Flutt 29. apríl 2018 í Neskirkju
Það er þetta með hjartað. Þetta líffæri er nefnt þegar við leitum samlíkinga við eitthvað af því sem skiptir okkur máli.
Hjartsláttur
Fjölmargir sálmar í sálmabókinni vísa til hjartans: „Slá þú hjartans
hörpustrengi“ syngjum við á aðventunni. „Upp mitt hjarta og rómur með“
yrkir sr. Hallgrímur í fyrsta passíusálmi. „Já, þinn vil ég vera, vígja
þér mitt hjarta“ sungum við í fermingarathöfnum. Og svona mætti lengi
telja. Og slíkar tilvísanir þekkjast langt út fyrir hinn andlega
kveðskap: „Hjartað mitt litla hlustaðu á“, segir í söngnum um vorvindana
glöðu og glettnu.
Hjartað slær líka í náttúrunni þar sem takturinn dunar. Angarnir sem gægjast upp úr moldinni, fyrirsjáanlegir eins og endurtekningar eiga að vera. Farfuglarnir, senda oftar en ekki tóna sína út í umhverfið áður en þeir birtast sjónum okkar.
Það er svolítið sérstakt að gefa hjartanu þennan merka sess. Þetta er auðvitað eitt líffæri af mörgum. Vissulega nauðsynlegt en þau eru fleiri í þeim flokki. Ekkert líffæri hefur þó fengið aðra eins lofgjörð og hjartað okkar. Verðskulduð er hún því þessi taktur er lífið sjálft.
Og rétt eins og lífið, er takturinn síbreytilegur. Þegar eitthvað hrærir við okkur, finnum við blóðflæðið aukast um líkamann. Þegar ekkert raskar ró okkar verður slátturinn hægari, jafnari. Hið forna töluðu menn um að hjartað væri miðstöð hugsunar og tilfinninga. Þótt löngu sé ljóst að heilinn gegnir ekki síður veigamiklu hlutverki heldur hjartað stöðu sinni skáldskap og samlíkingum.
Hjartslátturinn er magnað tákn fyrir lífið sjálf og í raun mörk lífs og dauða.
Hjartalínurit í kirkjuglugga
Af því að okkur eru steindir gluggar hugleiknir þessi misserin þá var einn þekktasti glerlistamaður þýskalands, Johannes Schreiter var fenginn til að vinna glugga í kirkju heilags anda í Heidelberg. Kirkjan var nátengd háskólanum og þrír af gluggum kirkjunnar voru helgaðir hinum fornu stoðum akademíunnar - guðfræði, lögfræði og læknisfræði. Tillaga hans að þeim síðastnefnda þótti of róttæk til að hún hlyti náð fyrir augum þeirra sem höfðu með smíði kirkjunnar að gera en hún er jafnmerkileg fyrir því. Í raun er hún með áhrifamestu nútímalistaverkum sem snerta á hinu trúarlega.
Listamaðurinn leitaði að tákni fyrir lífið sjálft, hvað það væri sem gæti endurspeglað þessi skil sem skipta öllu máli í tilvist okkar og veru - líf og dauði. Já, táknmyndir breytast og þróast með menningunni og myndin sem nútíminn nýtir til að lýsa þeim kann að vera frábrugðin þeim sem áður voru notaðar.
Uppistaðan í þessum steinda glugga var útprentun af hjartalínuriti deyjandi manns. Taktföst hrynjandin birtist okkur í öldutoppum og dölum sem kunnugir geta sett í samband við það þegar lokur og gáttir þessa líffæris opnast og lokast og hleypa blóðinu þar í gegn þangað sem það streymir um allar æðar líkamans. En þegar lífið endar þá lýkur þessum slætti - eða er því öfugt farið? Smám saman jafnast ójöfnur línuritsins út og að endingu er enginn kraftur til staðar sem lætur nálina hreyfast og línan verður bein og órofin.
Listamaðurinn skilur svo eftir rými til túlkunar og við getum sagt vonar þar sem línan leysist upp í einhvers konar ský. En hér er hjartað og þessi strimill sem dregur fram vitnisburð um það hvort einstaklingur er lífs eða liðinn. Við þekkjum þessa einföldu mynd hvort heldur það er af hvíta tjaldinu nú eða af eigin reynslu. Hjartað slær og listamaðurinn fangaði þetta - einmitt táknmynd nútímans fyrir lífið sjálft.
Hjarta úr steini
Hjarta úr steini er ekki líklegt til að skapa mikla hreyfingu á feril nálarinnar og sú samlíking spámannsins Esekíels á við um annað það sem hjartanu heyrir til. Það eru þau skil sem Biblían lætur sig jafnvel meira varða en þessi sem rædd hafa verið - mörk lífs og dauða. Spámenn á borð við Esekíel voru óþreytandi í baráttu sinni fyrir því að yfirvöld og þjóðin lifðu því lífi sem þeim væri sæmandi. Steinhjarta í þeim skilningi lýsir hugarþeli sem ekki haggast þegar neyðin er allt um kring. Það dregur upp mynd af fólki sem mætir rækir ekki skyldur kærleikans heldur kærir sig í raun kollótt um það sem þeirra minnstu systkin þurfa að þola.
Steinhjarta samtímans birtist okkur með sama hætti þegar við látum hjá líða að leysa brýn úrlausnarmál. Hér á landi er hópur fólks sem á við geðrænan vanda að stríða og hefur leiðst út í neyslu harðra efna. Engin úrræðu eru fyrir þetta fólk. Það er þó lýsandi fyrir þá stöðu sem Biblían dregur fram að varðar skyldur okkar til náungans - því það á sér svo litla rödd sjálft í samfélaginu. Þarna mætir okkur hjarta sem bifast ekki þótt neyð náungans krefji okkur um slíkt.
Nú í liðinni viku var svo prestastefna hér í Neskirkju og þá voru umhverfismálin á dagskránni. Er það ekki annað dæmi um það hvernig lifandi hjarta hefði látið sig málin varða en ótrúlega hægt gengur að breyta þeirri stöðu sem orðin er.
Kveðjuræðan
Þetta er hjartalínuritið eins og Biblían dregur það upp og í guðspjallinu er svo talað um það hvernig hinn spámannlegi andi á að halda áfram að lifa með lærisveinunum. Það er sá sem Kristur kallar anda sannleikans. Sögusviðið er síðasta kvöldmáltíðin, þetta er kveðjuræða Krists. Þegar þeir stóðu upp frá borðum tók við förin í Getsemane þar sem Jesús var framseldur og hans beið skelfilegur dauði.
Það er þessi saga sem kristnir menn kenna við passíuna - sem þýðir hvort í senn ástríða og þjáning. Eftir stendur áminning til okkar að lifa því lífi sem kristin trú kallar á. Það er hjartsláttur trúarinnar sem rennur saman við lífið. Hjörtu okkar eru af holdi og blóði og í taktfastri hrynjandi kirkjuársins fáum við leiðsögn um það hvernig því lífi er háttað sem kristnum manni er verðugt að lifa.