Aðventan eða jólafastan er undirbúningstími fyrir jólahátíðina. Mikill tími fer í hinn ytri undirbúning fyrir hið ytra jólahald.
Ekki þarf að segja lesendum þessa pistils að einnig sé nauðsynlegt að undirbúa hið innra jólahald og taka þátt í trúariðkun kristinnar kirkju. Helgihald á aðventu er mjög fjölbreytilegt og ríkulegt í kirkjum landsins á aðventu eins og um jól. En stundum gleymist að minna á að helgihaldið í kirkjunni lifir og nærist af helgihaldi heimilisins.
Helgihald heimilanna er hinsvegar víðast hvar bundið við bænastund við barnarúm. Þegar barnið stækkar er hætta á að þessar stundir hverfi einnig.
Aðventan er góður tími til að hefja aftur bænahald á heimilinu, eða til þess að auka við þær bænastundir sem fyrir eru. Hér fylgja því nokkrar ábendingar um það hvernig þessu helghaldi gæti verið háttað.
Tilefni og tækifæri til helgistunda á aðventu
Á jólaföstunni eru einkum tvö atriði tengd þeim tíma sérstaklega sem sjálfsagt er að tengja bænahaldi heimilanna. Þetta eru aðventukransinn, og söfnun Hjálparstofnunar kirkjunnar. Þar sem enn eru börn á heimilinu getur helgihaldið á aðventunni verið tvíþætt:
- Kvöldbænin við rúmið,
- bænagjörð við aðventukransinn.
Sjálfsagt er að vanda sérstaklega til kvöldbænarinnar og tengja hana einnig aðventunni: Dvelja örlitlu lengur við rúm eða vöggu, kveikja á kerti við rúmið meðan kvöldbænirnar eru lesnar.
Ef lesin er (eða sögð) saga fyrir svefnin þá gerum við þann mun á að kveikja ekki á kertinu fyrr en kemur að bænastundinni. Auk þess að minnast fjölskyldunnar, ættingja og vina, sjúkra og einmana og þurfandi, takið þá áhersluefni söfnunar Hjálparstofnunarinnar og gerið þau að fyrirbænarefni.
Á mörgum heimilum er siður að börnin setji skó í gluggann og fái í hann gjafir. Skórinn getur verið gott tilefni til að minna á söfnunarbaukinn ! Þegar fylgt er helgihaldinu sem sýnt er hér síðar er hægt að lesa sem hluta kvöldbænarinnar versið sem fylgir sunnudeginum, öll kvöld vikunnar. Þannig lærist versið og geymist í huganum, jafnt börnum sem fullorðnum til blessunar.
Aðventukransinn gefur sérstakt tilefni til helgihalds, - og þótt hann væri ekki, er hægt að kveikja á kerti á sunnudögum aðventunnar og hafa stutta helgistund með þeim hætti sem hér er sýnt. Eftir ástæðum heimilisins er hægt að hafa þessa helgistund á laugardagskvöldi ef nauðsynlegt er, en betra er að hafa hana á sunnudegi. Þar sem börn eru á heimilinu, veljið þá stundina vandlega, og haldið ykkur við sömu stund alla sunnudagana. Reynið ekki að skapa spennu á milli helgistundarinnar og sjónvarpsefnis. Veljið stund þegar hvort sem er er slökkt á sjónvarpinu. Hugsanlegt er að tengja hana aðalmáltíð dagsins.
Það form helgihaldsins sem hér fylgir er mjög einfalt. Í Bænabókinni sem sr. Karl Sigurbjörnsson, biskup, tók saman (Skálholtsútgáfan 1992), er á bls. 90 - 93 fyllra form helgihalds á aðventu. Þar er sömuleiðis (á bls.94) að finna bæn til að biðja þegar gefið er í söfnunarbauk Hjálparstofnunar. Sérstaklega er það nauðsynlegt fyrir börnin að læra að það að leggja eitthvað af því sem við eigum til þurfandi meðbræðra og systra heyrir því til að játa kristna trú.
* * *
Laugardagurinn fyrir fyrsta sunnudag í aðventu
Kvöldið fyrir fyrsta sunnudag í aðventu er aðventukransinn skreyttur. Valinn er lesari og ákveðið hver les hvern sunnudag. Þegar því er lokið er höfð söngæfing. Æfður er sálmurinn ,,Við kveikjum einu kerti á“, (Sb 560) sem sunginn er þegar kveikt er á aðventukransinum. Þegar sálmurinn er full æfður, signa allir sig, spenna síðan greipar og lúta höfði meðan lesið er:
A: Í nafni Guðs, Föður og Sonar og Heilags Anda. Amen.
