Það var hvíldardagur, Jesú var boðið í veislu hjá höfðingjum landsins. Ef til vill var það eins konar “messukaffi” eftir guðsþjónustuna í musterinu. En farísearnir voru guðhræddir menn og vildu fara eftir lögmálinu, - helst út í æsar. Þeir höfðu heyrt, að Jesús hefði leyft sér að lækna fólk á hvíldardegi, en það var ekki góð latína að þeirra mati og það segir í guðspjallinu að þeir hafi haft gætur á Jesú, þeir ætluðu aða reyna að hanka hann á þessu eða einhverju öðru sem hann segði eða gerði.
Hvíldardagurinn þeirra var á laugardegi, samkvæmt gamla sáttmálanum, gamla testamentinu og það stóð skýrum stöfum í boðorðunum að það ætti að halda hvíldardaginn heilagan og þá mætti ekkert verk vinna á þeim degi. Nú var Jesús kominn í boðið, kannski var þar fjöldi manns, en hin vökulu augu Jesú sáu bara einn mann, fársjúkann mann, hann kenndi í brjósti um hann, - það var nefnilega þannig að Jesús mátti ekkert aumt sjá. Hvernig var þessi veiki maður kominn í boðið? Jú ritskýrendur NT hafa stungið upp á ýmsu, t.d. ku það hafa verið nokkuð algengt, að þegar höfðingjarnir héldu veislur, þá gat fólk komið utan af götu, staðið með veggjum og horft á höfðingjana matast og tala saman. Þetta var í raun eina leiðin til að fá fréttir og heyra um það sem var að gerast í bænum. Það gæti því verið að þessi veiki maður hafi komið þannig inn, eða hreinlega séð þegar Jesús fór inn í húsið og fylgt eftir í von um hjálp. Þá er einnig hugsanlegt, að höfðingjarnir hafi boðið þessum veika manni til að sjá hvort Jesús færi að lækna hann. En eitt er ljóst, Jesús sá strax þennan mann. Hann langaði til að hjálpa honum, gefa honum nýtt líf, nýja möguleika. Jesús leit í kring um sig, sá alla þessa höfðingja, já reyndar sá hann svip þeirra, tortryggni þeirra, hjartaarðúð þeirra og spurði: Er leyfilegt að lækna á hvildardegi? Enginn svaraði, það varð dauðaþögn.
En Jesús gekk til mannsins tók á honum, eins og segir í textanum, kannski tók hann utan um hann, sínum kærleiksörmum, læknaði hann og lét hann fara leiðar sinnar. En Jesús hélt áfram og spurði: Ef einhver ykkar á asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp þótt hvíldardagur sé, - enn gátu þeir engu svarað.
Það segir frá því á fleiri stöðum í NT að Jesús hafi læknað á hvíldardögum, en ávallt notaði hann tækifærið til að prédika, hann var að reyna að koma því fagnaðarerindi til skila, að hvíldardagurinn er ekki til hvíldardagsins vegna, ekki vegna reglunnar, heldur er hvíldardagurinn til mannsins vegna. M.ö.o. hvíldardagaurinn er til góðs, þess vegna má reglan um hann ekki hindra kræleiksverkin, kærleiksþjónustuna sem við erum ávallt kölluð til að sinna einnig á hvíldardögum. Nú var hvíldardagurinn á laugardegi og vísað til sköpunarsögunnar eða sköpunarsálmsins á fyrstu síðu Biblíunnar, en þar segir að 7. daginn hafi Guð lokið verki sínu og hvílst.
En hvers vegna notum við fyrsta dag vikunnar, sunnudaginn sem hvíldardag nú á tímum. Jú, það eru góðar ástæður fyrir því. Aðalástæðan er sú, að Jesús reis upp frá dauðum á páskadag, á sunnudegi og frá þeim degi hefur kristið fólk komið saman til að minnast upprisunnar, sunnudagurinn hefur stundum verið kallaður Drottins dagur, til að undirstrika þetta. Upprisan er slíkur atburður, veruleiki, að það var ekki hægt að hugsa sér meira viðeigandi dag til þess að taka frá til hvíldar og bænar.
