Guðspjall: Jóh. 14. 1-11
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Eitt sinn fór ófrísk kona til heilsugæslumiðstöðvar í þeim tilgangi að láta skoða fóstrið með sónartæki. Allt reyndist með eðlilegum hætti og hún fékk að taka heim með sér mynd af fóstrinu. Þessi kona var komin rúmlega einn mánuð á leið og fáir vissu að hún var ófrísk. Hún ákvað að sýna bróður sínum myndina af fóstrinu. Hún spurði hvað hann sæi á myndinni? Bróðir hennar virti myndina um stund fyrir sér og sagðist svo sjá framrúðu! Hann hló mikið þegar han skildi hvers kyns var og óskaði systur sinni og barnsföðurnum hjartanlega til hamingju um leið og hann óskaði þeim alls hins besta. Já, sitt sýnist hverjum.
Þannig er því einnig farið með kristna trú og grundvöll hennar Jesú Krist. Það tók sinn tíma fyrir lærisveinana að átta sig á því hver Jesús var í raun og veru. Jesús spurði eitt sinn lærisveinana að því hver þeir teldu að hann væri. Frægt er svar Símonar Péturs sem sagði: "Þú ert Kristur, sonur hins lifandi Guðs". Og þannig hefur það verið fram á þennan dag að fagnaðarerindið um Krist hefur opinberast smælingjum en verið hulið spekingum og hyggnum mönnum.
Hvers konar mynd höfum við af Jesú Kristi í huga okkar? Erum við búin að afgreiða hann í eitt skipti fyrir öll með því að setja honum einhver takmörk eða erum við búin að sætta okkur við það að við getum ekki sett honum takmörk? Hann hefur sýnt að hann getur brotið náttúrulögmálin. Hann gefur blindum sýn, daufum heyrn, lamaðir ganga og dauðir rísa upp skv. vitnisburði guðspjallanna.
Ég hygg að við séum fæst með kristindóminn á hreinu. Ég er að minnsta kosti ekki með hann upp á vasann þó að ég sé prestur því að kristindómurinn vekur upp fleiri spurningar en hann svarar í einfaldleik sínum. En reynsla kynslóðanna er sú að ef við leitum daglega eftir samfélagi við Guð með lestri ritningarinnar og bænahaldi þá hefst trúarvöxtur sem sér ekki fyrir endann á. Þegar við leitum í einlægni og höfum allt Guðs orð að leiðarljósi þá ljúkast ýmsir leyndardómar kristindómsins upp fyrir okkur fyrir tilstilli heilags anda sem hjálpar okkur að skilja orðið sem við lesum. Þá förum við að finna það að Guðs orð talar inn í aðstæður okkar hvar sem er og hvenær sem er.
Eins og kunnugt er þá valdi Jesús sér lærisveina sem hann vildi kenna. Þeir strituðu flestir í sveita sins andlits í þeim tilgangi að hafa ofan í sig og sína eins og gengur. Þeir tóku sjálfir þá ákvörðun að yfirgefa allt og fylgja honum. Þá tók við þriggja ára tímabil þar sem þeir áttu í andlegri og líkamlegri baráttu. Þeir áttu við ýmis konar vandamál að stríða sem þurfti að leysa. Og Jesús hjálpaði þeim að leysa vandamálin eins vel og hann gat. Þeir héldu hópinn og ýmislegt merkilegt og spennandi gerðist fyrir tilstilli Jesú sem gaf blindum sýn, læknaði lamað fólk, rak illa anda út af fólki, allt þetta gerði hann fyrir augunum á þeim. Ef eitthvað var varð þetta til þess að þjappa hópnum saman. En svo gerðist það einn daginn að Jesús sagðist ætla að yfirgefa þá og bætti við: "Þangað sem ég fer getið þér ekki komist".
Sá heimur sem lærisveinahópurinn hafði búið við hrundi nú til grunna. Allt sem þeir töldu að væri sjálfsagt og eðlilegt var það ekki lengur
Okkur finnst svo margt sjálfsagt í lífinu. Við gerum ráð fyrir því að sjá börnin okkar og maka á lífi þegar við vöknum að morgni dags. Við viljum geta gengið að ýmsum hlutum vísum heima hjá okkur eins og tannkreminu og tannburstanum. Við viljum geta gengið að fötunum okkar vísum í klæðaskápnum helst straujuðum og hreinum. Og við karlmennirnir viljum helst að inniskórnir séu á sínum stað í andyrinu þegar heim er komið eftir erilsaman vinnudag.
Enda þótt ég slái hér á létta strengi þá er lífið ekkert sjálfsagt mál. Guð hefur aðeins gefið okkur eitt líf og það er eins gott að við notum það vel meðan tími gefst til. Alvarleg veikindi setja strik í reikninginn hjá öllum sem verða fyrir þeim. Þau hafa áhrif á heimilislíf fjölskyldna sem verða oft að laga sig að nýjum aðstæðum. Það kostar oft mikla þolinmæði og vinnu sem reynir á alla fjölskylduna. Og þegar áföllin dynja yfir þá hellist myrkrið yfir. Þeir tímar koma í lífi okkar þegar við verðum að trúa er við getum ekki sannað og þegar við verðum að samþykkja þegar við getum ekki skilið. Ef við trúum því á myrkasta skeiði lífs okkar að það sé tilgangur með lífinu, að það sé Guðs vilji að veita okkur vonarríka framtíð þá verður hið óbærilega þolanlegt og við sjáum skímu í myrkrinu. Við heyrum orðin sem lesin voru í guðspjalli dagsins: "Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig". Í þessum heimi þar sem hið illa virðist oft vera að ná yfirhöndinni er gott að mega treysta á gæsku Guðs.
