sér:

„Þá varstu sjúkur, blessað barn,

þá bar ég þig á herðum mér. (sálmur 585)

 

Bænin skiptir máli


Í þessu samhengi skiptir bænin máli, hún er stundum eina svarið, svarið sem róar taugarnar, róar mannshjartað, veitir sálinn hvíld.

 

Kolbeinn Tumason kvað í þriðja erindi sálmsins Heyr himnasmiður:

 

Gæt, mildingur, mín,

mest þurfum þín

helst hverja stund

á hölda grund.

Set, meyjar mögur,

máls efni fögur,

öll er hjálp af þér,

í hjarta mér. 

 

Kynslóðirnar sem gengið hafa á undan okkur hér á Íslandi báru til okkar þessa rúmlega átta hundruð ára gömlu bæn. Hún fékk nýja vængi við hið magnaða lag Þorkels Sigurbjörnssonar, eins og við þekkjum. Og þótt aldirnar skyldu þá Kolbein og Þorkel að, er líkt og Heilagur andi hafi saumað lag og texta saman.

 

Þegar óvissa ríkir líkt og á Reykjanesi og í Grindavík um þessar mundir þá er bænin mikilvæg. Bænin virkjar tengsl við þann Guð sem veitir sálum okkar frið.

 

Við skulum sameinast í bæn fyrir Grindvíkingum. Sameinast í þeirri bæn að góður Guð bægi allri hættu frá, verndi íbúa og innviði og byggð í Grindavík og á Reykjanesi. 

 

Jesús segir í orðum sínum í Matteusarguðspjalli: "Ef tveir yðar verða einhuga hér á jörð í bæn sinni mun faðir minn á himnum veita þeim allt sem þeir biðja um. Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra."

Bænin er því máttug, hún veitir huggun í sorg, hún veitir ró þar sem óvissan ríkir, hún gefur ljós þar sem myrkur er, hún eflir félagsauðinn og kærleikann í samfélaginu. Tökum öll þátt í því að biðja fyrir Grindvíkingum á þessum óvissutímum. 

 

Öll skulum við jafnframt biðja fyrir hvert öðru, biðja fyrir friði í heiminum, biðja fyrir því að við finnum nærveru Guðs og elsku í lífi okkar miðju.

 

Megi það vera reynsla þín í dag og alla daga.

 

Í Jesú nafni, amen.

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verðu um aldir alda. Amen.

 

    Samskot til Hjálparstarfs kirkjunnar

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen. 


    Prédikun flutt í Grensáskirkju á næstsíðasta sunnudegi kirkjuársins, 19. nóvember 2023