,,Þá er upp var runninn hvítasunnudagur voru allir saman komnir á einum stað. Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.” Post. 2:1-4
Þessa frásögn má finna í upphafsversum annars kafla Postulasögunnar. Lærisveinarnir fylltust heilögum anda, töluðu tungum eins og andinn gaf þeim að mæla, eins og segir í textanum. Drottinn hafði lofað þeim að hjálparinn myndi leiða þá og það gerði andinn og gerir enn í dag.
Undrið á Hvítasunnu hefur verið sagt marka upphaf kirkjunnar. Hvítasunnan er engu síðri stórhátíð en jólin og páskarnir þó svo minna fari kannski fyrir henni í vitund almennings. Hvítasunnuhelgin markar hjá sumum upphaf ferðalaga og þess að fjölskyldan gerir nýja hluti saman, hluti sem tengjast samverum og útivist.
En andinn starfar enn í kirkju Krists í heiminum, jafnt við rúmstokkinn þar sem foreldrar kenna börnum sínum bænavers og í kirkjunum þar sem söfnuðurinn kemur saman til helgihalds.
Um liðna Hvítasunnuhelgi voru fjöldinn allur af unglingum fermd í kirkjum landsins. Þar svara þau játandi að loknum fræðsluvetri spurningunni hvort þau vilji leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga sínum í lífinu. Í fermingunni staðfesta þau þann vilja sinn að tilheyra kirkjunni.
Fermingarfræðslan hefur verið sögð kóróna skírnarfræðslunnar sem fjölskyldan og söfnuðurinn taka að sér við skírnarlaug. Þannig haldast þær athafnir í hendur og kirkja og foreldrar styðja börnin á þeirri farsælu vegferð. Samfylgd kirkjunnar með söfnuði sínum er víða sýnileg og samstarfið farsælt. Barnakórar eru starfandi, sunnudagaskólar og kirkjustarf fyrir æskulýð á öllum aldri í boði í flestum söfnuðum landsins.
Starfið heldur því áfram í kirkju Krists í heiminum. Nýir lærisveinar eru kallaðir til fylgist við Krist, kærleikann og sigur lífsins. Kirkjan er á flugi, vængirnir eru andinn og eldsneytið Orðið. Upphafsstaðurinn og áfangastaðurinn er Jesús Kristur sem fyrir anda sinn er einnig við stjórnvölin og vill gera alla hluti nýja, og þar með þig og mig.