Fjölskylduleyndarmál

Fjölskylduleyndarmál

Sagan um Edith og dóttur hennar er saga um fjölskylduleyndarmál rétt eins og sagan af fæðingu Jesú. Mér þykir líklegt að einhver fjölskylduleyndarmál séu í þinni fjölskyldu rétt eins og í minni. Þau þurfa kannski ekki að snúast um leynilegar ættleiðingar eða rangfeðrun, en þau geta gert það.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
26. desember 2014
Flokkar

Edith Á þessu hausti fylgdist ég, eins og margir Íslendingar, með enn einni sjónvarpsþáttaröðinni af Downton Abbey. Þættirnir fjalla um líf Crawley fjölskyldunnar og þjónustufólks hennar og eiga að gerast í Bretlandi á fyrrihluta 20. aldar. Crawly fjölskyldan er aðalsfjölskylda sem heldur stíft í siði og venjur og leggur mikið upp úr því að halda andliti og æru út á við. Í þessari þáttaröð var sögð áhugaverð saga af lafði Edith, miðjudótturinni á heimilinu. Segja má að Edith sé gleymda dóttirin þar sem hún er ekki álitin jafn falleg og sjarmerandi og hinar dæturnar. Hún verður ástfanagin af manni og kemst að því að hún er ófrísk af barni þeirra stuttu áður en hann fer til Þýskalands þar sem hann síðan týnist og finnst látinn nokkru síðar.

Edith er í afar erfiðri stöðu en hún vill eignast barnið. Hún ráðfærir sig við frænku sína sem ráðleggur henni að fara til Sviss og eignast barnið þar en gefa það síðan góðu fólki. Allt snýst þetta um að bjarga mannorði Edithar og komast hjá hneyksli. Hún fer til Sviss þar sem hún elur dóttur og gefur hana frá sér. Þegar heim er komið getur hún ekki á heilli sér tekið. Hún sér svo eftir þessu, að hún fer að lokum aftur til Sviss og sækir barnið. Þegar heim kemur fær hún bónda í nágrenninu og konu hans til þess að taka að sér barnið og ala það upp sem eitt af sínum eigin.

Þannig sér hún fyrir sér að hún geti umgengist barnið án þess að nokkurn gruni að hún sé móðir þess. Þetta gengur þó ekki alveg eftir þar sem fósturmóðir barnsins er ekki sátt við stöðugar heimsóknir þessarar fínu og ríku konu og bannar henni að lokum að koma og hitta barnið. Það verður til þess að Edith fær nóg af þessum feluleik, sækir dóttur sína og flýr með hana til London. En þótt hún fái nóg af feluleiknum þá hvarflar ekki að henni að segja fjölskyldu sinni frá þessu.

Til að gera langa sögu stutta þá er móðir Edithar sett inn í málið og saman ákveða konurnar að hún segi föður sínum að hún hafi tekið ástfóstri við litla stúlku í nágrenninu og langi að taka hana að sér og leyfa henni að alast upp á fjölskylduóðalinu með börnunum systra sinna. Föður hennar líst nú ekki meira en svo á þessa hugmynd og finnst þetta vera óttalegir dyntir í dóttur sinni. Að lokum samþykkir hann ráðahaginn en með semingi þó. Léttir kvennanna sem þekktu til málsins er augljós.

María Við heyrum jólaguðspjallið lesið í kirkjum landsins um þessi jól sem og öllum öðrum. En þegar Jesús varð til voru aðstæður ekki eins og best verður á kosið og atburðarrásin jafn dramatísk og um nýlegan sjónvarpsþátt væri að ræða.

Jósef kemst að því að unnusta hans eigi von á barni. Hann er ekki sáttur við það, eins og gefur að skilja, en hann ákveður að skilja við hana í kyrrþey, þ.e. að gera þetta að leyndarmáli í stað þess að opinbera ástæðu skilnaðarins. Staðreyndin er sú að ef Jósef hefði sagt frá þessu á torgum úti þá hefði mátt grýta Maríu til dauða. Vandamálið var nefnilega hennar en ekki föðurins.

Hvernig sem getnað Jesú Krists bar að þá er ljóst að Jósef var ósáttur og taldi sig ekki geta verið föðurinn. Hann gengur þó drengnum í föðurstað (eftir að engill talar hann til í draumi) og þar með er hér komið fjölskylduleyndarmál.

María og lafði Edith eiga það sameiginlegt að þær verða báðar barnshafandi utan hjónabands og heiður beggja er í húfi. Í tilviki Maríu snýst leyndarmálið um líf og dauða en í tilviki Edithar um heiður fjölskyldunnar.

Fjölskylduleyndarmál Sagan um Edith og dóttur hennar er saga um fjölskylduleyndarmál rétt eins og sagan af fæðingu Jesú. Mér þykir líklegt að einhver fjölskylduleyndarmál séu í þinni fjölskyldu rétt eins og í minni. Þau þurfa kannski ekki að snúast um leynilegar ættleiðingar eða rangfeðrun, en þau geta gert það. Það geta verið margar og misjafnar ástæður fyrir því að við veljum að halda ákveðnum hlutum leyndum fyrir sumum fjölskyldumeðlimum. Stundum sameinast líka öll fjölskyldan um að halda viðkvæmum málum leyndum fyrir umhverfinu.