L: Drottinn Jesús Kristur, sem vitjar barna þinna og vilt búa hjá þeim. Við höfum skreytt þennan krans til að undirbúa komu þína og til að taka betur á móti þér. Við biðjum þig, gjör heimili okkar að þínu heimili. Þess biðjum við þig, sem lifir og ríkir með Guði Föður í einingu Heilags Anda, einn Guð um aldir alda.
A: Amen.
* * *
Fyrsti sunnudagur í aðventu
Allir viðstaddir safnast saman við aðventukransinn. Kveikt er á fyrsta kertinu og sungið versið : ,,Við kveikjum einu kerti á“, (Sb.560).
Við kveikjum einu kerti á. Hans koma nálgast fer sem fyrstu jól í jötu lá og Jesúbarnið er.
Lesarinn sem athöfnina leiðir les eftirfarandi minnisvers vikunnar: en allir endurtaka:
,,Sjá, konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og lítillátur “. (Sbr. Sak.9.9.)
Síðan les hann versið:
,,Gjör dyrnar breiðar, hliðið hátt Þú, Herrans kristni, fagna mátt, því kóngur dýrðar kemur hér og kýs að eiga dvöl hjá þér.“ (Sb. 59,1.v.)
A: Amen.
* * *
Annar sunnudagur í aðventu
Annan sunnudag í aðventu er kveikt á öðru kertinu, en hið fyrsta logar einnig.
Allir viðstaddir safnast saman við aðventukransinn. Þegar kveikt hefur verið á kertinu eru sungin tvö fyrstu versin af sálminum : ,,Við kveikjum einu kerti á“, (Sb. 560).
Við kveikjum einu kerti á. Hans koma nálgast fer sem fyrstu jól í jötu lá og Jesúbarnið er.Við kveikjum tveimur kertum á og komu bíðum hans, því Drottinn sjálfur soninn þá mun senda´ í líking manns.
Þá er lesið minnisvers vikunnar ; Lesari fyrst, en allir endurtaka:
,,Réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd“ . Lk. 20.28.
Lesari les versið:
,,Sjá, mildi er lögmál lausnarans, sjá, líkn er veldissproti hans. Því kom þú, lýður kristinn nú og kóngi dýrðar fagna þú“ . (Sb. 59, 3.v.)
A: Amen
* * *
Þriðji sunnudagur í aðventu
Þriðja sunnudag í aðventu er kveikt á þriðja kertinu. Fyrsta og annað loga einnig. Allir viðstaddir safnast saman við aðventukransinn. Þegar kveikt hefur verið á kertinu eru sungin þrjú vers af sálminum ,,Við kveikjum einu kerti á“, (Sb 560).
Við kveikjum einu kerti á. Hans koma nálgast fer sem fyrstu jól í jötu lá og Jesúbarnið er.Við kveikjum tveimur kertum á og komu bíðum hans, því Drottinn sjálfur soninn þá mun senda´ í líking manns.
Við kveikjum þremur kertum á, því konungs beðið er, þótt Jesús sjálfur jötu og strá á jólum kysi sér.
Þá er lesið minnisvers vikunnar: Lesari fyrst, en allir endurtaka:
,,Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans“ (Mt.3.3.)
Lesari les versið:
,,Ég opna hlið míns hjarta þér, ó, Herra Jesús, bú hjá mér, að fái hjálpar hönd þín sterk þar heilagt unnið náðarverk“ (Sb. 59, 7.v.)
A: Amen
* * *
Fjórði sunnudagur í aðventu
Fjórða sunnudag í aðventu er kveikt á fjórða kertinu og þá loga öll kertin.
Allir viðstaddir safnast saman við aðventukransinn. Kveikt er á fyrsta kertinu og sungið versið : ,,Við kveikjum einu kerti á“, (Sb. 560 ) og síðan koll af kolli, eitt vers við hvert kerti.
Við kveikjum einu kerti á. Hans koma nálgast fer sem fyrstu jól í jötu lá og Jesúbarnið er.Við kveikjum tveimur kertum á og komu bíðum hans, því Drottinn sjálfur soninn þá mun senda´ í líking manns.
Við kveikjum þremur kertum á, því konungs beðið er, þótt Jesús sjálfur jötu og strá á jólum kysi sér
Við kveikjum fjórum kertum á. Brátt kemur gesturinn, og allar þjóðir þurfa að sjá, að það er frelsarinn.
(Sigurd Muri 1963 - Lilja S. Kristjánsdóttir)
Þá er lesið minnisvers vikunnar: Lesari fyrst, en allir endurtaka:
,,Önd mín miklar Drottinn, og andi minn gleðst í Guði frelsara mínum.“ (Lk. 1. 46-47)
Lesari les versið:
,,Ó, kom minn Jesús, kom sem fyrst, ó, kom og mér í brjósti gist, ó, kom þú, segir sála mín, ó, seg við mig: Ég kem til þín.“(Sb. 59, 8.v.)
A: Amen