Guðspjall: Lúk 13.6-9
„Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
1.
Er einhver snertiflötur tímans við eilífðina? Ekki þarf að ferðast langt út fyrir gufuhvolfið svo að tíminn hætti að vera til. Það er svo sem ekki vanalegt í mannlegri tilveru að menn fari það langt frá bláa hnettinum að tíminn hverfi. Því er eins farið með háu peningaupphæðirnar og víddir geimsins þar sem ljóshraðinn telur að hugmyndaflugið nær vart að gera sér raunhæfa mynd af fyrirbærunum. Ljósið þýtur um geiminn frá stjörnum í órafjarlægð og við sjáum löngu liðinn tíma í stjörnukíkjum á jörðu niðri. Heilu stjörnuþokurnar hverfa inn í svarthol geimsins. Manni sundlar við þessar víddir, heillast af fegurðinni, um leið og ógnin læðist að manni, smæð mannsins gagnvart alheimi, jörðin, sem sandkorn á sjávarströnd kastast til af öflugum sjávarföllum geimsins. Aflið er slíkt að við getum ekki gert okkur þau í hugarlund, þó að nokkuð hafi okkur tekist að skynja og skýra.Fegurð himingeimsins, stjörnurnar á dimmbláum næturhimni, er samofin hugsun okkar um eilífðina. Kyrrðin varir við, stærðin meiri en hugurinn nær að höndla, kraftarnir slíkir að enginn mannlegur máttur megnar nokkuð gagnvart því afli sem þar ræður ríkjum. Svo er það fegurðin í ógninni sem dregur, sígur okkur að sér, heillar, svo að liggur við sturlun á stundum. Í hljóðlátri tilbeiðslu gagnvart alheimi stöndum við undir sama stjörnuhimni og spyrjum: Er einhver snertiflötur tímans barna við eilífðina annar en tilveran sjálf?
2.
Svarið getur verið já og nei og kannski. Ekki ljóst svar! Við erum bundin þessari veröld okkar í allri sinni vídd. Það er alveg ljóst. Vanalega hugsum við okkur sem jarðarbúa, innan okkar öruggu marka, í lofthjúpnum okkar, en við erum hluti af þessum órageimi, á fleygiferð á bláa hnettinum um himingeiminn.
En í sál minni finn ég að það svar dugar mér ekki að vera bara til. Ótti og angist mannssálarinnar krefst meira. Tilveran og þekking okkar á henni veitir manninum ekki traust og öryggi sem er okkur lífsnauðsyn til að geta dafnað og lifað góðu lífi. Mín saga er svo sem ágætt dæmi. Ég var ekki gamall þegar Berlínamúrinn var byggður en umræða í fréttum og á heimilinu urðu til að vekja hjá mér ugg og ótta. Við bjuggum þá í Svíþjóð nær sögusviðinu. Óttinn við heimsendi út af kjarnorkukapphlaupinu nagaði sig inn í sál mína. Og ég reiknaði út í barnslegri einfeldni minni hvað ég yrði gamall árið 2000 svo lengi gæti heimurinn kannski staðist. Það er grunt á þeim ótta eins og hjá manni sem lent hefur í alvarlegu áfalli. Óttinn vaknar enn þann dag í dag þegar umræðan kemur upp eins og með kjarnorslysið í Japan og kjarnorkuveldið Norður-Kóreu núna síðast.
Þessar tilfinningar mínar mótaði ég í ljóð mörgum árum síðar og koma upp í hugann núna. Ég nefndi það Í húsi skáldsins. Nú sit ég í húsi skáldsins, á Sigurhæðum, þó að mínar tilraunir að tjá mig í ljóði sé meira sprottnar af innri þörf en af skáldskapargáfu og ekkert á ég í þjóðskáldið, leyfi ég mér að flytja ykkur þetta ljóð í von um að vekja til umhugsunar um áramót:
Það húmar í húsi skáldsins heilög rósemd ríkir. Hann rökkri við lífið líkir, ljóðið magnað er; Flögrandi hrafninn hrópar helóð yfir jörðu. Augun í eldinn störðu: "Aumt ef svona fer".
Og rökkrið varð mikil martröð, mannlíf skáldið skoðar. Hann skjálfandi bölvun boðar, blessun enga sér; Stríðandi öflin æpa ógnandi og hræða, vígatólin sín væða, voðinn augljós er.
Þá skuggar í húsi skáldsins skyndilega hreyfðust, - drunur - glerbrot dreyfðust, dauðinn gekk í garð; Öskrandi hrafninn ærðist, enginn lauk við ljóðið fyrir syndaflóðið, feigðin hjó sitt skarð.
Þessir myrku þættir í sálinni gagnvart tilverunni sem er ekki aðeins ógnarleg í himingeimnum heldur líka í okkar þunna lofthjúp sem við mannkynið hrærum okkur í gera það að verkum að það sem blasir við eitt og sér dugir okkur ekki sem grundvöllur undir mannlegt líf.
Það þarf meira til.
3.
Leið kristinnar trúar er engin einföld himinglópalausn. Fyrsta skrefið á þeirri leið er að fela sig Guði á vald í örlagavef sögunnar. Jesús kennir okkur í dæmisögu áramótanna að horfast í augu við það harmsögulega í mannkynssögunni - okkur hefur ekki tekist til sem skyldi. Hann gengur í fyrirbæn með okkur um að við fáum staðist enn eitt ár. Bæna-afstaðan kennir okkur auðmýkt gagnvart Guði alheimsins. En um leið vekur bænin von um framtíð. Um leið og við leitum inn á við í hjarta okkar sjálfra leitar hugurinn upp á við til Guðs handan himingeimsins.
