Á öllum tímum hefur ljósi trúar verið varpað á brennandi málefni líðandi stundar. Trúin lifir og hrærist í straumkasti tímans en er ekki lokuð af og á eintali við sjálfa sig. Hún er á vissan hátt samtal; í samtali mannsins við Guð liggja rætur að samtalinu við samfélagið og aðrar manneskjur. Þar skýst fyrst upp á yfirborðið náungakærleikurinn sem svar við hinn frægu spurningu: „Á ég að gæta bróður míns og systur minnar?“ En hann beinist ekki aðeins að manneskjum heldur og nánasta umhverfi. Sjálfri náttúrunni.
Sjálfbærni er leiðarljós
Kirkjuþing 2018 samþykkti þingsályktun um umhverfismál og þar segir
meðal annars: „Lífið og tilveran öll er sköpunarverk Guðs. Lífið er
heilagt og hefur eigið gildi. Manneskjan er hluti af náttúrunni en ekki
yfir hana hafin. Hún ber jafnframt sérstaka ábyrgð vegna stöðu sinnar í
sköpunarverki Guðs samkvæmt gyðing-kristinni hefð. Þeirri ábyrgð fylgir
sú siðferðilega skylda að hlú að öllu lífi. Hlutverk mannkyns er að
yrkja jörðina, vernda hana og næra, og nýta gæði hennar af umhyggju og
virðingu með sjálfbærni að leiðarljósi.“
Ábyrgð manna er mikil og þeir geta ekki valsað um veröldina eins og
himnakóngsins lausamenn. Þvert á móti verða þeir að ganga um náttúruna
sem væri hún hvort tveggja í senn stofa Guðs og prýði, eldhús og
forðabúr. Aldingarður og uppspretta allra lífsins gæða.
Í ljósi þessa var því vel til fundið að verja miklum hluta nýliðinnar
prestastefnu í umræður um umhverfismál. Ekki svo að skilja að kirkjan
hafi þagað um þau mál. Alls ekki. Mjög víða hafa kröftugar umræður verið
um þessi mál úti í söfnuðum og víðar á kirkjulegum vettvangi.
Vonandi hefur prestastefnan blásið afli og eldi, anda og ákafa, í brjóst
þeirra er hana sóttu og þá sérstaklega hvað umhverfismálin snertir.
Gaman var í það minnsta að sjá og heyra að áhugi var mikill á málinu og
umræðan frjó og ekki síst í matar- og kaffihléum. Erindin voru líka mjög
svo áhugavekjandi og gafst ekki kostur á að sækja þau öll, fólk varð að
velja á milli. Vil þó nefna að fyrirlestur dr. Halldórs Björnssonar um
loftslagsbreytingar var einstaklega góður og uppfræðandi, frábær
inngangsfræði í þeim efnum fyrir þau og þar á meðal undirritaðan sem eru
byrjendur í faginu – ef svo má segja.
Sporin okkar
Það hefur aldrei þótt gott að arka inn og spora út um öll gólf. Menn
hafa fengið orð í eyra fyrir slíkt athæfi og ekki nema von. Skipað að
þrífa upp eftir sig. En það hefur hins vegar þótt eftirbreytnivert að
skilja eftir sig spor og þá í jákvæðri merkingu – eitthvað sem er þess
vert að huga að og velta fyrir sér. Draga jafnvel lærdóm af. Svo er ekki
heldur gott til afspurnar að skilja ekki eftir sig nein spor eða standa
ætíð í sömu sporum. Annað hvort ber það vott um dauðyflishátt eða
leynipukur. Ekki má svo gleyma hinu mörgu víxlsporum sem ekki eru
eftirsóknarverð en við stígum engu að síður alltof oft – svo ekki sé nú
minnst á ógæfusporin. Stígum frekar gæfuspor.
Þau eru semsé mörg sporin sem við skiljum eftir hér og þar. Umhverfið
geymir þau – allar tegundir sporanna. Manneskjan getur greinilega ekki
gengið hér leyndardómsfull um garða í trausti þess að enginn sjái til
hennar, góðra verka sem og slæmra, eins og skötuhjúin forðum daga í
umhverfisparadísinni Eden sem varð í skyndilegri nekt sinni litið á skjá
himinsins þar sem reyndar stóð ekki „Error“ heldur annað því skylt:
„Hvar ertu?“.
Allt er skráð þá vel er að gáð, sporin djúp og grunn, smá og stór. Hvílíkur er sá hinn harði diskur!
