Spilavíti! er það ekki eitthvað sem okkur bráðvantar inn í þetta þjóðfélag til þess að trekkja að ferðamenn og fá gjaldeyri inn í landið? Fóstbræðurnir Gullfoss og Geysir eru náttúrulega börn síns tíma, það eru takmörk fyrir því hversu oft maður nennir að fylgjast með vatni gjósa upp í himininn eða falla með þunga til árinnar. Og svo er líka mannlífið hérna orðið alveg drepleiðinlegt, allir í fýlu af því að bankarnir fóru á hausinn og húsnæðislánin hækkuðu meira en Geysir mun nokkurn tímann gera, enginn í stuði til að skemmta ferðamönnum enda er bjórinn svo dýr að það er allt eins hægt að lögleiða kannabisefni og bjóða til sölu í spilavítinu, já heyrðu það er líka hugmynd. Við þurfum fyrst og fremst að ná peningum inn í landið og auka skatttekjur ríkisins og þá þýðir ekkert að vera með einhverja siðferðis viðkvæmni og almenna þröngsýni, hvað þá kristin mannskilning, ef við hefðum hlýtt þeim kellingafræðum í gegnum tíðina, þá værum við ekki búin að afreka eins og raun ber vitni, þá værum við bara í torfkofunum að éta súra punga og drekka mysu, hríðskjálfandi í saggakenndu loftinu. Og vel á minnst ef þessi hugmynd öðlast brautargengi hvers vegna þá að senda fulltrúa Hells Angels úr landi eins og gert var um daginn, þar er náttúrulega um vænlega spilavítiskúnna að ræða sem geta aukið gjaldeyristekjurnar og kannski komið með ýmsar skemmtilega nýjungar inn í samfélagið? Til að fyrirbyggja allan misskilning, þá er ég auðvitað að hæðast að viðfangsefninu. Að sjálfsögðu koma ferðamenn fyrst og fremst hingað til lands til að njóta hinnar einstöku náttúrufegurðar, það vitum við öll. Á dauða mínum átti ég von en að ég ætti einhvern tímann eftir að gera spilavíti að umtalsefni í prédikun er með því ótrúlegasta sem ég hef ráðist í á ritvellinum, en þetta er umræðuefni í þjóðfélaginu núna og fjölmiðlar veita hugmyndinni athygli, forvígismenn hennar ræða málefnið af fullri alvöru og hafa meira að segja sent erindið inn á alþingi. Ef svona hugmyndir verða einvörðungu til þess að skapa siðferðislegar umræður, þá eru þær frábærar, nauðsynlegar og menntandi en ef þær verða að veruleika, þá eru þær hræðilegar. Einu sinni sat ég kúrs í háskólanum sem hét hagnýt siðfræði þar sem rætt var um nánast öll hugsanleg siðferðisefni mannlífsins, dauðarefsingar, vændi ofl sem fólk hefur mjög sterkar skoðanir á og það var mjög menntandi að þurfa að gera grein fyrir skoðunum sínum með yfirveguðum hætti, ekki bara með hjartanum heldur líka höfðinu og þar höfðum við líka vel menntaðan og reynslumikinn kennara sem kunni að stilla fólki upp við vegg og krefjast skýringa og raka. Það er m.ö.o mjög gott að þurfa að útlista skoðanir sínar, ekki hvað síst á því sem maður hefur megnustu skömm á, það er gott að vera krafinn um dýpri málflutning en bara “ég er á móti þessu af því að þetta er ekki rétt”. Vissulega hóf ég prédikunina á háði en nú ætla ég að koma mér útúr þeim fasa og fjalla um spilavíti út frá kristnum mannskilningi og guðspjalli dagsins sem opinberar þann skilning hvað best. Guðspjall dagsins fjallar um skírn Jesú, atburður sem markar upphaf guðsríkisins sem Jesús skapaði með lífi sínu, dauða og upprisu. Jesús var fæddur gyðingur og þegar hann var átta daga gamall var hann umskorinn samkvæmt hefðum gyðinga og um leið gefið nafnið Jesús þá fóru þessir tveir atburðir saman líkt og við skírn ungbarna í dag þar sem nafn þeirra er gjarnan nefnt fyrsta sinn, það er gert til að undirstrika það að Guð þekkir sérhverja manneskju með nafni, að hún er ekki bara kennitala í hans huga. Sérhvert barn sem við færum til skírnar öðlast hlutdeild í sjálfum hjálpræðisatburðinum, lífi, dauða og upprisu Jesú, þannig er öllu réttlæti fullnægt, Guð lýsir því yfir við hverja skírn. En hvað þá með Jesús, hvaða merkingu hefur hans eigin skírn, hann sem átti eftir að vinna sjálft hjálpræðisverkið fyrir okkur mannfólkið? Meira að segja spámaðurinn Jóhannes spyr þeirrar spurningar í undrun þegar hann segir “mér er þörf að skírast af þér og þú kemur til mín!” en þá svarar Jesús honum með eftirfarandi orðum, “lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.” Í þessum látlausu orðum felst djúpur veruleiki sem kallast kristinn mannskilningur, með þessum orðum í samhengi athafnarinnar þar sem Jesús beygir sig niður, lýtur höfði og þiggur og í samhengi orðanna sem komu frá himninum “Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á” er okkur gert ljóst að hin heilaga þrenning, faðir, sonur og heilagur andi hefur velþóknun á manneskjum og að réttlætið sem Jesús vísar til snýst um að líf og velferð náungans sé ekki hans einkamál eða vandamál heldur varði það samfélagið í heild. Í augum Guðs er enginn maður eyland.
