Við sáum dýrð hans
Flestum finnst spennandi að
heimsækja nýjar slóðir og kanna eitthvað nýtt. Aðrir ferðast vegna áhugamála og
tómstunda eða aðeins til að slaka á. Best er að geta blandað þessu saman. Ég
átti þess kost að ferðast til Ísraels s.l. haust ásamt
fleiri Íslendingum. Á ferð okkar um biblíuslóðir komum við til borgarinnar Kana
í Galíleu. Við heimsóttum, eins og aðrir kristnir pílagrímar, kirkjuna þar sem
talið er að Jesús hafi gert sitt fyrsta kraftaverk. Eins og víðast hvar annars
staðar er búið að grafa upp fornminjar sem benda til kraftaverksins. Í kjallara
kirkjunnar eru feikna stór steinker, vatnsker, svipuð þeim sem um er rætt í
frásögn guðspjallsins. Þessa morgunstund sem við vorum í kirkjunni kom mikill
fjöldi fólks. Sumir voru aðeins að skoða staðinn og fornleifarnar, en aðrir
komu til að gifta sig. Þennan morgun var fjöldi para frá Filippseyjum, sem
gagngert komu alla þessa leið til að ganga í hjónaband. Þið getið rétt ímyndað
ykkur gleðina og hamingjuna sem lýsti af pörunum. Það var hrein og bein
upplyfting að vera þarna innan um þetta hamingjusama fólk.
Það var einnig ógleymanleg upplifun að sitja í litlum hellisskúta á
Betlehemsvöllum og lesa jólaguðspjallið. Þar er einnig kirkja helguð
fjárhirðunum. Í þeirri kirkju eru sungnir jólasöngvar alla daga. Þegar við Íslendingarnir
komum hjómaði þýskur jólasálmur og ferðamaður las jólaguðspjallið á sínu
móðurmáli. Við sungum nokkur vers af sálminum Í Betlehem er barn oss fætt.
Á meðan við vorum að syngja kom inn hópur frá Suður Ameríku. Þannig er stöðugur
straumur ferðamanna á flestum stöðum er tengjast sögum Biblíunnar. Þrátt fyrir
þennan mikla fjölda og stundum örtröð, eins og í fæðingarkirkjunni í Betlehem
og grafarkirkjunni í Jerúsalem, var afar merkilegt að koma á staðina, sem
taldir eru vera næstir þeim stað er þeir gerðust. Sögurnar verða oft
ljóslifandi. Einkum fanst mér það eiga við á bökkum Genesaretvatns. Þar starfaði
Jesús mest þau þrjú ár er hann prédikaði og kenndi hér á jörð. Þar var
fjallræðan flutt og úti í náttúrunni mettaði hann þúsundir með fáeinum brauðum
og fiskum. Á vatninu sjálfu gerðust undur fyrir hans tilstilli, s.s. er hann kyrrði
vind og öldur og kom gangandi til lærisveina sinna.
Við getum spurt okkur hvað það er sem við sækjumst eftir í landinu helga og á öðrum stöðum sem fjölsóttir
eru af pílagrímum. Er það ekki að sjá með eigin augum umhverfi atburðanna, sem
skipta svo miklu máli í lífi kristins fólks. Það er að reyna að nálgast söguna
í gegnum fornleifar. En miklar fornminjar eru í Ísrael og á Vestur bakkanum.
Síðast en ekki síst er það oft áhrifarík trúarleg upplifun, að lesa um
atburðina á staðnum og í því umhverfi er þeir áttu sér stað, þó þúsundir ára
skilji á milli í tíma. Kristnum manni er það næring fyrir trúna og sálina, að
heimsækja hina helgu staði og þakka Guði og lofa hann fyrir það sem gerðist
mannkyni til heilla.
Ummyndunin
Í dag er síðasti sunnudagur eftir
þrettánda og bænadagur á vetri. Guðspjall dagsins fjallar um það er Jesús ummyndast
fyrir augum lærisveina sinna og dýrð hans varð þeim opinber. Lærisveinarnir
reyna að lýsa atburðum sem voru ólíkir öllu því sem þeir voru búnir að upplifa
með Jesú. Þó voru þeir búnir að reyna margt. Þeir lýsa því hvernig Móses og
Elía eru á tali við Jesú.
Það er þess virði að skoða
það sem þessir tveir spámenn gerðu á sínum dögum. Móses leiddi lýð Guðs út úr
Egyptalandi og yfir Rauða hafið. Það var hin stórkostlega björgun heillar
þjóðar úr þrældómi og útlegð. Dauði Jesú á krossinum var meiri og stærri en
björgun Móse á lýð Guðs út úr þrælahúsinu í Egyptalandi. Í dauða og upprisu frelsarans er björgun hverrar
manneskju fólgin, alls mankyns. Spámaðurinn Elía gekk á hólm við heiðna spámenn
Jesebel drottningar og Akasar kóngs og hafði sigur. Í baráttu sinni var hann að
verja fyrsta boðorðið: Ég er Drottinn Guð þinn, þú skalt ekki aðra Guði hafa.
Það gerði hann með eldi og sverði. Jesús er hér hinn nýi Elía, sem gekk á hólm
við allt veldi hins illa. Hann dó á krossi en reis upp frá dauðum. Sigrari
dauðans sanni, sjálfur á krossi dó, og mér svo aumum manni, eilíft líf víst til
bjó. Þannig orti sr. Hallgrímur.
