Ótti

Ótti

Vísindin draga upp merkilega mynd af því ferli sem á sér stað í líkama okkar þegar við verðum hrædd. Þá fara efnaversksmiðjur í gang, hormón sprautast út í blóðið sem raunverulega taka af okkur völdin.

Óttinn er magnað fyrirbæri. Vandi er að ímynda sér líf án ótta. Það yrðu vart margir ævidagar, ekki síst í því umhverfi sem forfeður okkar lifðu og hrærðust í.

Fljúgast á, flýja eða frjósa

Já, óttinn er eitt þeirra hjálpartækja sem við höfum tekið í arf frá fyrri kynslóðum og að sönnu eru áhrif hans mikil og verðskulda alla athygli. Vísindin draga upp merkilega mynd af því ferli sem á sér stað í líkama okkar þegar við verðum hrædd. Þá fara efnaversksmiðjur í gang, hormón sprautast út í blóðið sem raunverulega taka af okkur völdin. Já, íslenskan á þetta merkilega orð - að vera óttaslegin - og það er eins og vitundin, hugurinn, skynsemin fái á sig högg því óttinn slær á það allt. Viðbrögðin einkennast ekki af yfirvegun og betri vitund, heldur verða þau nánast ósjálfráð, gerast í einni hendingu.

Sem betur fer, getum við sagt eða í það minnsta á það við um manninn í sínu náttúrulega umhverfi. Ef öskrandi bjarndýr birtist í skógarrjóðrinu er enginn tími til að láta skynsemina starfa og brjóta til dæmis heilann um það hvort þetta er svartbjörn eða grábjörn. Kannske hafa einhverjir menn í fyrndinni hugsað þannig en ólíklegt er að þeir hafi orðið langlífir. Nei, hið ótrúlega gangverk sem líkaminn okkar er, leyfir okkur aðeins þrennt. Við forðum okkur, sem ég held í þessu tilviki að sé rétt hegðun. Stundum verða viðbrögðin þau að við ráðumst á hættuna. Það getur auðvitað verið nauðsynlegt ef einhver ógnar fjölskyldu og búi. Og loks þegar allt um þrýtur þá fáum við þau skilaboð að gera ekki neitt, frjósa í sömu sporum eða jafnavel hníga niður í yfirliði. Það kann jú að hafa róandi áhrif á bjarndýr og aðrar skapstyggar skepnur.

Hugsið ykkur hversu ótrúlegur óttinn er og allt það sem honum fylgir. Ef við yrðum látin ganga með mælitæki á okkur í nokkra daga er ekki ósennilegt að þau myndu skrá hjá sér viðbrögð sem eiga rætur að rekja til þessa líffræðilega ferlis, þar sem hormónin auka hjartsláttinn og í einhverri mynd reyna að fá okkur til að taka til fótanna, berjast við hættur eða stirðna í sömu sporunum, hver sem afleiðingin verður.

Óttinn er mikill áhrifavaldur í lífi okkar. Án hans værum við ekki hér. Við gerðum þá engan greinarmun á hættum og því sem eftirsóknarvert er. Jafnvel á okkar dögum þar sem kröfurnar um öryggi eru nánast yfirþyrmandi og stöðugt dynja á okkur áminningar um að fara varlega í hinu og þessu – er ógnin skammt undan. Ef hún sækir ekki á okkur leitum við sjálfviljug í aðstæður sem kalla fram ótta. Menn leggja á sig mikið erfiði til þess eins að standa frammi fyrir örlögum sínum. Eða mæna sem dáleiddir á sjónvarpsskjáinn sem stöðugt býður upp á lýsingar af háska og huldri framtíð sem bíður við næsta götuhorn!

Óttinn birtist hvar sem er. Hundar eiga það til að æða geltandi á móti gestum. Þeir eru með þennan beyg í genum sínum sem gerir þá fullvissa um að vegfarendur vilji vinna heimili þeirra mein. Gamla tölvan mín var forrituð til þess sama. Sjálfur var ég löngu hættur að veita því athygli þegar hún varaði mig við einhverju – að nú þurfi ég að hlaða niður einhverjum hugbúnaði því ella geti ógn og skelfing dunið yfir harða diskinum og öllu því sem þar er að finna. „Tölvan þín gæti verið í hættu stödd!” sagði hún mér gjarnan er ég kveikti á henni.

