Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og drottni Jesú Kristi. Amen.
Gleðilega hátíð - gleðileg jól!
Langt uppi á himninum
er stjarna
falin bak við aðrar
stjörnur
Enginn hefur séð hana
ekki einusinni í stærstu
sjónaukum heimsins
En samt er hún þarna,
hljóðlát bak við
stjörnuþokurnar
Og þarf ekki
að láta sanna
tilvist sína
Ég las hér ljóðið Dulstirni eftir Gyrði Elíasson, sem er að finna í samnefndri ljóðabók. Er undirtitill ljóðsins: Hugsað til Ísaks.
Nei, stjarnan sést ekki alltaf en samt er hún þarna.
Svolitið eins og hinn huldi Guð, sá Guð sem leitum að í erfiðum aðstæðum, þegar böl og hörmungar virðast gjarnan hafa yfirhöndina í þessum heimi og viljum að hann snúi hinu illa í burt.
Að Guð verndi og hlífi.
Já hún er þarna og þarf ekkert á því að halda að láta sanna tilvist sína; þörfin er frekar sú að við opnum augu og hjarta;
Enn höldum við jól, hátíð ljóss og friðar, einmitt þegar hvað dimmast er, og því miður alls ekki á friðvænlegum tímum.
En við vonum; daginn er aftur tekið að lengja; og vonina um meiri birtu og réttlátan frið má aldrei bresta.
Við heyrum enn einu sinni söguna um ferðalag fólksins í hernumda landinu sem er nauðugur einn kostur að hlýða yfirvöldunum og eru að sínu leyti leiksoppar valdsmanna.
Það er í eðli sagna eins og jólaguðspjallsins að við reynum að gera þær að lifandi veruleika í lífi okkar; höfum þær fyrir augum sem eins konar skapalón að viðbrögðum, við þeim aðstæðum sem sambærilegar geta talist.
Þess vegna er það, að nú fæðist Jesúbarnið í rústunum í Gaza, innanum hrundar byggingar, eyðileggingu og hörmungar.
Það er nefnilega ekki mikill vandi að tengja jólaguðspjallið gamla við þá atburði sem orðið hafa í landinu helga undanfarna mánuði.
Eins og svo oft áður er það venjulegt fólk sem líður fyrir það að valdsmenn vilja stríð.
Sagt hefur verið að staðan í pólitíkinni fyrir botni Miðjarðarhafs sé flókin og enga stund taki að pólarísera atburðina þar og afflytja þá.
Það er rétt.
Staðan er langt í frá einföld og óhófleg bjartsýni að halda að hún verði leyst í fyrirsjáanlegri framtíð. Alla vega er það ofvaxið mínum skilningi hvernig það má verða; þótt vitaskuld voni maður að friður komist á og hver maður fái lifað frjáls og með reisn.
En börnum sem fæðast á stríðshrjáðum svæðum - og deyja þar ef til vill líka - kemur það lítið við, að staðan sé flókin eða pólaríseruð og erfitt sé að segja með vissu hvernig málið verður best leyst.
Barnið vill bara fá að lifa.
Lífið biður um líf.
Öryggi og samhygð.
Mannlega reisn.
Og við hljótum líka að vilja tryggja börnum líf og öryggi.
Er annað hægt en að gera allt sem í valdi manns stendur til að svo megi verða?
Það er ekki hægt annað en að sjá Jesúbarnið í öllum þeim sem þjást og líða, hinum minnstu bræðrum og systrum, - og átta sig á því, að í þeim öllum býr Guðs mynd.
Vissulega verður maður varnarlítill gagnvart ósköpunum og fallast hendur; en samt; samt má ekki gefast upp fyrir öflum illsku og mannhaturs.
---
Eins og mörgum er kunnugt, þá eru jólaguðspjöllin 3; við þekkjum vel sögu Lúkasar af ferðalagi Maríu og Jósefs til Bethlem og englasöngunum á Bethlehemsvöllum; enn fremur Matteusarguðspjallið hvar talað er um vitringana sem fylgdu stjörnunni og fundu Jesúbarnið;
En svo er það jólaguðspjall Jóhannesar, sem lesið var frá altarinu áðan.
Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna.5Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því. … Og orðið varð hold, hann bjó með oss fullur náðar og sannleika.
Þessi orð vöktu meðvituð tengsl hjá fyrstu áheyrendum við margt; en ekki síst upphaf Fyrstu Mósebókar sem hefst á orðunum: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.”
Þegar Guð skapar með Orði sínu; með því að tala.
Er þá nokkuð svo fráleitt að segja, að Guð yrki heiminn? Heimurinn sé hans ljóð?
Fólk mótað af grískri menntun og hugsun tengdi einnig vel við þetta upphaf Jóhannesarguðspsjalls: Orðið, Logos á grísku, var meira en orðið tómt; það merkti líka hugsun, vit, skynsemi, og mætti þess vegna merkja „alheimsregla.”
