Hneyksli legsins

Hneyksli legsins

Sagan af boðun Maríu er þannig saga af nánd, þar sem guðdómur og manndómur anda saman, saga af Guði sem er ofinn með mennskum þráðum, blóði, holdi. Postulinn Páll talaði einu sinni um hneyksli krossins. Kannski er enn stærra hneyksli falið á síðum helgrar bókar, hneyksli legsins.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

I.

Þingvellir eru undarlegur staður. Engu er líkara en að klettarnir hafi verið rifnir sundur af risavöxnum öflum og grasið vex í klettaskorunum. Við nemum staðar á þessum forna stað árið 1618 þegar Íslendingar eru að ganga danska einveldinu á hönd. Alþingi kemur saman á þessum sögufræga stað en þetta þing á lítið sameiginlegt með löggjafarsamkomu fyrri tíðar. Þar er minna gert af því að semja lög en bænaskrár en hins vegar er fylgt þar eftir hinum hörðu dómum sautjándu aldar.

Þingið þetta ár hefur verið óhemjuleiðinlegt, en heldur er að rætast úr því að athyglisvert mál hefur komið upp. Ung stúlka hefur eignast barn í lausaleik í Skagafirði. Hún neitar að segja nafn föðurins og harðneitar að hafa átt mök við nokkurn mann. Hún klykkir út með því að segjast hafa orðið þunguð af völdum heilags anda. Hin unga stúlka, Þórdís Halldórsdóttir hefur ekki krafist neins guðlegs eðlis fyrir barn sitt, hún er einungis að verja það hvernig hún geti bæði verið móðir og hrein mey. Og nú klóra þingmenn sér í höfðinu, því að þessi kona hefur gert sig seka um guðlast og annað eins mál hefur aldrei komið upp á Íslandi. Þrátt fyrir alvarleika málsins virðast margir upplifa það sem hjákátlegt. Þórdís er í hæðni kölluð "María Skagfirðinga" og menn skríkja yfir ófyrirleitni hennar. Og svo er hún dæmd til dauða og henni drekkt í hylnum djúpa í Öxará.

II.

Og nú ber hugurinn okkur til Nasaret í Galíleu níu mánuðum fyrir Krists burð.

Og engillinn sagði við hana: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala og þú skalt láta hann heita JESÚ. Hann mun verða mikill og kallaður sonur Hins hæsta.
Ekki vera hrædd María. Þegar við hugsum til Maríu Skagfirðinga og örlaga hennar þá gerum við okkur grein fyrir hversu hættulegt það var á fyrri tíð að tala um Guð og líkama sinn í sömu andrá. María Lúkasarguðspjalls hafði góða ástæðu til að vera hrædd, hrædd við að vera ásökuð um guðlast, hrædd við aðhlátur og hæðni, hrædd um að missa félagslega stöðu sína sem meyja. Sú meyjarstaða var eini heiður sem ógiftri konu í Nasaret gat boðist. Það sem er hneykslunarlegt við guðspjall dagsins í dag er ekki það að María skuli segjast lifa í nánu sambandi við Guð, heldur að það samband standi í samhengi við líkama hennar. Lúkas guðspjallamaður segir okkur nefnilega frá því að María hafi tengst Guði, ekki aðeins að anda og sál, heldur í líkama sínum. Hún verður þunguð, leg hennar ber þann þunga, blóð hennar nærir fóstur sem er hluti af líkama hennar og hjarta hennar slær taktinn sem markar tilvist hins verðandi barns.

Kannski er það gróft að stilla upp þessum tveimur konum Maríu Skagfirðinga sem líflátin var í Drekkingarhyl og Maríu móður Jesú. Önnur var blásnauð kona, sem grunuð var um að hafa átt barn með bónda í sveitinni og líflátin fyrir guðlast. Hin er sú kona sem mest er í hávegum höfð í gervöllum kristindómnum.

Ekki er það ætlun mín að vera með einhverjar guðfræðilegar útskýringar á þunga Þórdísar Halldórsdóttur. Hún vissi eflaust lítið um líffræði og ef Tómas mágur hennar á Sólheimum í Sæmundarhlíð var ekki faðir barnsins, þá getur þess vegna verið að einn af þeim sem dæmdi hana til dauða hafi verið sá sem barnið átti. Það sem fyrir mér vakir með því að taka ykkur með mér til Þingvalla ársins 1618, er að sýna ykkur fram á það hvað sagan af boðun Maríu í Lúkasarguðspjalli er mikið hneyksli. Guðspjallssagan er svo þekkt og er venjulega pakkað inn í svo frómar umbúðir að við tökum varla eftir því hversu furðuleg sú krafa er að María hafi orðið þunguð af heilögum anda.

Þetta kviðartal, líkamstal, holdstal er eitthvað sem guðfræðin á mjög erfitt með að eiga við. Við gætum jafnvel kallað það móðursjúkt, hýsterískt, vegna þess að hysteria eða móðursýki er orð dregið af hysterion, legi. Móðursýki var fyrrum talinn sjúkdómur sem aðeins hrjáði konur vegna ójafnvægis í æxlunarfærunum. Og guðfræðin, eins og flestar orðræður vestrænnar menningar hefur yfirleitt forðast allt slíkt tal um æxlunarfæri kvenna Í ljósi þessarar feimni og hræðslu við hið móðursjúka, kvenlega og holdlega, þá er það í merkileg staðreynd að kviður Maríu sé eitt af grundvallartáknum kristinnar hefðar og sé ein helsta fyrirmynd okkar í því hvernig við þekkjum Guð, upplifum Guð, tökum við Guði.