Síðan getum við bætt við, Sunnudagurinn bendir einnig til hins fyrsta dags sem skapaður var, þegar segir: Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. Jörðin var þá auð og tóm. Myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötnunum. Þá sagði Guð: Verði ljós, og það varð ljós. Sunnudagurinn, sólardagurinn var orðinn til. Þessa dagana stendur heimsbyggðin á öndinni yfir tilraunum vísindamanna í mikilli vísindastöð í Sviss, það er verið að reyna að komast að því hvernig heimurinn varð til. Þúsundir vísindamanna hafa undirbúið þessar tilraunir og vissulega er þetta dýrt, stjarnfræðilegar tölur nefndar, - þetta er spennandi, -en ekki nýtt. Á öllum öldum hefur fólk velt vöngum yfir sköpuninni, - hvernig varð allt til, hvernig byrjaði þetta allt, margar kenningar hafa verið smíðaðar og þúsundir bóka hafa verið skrifaðar. Ég tók mér eina gamal bók í hönd í vikunni, Játningar Ágúsínusar kirkjuföður, sem uppi var um 400 e. Kr. Hann var mikll hugsuður, heimsspekingur og guðfræðingur. Han veltir fyrir sér sköpuninni og “tímanum” í þessum kafla sem ég las. Hann veltir fyrir sér þessu með fortíð, nútíð og framtíð. Hvernig virkar þetta í raun. Erum við að tala um löng eða stutt tímabil, og þá hve löng og hve stutt. Erum við að tala um árið, að þetta ár sé nútíð, árið í fyrr fortíð og næsta ár framtíð, svo þrengir hann þessa mynd, er það mánuðurinn, er það dagurinn, - að dagurinn í dag sé nútíð, dagurinn í gær fortíð o.s.frv. Og enn dregur hann þetta saman í klukkutíma, mínútu, sekúndu, sekúdubrot. Þegar hér var komið sögu, þá fannst mér hann í raun vera kominn inn í rannsóknarstöðina í Genf, því hann var í sömu vangaveltunum og vísindamenn nútímans. En það vafðist samt ekki fyrir þessum hugsuði frekar en mörgum öðrum, að bak við sköpunarundrið sé Guð, vakandi auga Guðs, þessi undur tæra lind, sem nærir og lífgar allt sem er, - þessu má ég treysta, trúa á. Sunnudagurinn getur vissulega minnt mig á þetta.
Nú til viðbótar við þetta með sunnudaginn, sköpunina og upprisuna, páskadaginn, þá má nefna hvítasunnuna, hún var á sunnudegi, þegar heilögum anda var úthelt í hjörtu lærisveinanna og kristin kirkja varð til. M.ö.o. í um 2000 ár hefur kristið fólk komið saman á sunnudögum til að gleðjast í trúnni, játa trúna, lofa Guð, biðja saman fyrir landi og lýð, eiga samfélag við Guð og við hvert annað.
Jesús sagði meira í þessu boði, hann tók eftir því að sumir höfðu valið sér bestu sætin, hefðarsætin og hann notaði enn tækifærið til að prédika og kenna. Og þegar þetta allt er skoðað í samhengi, líka það sem Jesús kennir í öðrum guðspjöllum, þá lít ég svo á að hann sé að kenna okkur um reglur guðsríkisins. Það eru ekki sömu relgur hjá Guði, eins og milli okkar mannanna. Við gerum okkar reglur og höfum okkar siði, en Guð er ekki háður því, réttlæti hans er ofar okkar réttlæti. Og hann minnir okkur á, að hjá Guði geti reglan orði þannig að þeir fyrstu verði síðastir og hinir síðustu fyrstir . Jesús líkir oft himninum, guðsríkinu við veislur, kvöldverð eða brúðkaup, hugtök sem fólk þekkti, en þá er gott að vita að í guðs ríkinu ríkir miskunnin, eða eins og segir um Guð hjá Míka spámanni: “Guð hefur unun af því að vera miskunnsamur.”
Þegar Jesús læknar á hvíldardegi, þá er nokkuð ljóst, að hann er einnig að benda fram til hinnar eilífu hvíldar, hann er að lýsa eilífa lífinu, þar sem Guð er allt í öllu, þar sem birta hans, ljós hans umlykur allt.
Hin kristna messa, eins og við leitumst við að halda hér í dag, á að bera keim af himninum. Þegar við göngum til messu, þá erum við að ganga til móts við hinn upprisna Krist, konung konunganna. Hér eru allir jafnir. Þegar við dekkum veilsuborðið, altarið, tilreiðum heilaga kvöldmáltíð, þá er það gert í þeirri trú, að hinn þríeini Guð sé nálægur, fyrir anda sinn og kraft - í, með og undir brauðinu og víninu. Öllum viðstöddumm er boðið að ganga innar, eins og það heitir svo fallega, ekki í sérstakri röð, okkur er öllum boðið að háborðinu, það fá allir það saman undir opnum himni Guðs. Við prestarnir áttum yndislegan dag með fermingar börnum næsta vors, þau voru frábær, gaman að kynnast þeim, en þar lærðum við m.a. um messuna og máltíðina, sem við senn verðum boðin til...
Kæri söfnuður! Notum sunnudaginn til hvíldar,til kærleiksverka og samfélags.
Dýrð sé Guði föður syni og heil. anda, svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.
Nú verður safnað til HK. Þetta er tækifæri safnaðarins til þess að taka þátt í kærleiksþjónustu kirkjunnar, rétta þeim sjúku, fátæku og hrjáðu hjálparhönd, eins og Jesús kenndi okkur með öllu sínu lífi og starfi.
Meðtakið postulega kveðju: Náð Drottins vors Jesús Krists, kærleiki Guðs og samfélaga heilags anda sé með yður öllum. Amen.