Margir eiga erfitt að átta sig á hvítasunnunni. Atburðum hennar er lýst í öðrum kapítula Postulasögunnar (2, 1 - 13):
Þá er upp var runninn hvítasunnudagur, voru þeir allir saman komnir. Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra. Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist, dreif að fjölda manns. Þeim brá mjög við, því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Þeir voru frá sér af undrun og sögðu: "Eru þetta ekki allt Galíleumenn, sem hér eru að tala? Hvernig má það vera, að vér, hver og einn, heyrum þá tala vort eigið móðurmál? Vér erum Partar, Medar og Elamítar, vér erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene, og vér, sem hingað erum fluttir frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Vér heyrum þá tala á vorum tungum um stórmerki Guðs. Þeir voru allir furðu lostnir og ráðalausir og sögðu hver við annan: "Hvað getur þetta verið?"
En aðrir höfðu að spotti og sögðu: "Þeir eru drukknir af sætu víni."
Þetta er undursamleg saga. Þar segir frá gný af himni, aðdynjanda sterkviðris, en þannig er Andanum lýst á hebresku. Þar heitir hann "rúakh" sem þýðir líka vindur og andardráttur. Þannig er Andi Guðs. Hann er eins og loftið í kringum okkur og loftið í lungunum.
Hvítasunnan, hátíð Andans, er í nánum tengslum við hina glöðu vorvinda og þann tíma ársins þegar lífið kviknar allt um kring. Þess vegna er hvítasunnan hátíð hins frjóvgandi og skapandi máttar. Í gömlum latneskum sálmi er Andinn beinlínis nefndur Sköpunarandi ("Veni Creator Spiritus").
Hvítasunnan er hátíð hins skapandi manns sem er frjóvgaður af Anda Guðs. Hvítasunnan er einnig hátíð Andans sem byggir brýr milli fólks og þjóða. Andi hvítasunnunnar er samfélagsandinn. Hann sprengir af sér ramma tungumála og landamæra. Andinn er að því leyti eins og tónlistin.
Hvítasunnan er undursamleg hátíð.