Gleðidagar

Og hér komum við saman í helgidómnum á þeim dögum í kirkjunni sem kenndir eru við sjálfa gleðina og þá fer ég að tala um óttann, hversu óviðeigadi kann það nú að virðast. Skýringuna er jú að finna í upphafsorðum guðspjallsins. Það er hin sígilda kveðja sem okkur berst úr viðjum fagnaðarerindisins þar sem við erum áminnt um að óttast ekki. Einmitt. Orð þessi tala til óttaslegins fólks sem óttast kannske ekkert meir en hið óþekkta og hulda. Er vant því, já og forritað til að bregðast við á örskoti þegar það stendur frammi fyrir því sem það ekki þekkir og skilur.

Hjarta yðar skelfist ekki segir Kristur. Þarna er meira að segja eitt helsta líffæri okkar nefnt og hví þá ekki að hugleiða þá listasmíð sem við erum, hvert og eitt. Það þarf jú engin nútímavísindi til að vita að hjartað tekur við sér þegar óttinn er annars vegar. Hjarta yðar skelfist ekki - er þetta ekki sami boðskapur og engillinn flutti konunum á hinn fyrsta páskdagsmorgunn og auðvitað hirðarnir fengu á Betlehemsvöllum. Þetta er hin sígilda kveðja himnanna til okkar sem erum af holdi og blóði.

Hvað þá? Enginn ótti? Jú, mikil ósköp. En listin sem Biblían kennir okkur, jú og allt það annað sem skrifað er af umhyggju og skynsemi er ekki það að skipta einu út fyrir annað - varpa öllu því á glæ sem gamalt er og taka upp allt nýtt, heldur að færa kenndir og ástríður í réttan farveg. Allt á sinn stað og vistarverur sálarinnar eru líka margar, rétt eins og þær eru í húsi föðurins. Jesús minnir okkur á að verða ekki á valdi óttans, verða ekki slegin svo rækilega af þessu tvíeggjaða sverði sem hræðslan og skelfingin er svo að það verði ekki leiðarljósið í lífinu og móti hegðun okkar í stóru og smáu.

Við stöndum jú oft í þeim sporum að það er eins og við sýnum í sífellu þau nánast ósjálfráðu viðbrögð sem skelfingin kallar fram. Kristur minnir okkur á að í lífinu erum við blessunarlega ekki í þeim sporum að þurfa að velja á milli þeirra afarkosta að ráðast á, flýja eða frjósa. Þetta á við á mörgum sviðum. Eilífðin, það sem bíður handan þess tíma sem við lifum og hrærumst er hluti þess sem fyllir okkur ótta. Jafnvel má færa fyrir því rök að allur uggur eigi rætur að rekja til þess sem bíður handan móðunnar miklu.

Bókmenntirnar hugleiða þessa þætti: ,,Því hvaða draumar dauðasvefnsins vitja, þá holdsins fjötrafargi er af oss létt, það fipar oss. Og það er þessi gaumur sem treinir mæðunni svo langan lífdaga.” Svona kveður prinsinn Hamlet í frægustu einræðu sögunnar og bætir við þessari yfirlýsingu um vald óttans yfir lífi mannsins: ,,Já heilabrotin gera oss alla að gungum.”

Að sumra mati er óður Shakespears um Danaprinsinn ákveðin útlegging á guðspjöllunum, baráttunni við örlög sín og þá sálarangist sem píslarsagan birtir okkur.

Og þá er gott á gleðidögum að hugleiða huggun Krists til hræddra manna sem ganga um í flóknu umhverfi mótaðir af háskalegum samskiptum við móður náttúru og rándýr af ýmsum toga sem kalla fram ótta og það sem hið enska skáld yrkir um - viðvarandi angist sem eitrar sálarlífið og slekkur á lönguninni til þess að lifa lífinu í allri sinni fullnustu.