Í Bretlandi, í byrjun 20. aldar skipti höfuðmáli að orðspor ungra kvenna væri óflekkað. Að öðrum kosti áttu þær enga möguleika á að finna sér góðan mann og giftast. Heiður fjölskyldunnar var einnig í húfi sem og fjárhagsleg afkoma stúlkunnar og jafnvel fjölskyldu hennar allrar. Þetta þekkjum við vel t.a.m. úr sögum Jane Austen sem gerði þessi mál iðulega að viðfangsefni sínu.

Mikilvægi óflekkaðs mannorðs kvenna einskorðaðist þó alls ekki við Bretland og ekki var staðan betri á Íslandi. Kona sem eignaðist barn utan hjónabands var sannarlega ekki í góðum málum og á ákveðnum tímum var það jafnvel dauðasök. Einmitt þess vegna báru konur, sem urðu ófrískar utan hjónabands, út börnin sín eða gáfu þau öðrum.

Í þessum málum var fyrst og fremst heiður konunnar í húfi og því hafa konur á öllum tímum þurft að bjarga sér ef um ótímabæra þungun hefur verið að ræða, hver sem ástæða þungunarinnar hefur verið. Karlmennirnir komust oftast undan, enda gengu þeir ekki með barnið og höfðu oftast mun sterkari lagalega stöðu. Skömmin var kvennanna ekki karlana.

Það er yfirleitt rík ástæða fyrir því að mál verða að leyndarmáli. Algengasta ástæðan er óttinn við að einhver muni bera skaða af, ef leyndarmálið fréttist. Leyndarmálin eru því oftar en ekki varðveitt af tillitsemi og kærleika til einhvers er málið varðar. Og viss leyndarmál geta beinlínis verið einhverjum hættuleg ef þau koma fram.

Annar í jólum Annar í jólum er dagur tengsla. Hann er fjölskyldudagur hér á landi þar sem stór hluti íslenskra fjölskyldna hittist í jólaboðum.

Fjölskyldusamsetningar geta bæði verið flóknar og einfaldar og þannig hefur það alltaf verið.

Við erum opin fyrir ólíkum fjölskyldugerðum á Íslandi í dag, þar sem stjúptengsl eru ekki síður algeng en blóðtengsl. Þessar fjölskyldugerðir hafa alltaf verið til en við höfum ekki alltaf sagt frá þeim opinskátt.

Það þykir ekki tiltökumál í okkar heimshluta að eignast barn utan hjónabands en það getur verið dauðasök í öðrum. Enn eru til lönd og samfélög þar sem kynlíf utan hjónabands er lífshættulegt fyrir konuna en ekki fyrir karlinn. Og þá skiptir yfirleitt ekki máli þótt um nauðgun hafi verið að ræða.

Við þegjum yfir fjölskylduleyndarmálum vegna þess að þau snerta líf þeirra sem okkur þykir vænt um. Við þegjum yfir þeim því þau geta beinlínis verið hættuleg og við þegjum yfir þeim vegna þess að við skömmumst okkar.

En stundum eru leyndarmálin þess eðlis að það er betra að segja frá. Við getum nefnilega líka skaðað fólk með því að segja ekki frá. Með því að taka þátt í þöggun sem skaðar.

Leyndarmál verða sjálfsagt alltaf til í einhverjum mæli svo lengi sem fólk tileyrir fjölskyldum og er í tengslum hvert við annað. En það er munur á hættulegum leyndarmálum og óþægilegum. Getnaður Jesú var ekki aðeins óþægilegt leyndarmál heldur beinlínis hættulegt þar sem hann varð til utan hjónabands.

Jólaguðspjallið segir nokkuð dæmigerða fjölskyldusögu þess tíma og allra tíma. Í henni er að finna eitthvað sem þekkist í fjölskyldum hvar sem er í heiminum og á hvaða tíma sem er. Þarna eru stjúptengsl, mögulega framhjáhald, og rangfeðrun, stór siðferðileg vandamál, ást og umhyggja, vonir og þrá eftir öryggi.

Og sú saga er viðeigandi í dag, á þessum mikla fjölskyldudegi okkar Íslendinga. Hún er viðeigandi vegna þess að hún minnir okkur á að enn eru varðveitt hættuleg leyndarmál um heim allan, leyndarmál sem oftar en ekki varða líf eða dauða kvenna. Hún minnir okkur á hversu margt hefur breyst til batnaðar í okkar heimshluta og hversu langt er enn í land í mörgum öðrum. Jólaguðspjallið er ekki á yfirborðinu heldur kafar beint niður á dýpið og fjallar um lífið eins og það er í alvörunni.

Jólaguðspjallið segir okkur að Guð tekur þátt í lífinu öllu, ekki bara hinu þægilega og einfalda yfirborði, heldur einnig hinu óþæigla og erfiða. Við þurfum því ekki að eiga leyndarmál fyrir Guði.