Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim, og voru þeir á tali við hann. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: Herra, gott er, að vér erum hér. Ef þú vilt, skal ég gjöra hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.Meðan hann var enn að tala, skyggði yfir þá bjart ský, og rödd úr skýinu sagði: Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta, féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: Rísið upp, og óttist ekki. En er þeir hófu upp augu sín, sáu þeir engan nema Jesú einan.
Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim og mælti: Segið engum frá sýninni, fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum. Matt. 17.1-9
Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni Jesú Kristi.
Hver er munurinn á jarðneskum og himneskum veruleika? Kæri söfnuður. Ýmsir myndu segja að þessari spurningu væri ekki hægt að svara. Aðrir myndu segja að hún væri leiðandi. Sumir myndu svara því til ekki væri hægt að spyrja að þessu vegna þess að eingöngu væri til jarðneskur veruleiki. Hið himneska væri ekki veruleiki, heldur draumsýn og óskhyggja.
Hliðstætt gildir um þetta og um það þegar við sem tilheyrum kristinni kirkju tölum um trúarsannandi. Þeim sem ekki trúa eru það engin sannindi sem byggja á trúnni einni. Jafnvel reynsla einstaklinga sem eru bæði við góða andlega heilsu og allsgáðir er dregin í efa ef hún er talin ganga lengra en jarðneskur veruleiki leyfir.
En hvað er þá jarðneskur veruleiki? Er það ekki allt sem í raun hendir á jörðu?
Einhverntíma rakst ég á setninguna: Maður á ekki að tjá um það sem maður skilur ekki. Þessi setning gerir ráð fyrir því að skilningur sé eingöngu vitmsmunalegur og með þeim hætti að hann verði útskýrður með orðum. Þetta er augljóslega mjög þröngt sjónarhorn.
Ég get alls ekki útskýrt margt sem ég er sannfærður um. Margt af því sem er sannleikur getur verið með þeim hætti að að ég geti ekki útskýrt það. Besta dæmið um þetta eru tilfinningar. Hversvegna elska ég? Og hvað er það nákvæmlega sem ég elska? Ég get líka heyrt að einhver hljómur í hljóðfæri eða kórsöng sé falskur, án þess að geta sagt nákvæmlega til um það hvaða nóta truflaði samhljóminn.
Mér líður vel í nálægð sumra en illa í nálægð annarra. Það er sterk og skýr skynjun en ég veit ekki hversvegna og veit ekki hvernig ég á að skýra það.Hversvegna er svona góð lykt af kornabörnum? Hversvegna styður þessi algjörlega óútskýralega lykt löngunina til að vera þessu barni góður, og vernda það og styðja með öllum mætti? Þetta er okkur algjörlega raunverulegt. En er það veruleiki?
Sá atburður sem lýst er í guðspjalli dagsins, ummyndunin á fjallinu, vekur margar spurningar, ekki bara um atburðinn sjálfan heldur um merkingu hans. Hann er einn sá staður guðspjallanna sem jafnvel ýmsir þeir sem þó játa trú á Krist vilja draga í efa.
Hvað var það sem þeir þrír sem voru með Kristi á fjallinu sáu í raun og veru? Voru þeir yfirleitt vakandi? Voru þeir í einhverju undarlegu ástandi? Guðspjallið segir: Hann ummyndaðist fyrir augum þeirra, þeir féllu fram á ásjónur sínar og hræddust mjög.
Postulinn Pétur hefur greinilega orðið fyrir einhverjum hremmingum þegar hann var að reyna að segja frá þessum atburði, annars hefði hann ekki orðað þetta eins og hann gerir í pistli dagsins:
Ekki fylgdum vér uppspunnum skröksögum, er vér kunngjörðum yður mátt og komu Drottins vors Jesú Krists, heldur vorum vér sjónarvottar að hátign hans. Því að hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð, þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Þessa raust heyrðum vér sjálfir, koma frá himni, þá er vér vorum með honum á fjallinu helga.
Hvað var það sem gerðist? Það má nálgast þá spurningu með ýmum hætti. Það má til dæmis vísa í orð Jesú Krists þegar hann segir við Mörtu :
Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu? Hún segir við hann: Já, herra. Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn. (Jh. 11.25-27.)
Trúir þú þessu?
Trúir þú því að þetta hafi gerst á fjallinu? Já, ég trúi því. En hvað þýðir þá ummyndun?
Orðið á bak við er Metamorfósþai. Það segir gríski textinn. Hugtakið metamorfosis kemur fyrir í ýmsum stöðum í nútímanum, meira að segja í bío og tölvuleikjum. Og þar er ummyndun með ýmsum hætti, meira að segja er algeng ummyndun hins illa í eitthvað gott, en ekki til að verða góður heldur til að nota hið góða yfirbragð til ills. Þetta er umhugsunarefni.
Að baki býr ótti og tortryggni. Að baki býr ótti við hið illa. Hvers vegna skyldi það vera? Getur verið að það sé vegna þess að mennirnir séu of uppteknir við hina jarðnesku möguleika sem birtast oftar í því sem aflaga fer en í hinu góða, vegna þess að hið góða er ekki samskonar fréttaefni og hið illa? Er það ekki líka umhugsunarefni?
Í gær (4.febrúar) var öld liðin frá fæðingu þýska guðfræðingsins Dietrich Bonhoeffer. Hann var einn af þeim sem studdu tilræði við Hitler 20.júní 1944. Það var samkvæmt okkar tímatali þremur dögum eftir lýðveldishátíðina hér á Þingvöllum 1944. Fyrir það var hann tekinn af lífi 9.apríl 1945.
