Leikir búa yfir félagslegum töframætti. Með einföldum reglum og sameiginlegu markmiði er leikgleði búin umgjörð sem stuðlar að vináttu og samhug meðal þeirra sem taka þátt. Leikgleði er öflugt vopn í báráttunni gegn andúð, ótta og fordómum og því viljum við skora á lögregluþjóna, presta, skáta og kennara í Brennó.
Að baki frumkvæðinu liggur samstarf tveggja hópa. Horizon er fjölmenningar-félagsskapur, sem samanstendur aðallega af múslimum, og vill auka samtal menningar- og trúarhefða í samfélagi okkar í þeim tilgangi að efla virðingu og eyða fordómum. NeDó er æskulýðsfélag sem hittist vikulega og vill breyta heiminum til góðs með því að leika, biðja og starfa saman.
Sameiginlega höfum við sem hópar og einstaklingar áhyggjur af þeirri andúð sem birtist í íslensku samfélagi í garð múslima. Í þeim anda hafa Horizon félagar heimsótt NeDó hópinn í vetur og við höfum kynnst hvert öðru, lært um menningu og trú hvers annars, farið í leiki og beðið saman. Með því að leika saman og biðja saman, múslimar og kristnir, stuðlum við að samtali og sameiginlegri virðingu sem við vonum að smiti útfrá sér.
Í nóvember síðastliðnum hélt Horizon, í samstarfi við sr. Toshiki Toma og NeDó, Ashura hátíð en henni er ætlað að fagna fjölbreytileika menningarhefða að tyrkneskum sið. Ashura hátíðin minnir á búðing Nóa spámanns en sagan segir að hann hafi blandað saman hráefnum sem öllu jafna er ekki blandað saman og að útkoman hafi orðið betri fyrir vikið. Á hátíðinni sýndu NeDó ungmennin listaverk, sem unnin voru samkvæmt tyrkneskri hefð Ebru en það er forn aðferð þar sem málað er á vatn og verkið síðan yfirfært á pappír eftir kúnstarinnar reglum.
Samtal trúarbragða getur átt sér stað með fjölbreyttum hætti. Við erum kristinn maður og múslimi. Við erum vinir og við leikum saman, lærum af hvor öðrum og biðjum saman í anda þess að vilja frið og virðingu á milli okkar trúarhefða, án þess að þurfa að upphefja okkur á kostnað hins eða sannfæra hvorn annan um að önnur trúarbrögðin séu betri en hin. Það er von okkar að íslenskt samfélag geti þróast í þá átt að eignast slíka vináttu. Við skorum á þig að koma og leika, í sannri leikgleði.
Ersan Koyunchu, formaður Félags Horizon. Sigurvin Lárus Jónsson, æskulýðsprestur Neskirkju.