Við skulum biðja.
Lýstu mér faðir lífs um stig Leið mig svo læri ég að elska þig Óska þess eins að þú blessir mig Kenn mér að virða vilja þinn vera í öllu viðbúinn Helga þér allan huga minn
Þetta er bæn, sem ég lærði, þegar ég var lítill drengur í skátastarfi í vesturbænum. Það var Hrefna heitin Tynes sem orti hana og bænin hefur lifað með mér alla tíð síðan. Hún kom svo upp í huga mér á fimmtudaginn, þegar skátarnir í Kópavogi komu hingað í helgistund á sumardaginn fyrsta.
Þegar kom svo í ljós hver guðspjallstexti dagsins í dag er, sem segir frá orðum Jesú og svo samtali hans við þá Tómas og Filipus, þá rifjaðist upp gömul minning, þegar ég stóð í skátabúningi heiðursvörð við útför Hrefnu.
Það er líklega þaðan, sem við þekkjum þennan texta best, við höfum heyrt hann lesinn við útfarir. Orð Jesú sem draga upp mynd af stóru húsi, herragarði, þar sem allt býður okkar, eru huggandi, þegar kemur að því að kveðja nákomna eða þegar við hugsum til þess, að sjálf eigum við ekki endalausan tíma hér á þessum stað. Það er eins og Jesú varpi, með þessum orðum, ljósi á sjálfan dauðann og sýni okkur hann sem færslu yfir á annan stað, stað, þar sem þegar hefur verið gert ráð fyrir okkur. Amma mín heitin notaði gjarnan þessa samlíkingu, að draugum hafi fækkað í sveitinni, þegar rafmagn og þar með lýsing kom og því hvarf ástæða til að hræðast þá. Þannig sá hún fyrir sér að Jesú hafi, með upprisu sinni, lýst upp dauðann og tekið í burt það sem við óttuðumst.
Á einhvern hátt finnst mér þessi skátabæn fjalla um þennan guðspjallstexta. Í bæninni biðjum við guð um að lýsa okkur lífs um stig. Ætli það hafi ekki einmitt verið bæn þeirra Tómasar og Filipusar í guðspjallinu. Þeir botna ekkert í orðum Jesú ,er hann segist vera að fara burt að búa þeim stað. Við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn? spyrja þeir og vilja helst, að Jesú rétti þeim kort þar sem vegurinn er dreginn upp og jafnvel þannig, að áfangastaðurinn sé merktur með stóru exi. Þeir biðja því Jesú um að sýna sér veginn og í guðspjallinu gerir Jesú einmitt það, hann lýsir okkur veginn með orðunum.: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Þetta er líklega ekki svarið, sem þeir áttu von á, enda hafa þeir ekki, eins og við lesendur guðspjallsins, getað fylgt Jesú eftir allt frá upphafi og séð öll verk hans og orð rætast. Við erum í þeirri stöðu að geta horft á alla söguna, meðan þeir lærisveinarir eru í henni miðri. Þeir eru með hjartað fullt af ást en líka efa. Þeir eru að takast á við spennu, hættur og mótlæti og vilja fá útskýringar og lausn á praktískan hátt, lausn sem þeir geta fylgt strax. Við þekkjum auðvitað þessa tilfinningu, þegar á bjátar og við erum algjörlega bjargarlaus, þá viljum við fá lausn, sem er áþreifanleg og virkar strax. Hversu mörg okkar hafa ekki farið til læknis og orðið fyrir vonbrigðum með svarið: Sjáum til eftir viku eða tíu daga. Við erum oft í sömu sporum og þeir Tómas og Filipus og viðbrögð þeirra eru eðlileg og mannleg.
Svarið, sem þeir svo fá er fólgið í samfélagi, ekki korti eða pillu eða neinu fljótvirku og áþreifanlegu. Það er fólgið í honum sjálfum, Jesú. Að eiga samfélag við hann, það er leiðin, vegurinn, sannleikurinn og lífið. Það er erfitt svar en það er líka dásamlegt.
Við erum nefnilega félagsverur, við þráum að deila með öðrum tilfinningum okkar, gleði og sorgum. Þegar vel gengur, Þegar við fáum góðar einkunnir eða sigrumst á verkefnum, sláum met eða fögnum öðrum áföngum í lífinu, þá þráum við að deila þeirri gleði með öðrum. Ég man eftir, þegar liðið mitt í fótbolta varð loksins Íslandsmeistari eftir margra ára bið og ég fagnaði með vinunum. Mikið var það gaman og mikið hefði dregið úr gleðinni, ef enginn hefði verið til að fagna með. Eins er oft í erfiðleikum að byrðirnar eru erfiðar, ef við leyfum engum að bera þær með okkur. Berið hvers annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists, stendur í Galatabréfinu. Kirkjan er samfélag, kirkjuhúsið er staður, sem er tekinn frá fyrir samfélag Guðs og manna og þeirra á milli. Jesú býður til samfélags í texta dagsins. Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Komið til mín, fylgið mér, þegar vel gengur og þegar hjartað skelfist. Þannig lýsti Drottinn upp veginn fyrir okkur með því að eiga samfélag með okkur. Með því að koma til okkar sem Jesú. Það samfélag á að, eins og segir í bæninni, að kenna okkur að elska Guð og óska þess eins, að hann blessi okkur. Því, þegar við elskum Guð og þiggjum blessun hans, þá skelfist hjartað ekki, þá treystum við því, sem hann sagði, að hann hafi farið að búa okkur stað og þangað munum við rata. Í gegnum Jesú lærum við að elska Guð, því Jesús sagði: Ef þér hafið þekkt mig, munuð þér og þekkja föður minn.
