Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen
Gleðileg jól,
það skiptir engu hvernig færðin er og hvaða leið um þjóðvegi landsins eða lendur hugans er farið, heiðar, fjallvegi sem næst ekki að moka vegna ófærðar þá koma jólin til okkar. Það er ekkert sem getur frestað jólunum. Hversu oft hefur maður hugsað með sér að það væri gott að fá einn dag í viðbót til undirbúnings jólanna. Einhverstaðar á þeim slóðum fann miðaldra heimilisfaðir sig í fyrra og ákvað að senda jólakortin rafrænt aðallega vegna þess að hann fann síg í skafla tímaleysis.
Hugsið ykkur að það hefði orðið upplit á mörgum í gær á Þorláksmessudegi, ys og þyt hjá eftirvæntingafullum vegfarendum við jólainnkaupin og í kallkerfi verslunarkringlanna í borginni og nærsveitum, nú eða bara heima í elhúsinu hefði heyrst ábúðarfull rödd segja að dagskrá útvarps hefði verið rofin vegna mikilvægrar tilkynningar frá Veðurstofu Íslands. Veðurstofa Íslands - því miður verður að fresta jólunum vegna ófærðar. Jólin eru föst í skafli uppi á heiði huga landsmanna og óvíst hvort þau nái til byggða í tæka tíð. Veðurstofan.
Víst má vera að margir hafi fundið sig í sköflum að því er virðist ófærum með öllu dagana fyrir jól á aðventunni, um hvað hægt væri að gefa ástvinum og vinum í jólagjöf sem eiga allt. Alltaf eru einhverjir forsjálir og skella keðjum undir ímyndunaraflið sem skilar þeim þangað sem þau ætluðu sér á meðan aðrir eru úti að aka, kannski slétt sama um færðina, og finna sig fastir í skafli þess sem hefði ekki þurft að vera. Hvort heldur á keðjum eða sléttsama dekkjum hugans þá er ekkert sem getur seinkað jólunum. Þótt eins og áður segir hafi verið hugur hjá einhverjum fullorðnum að fresta jólunum, þótt ekki væri nema einn dag. Samkór bjartra radda barna taka auðvitað ekki undir þá ósk. Barnanna vegna máttu jólin alveg hafa komið í fyrradag. Eða svo var að heyra á þeim börnum sem sóttu kirkjuna heim á aðventunni. Andaktug hlýddu þau á fæðingarfrásöguna um Jesú barnið, konung heimsins. Vitringana sem komu langan veg að leita barnsins. Þegar börnin voru spurð hvar þau myndu leita af konungi heimsins varð fátt um svör, þar til eitt þeirra kurteisislega rétti upp hönd og sagði „Í sturtunni.“ Börnin hafa beðið óþreyjufull eftir kvöldinu í kvöld, aðfangadagskvöldi með tilheyrandi spennu og gleði að loks renndu jólin sér fyrir stundu fótskriðu á hálku eftirvæntingarinnar. Jafnvel harðúðugstu hjörtu með drif á öllum og keðjum í ofanálag leyfa sér um stund að dvelja í þeim fögnuði sem jólahátíðin ber með sér. Norðaustan stormur og beljandi hríð getur ekki þaggað eða kæft þann frið og þá kyrrð sem kirkjuklukkur landsins fyrir fáeinum mínútum sameinuðust um að hringja inn jólahátíðina eða svo hélt ég þar til nýverið ég heyrði af fimm ára gutta sem heyrði í kirkjuklukkum Hallgrímskirkju hringja inn jólin eitt árið-hrópaði upp yfir sig – „Mamma, Pabbi – ísbíllinn er komin!“
Víst má vera að ófáir hafa notað svartan fössara eða Cyber mánudag í lok nóvember þ,e.a.s. þeir forsjálu til þess að versla gjafir sem nú kúra undir slúttandi sígrænum greinum jólatrésins sem stolt og ábúðafullt stendur inni í stofu heima í framandi umhverfi – fyrir tréð. Varla búin að átta sig á hvert það er komið og til hvers er af því ætlast með ljósaperur og marglitar kúlur og skraut hangandi á greinum þess sem nokkru áður-já nokkru áður var hluti af allt öðrum veruleika – víðáttu landslagi með tengingu við móður jörð. Það sama má segja um okkur að við erum stödd í allt öðrum veruleika í kvöld, en í moldu hversdagsins og það er yndislegt.