Hún er til staðar í Jesú Kristi sjálfum, upprisnum og lifandi. Jesús er sönnun þess að Guð er fús til þess að gefa okkur allt sem hann hefur til þess að gefa. Eða eins og Páll postuli orðar það: "Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni, heldur framseldi hann fyrir oss alla, hví skyldi hann ekki líka gefa oss allt með honum". Ef við trúum því að í Jesú Kristi sjáum við mynd af Guði þá getum við í ljósi þessa undursamlega fyrirheitis mögulega samþykkt það sem við getum ekki sklið og átt staðfasta trú í stormum lífsins.
"Í húsi föður míns eru margar vistarverur", segir Jesús í guðspjalli dagsins. Gyðngar héldu því fram að í komandi heimi væru margar vistarverur, góðar fyrir þá sem breytt vel og slæmar fyrir þá sem höfðu breytt illa í lífinu. Biblían segir frá því að við lok tímanna muni Jesús koma aftur og dæma lifendur og dauða. Skv. orðum ritningarinnar má ráða að þá muni þeir sem hafi tekið á móti Jesú Kristi í lífi sínu ganga inn í himininn en hinir sem hafi ekki gert það muni verða dæmdir eftir verkum þeirra.
Aftur og aftur sagði Jesús lærisveinum sínum hvert hann væri að fara en einhvern veginn þá skildu þeir hann aldrei. Hann sagðist vera að fara til föður síns sem hafði sent sig en hann væri eitt með honum. Þeir fengu engan botn í þetta mál. Því síður skildu þeir þann veg sem Jesús sagðist þurfa að ganga sem var vegur krossins. Lærisveinarnir voru gjörsamlega ruglaðir í ríminu. Á meðal þeirra var einn sem gat aldrei sagt að hann skildi það sem hann skildi ekki en það var Tómas. Hann var of heiðarlegur og einlægur til þess að láta sannfærast af óljósum orðum. Tómas varð að vera viss. Svo að hann lét efasemdir sínar í ljós og skort sinn á skilningi. Og það dásamlega er að spurning efasemdarmannsins olli því að Jesús lét frá sér fara eitthvað það stórkostlegasta sem hann hafði nokkurn tíma sagt. Það þarf enginn að skammast sín fyrir efasemdir sínar vegna þess að það er blessunarlega satt að sá sem leitar af einlægni mun að lokum finna.
Jesús sagði við Tómas: "Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið". Þeir sem gefast Jesú finna það með tímanum að þessi orð hans eru merkilega trúverðug og rétt.
Hvað átti Jesús við er hann sagði: "Ég er vegurinn..?" Við skulum ímynda okkur að við séum í ókunnu þorpi og við biðjum einhvern um að vísa okkur til vegar. Sá sem vísar okkur til vegar segir þá: "Farið áfram þessa götu og beygið fyrstu götu til hægri og aðra til vinstri. Farið síðan yfir torgið, framhjá kirkjunni, beygið síðan í þriðju götu til hægri og gatan sem þið eruð að leita að er sú fjórða til vinstri". Við villumst örugglega áður en við erum hálfnuð ef við förum eftir þessari lýsingu.
En ef sá sem við spyrjum til vegar segir: "Komið, ég skal fara með ykkur þangað", þá komumst við örugglega alla leið. Þetta gerir Jesús fyrir okkur. Hann gefur okkur ekki aðeins góð ráð heldur býðst hann til þess að leiða okkur persónulega áfram alla daga.
Jesús sagði: "Ég er sannleikurinn..". Enginn kennari hefur íklæðst þeim sannleika sem hann kennir, - nema Jesús Kristur sjálfur. Ef við viljum kynna okkur mann sem er siðferðilega fullkominn þá sjáum við þann mann í Jesú Kristi.
Enn sagði Jesús: "Ég er lífið..". Í dag eru margir að leita að einhverju sem gefur lifinu tilgang. Kærleikur Jesú Krists gefur lífinu tilgang og hann veitir líf sem er í fullri gnægð.
Þá segir Jesús setningu sem margir eiga erfitt með að kyngja. En hann segir: "Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig". Jesús einn er vegurinn til Guðs, í honum einum sjáum við hvernig Guð er og hann einn getur leitt menn inn í dýrlega nærveru Guðs.
Biskupinn yfir Íslandi hvatti okkur til þess að biðja fyrir föngum og vandamönnum þeirra alla síðastliðna viku. Bæn í Jesú nafni kemur mörgu góðu til leiðar í lífi allra fanga á Íslandi. Fangar hafa samvisku eins og allir aðrir. Þegar orð Guðs fer að virka á hjörtu þeirra þá kallar það fram iðrun og yfirbót þar sem þeir játa syndir sínar og taka á móti fyrirgefningu Guðs sem feykir burt misgjörðum þeirra vegna þess að hann elskar þá. En þótt Guð fyrirgefi þeim þá er þjóðfélagið ekki tilbúið til þess að fyrirgefa þeim. Þeir verða að taka út sinn dóm. En trúin á Guð gerir þeim lífið léttbærara innan fangelsisveggjanna.
Í dag eru margir fangar eigin hugmynda um lífið og tilveruna. Þeir hafa reist múr umhverfis sig og vilja engum hleypa að sér. En Guð þekkir alla menn vegna þess að hann hefur skapað okkur. Enginn getur flúið auglit hans. En hvers vegna að flýja? Guð er kærleikur. Hann vill bjarga okkur, brjóta niður múrana sem við höfum byggt umhverfis okkur til þess að við séum færari um að takast á við lífið og tilveruna. Það er dásamlegt að fá að vera barn Guðs og ganga á hans vegum. Megi góður Guð blessa okkur öll í Jesú nafni. Amen.
Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda, svo sem var frá upphafi er og verður um aldir alda. Amen.