Ég elska þetta undarlega og ótrúlega rúm sem að boðunardagurinn vekur með mér, söguna af kjarki Maríu og ást, að biðja um ekkert og að taka við öllu.

II.

Og samt.

Ég les texta boðunardagsins og hjarta mitt fyllist af undrun og andstöðu á sama tíma. Ég elska Maríu og eitthvað í mér berst á móti Maríu.

Ef María er helsta fyrirmynd kristinna kvenna á öllum öldum, þá gefa þessar túlkanir konum til kynna að þær eigi að vera mjög hlýðnar og fórna sjálfum sér og auðvitað eiga þær að vera mæður. Það er bæði gott og mikilvægt að geta gefið af sér og móðurhlutverkið er dýrmætt. En það er líka hægt að misnota þessar myndir af hinu hlýðna og sjálfsfórnandi.

Margir og margar lifa við þær aðstæður að boðskapur um eigin myndugleika, réttlæti og að þær eða þeir geti ráðið sínu eigin lífi, styrkti sjálfið meir heldur en boðskapurinn um hlýðnina og sjálfsfórnina. Þeim eða þeirri sem lifir í meðvirku sambandi vegna alkóhólisma eða ofbeldis gæti sú hlýðni og sjálfsfórn sem við tengjum við Maríu orðið að fjörtjóni. Eftir því sem við gerum meira úr óvirkni og viðtöku Maríu, þá verður hún eins og tóm kanna fyrir almættið að hella náð sinni í. Og sú Maríumynd hjálpar fáum til þess frelsis sem Kristur frelsaði okkur til.

Önd mín miklar Drottinn og andi minn hefur glaðst í Guði skapara mínum,

segir guðspjallið. Og Lúther bætir um betur í skýringum sínum við Lúkasarguðspjall. Hann klykkir út með löngum kafla um það hvað María er opin fyrir Guði. Hann talar um undrun Maríu, um gjöfina sem henni er gefin, gjöf sem hún hafði ekki beðið um. Samkvæmt Lúther velti María ekki fyrir sér hvort hún væri verðug eða óverðug náðar Guðs. Það er öllu heldur sú tilfinning að veraframmi fyrir Guði sem fyllir Maríu gleði. Þetta eru stórkostlegar myndir hjá Lúther, sannkallaðir gleðibjarmar.

En þegar hann heldur áfram renna á mig tvær grímur. Hann segir: “Hún gefur ekkert, Guð gefur allt.”

Er það svo að María hafi ekkert gefið?

Gaf hún ekki eitthvað með því að taka við Guði?

Að gefa Guði rúm í líkama sínum?

Upplifði hún ekki kraftaverkið þegar sú sem gefur og sá sem tekur við eru hvorki andstæður né þau hin sömu

Þar sem Guð kemur til okkar

Þar sem við komum til Guðs

Þar sem við lofum Guð með veru okkar, sál, anda og líkama

Í styrkleika okkar og veikleika?

En er María bara um hlýðni og sjálfsfórn og tamningu móðurhlutverksins? Eða hefur táknið um Maríu meyju eitthvað að gefga okkur? Er táknið djúpt og sprungið eins og klettarnir á Þingvöllum þar sem grasið grær á ólíklegustu stöðum?

IV.

Árið er 2012 og staðurinn Grafarholt. Þegar við tölum um boðun Maríu hugsum við um holdtekju, þessa undarlegu þversögn að Guð hafi gerst maður. Og við veltum fyrir okkur hinu sístæða kraftaverki DNA og umlykjandi legs, veltum fyrir okkur næringu, hita, kærleika og takti þess að hvíla í móðurkviði. Sagan af boðun Maríu er þannig saga af nánd, þar sem guðdómur og manndómur anda saman, saga af Guði sem er ofinn með mennskum þráðum, blóði, holdi. Postulinn Páll talaði einu sinni um hneyksli krossins. Kannski er enn stærra hneyksli falið á síðum helgrar bókar, hneyksli legsins.

Belgíski heimspekingurinn Luce Irigaray fjallar um boðun Maríu og segir:

Hver hlustar á það hvað María boðar? Um það sem hún man og reyndi? Um guðdóm sem talar í gegnum hana? Um aðgang að hinu heilaga sem fer í gegnum hana? Hvernig gæti sá sem við köllum Jesú frá Nasaret hafa fæðst ef ekki fyrir þessa skynjun meyjarinnar- þessan hæfileika til að skilja og vera næm fyrir hinum hárfínasta titringi?

V.

Og við hverfum aftur til dómsins yfir hinni íslensku stúlku. Þeir hafa fært hana að hylnum við öxará þar sem vatnið er hreint, kalt og tært. Hún hefur verið færð í poka með steinum í svo pokinn komi ekki upp á yfirborðið aftur. Einn poki fullur af holdi, minning af líkama sem ekki hlýddi reglum og dómum, sem hugsaði ófyrirgefanlegar hugsanir, fæddi barn og bjó til hneyksli.

Hvar passar poki holdsins sem er líkami okkar inn í hversdaginn okkar?

Og hvað hefur þessi líkami með Guð að gera?

Erum við eins og könnur, tóm ílát sem Guð hellir náð sinni í?

Eða gefum við með því að umlykja, styrkja og vera styrkt, með því að koma á óvart og undrast?

Og engillinn sagði: Guði er enginn hlutur um megn.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður öllum. Amen.