Margir guðleysingjar kættust vafalaust á dögunum þegar rannsókn virtist staðfesta það sem löngum hefur verið haldið fram (af þeim sjálfum), nefnilega að guðleysingjar séu greindari en trúað fólk og að trú fólks sé fólgin í litlu öðru en heimsku þeirra sem neita að horfast í augu við veruleikann. Þannig sagði einn guðleysingi hér á fasbókinni að það lægi í augum uppi að gáfnafar trúaðs fólks væri lakara en þeirra sem ekki trúa enda hafi fólk leitað til trúarbragða í gegnum aldirnar til að útskýra það sem það skilur ekki. Maður spyr sig óneitanlega hvort slík staðhæfing hafi meira að segja um þann sem slíku heldur fram en þá sem henni er beint að.
Um þetta mætti segja margt. Það er þó þess virði að rifja upp að hin forheimskandi kristna trú kom ekki í veg fyrir það að háskólar risu upp um allan hinn vestræna heim í skjóli kristinnar trúar á miðöldum þar sem æðri menntun dafnaði. Ekki stóð kristin trú heldur í vegi fyrir því að kristnir menn á borð við Kópernikus, Bacon, Galíleó, Newton, Pascal, Kepler, Boyle, Leibniz, Faraday, Kelvin o.fl. ryddu vísindum til rúms ásamt öðrum trúuðum vísindamönnum sem á eftir þeim komu, mönnum á borð við Mendel, Planck, Schrödinger, Maxwell, Pasteur og mörgum fleirum allt fram til þessa dags. Vísindabyltingin í hinni kristnu Evrópu átti sér ekki stað þrátt fyrir kristna trú heldur vegna hennar; vegna þess að menn gengu út frá því að heimurinn væri skiljanlegur og reglubundinn og aðgengilegur mönnum í krafti vísindalegra rannsókna enda væri hann skapaður af hugvitsömum og skyni gæddum Guði sem skapað hefði manninn í sinni mynd.
En látum þetta liggja á milli hluta. Það verður ekki um það deilt að á meðal mestu hugsuða veraldarsögunnar eru trúaðir menn jafnt sem vantrúaðir. Það er líka vitað að oft vilja menn í krafti rannsókna sinna uppgötva það sem þá sjálfa hafði grunað fyrirfram. Við lifum á tímum þar sem trú er litin hornauga og í vaxandi mæli talin til marks um úr sér gengin hugsunarhátt, kreddufestu, hefðarhyggju og fordóma. Það er því ekki að undra að vísindi séu tekin í þjónustu þeirra sem vilja færa sönnur á heimsku þeirra sem trúa. (Slíkt hefur áður verið gert í sögunni, m.a. til að sýna fram á yfirburðastöðu heillrar þjóðar.) Það kemur fáum á óvart að áhrifaríkur maður á borð við Richard Dawkins telji yfirburðagreind guðleysingja hafna yfir allan vafa og heimsku trúaðs fólks að sama skapi augljósa. Því miður er það svo að viðkvæðið „rannsóknir sýna“ er oft notað sem gæðastimpill fyrir slíkt viðhorf og önnur viðlíka. Þetta er engu líkara en það sem börn gera þegar þau kalla hvert annað heimsk og vitlaus. Raunin er að með því að vanmeta og gera lítið úr andstæðingi sínum kemur maður sér undan því að taka málflutning hans alvarlega og þau rök sem hann byggir á.
Í því er líka kjarni málsins fólginn.
Látum vera að áðurnefnd rannsókn hafi verið gagnrýnd fyrir að ganga út frá allt of þröngri skilgreiningu á greind sem og trú og taki ekki til greina ýmsa þætti sem koma viðfangsefninu við. Kjarni málsins er fólgin í þeim rökum sem unnt er að tefla fram í þágu guðstrúar annars vegar og guðleysis hins vegar. Það hvernig trúuðu fólki og/eða vantrúuðu gengur upp til hópa í manngerðum greindarprófum kemur gildi þeirra einfaldlega ekkert við. Það væri afar slæm röksemdarfærsla ef því væri haldið fram að vegna þess að tiltekin hópur fólks aðhyllist tiltekið viðhorf hljóti það að vera satt. Í stað þess að hampa sjálfum sér fyrir meinta yfirburði sína og yfirmáta greind í samanburði við trúað fólk ættu guðleysingjar að takast á við þau rök sem liggja guðstrú til grundvallar og gera tilraun til að hrekja þau. Gleymum því ekki heldur að guðleysingjar eru engu minna trúaðir en þeir sem trúa á tilvist Guðs. Guðleysi er trú rétt eins og guðstrú enda grundvallast það á frumspekilegu viðhorfi sem verður ekki sannað í eiginlegum skilningi. Hitt er annað mál hvort tefla megi fram betri rökum í þágu guðleysis eða guðstrúar.