En við erum hvött til „að spora ekki náttúruna út.“
Vistspor
Í umhverfisfræðinni er talað um vistspor. Æskilegast er að það sé
sem nettast sem svífandi fis ballettfótarins – helst ekki neitt en það
er nú sennilega ógerlegt. Þetta spor er merki sem við skiljum eftir
okkur í umhverfinu án þess að gefa mikinn gaum að því – þetta eru
verksummerki okkar í hversdeginum hvort heldur akstur með aðra hönd á
stýri eins og mjólkurbílstjórinn forðum daga eða kvöldverður þar sem
rauðblæðandi nautasteik hvílir á skreyttum diskinum. Vistsporið mælir
magn náttúrulegra gæða jarðarinnar sem mannkynið notar í neyslu sína.
Gæði jarðar eru með öðrum orðum auðlind sem sótt er í til að fóðra
neyslu okkar. Og allar lindir geta gengið til þurrðar. Ekki þarf að fara
mörgum orðum um tröllslegan neysluham nútímans.
Vistspor þjóðanna eru misstór eins og gefur að skilja. Víða er fullyrt
að vistspor okkar Íslendinga sé býsna stórt miðað við fólksfjölda – það
kemur kannski ekki á óvart – eða hvað? „Stórasta“ þjóð í heimi?
Fólk er semsé hvatt til að skilja eftir sig sem grynnsta og
umfangsminnsta vistsporið. Nú þurfum við Íslendingar að taka á okkar
stóra í þessum efnum. Þar hefur kirkjan líka hlutverk. Ekki bara út frá
guðfræðilegum sjónarmiðum sem kristallast í náungakærleika heldur og
ábyrgri siðferðislegri afstöðu gagnvart gjöfum skaparans.
Græna kirkjan
Ánægjulegt er að margir söfnuðir hafa stigið græn skref og velta
fyrir sér hvernig hægt er að stíga enn fleiri. Minnka vistsporið. Þetta
er vinna sem krefst samtals sem á rætur eins og fyrr sagði í kærleika
til jarðarinnar, náungakærleika. Jörðin, Guðs góða sköpun er náungi
okkar. Hér er í raun hvert safnaðarbarn kallað á sínum heimavettvangi
til að huga að til dæmis rekstri kirkjunnar hvað snertir öll innkaup og
orkunotkun, flokkun sorps og pappírsnotkun, sama á við um
safnaðarheimilin og yfir höfuð allt safnaðarstarf.
Efna mætti til dæmis til „plokkguðsþjónustu“ í sókninni þar sem
söfnuðurinn færi út á vettvang til að tína rusl og að því verki loknu
myndi fólkið setjast niður á góðum stað og þar yrði guðsþjónusta eða
helgistund höfð um hönd. Sjálfbærni er leiðarljósið – að kirkjan verði
lífræn kirkja í margvíslegum skilningi!
Á prestastefnunni flutti danskur prestur, sr. Martin Ishöj, dr. theol.,
ljómandi gott erindi um grænu kirkjuna í Danmörku. Hann koma víða við og
það var athyglisvert að hlýða á hann. Nánar má lesa um grænu kirkjuna
hér: gronkirke.dk.
Kirkjuspor
Svona í lokin má skjóta því að hvort tilefni væri að koma ýta úr vör
verkefni sem kalla mætti kirkjuspor. Verkefnið fælist í mjög svo
umhverfismiðuðu starfi í viðkomandi kirkju – eða sókn – rekstri og öllu
sem að henni lýtur. Þetta mætti auðvitað útfæra með ýmsum hætti. Hafa
fleiri útiguðsþjónustur þegar veður leyfir, svo dæmi sé nefnt. Hver
kirkja gæti komið sér upp útialtari í garði kirkjunnar – á sama hátt og
útikennslustofur hafa rutt sér til rúms í skólunum. Sem fyrr er hægt að
virkja börn og unglinga – líka foreldra. Nú reynir bara á hugkvæmni
hvers og eins!
Þó verða menn að gæta þess líka að ganga ekki í „umhverfisklaustur“ – ef
svo má segja – hætta nánast að draga andann og njóta lífsins af ótta
við að þramma ógætilega um Guðs grænu náttúruna – þora ekki að tylla
fæti sínum niður á jörð Guðs því vistsporið ógurlega traðki þá niður með
húð og hári eins og spor tröllsins sem býr í fjallinu. En náttúran er
vettvangur manneskjunnar og hún verður að finna sinn óttalausa meðalveg.
Kirkjusporið væri kannski æfing í því?