Fjöldi ræða hafa verið fluttar um áramót um tímann og eilífðina. Útvarpsstjórar héldu sínar ræður. Einn þeirra sem ég hlustaði á með athygli var Andrés Björnsson, sem kristinn maður hvatti hann þjóðina að halda fast í hin kristnu gildi um leið og hann hugleiddi tækniframfarir og málefni sem voru efst á bugi þau árin. Sigurbjörn Einarsson, biskup, var beinskeyttur í ræðum sínum um tímann og eilífðina. Í ræðum hans var krafa um heilindi gagnvart Drottni. Allt lífið var skoðað út frá því að því er lifað frammi fyrir augliti Drottins, viðkvæðið voru þessi orð Biblíunnar: „Ég nefni þig með nafni, þú ert minn”. Og er það ekki merkilegt að fyrsti forseti lýðveldisins Íslands fól sig Guði á vald við embættistöku sína að Guð leiddi hann svo að störf hans yrðu þjóðinnni til heilla og blessunar. Þeir fundu að þjóðin var að villast frá kristinni trú en þekktu hana sjálfir. Mín kynslóð er að hverfa frá trúnni og þekkir hana ekki lengur. Allt er komið á flot. Því er ekki um annað að ræða en að kalla til iðrunar og afturhvarfs, að við biðjum í Jesú nafni um enn eitt ár til að bæta ráð okkar. Sá tími er liðinn á Íslandi að við getum talað um kristna þjóð, ef hann hefur nokkurn tímann verið, annað en jákvæð viljayfirlýsing gagnvart gildum kristinnar trúar. Sá tími er upp runninn að kristnir menn verði að vakna og standa vörð um kristin gildi og trú, rækta þau með sér og hafa áhrif á umhverfi sitt og samfélag til góðs og til blessunar, með því að vera salt og ljós, svo um munar.
4.
Það er mikið í húfi. Ekki það að viðhalda einhverri ríkisstofnun sem kallast þjóðkirkja heldur að kristin trú og gildi móti samfélag okkar í alvöru, ekki aðeins í orði, heldur líka á borði. Þau eru mörg börnin sem lifa við þann tilvistarkvíða sem ég átti við að glíma í gegnum lífið frá æsku. Lausnin er ekki fólgin í einhverri innri sefun og sálgæslulausnum heldur í eftirfylgd við Krist, þar sem við æðrulaust tökumst á við aðsteðjandi vanda þó að hann virðist vera eins og að stjórna stjörnukerfi. Látum Guð um það en við getum gert allt sem í okkar valdi stendur til að vera góðir ráðsmenn yfir gufuhvolfinu okkar. Það þýðir að við verðum að breyta um lífsstíl. Nota bílana eins lítið og við getum. Göngum í staðin. Notum almenningssamgöngur. Þvoum ruslið okkar og flokkum. Kaupum af þeim sem eru til fyrirmyndar í umhverfismálum. Styðjum fairtrade verslun! Ekki gagnrýnislaust heldur með upplýstri umræðu skulum við móta samfélag til góðs fyrir afkomendur okkar.
Með því að ganga fram í sannleika í bæn og starfi uppgötvum við að eilífðin snertir tíma okkar. Við erum ekki lengur leiksoppar í eilífri hringrás tímans heldur erum í framrás, við erum ekki bara að þróast í eina eða aðra átt, heldur erum á vegferð í hendi Guðs alheimsins. Blái hnötturinn okkar hendist ekki óendanlega um geiminn þar sem við virðumst vera einu vitibornu verurnar, heldur er hugur að baki, hugsun okkar á samsvörun í hugsun Guðs. Dæmisaga Jesú er raunveruleg spurning um framtíð lífsins. Við getum ekki borið Guð sökum á verkum okkar, við erum ábyrg gagnvart skapar alheimsins á þeim. Leiðsögn hans er ljós, hann vill mannlegt líf, að það dafni og blessist, þrátt fyrir mótsagnirnar, sem birtast hvað sterkast í kærleikanum, viðkvæmustu en sterkustu tilfinningu mannlegs lífs en líka Guðs. Sú sára mannlega tilfinning að valda þeim þjáningu sem maður elskar mest tekst Guð á við í píslarsögu Jesú og snýr til góðs. Það er kannski vandi okkar að þora ekki að álykta sem svo að þessar frásagnir guðspjallanna hafi alheims víddir, gefa alheimi merkingu og mannlegu lífi okkar innan okkar lífssviðs. Kærleikurinn er settur ofar öllu. Jesús kennir okkur að elska óvini okkar, hvað þá náunga okkar og því frekar ástvini.
Persóna Jesú birtir okkur Guð alheimsins kærleiksríkan föður og hann sem bróður okkar og vin, sem leiðir okkur til gæfu og blessunnar, því það vill Guð okkur, að líf okkar verði til gæfu og blessunar. Innsta merking tilveru okkar er kærleiksríkt líf en ekki ógæfan. Láttu tréð standa eitt ár enn biður Drottinn og sjáum til hvort það beri ekki ávöxt.
5.
Er einhver snertiflötur tímans við eilífðina? Já er svarið: Jesús Kristur, Drottin vor og frelsari, er snertiflötur eilífðarinnar við tímans straum, sem fær merkingu af því, ómælisvíddirnar verða skiljanlegar í ljósi af persónu hans, en þverstæður alheimsins vara við og mótsagnirnar mörgu í mannlegu lífi. Við skiljum að heimarnir eru gerðir fyrir hann og að líf okkar hefur að markmiði að lifa fyrir hann, það er gæfa okkar og framtíð og þiggja leiðsögn hans, en hún er ekki sjálfgefin með því að vera eða nefnast kristin þjóð, við verðum að helga okkur honum í daglegri iðrun og afturhvarfi, tilbúin að ganga þá leið sem hann vísar okkur á.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Amen.