Orðið birtist sannarlega í persónu Jesú Krists og þar liggur líka áhersla Jóhannesarguðspjalls.
Vilji Guðs opinberast Jesú Kristi; starfi hans og honum krossfestum og upprisnum.
En það má sjá annan vinkil á þessa framsetningu.
Orð eru til alls fyrst; Með orðum sköpum við og mótum samfélag okkar og einmitt í því berum við Guðs mynd, og þiggjum af eðli hans.
Það kemur nefnilega að því, að orðið verður hold; Þe.a.s. að það sem maður hugsar og segir, verður að gjörð, athöfn, orðnum hlut.
Já orðin eru máttug og geta breytt heiminum.
Í skáldsögunni DEUS fjallar Sigríður Hagalín Björnsdóttir einmitt um þetta, hvernig orðin skapa nýjan veruleika; frelsa jafnvel;
Ein söguhetjan, Ísabella, er margpínt eineltisbarn sem gefst uppá skólanum og fer að vinna í bakaríi og kynnist þar einum fastagesti; skáldinu Sigfúsi - en kvalarar hennar elta hana jafnvel þangað; og þegar þeir hafa hrakið hana útí horn, þá nær hún að snúa taflinu við með því að fara með kröftugt ljóð eftir Ísak Harðarson.
Hún kveður þá - bókstaflega - í kútinn. Og internetið, sem hafði verið einn vettvangur eineltisins, verður henni staður uppreistar og endurheimt virðingar.
En hér er líka glímt við áleitnar spurningar um mennsku og tilgang; mennskuna andspænis stafrænum veruleika sem sumum finnst vera að svipta okkur bæði mennsku og frelsi.
Þá er það ert einmitt með orðum; skapandi orðum, sem ein söguhetjan, skáldið Sigfús gengur á hólm við gervigreindina DEUS.
Eða öllu heldur mætir henni, með ljóðrænu málfari og umbreytir henni.
Endurskapar með orðum.
Þess vegna er það svo að þegar við látum hug okkar í ljósi, þá hefur það áhrif; jafnvel þótt í litlu sé.
Hvatning og brýningin er þá sú að við berum Jesúbarninu vitni - og þeim boðskap sem Kristur flutti heiminum - með orði okkar og æði; að við leggjum okkar af mörkum til þess að veröldin megi verða betri staður en hún er núna.
---
Ég talaði um hina huldu stjörnu hér í upphafi.
Sú kallast á við þá stjörnu sem vitringarnir sáu og vísaði þeim veginn; Þegar Guð gerir sig kunnan í barninu í Bethlehem og boðar mannkyni nýja tíma, takist því að lifa boðskap hans.
En hvaða stjörnur á himni sjá börnin á átakasvæðunum fyrir botni Miðjarðarhafs? Sennilega hafa vígahnettir lýst upp himininn þar undanfarnar vikur; en þá er það heimsbyggðarinnar allrar að sjá til að þar renni upp vonarstjarna lífs og friðar.
---
Nú er orðið heilagt.
Við höldum jól.
Minningarnar um bernskjólin eru dýrmætastar jafnan.
Og einhvern veginn verða jólin eins og magnari á minningarnar; góðar minningar verma en erfiðar minningar verða ennþá sárar á jólum.
Hugsanlega er hér einmitt ástæða fyrir því að við viljum halda fast í þær hefðir sem skapa öryggi og vellíðan.
Meira að segja þótt hið trúarlega hafi vikið hjá einhverjum og tali ekki til manna á sama hátt og áður; því við viljum lifa jól bernskunnar, finna sama fögnuðinn, sömu tilhlökkunina og hinn sama anda og einkenndi hátíðina, svo langt sem við munum og helst lengra. Þessi kennd sameinar okkur.
Hún sameinar okkur öll hvort sem við skynjum jólin sem hátíð komu Krists í heiminn eða látum okkur nægja að halda gamla siði í heiðri. Jólin eru þannig sameinandi og sameign okkar allra; þess vegna hugsum við sérstaklega til þeirra sem ekki eru með fjölskyldum og vinum á hátíðinni; til þeirra sem eru á sjúkrastofnunum, hvort sem það er vegna vinnu sinnar eða sjúkleika, við hugsum til fanga og einstæðinga, flóttafólks, heimilslausra eða þeirra sem af ýmsum ástæðum einangrast, til sjómanna og farmanna allra og biðjum að birta jólanna nái að skína um alla sköpun, í hvert hús og hvert hjarta.
Ekki síst hugsum við til Grindvíkinga allra, sem margir hverjir hafa þurft að yfirgefa heimili sín og halda nú jól með öðru sniði en þeir höfðu reiknað með fyrir eldgosið.
Við biðjum um frið Guðs og blessun yfir alla sköpun.
Gleðileg jól.
Gleðileg heilög jól
----
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. amen.