Rökin sem liggja að baki spilavítishugmyndinni eru þau að hér á landi sé hvort eð er verið að stunda fjárhættuspil í skjóli nætur eða nets og með því að lögleiða fyrirbærið megi frekar halda utan um það með jákvæðum afleiðingum. En út frá hvaða hagsmunum kviknar hugmyndin? Jú út frá gróðahagsmunum en ekki almannahagsmunum. Og af hverju held ég því fram? Vegna þess einfaldlega að ég veit að þessi tiltekna iðja kveikir og viðheldur fíkn sem er mannskemmandi og hefur alvarleg áhrif á heilu fjölskyldurnar, bæði andlega og fjárhagslega. Og í dag er efnahagsástand þjóðarinnar með þeim hætti að hugmyndin um skjótfengin gróða getur hæglega fóðrað örvæntinguna. Hvers vegna í ósköpunum þarf alltaf að vera að ögra velferð manneskjunnar. Hvað er þá næst, á að lögleiða vændi með góðu eftirliti? Er það næsta afþreying sem Ísland ætlar að bjóða ferðamönnum? Hvað spilavítin varða þá stöndum við líka frammi fyrir þeirri spurningu hvort það sé yfirhöfuð siðferðilega verjandi að spila með peninga, sérstaklega þar sem þriðji aðili græðir hvernig sem fer. Við stöndum í raun í rústum efnahagskerfis sem var rekið eins og spilavíti og þeir sem töpuðu mest voru þeir sem höllum fæti stóðu fyrir hrun, hið sama mun gilda um spilavíti í sölum reykvískra hótela, þar munu sömu hópar tapa mest. Ástæðan fyrir því að íslenskt efnahagslíf hrundi er sú að réttlætinu var ekki fullnægt, það var fótum troðið í blindri von um skjótfenginn gróða, hugmyndin um spilavíti er sprottin af sama meiði. Þess vegna er hugmyndin ekki aðeins í eðli sínu slæm, hún er svo sláandi sorgleg á tímum þar sem þjóðin kallar eftir endurmati á grunngildum samfélagsins, þar sem eina leiðin til græða sárin er að snúa öllum steinum við og hlusta eftir röddum allra þjóðfélagshópa, skapa raunverulegt lýðræðisþjóðfélag. Það skiptir miklu máli hvaðan peningarnir koma, það fyrsta sem við verðum að læra af reynslunni er að skapa heiðarlegan arð, arð sem kemur af mannbætandi sköpun og þjónustu, atvinnustarfsemi sem eykur ekki á þjáningu mannlífsins, með því að leysa upp fjölskyldur og ræna manneskjur ærunni. Og hvers vegna þurfum við alltaf að bera okkur saman við aðrar þjóðir þegar við ætlum að réttlæta siðferðilega vafasöm atriði? Er réttlætingin fólgin í reynslu annarra þjóða? Við erum kristið samfélag og eigum yfir 1000 ára reynslu af því að þekkja og vera samferða Jesú Kristi og þeim gildum sem hann stóð fyrir. Hvað heldur þú að Jesús myndi ráðleggja í þessu máli? Hann myndi spyrja um inntak og afleiðingar fyrir allar manneskjur, er þetta gæfuspor fyrir samfélagið í heild eða bara gróðavon fyrir örfáa aðila? Hugsanlegar skatttekjur sem fengnar eru með þjáningum sem þarf að lina með öðrum skatttekjum, það er að segja ef hægt er að lina og bæta skaðann sem er skeður. Gróðavon má aldrei í lífinu vega þyngra en almannaheill, þetta ættum við Íslendingar að vera búnir að læra Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.” Skírn Jesú er hálfgert hneyksli, þ.e.a.s. í augum þeirra sem voru vitni að atburðinum, meira að segja hinum víðsýna Jóhannesi er brugðið. En það er líka eðlilegt í ljósi þess að vitni atburðarins höfðu ekki sömu yfirsýn og við sem sjáum hann í ljósi dauða og upprisu Jesú, þetta er atburðurinn sem markar upphafið að frelsi hins kristna manns. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti,” þetta eru inngangsorð hjálpsræðissögunnar sem fjallar um almenn mannréttindi, um réttinn til lífs, viðurværis og virðingar. Þetta eru inngangsorðin að sögu sem fjallar um lífgefandi fórn og óþrjótandi elsku. Formáli að sögu þar sem Jesús frá Nasaret sonur Guðs gengur inn í allar mannlegar aðstæður og skeytir engu um skoðun valdhafanna, sagan af því hvernig guðsríki skapast í samskiptum manna, sem þora að horfa í augu fólks og snerta og hlusta. Hvað myndi Jesús ráðleggja? Hann myndi spyrja, mun einhver tapa, mun einhver líða undan valdi? Já þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti, þetta er setning sem við skulum nota sem gleraugu allt lífið. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.