Við sama borð

Við sama borð

Ég hef óskaplega gaman af því að fara í veislur. Og ég hef líka gaman af því að halda veislur. Fátt er skemmtilegra og meira gefandi en að sitja til borðs með fjölskyldunni eða góðum vinum og njóta góðrar máltíðar saman.
fullname - andlitsmynd Arna Ýrr Sigurðardóttir
21. apríl 2011

Brauð

Ég hef óskaplega gaman af því að fara í veislur. Og ég hef líka gaman af því að halda veislur. Fátt er skemmtilegra og meira gefandi en að sitja til borðs með fjölskyldunni eða góðum vinum og njóta góðrar máltíðar saman, eiga uppbyggilegar samræður sem styrkja tengslin og næra sál og anda.

Í kirkjunni förum við líka í veislu. Altarisgangan, sem Jesús stofnaði við síðustu kvöldmáltíðina er veisla. Og þar sitja allir við sama borð. Altarisgangan er borðsamfélag þar sem allir eru velkomnir, háir og lágir, ríkir og fátækir, stórir og smáir. Og allir verða jafnir, við deilum kjörum hvert með öðru. Í altarisgöngunni er það nefnilega ekki eins og í fínum veislum, þar sem sumir sitja við háborðið og svo er öðrum raðað eftir mannvirðingum, við borð Drottins eru allir jafnir. Og við þiggjun andlega næringu sem styrkir okkur í trúnni.

Um þessar mundir eru fermingarveislurnar í algleymingi. Oft hefur verið fárast yfir fermingunum og fermingarveislunum, blessuð börnin eru jafnvel sökuð um að fermast einungis út af gjöfunum og svo framvegis. Ég veit ekki hversu mikið er til í því, það er áreiðanlega eins misjafnt og börnin eru mörg. En ég veit það að mér finnst ekkert að því að halda veislu og gefa gjafir.

Ég minni fermingarbörn alltaf á að veislan og gjafirnar eru til merkis um hversu dýrmæt þau eru fólkinu sínu og að fólkið þeirra vill fagna þeim og heiðra þau sem hluta af fjölskyldunni. Og fátt er mikilvægara ungu fólki sem er á þeim stað í þroskaferlinu að slíta sig sem mest frá fjölskyldu sinni og öðlast sjálfstæði, en að vera minnt á að fjölskyldan er sá staður þar sem er best að vera, hvergi hefur maður sama sess og í fjölskyldunni, hvergi er maður jafn dýrmætur.

Og eigum við að hætta að halda veislur, ef okkur finnst of mikið bruðlað og sóað? Það, hvernig við gerum okkur dagamun, endurspeglar einungis það hvernig við lifum lífinu hversdags. Ef við erum hófsöm og gætin dagsdaglega, erum við það einnig í veisluhöldum.

Ef við bruðlum og erum með óhóf í veisluhöldum, eru allar líkur á að þannig sé lífsstíll okkar yfirleitt. Ef okkur finnst „fermingastússið“ vera komið út í öfgar, þá þurfum við að skoða það hvernig við lifum lífinu hversdags, skoða gildin okkar og forgangsröð. Ekki taka andköf og ásaka blessuð fermingarbörnin um græðgi og óhóf. Og fyrir alla muni, ekki kenna Jesú um!