Markús segir að Jesús hafi
ummyndast og klæði hans hafi orðið fannhvít og skínandi, og Lúkas bætir við, að
andlit hans hafi breyst. Þetta er í samhljóman við frásögnina af því þegar
Móses kom ofan fjallið með boðorðin tíu og andlit hans geislaði svo að fólk
varð hrætt. Lærisveinarnir reyna að lýsa því, að hér hafi verið meira en
endurskin af dýrð Guðs. Jesús skein allur sjálfur, innan frá og út. Með þessu
orðalagi eru þeir að reyna að tjá að Jesús sé sjálf guðsbirtingin, sjálfur Guð,
því klæði hans hafi ekki getað hindrað ljómann, heldur hafi þau orðið björt og
skínandi. Jóhannes orðar það þannig í guðspjalli sínu: „Vér sáum dýrð hans,
dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.“ Jóh. 1:14
Pétur bauðst til að búa spámönnunum
tveimur og Jesú tjaldbúð. Sams konar og Gyðingar útbjuggu sér á laufskálahátíðinni
til að minna sig á útlegðartíma sinn í eyðimörkinni. Áður en hann fær ráðrúm eða
svar heyrðu lærisveinarnir rödd sem kom úr skýinu og sagði hin sömu orð og
heyrðust við skírn Jesú: „Þessi er minn elskaði sonur,“ en nú bættust við
orðin: „hlýðið á hann.“ Orð Guðs úr skýinu staðfestu að Jesús var spámaðurinn,
sem Guð hafði lofað að senda. Við heyrðum lesið í lexíu dagsins:„ Spámann
slíkan sem ég er mun Drottinn, Guð þinn, láta fram koma úr hópi ættbræðra
þinna. Á hann skuluð þið hlýða.“ (5. Mós 18.15) Hér var komin staðfesting þessa
og enn fleiri spádóma um Krist, sem Guð myndi senda. En hér var meira en
spámaður. Þetta staðfesti Pétur með orðum sínum: "Því hann meðtók af Guði
föður heiður og dýrð þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: „Þessi
er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ Þessa raust heyrði ég sjálfur
koma frá himni þá er ég var með honum á fjallinu helga."
Nýja testamentið dregur upp
algjörlega einstæða mynd af Jesú. Hún er dregin upp af guðspjöllunum, lýst með
lífi og starfi Jesú, boðun og kraftaverkum, þjáningu hans, dauða og upprisu. Ummyndunin
á fjallinu er aðeins einn hlekkur í keðjunni. Þar fáum við að líta Jesú eins og
hann er, birting Guðs sjálfs. Bjarminn, ljósið, skinið, orðin úr skýinu, sýndi
hver hann var. Immanúel, Guð með oss.
Við sáum dýrð hans. Það var
vitnisburður lærisveinanna. Megi orð þeirra styrkja trú okkar í daglegu lífi.
Breiðholtskirkja
Það sem fram fer í
kirkjunni snýst um trúna á Jesú, bróðurinn besta, og göngu okkar á lífsins
vegi. Þannig erum við öll börn Guðs og systkin í trúnni. Hér í kirkjunni koma
saman Íslendingar og fólk af erlendu bergi brotið, fátækir og ríkir. Margt af
því er fólk á flótta. Við bjóðum það innilega velkomið, því þau eru systkin
okkar. Sum fá landvistarleyfi og verða Íslendingar. Á meðan þau eru hér á landi
vill kirkjan koma til hjálpar, gera sitt til að styðja, styrkja og hjálpa.
Þó svo starfið í söfnuðinum
sé mikið og líflegt, er alltaf pláss fyrir enn meira starf. Vöxturinn er mestur
í starfi meðal hælisleitenda og fólks á flótta og er það vel. Ný viðbót við það
starf er, að eftir hádegi á fimmtudögum opnum við safnaðarsalinn fyrir samverur
á vegum Alþjóðlega safnaðarins í Breiðholtskirkju.
En til þess að allt fari
vel fram þarf gott hús. Það ánægjulega er, að nú hefur tekist að fjármagna
viðgerð á þaki kirkjunnar. Útboð fer fram í þessum mánuði og viðgerð í sumar og
haust. Þetta er mikið gleðiefni fyrir söfnuðinn. Sumt af starfinu í kirkjuskipinu,
eins og bænastundirnar, verða fluttar á neðri hæðina á meðan á viðgerð stendur,
en messur og athafnir í aðrar kirkjur. Nýlega sameinuðust Fella- og Hólaprestakall
og Breiðholtsprestakall í eitt. Þannig að kirkjurnar í efra og neðra Breiðholti
eru nú eitt prestakall. Það leiðir til aukinnar samvinnu og samhjálpar á milli
þeirra. Það mun efla kirkjulegt starf í Breiðholti.
Í dag er bænadagur á vetri.
Veturinn hefur verið erfiður mörgum á landinu okkar. Manntjón og eignatjón hefur
orðið, vegna óveðurs og snjóflóða. Nú eru fréttir um hugsanlegt eldgos nærri
byggð. Við búum í landi elds og ísa. Á það erum við minnt um þessar mundir. Við
biðjum fyrir þeim, sem eiga um sárt að binda og einnig að Guð varðveiti og
verndi landsmenn alla, byggð og fyrirtæki, en sérstaklega skulum við hafa í
huga Grindvíkinga og Suðurnesjamenn á óvissutímum. Sameinumst í bæn fyrir landi
og þjóð á eftir sálminum Til þín Drottinn hnatta og heima eftir Pál Kolka með lagi
eftir Þorkel Sigurbjörnsson.
Röddin úr skýinu sagði:
þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann. Jóhannes guðspjallamaður sagði: Við
sáum dýrð hans. Jesús, bróðir okkar og frelsari, birtir okkur Guð og
kærleika hans. Hann er hjá okkur og gengur okkur við hlið alla daga allt til
enda. Það er vitnisburður kirkjunnar, trúaðra karla og kvenna, á öllum öldum. Guð
gefi þér og þínum æðruleysi, kjark og frið.