Fjöldi fólks sótti þjóðfund í gær, ræddi og nefndi gildi, sem vert er að lifa fyrir og vefa þjóðlífsvefinn úr. Fólk talaði saman um það, sem máli skiptir fyrir einstaklinga og þjóð. Og svo var fjölmenningarþing á öðrum stað bænum - litskrúðugt þing, sem gæti stuðlað að stækkun faðms samfélagsins og þar með hamingju þess. Það er fallegt þegar fólk kemur úr mörgum áttum og leggur saman í gæfusjóð þjóðarinnar. Hún er jafnvel svolítið himnesk þessi þjóðlífsmynd fundanna og rímar vel við allra heilagra messu. Um tíma, gildi, eilífð, fólk og líf mun ég tala í dag.
Portrett Liðna mánuði hefur margt hefur vakið hugleiðingar hið innra með mér. Eitt er það sem ég hef aftur og aftur staldrað við og það eru portrett. Ég hef hugsað um hlutverk þeirra og merkingu. Ekki þessar venjulegu ljósmyndir af fólki, sem við tökum í fjölskylduboðum eða af okkar nánustu. Ekki heldur máluð portrett eins og voru í tísku fyrrum og hanga í opinberum stofnunum. Nei, það eru fremur myndirnar, sem fólk dregur upp upp af ástvinum sínum að þeim látnum. Það eru lífsmyndir, þegar fólk lýsir fólkinu sínu svo vel að til verða myndir, portrett af fólkinu þeirra - mömmum, pöbbum, bræðrum, systrum, öfum og ömmum, vinum – myndir úr lífinu, sem þau lita með sögum og búa til djúpa skugga og dýpt með sorgarmálum og jafnvel harmsögum. Þetta eru lífssögur fólks og líka sögur um hvernig fólk verður til og hvernig gildi og tengsl þróast.
Staldraðu við og hugsaðu, dragðu upp í hugann minningar og andlit og svaraðu: Hver hafði áhrif á þig? Hver mótaði þig mest? Hverjum áttu mest að þakka? Hver reyndist þér víti til varnaðar? Hvað lærðir þú af hverjum og hver veitti þér mestan styrk? Fólk hefur áhrif, mótar til góðs eða ills. Við erum það, sem við erum í tengslum, í samskiptum, í samvirkni. Og framtíð okkar tengist þeim líka, trú okkar og afdrif. Við höfum orðið til í mynd annarra, við erum endurvarp og endurskin fólks.
Allra heilagra messa Í dag er messa hinna heilögu, allra heilagra messa. Í flestum vestrænum kirkjuhefðum er hún í byrjun nóvember – en í austrænni kristni sunnudaginn eftir hvítasunnu, sem er guðfræðilega merkilegt og tjáir skýrt að hin látnu eru andlegar verur og á vegum Heilags Anda. Í okkar kirkju hefur fyrsti sunnudagur í nóvember verið allra heilagra messa og hrekkjavakan ætti því fremur að vera þessa helgi en fyrir viku. Allra heilagra messa verður tilefni til að íhuga upprisu og þar með er þetta tími fyrir trúaríhugun. Á þessum degi megum við gjarnan draga fram í huga mynd af fólkinu sem við elskuðum - en er dáið.
Í vikunni var sagt við mig: “Mér leiðist að tala og hugsa um dauðann og vil frekar tala og hugsa um lífið.” Ég er alveg sammála og við ættum að æfa okkur í að tempra eða dempa depurðarþætti dauðans. Dauði kristins manns er ekki lok eða slokknun og þar með hræðilegar lyktir, heldur verður betur skilin sem fæðing inn í veröld Guðs. Sú veröld er ekki dimmt dýki heldur gleðiveruleiki.
Allra heilagra messa beinir huga til himins og til þeirra sem látin eru, en beinir líka og ekki síður sjónum að lífinu hér og nú. Dagurinn tjáir spennuna í lífi okkar - við lifum núna en þó í ljósi eilífðar. Við sjáum á bak lifandi fólki inn í eilífð en sú vitund og vissa má hafa áhrif til góðs fyrir líf þeirra sem lifa. Líf okkar er ekki lokaður veruleiki, heldur má skilja sem skref í göngunni með Guði. Æfiskeiði okkar má lýsa sem meðgöngutíma. Við erum fóstur í lífkviði himinsins og eigum nýtt líf í vændum.
