Þessi pistill er ritaður vestan hafs þar sem ég dvel í námsleyfi til vors. Ég hef oft komið til Bandaríkjanna á liðnum árum en aldrei áður fundið eins sterkt fyrir nýjum anda vonar. Hér ríkir bjartsýni á framtíðina þrátt fyrir efnahagslægð sem hrjáir fólk hér eins og víða um heim. Og bjartsýnin tengist auðvitað einkum embættistöku Baraks Obama og svo hefur líka ávallt búið með þjóðinni sterk trú á ameríska drauminn.
Hér er gott að vera. Ég hef sótt opna fyrirlestra um margvísleg málefni en aðallega á sviði guðfræði. Dvölin er í senn fræðandi og örvandi. Og svo er fólkið svo yndislegt. Að koma í kirkjurnar sem ég heimsæki á sunnudögum er eins og að koma á ættarmót. Já, það er margt gott í henni Ameríku og líka margt sem okkur Íslendingum finnst mörgum framandi og þykir falla illa að okkar hugmyndum um lífið og tilveruna. Hér er gott fólk enda þótt ýmislegt hafi mátt finna að stjórnarfari á síðast liðnum árum og kannski á hverri tíð því lífið er aldrei kyrrstætt eða fullkomið, hvergi í heiminum.
Ég hóf þennan pistil með því að vísa til nýrrar bjartsýni Bandaríkjamanna. Bjartsýni er nú þörf víða í heiminum og ekki síst á Íslandi. Við þurfum að vinna okkur út úr gríðarlegum vanda og til þess þarf nýja framtíðarsýn, nýja von.
Í bók sem ég er að lesa leitar höfundur svara við spurningunni um velgengni einstaklinga og hópa (Outliers e. Malcolm Gladwell). Hann tekur dæmi af hópi innflytjenda frá Roseto á Ítalíu sem lifað hefur hér í Bandaríkjunum í yfir hundrað ár. Þessi hópur sker sig úr á margan hátt. Til að mynda býr hann við betra heilsufar en margir aðrir hópar. Læknir sem fékk sérstakan áhuga á þessum hópi hóf að gera rannsóknir á honum fyrir tæpum 50 árum. Hann rannsakaði matarræði hópsins og áleit lengi vel að svonefnt Miðjarðarhafsfæði væri ástæðan fyrir lágri tíðni hjartasjúkdóma og háum lífaldri. Þá fékk hann til liðs við sig félagsfræðing sem komst til að mynda að því að sjálfsvíg voru óþekkt, alkóhólismi ekki mælanlegur né fíkniefnanotkun og glæpatíðni var í algjöru lágmarki. Læknirinn gerði sérstaka leit að fólki magasár en án árangurs. Var þetta allt Miðjarðarhafsfæðinu að þakka? Matarræðið á tíma rannsóknarinar var reyndar ekki eins hollt og ætla mætti. Fólkið steikti matinn gjarnan í svinafitu en ekki í ólífuolíu eins og algengast er á Ítalíu. Pizzurnar þeirra eru saltari og öðruvísi en í upprunalandinu og einkum karlarnir reyktu mikið og fólk af báðum kynjum var margt of þungt. Gerð voru erfðafræðileg próf á fólki frá sama stað á Ítalíu sem bjó annars staðar í Bandaríkjunum en það fólk bjó ekki við sömu góðu heilsu og fyrrgreindur hópur. Hvert er þá svarið við gátunni? Læknirinn komst að því að hvorki uppruni fólkins, matarræði eða hreyfing skiptu teljandi máli. Ástæðan var hins vegar félagsleg, nefnilega sú að fólkið hafði mikil samskipti, gaf sér tíma til að spjall saman þegar það hittist á förnu vegi, fór mikið í heimsóknir, hélt veislur og naut þess að vera saman. Fólkið sótti líka kirkju reglulega. Í heimabæ fólksins þar sem búa tvöþúsund manns eru starfandi 22 klúbbar og félög. Fólkið í bænum heldur utan um hvert annað. Læknirinn kynnti niðurstöður sínar á læknaþingum og uppskar miklar efasemdir því fáir vísindamenn trúðu því að félagslegir þættir gætu haft svona mikil áhrif á heilsuna. En engin önnur skýring hefur enn komið fram sem kollvarpar niðurstöðum rannsóknanna.
Gæði í samskiptum fólks! Merkilegt! Enginn er eyland, segir máltækið. Við erum félagsverur. Á Íslandi er rík hefð fyrir mikilli þáttöku í félags- og menningarlífi. Íslendingar eru langlífir. Kannski er það ekki aðeins að þakka fiskinum í sjónum og góðum landbúnaðarafurðum heldur ekki síður félagslífi okkar og samstöðu.
Nú þurfum við að standa saman sem aldrei fyrr. Við þurfum að gera upp liðin ár eins og ég hef áður sagt í ræðu og riti. Að sjálfsögðu! En við skulum rækta með okkur nýja von, bjartsýni og trú á framtíðina og halda utan um hvert annað. Þannig verðum við í senn sterkari og heilbrigðari sem einstaklingar og þjóð, vonarrík þjóð.