Bænin, sem ég lærði, þegar ég var ungur drengur, hefur fylgt mér lengi og ég skilið hana misvel. Þegar ég stóð heiðursvörð í útförinni hennar Hrefnu og hlustaði á það, sem fram fór, þá talaði helst til mín þessi setning, að vera í öllu viðbúin. Enda vísar hún í kjörorð skátahreyfingarinnar ávallt viðbúinn. Seinna fóru að myndast tengsl milli þess kjörorðs skáta og bænar Jesú í Getsemanegarðinum, þegar hann biður lærisveinana að vaka. Vera viðbúðna. Eftir að hafa fylgt mörgum í gegnum sorg og söknuð og séð forgangsröð hjá mörgum breytast í kjölfarið, þá hefur bænin að vera ávallt viðbúin öðlast nýtt líf í huga mínum. Að vera viðbúinn, er þörfin að eiga góð samskipti, að þurfa ekki að sjá eftir því, hvernig ég tala við aðra eða kem fram við þá. Að vera viðbúinn er að skilja sáttur, þurfa ekki alltaf að eiga síðasta orðið, hrósa fyrir hið góða og mótmæla hinu vonda. Að vera viðbúinn er því í mínum huga bæði tengt því, hvernig ég vil koma fram í þessu lífi og hvernig ég vil skilja við það. Ætli skátar tengi það að vera viðbúinn ekki við ákall Baden Powels um að skilja við heiminn örlítið betri en hann var þegar við fæddumst inn í hann. Þannig tengjast þessar tvær línur í bæninni að virða vilja þinn og vera viðbúinn.
Það í skátabæninni, sem talar þó mest til mín í dag, eru þessi orð: helga þér allan huga minn. Ég á nefnilega eins og margir oft erfitt með að einbeita mér og er gjarnan að hugsa um nokkra hluti í einu. Mér fannst á tímabili eins og þetta væri eitthvað, sem ég ætti aldrei eftir að geta gert. Helga Guði allan huga minn. Það var ekki fyrr en ég og góður kollegi minn ræddum þessa bæn, að hann opnaði hana fyrir mér á alveg nýjan hátt. Hann sagði við mig orðrétt: Finnst þér erfitt að helga Guði allan huga þinn, já, svaraði ég, þá sagði hann: Þess vegna seturðu það fram í bæn.
Það er nákvæmlega það, sem ég þurfti að heyra, það er margt sem ég og þið örugglega eigum erfitt með. Þá er stórkostlegt að geta falið það Guði í bæn. Sagt honum frá því, sem okkur þykir erfitt og ósanngjarnt, hvernig okkur líður og hvað við viljum. Við fáum ekki alltaf svar strax, Guð réttir okkur ekki endilega kort merkt með exi eins og Tómas og Filipus voru að vonast eftir. Hann hins vegar býður okkur upp á samfélag. Býður okkur upp á að bera með okkur byrðarnar. Leiðbeinir okkur með því að vera hluti af okkar daglega lífi og með því hjálpar hann okkur að virða vilja sinn og vera viðbúinn.
Helga þér allan huga minn er oft mín bæn til Guðs, því í bæninni á ég samfélag við Guð. Samfélag sem gleður bæði huga og hjarta. Samfélag sem lýsir upp veginn og eins og amma gamla sagði: Lýsir upp dauðann. Hvort sem ég sé fyrir mér, að Guð hafi búið mér herbergi í stóru húsi eða eitthvað allt annað, þá veit ég að vegna verka Jesú, þá munu á mínum hinsta degi bíða mín ný verkefni á nýjum stað. Við munum rata þangað, vegna þess, að ef við höfum þekkt Jesú, þá munum við líka þekkja föðurinn.
Þegar ég stóð heiðursvörð í útför Hrefnu Tynes, þá var dauðinn afar fjarlægt fyrirbæri, en eftir því sem árin líða, fara hins vegar fyrirheit Guðs, um eilíft líf, að skipta meira máli. Þegar við kveðjum þá sem við elskum og þegar við hugsum um eigin framtíð. Framtíð þar sem allt getur gerst, dásamlegt og skelfilegt. Þá er gott að hugsa til ljóssins, sem Jesús hefur varpað á dauðann. Ljóssins sem fær okkur til að kinka kolli og skilja orð Jesú, þegar hann hugreystir okkur, hvetur okkur og fullvissir með orðunum: Hjarta yðar skelfist ekki, trúið á Guð og trúið á mig.