Guðleg list Myndir eru merkilegar. Menningin er sneisafull af myndum sem túlka, móta, hafa áhrif og skilgreina líf og fólk, líka dauða og eilífð. Biblían er í þeim anda og er myndarík. Í fyrsta kafla segir: “Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd.” Mennirnir eru því í mynd Guðs – og sú mynd er ekki eins og afsteypa, heldur varðar það sem er mikilvægara en útlit – varðar dýpt og anda en ekki ásjónu. Að menn séu ímyndir Guðs kemur síðan fram í biblíuefninu. Að menn stóðu sig ekki, fóru villur vega, var túlkað sem skemmd þeirrar myndar Guðs, sem menn væru kallaðir til að vera. Harmsaga manna, synd á máli trúarinnar, var myndbrot og saurgun þeirrar fegurðar, sem Skaparinn hafði gert af smekkvísri visku.
Þessi myndaspuni Biblíunnar verður áleitinn þegar við hugsum um hvern mann sem listaverk, stórbrotið djásn sem fagurkerinn Guð hefur gert til að fylla veröldina fegurð, gleði og lífi. Þetta listagallerí heimsins er flekkað þegar menn fremja glæpi. Hinn hreini Jesús Kristur kom í veröldina sem stókostleg ímynds Guðs. Þess vegna töluðu höfundar Nýja testamenntisins um að Jesús Kristur hafi fullkomnað myndina, sem menn voru skapaðir í. Því segir postulinn: “...dýrð Guðs endurspeglast í Kristi og andi hans lætur okkur umbreytast eftir þeirri sömu mynd til enn meiri dýrðar” (2. Kor. 3:18).
Það er síðan verkefni allra manna, hvort sem þeir trúa eða ekki, hvort sem þeir sækja kirkju eða ekki, hvort sem þeir eru konur eða karlar að meta og virða sjálf sig sem mynd Guðs, lifa þannig að lífinu sé vel lifað og í samræmi við fegurð og verkefni guðsmyndarinnar. Við erum kölluð til að vera falleg mynd Guðs í veröldinni.
Myndir, tengsl og sjálf Hver er þín eigin mynd? Ertu sáttur eða sátt við myndina, sem þú hefur af þér? Er það í samræmi við hvernig þú gætir lifað vel og með visku og fegurð? Myndin af þeim sem við sjáum á bak kalla á að þú hugsir um þína eigin mynd. Þegar við kveðjum eða minnumst látinna höfum við tækifæri til að staldra við, biðja og þakka. En dauðinn varðar lífið. Gagnvart dauða og í minningu ástvina okkar mega þyrlast til okkar spurningar um eigið líf.
Við verðum ekki til nema í tengslum við aðra, í viðbrögðum gagnvart fólkinu okkar. Líf annarra rennur inn í okkar líf, ef ekki með erfðaefni, þá um æðar samskipta. Menn verða til í tengslum við annað fólk. Líf í eilífð er líf í tengslum við Guð. Guðsmynd þín er ekki ásjóna, hvernig þú vilt að lúkkið sé í lífinu. Guðsmynd þín verður aldrei sett í myndaalbúm. Guðsmynd er lifuð í samskiptum við fólk. Þú ert meira en það sem aðrir sjá. Þú ert það, sem þú gerir úr guðsmynd þinni. Þér eru gefnar gjafir til að fara vel með í þína þágu, en líka annarra. Þínar gáfur eru til fyrir fólk, veröld – í tengslum við Guð.
Hvernig viltu lifa? Lærðu af fyrirmyndum þínum og ástvinum, að lifa vel, efla aðra, brosa við börnum, tala vel um fólk, lifa með reisn, láta ekki harma og afbrot eyðileggja þig. Lærðu að lifa hvern dag í þakklæti og gleði, lærðu að láta ekki sorgir eða áföll gærdagsins skemma þig. Þú ert falleg mynd, sem Guð hefur skapað, þú ert dýrmæti, sem ekkert kemur í staðinn fyrir. Fólk er djásn Guðs og þú ert það dýrmætasta, sem Guð sér og elskar. Staldraðu við og leyfðu huganum að fara til baka, vitjaðu þinna eigin mynda og leyfðu þeim að vinna djúpvinnu í sálinni þér til eflingar.
Á jörðu er haldinn þjóðfundur til þjóðargagns. Á himnum er haldinn fjölmenningarlegur þjóðfundur eilífðar. Þar er hugað að gildum sem verða þér til lífs og góðs þessa heims og annars. Þaðan máttu draga lífsmátt og dug til hamingju. Og hún verður í tengslum við aðra, til gagns fyrir samfélag, þjóðfélag – og í tengslum við Guð.
Amen
Íhugun í Neskirkju á allra heilagra messu, 5. nóvember, 2010. Athugasemdum má koma á framfæri á netfangið s@neskirkja.is