Á pari, en ekki alveg við þann veruleika sem ungu hjónin frá Nasaret forðum daga bjuggu við og að endingu fæddi barn í Betlehem og barnið var lagt í jötu eins og sagði í guðspjallinu hér áðan. Í dag á tímum alsnægta og tilboða er jólafrásagan fljótt á litið svolítið eins og vel skrifuð spennusaga nema spennusagan á sér upphaf og endir því nútíminn hefur ekki þolinmæði eða eyrð í sér að bíða eftir að þræðirnir eru hnýttir saman í endi sem fyrirheit voru um fyrr í sögunni eða ekki.
Jólafrásagan er einföld í margræðni sinni og aðeins hálf sagan sögð eins og allar aðrar sögur eins og einn ágætur rithöfundur sem flaut upp á yfirborðið í jólabókaflóðinu dagana fyrir jólin náði eigin röddu að segja, áður en óþolinmóður SMSnútíminn kaffærði röddu hans með dægurþrasi sínu.
Já, sagan um Jesú Krist gerðist í tíma og rúmi, en ekki ævintýri sem byrjar jafnan á orðunum „Einu sinni var.“ Nei, þessi saga gerðist á dögum Ágústusar keisara þegar Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Og fleira nafngreint fólk kemur þar við sögu og hún, sagan er að raungerast í dag því hún er aldrei fullsögð eða kláruð.
Sögur gerast á öllum tímum líka í dag. Sögur og persónur sem vilja ekki endilega láta nafns síns getið eins og heimilsfaðirinn sem sagði frá hér í upphafi sem ákvað að brjótans út úr hefðinni að vera með báða fætur í nútímanum eins og hann sjálfur átti að hafa komist að orði. Í fjölskylduboði á jóladag varð umræða um hvort tréð í stofunni væri ekki alveg örugglega íslenskt tekið tillit til hlýnunar jarðar. Okkar maður uppveðraðist allur og sagði: „Það að senda jólakort með póstinum væri gærdagurinn á tímum umhverfisvitundar og sótspora dagsins í dag“ og bætti við „að hann vildi gera sitt til þess að börnin hans og barnabörn fædd og ófædd gætu lifað á þessari einu jörð sem okkur væri úthlutað.“ Var ekki laust við að hann sjálfur hafi komst við, við þessi orð sín. Engin viðstaddra tók undir orð hans, heldur frekar reyndu að tala um allt annað en - jólakort. Um kvöldið þegar gestirnir hver af öðrum kvöddu, flestir ef ekki allir með þeim orðum að tími væri komin til að hittast oftar fór hann í tölvuna til að gæta að hvort hann kveðjan hafi ekki skilað sér. Hann hafði vissulega verið orðin seinn að senda kveðjurnar og ýmislegt annað sem truflaði hann þegar hann ýtti á - Send – Honum til mikillar skelfingar var ekki að finna hefðbundna jólakveðju það árið. Á rafrænu jólakveðju hans til vina og vandamanna í fyrra stóð: Eðlilegt hól. Guð gefi þér herfilegt hár. Klökkur yfir liðnum tárum. Kær kveðja....
Það má alveg segja að jólin komi langan veg. Þunguð María og Jósep fóru langan veg og vegleysu til þess að þeim var úthýst af gistihúsaeiganda. „Því miður ekkert pláss.“ Hvernig sem það kemur okkur fyrir sjónir, hvort sem við finnum okkur í plássleysi eða ekki og eða farið langan veg. Úthýsum ekki jólunum þrátt fyrir að það hafi fennt í huga einhverra dagana fyrir jólin og allt virtist vera óyfirstíganlegt. Látum ekki leiðréttingarforrit rétthugsunar dagsins í dag leiða okkur afvega í þeirri viðleitni okkar að fagna og gleðjast á fæðingarhátíð frelsarans. SMS skilaboð englanna löngu fyrir daga snjallsíma og tækja á Betlehemsvöllum var að „Yður er í dag frelsari fæddur...“ tökum við þeim skilaboðum og varðveitum þau á Story lífsbókar okkar þótt það vari ekki nema einn dag því lífssagan verður aldrei kláruð.
Guð gefi ykkur, fjölskyldum ykkar
nær og fjær gleðiríka jólahátíð.