Bonhoeffer þreyttist ekki á að fjalla um söfnuðinn, kirkjuna, sem hina sýnilegu mynd Krists á jörðu. Hver sá sem tekinn er inn í söfnuð hans er eins og grein gróðursett á tré og ber ávöxt í samræmi við það. Kristinn maður tekur á sig yfirbragð Krists. Ekki skyndilega eins og í ummyndun Krists, heldur smátt og smátt.
Þegar þeir litu upp, segir guðspjallið, sáu þeir Jesú einan.
Hvar sé ég Jesú á þessum morgni? Ég horfi yfir kirkjuna héðan af predikunarstólnum og ég sé ykkur, söfnuðinn. Og hvað sé ég þá? Líkama Krists á jörðu. Hann sjálfan. Getur verið að eitthvað skorti á þá ummyndun til líkingar við Krist sem okkur er falin og búist við er af okkur?
* * *
Hinir latnesku kirkjufeður gáfu skýringu á ummynduninni. Þeir sögðu: Ummyndun er ekki transsubstantiatio heldur transfiguratio. Það er semsagt svo að ummyndun er ekki efnisbreyting heldur formbreyting. Kristur er hinn sami en hann tekur á sig aðra mynd.
Fyrir okkur sem neytum brauðs og víns í helgu sakramenti líkama og blóðs Jesú Krists gildir í raun hið sama um það. Og hér greinir okkur á við kaþólsku kirkjuna sem kennir að brauð og vín breytist bókstaflega, (transsubstantiatio) en við höfum tekið í arf kennunguna um að það sé áfram brauð og vín en ber í sér kraft hins upprisna Drottins og nálægð hans. Í brauði og víni, með því og undir því. Hliðstætt gildir um skírnina. Við verðum Krists, við verðum börn Guðs í skírninni. Við erum hin sömu, en náunginn á að geta séð Krist í því sem við erum og gerum.
Kæri söfnuður. Ummyndunarsunnudagurinn í dag er á mörkum jólatímans og föstutímans. Sunnudagarnir eftir jól, eða eftir þrettánda sem kallað er, hafa það sem meginhugsun að sýna fram á að Jesús er Guð. Allur kraftur Guðs er í honum. Honum er falið allt vald á himni og á jörð. Á jarðvistardögum sínum gekk hann um og gjörði gott. Lærisveinar hans voru til vitnis um það. Jesús er Guð. Og í ljósi þess sem gerst hefur að undanförnu í framhaldi af myndbirtingu Jótlandspóstsins getur komið sá dagur að þessi fullyrðing: Jesús er Guð, geti orðið meira lykilatriði en nokkurn órar fyrir.
En nú er semsagt fastan framundan. Og af samhengi guðspjallsins verður ljóst að undanfari þess sem hér er sagt frá er að Jesús hafði kunngjört lærisveinunum að hann skyldi fara upp til Jerúsalem til þess að þjást þar og deyja. Þetta voru þeim skelfileg tíðindi. Þegar kemur að þeim atburði sem hér er nefndur höfðu lærisveinarnir í sex daga glímt við efa og áhyggjur. Í dag kemur svarið.
Jesús tekur þrjá með sér á fjallið. Við skulum taka eftir því að það eru þeir sömu þrír og fóru með honum þegar hann vakti upp tólf ára dóttur Jairusar og þegar hann baðst fyrir í Getsemane. Við sjáum af því að þessir eru í innsta hring lærisveinanna og að aðeins þeim er á fjalli ummyndunarinnar sýnt innihald og kjarni opinberunarinnar um að Kristur eigi að líða og deyja. Andspænis dauðanum skín í gegn um jarðneskan líkama Jesú, dýrð hins himneska líkama sem Kristur mun fá í upprisunni.
Hið komandi brýst inn í núið. Það kemur og styrkir þjón Guðs á vegi hlýðninnar til dauða. Til hliðar við hann stíga fram Móse og Elía eins og vottar hinna síðustu tíma (Opb. 11.3 -14) og þeir tala við Jesú, samkvæmt Lúkasi (9.31) um brottför hans sem hann skyldi fullna í Jerúsalem.
Ljósið sem skín frá andliti og líkama Krists er dýrðin sem verður sýnileg hinum líðandi þjóni og geislinn sem í upprisu hans varpar birtu á allt líf hans. Þess vegna mega lærisveinarnir ekki segja frá þessu fyrr en hann er upprisinn.
Í myndlist kristinnar kirkju er að finna eins og í listum yfirleitt, leiðir til að segja hið ósegjanlega. Einkum í myndlist austurkirkjunnar, íkonografíunni sem svo er kölluð, er táknið um hinn himneska veruleika, möndlulaga form: Mandorla. Ummyndunin á fjallinu er þar sett í slíka möndlu. Hún segir þeim sem sér: Hér sérðu inn í himininn. Kristur kemur til þín frá himni til jarðar. Hér er tákn um það. Með þeim sama hætti má skilja tákn vatns í skírn og brauðs og víns í kvöldmáltíðinni. Það eru trúarsannindi. Hinn himneski veruleiki verður jarðneskur veruleiki.
Dýrð Guðs er hér. Hún umlykur okkur öll í því skyni að við ummyndumst æ meir og meir til myndar Krists á jörðu, uns við fáum að líta hann augliti til auglitis í dýrð himinsins. Fyrstu skrefin þangað stígum við í skírninni.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.