Í siðmenntuðum heimi Sannarlega nýtast okkur hin ráðríku hormón skammt í heimi þar sem bjarndýr eru sjaldgæf en þess er krafist af okkur að taka ákvarðanir af yfirvegun, í kærleika og með eitthvert það að leiðarljósi sem við teljum að geti skapað betri heim. Hið óþekkta býr víða. Það birtist okkur líka í náunganum sem kann að eiga aðrar rætur, annan uppruna. Hversu miklar hörmungar má rekja til þess þegar fólk hefur látið óttann stýra gjörðum sínum gagnvart öðru fólki, einstaklingum og hópum?

Þau skyndilegu viðbrögð sem óttinn kallar frá, geta í versta falli rænt okkur sjálfri mennskunni og því sem gerir okkur sjálfstæð og frjáls. Hugleiðum það, hver viðbrögð okkar eru þegar við verðum fyrir áreiti, þegar við mætum því sem við ekki þekkjum. Erum við þá eins skynlaus dýrin sem láta stjórnast af skilyrtum viðbrögðum. Frelsið verður ekki fyrr en við náum stjórn á þeim kenndum. Það bil sem okkur tekst að mynda á milli áreitis og viðbragða - þar leynist allt okkar sjálfstæði og frjáls vilji. Ef okkur finnst einhver ógna, móðga, sýna hegðun sem við ekki skiljum, skiptir það sköpum fyrir okkur sem siðmenntaðar manneskjur hvort við náum að breyta í þeim anda sem við sjálf teljum farsælan. Breytum við aðstæðunum til hins betra eða viðhöldum við samskiptum sem stjórnast af ótta?

Og svo eru það híbýli föðurins. Lendurnar sem bíða þegar göngu okkar lýkur á þessari jörðu.

„Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng.“ Kristur talar um þær aðstæður þar sem óttinn gagnast hvergi. Hann talar um hið tímalausa, eilífðina, lífið í ríki Guðs. „Hjarta yðar óttist ekki“, segir hann, „Trúið á Guði og trúið á mig.“ Í krafti þeirrar trúar getum við öðlast sátt við okkur sjálf og það sem okkar bíður. Hann vill að við sigrumst á þeim ótta sem mætir okkur gagnvart þeim aðstæðum sem eru ekki á okkar hendi að sigra og breyta. Það sem er í hendi Guðs. Sá óseðjandi ótti sem við reynum þó að kalla fram og yfirvinna í þörf okkar eftir háska og skaðvænlegum aðstæðum er andlag orða Krists.

Á lendum eilífðarinnar

Kristur orðar það svo að í húsi föður hans séu margar vistarverur. Sjálfsagt birtast falleg og fjölbreytt salarkynni í hugskoti margra okkar við lestur þess texta. En Kristur bendir með þessum orðum á það að við eigum ekki að leggja stund á þau ótakmörkuðu vísindi að reyna að skilja þau undradjúp sem þar bíða okkar. Nei, þar leggjum við fram hendur okkar í trausti. Við höfum séð hvernig Kristur starfar og sú lífgefandi þjónusta lýsir því best hvernig Guð er. Sá sem leggur sig eftir því að fylgja Kristi og læra af verkum hans hann veit hvernig Guð er og starfar.

Blessunin veitir okkur styrkinn. Við greinum á milli þess sem við getum ráðið við og hins sem trúin ein veitir okkur fullvissu um og glæðir líf okkar nýjum tilgangi og merkingu. Umhyggjan fyrir okkar nánustu og lífsvilji okkar birtist stundum í kvíða fyrir því sem hulið er í þoku hins ókomna. Það er eðlilegt og jafnvel lofsvert. En kvíðatilfinningin fyrir því sem okkur hefur verið búið í ríki hins almáttuga Guðs er óþörf. Kristur hefur sigrað. Trúin sigrar og kristinn maður mætir Guði sínum með æðruleysi og styrk.