[audio:http://kirkjan.is/hljod/postillan/2011-01-01-ks.mp3]
Ó gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár og góðar og blessaðar tíðir. AmenNáð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni, Jesú Kristi. Gleðilegt nýtt ár í Jesú nafni!
Tíminn líður, trúðu mér, taktu maður, vara á þér. Heimurinn er sem hálagler, hugsaðu um hvað á eftir fer.Þannig segir gamli, góði húsgangurinn. Hann er sprottinn af þeirri visku genginna kynslóða að líf okkar er skóli, framundan er prófið sem sker úr um hver við í raun erum. Tíminn, dagarnir, árin eru gjafir til að nýta vegna þess sem á eftir fer. Þar kemur að dagar okkar allir verða gerðir upp og undan því kemst enginn þegar tíminn er ei meir. Í bókinni „Punktur, punktur, komma, strik“ hugleiðir höfundurinn, Pétur Gunnarsson tímann sem enginn kemst undan. „Þótt þú komir ekki fingri á hann yfirgefur hann þig aldrei. Þótt þú lokir þig inn í skáp leitar hann þig uppi og heldur áfram líka þar. Þú getur hætt að finna fyrir honum með því að éta dóp en hann heldur samt áfram að færa þig nær þessum punkti hvar hann yfirgefur þig.“
Við erum tímans börn, af moldu runninn og til moldar stefnt. En manneskjan hefur aldrei sætt sig við að þar með sé sagan öll, við erum líka börn eilífðar. Maðurinn er ekki aðeins efni heldur og andi, tímans barn og tilviljana, en líka eilífðar, himinsins.
Ein undursamlegasta perla Biblíunnar er Prédikarinn. Af djúpri visku hugleiðir hinn vitri Salómon tímann, lífið, eilífðina. Og hann andvarpar: „Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum, áður en vondu dagarnir koma og þau árin nálgast er þú segir um: „Mér líka þau ekki,“ áður en sólin myrkvast og ljósið og tunglið og stjörnurnar... þá er þeir skjálfa sem hússins gæta og sterku mennirnir verða bognir.“(12.1n) Ég er áreiðanlega ekki einn um það að finna til þessa um þá tíma sem við lifum nú í því ofviðri sem yfir gengur: „Mér líka þeir ekki.“
Prédikarinn segir líka: „Enn sá ég undir sólinni að hinir fótfráu ráða ekki hlaupinu, né hetjurnar stríðinu, né eiga spekingarnir brauðið víst, né hinir hyggnu auðinn, né hinir vitru vinsældir því að tími og tilviljun hittir þá alla fyrir. ....Viska er betri en afl... Orð viturra manna, sem hlustað er á í næði, eru betri en óp valdhafans meðal heimskingjanna. Viska er betri en hervopn en einn syndari spillir mörgu góðu.“ (9.11-17)Þetta gæti sannarlega verið athugasemd um okkar daga og Ísland í dag.
Við erum tveggja heima börn, jarðar og himins, tímans og eilífðar, og ef við vanrækjum annan þá er okkur háski búinn. „Maðurinn horfði svo lengi til himins að hárin hættu að vaxa á enni hans,“ sagði Einar skáld Benediktssson. Maðurinn réttist upp af því hann kenndi aðdráttarafls að ofan, sem beindi sjónum hans í hæðir og sveigði huga hans til himins. Þar með hófst þroskaskeið mannsins. Við höfum vaxið upp úr moldinni vegna þess að við fengum hugboð um himininn, eilífðina, guðsríkið og höfum verið löðuð þangað áleiðis af höfundi lífsins. Ýmsir vilja meina að við séum óðum að bogna aftur, lúta að því forgengilega og lága og gleyma himninum. Sumir virðast í hæsta máta ánægðir með það, enda hafi himinninn, guðsríkið aldrei verið annað en kjánaleg ímyndun og haldlaus goðsögn. Öðrum finnst það öfugstreymi ef mannkyn afrækir það sem hefur gert tvífætlinginn mennskan, guðsvitundina, eilífðarþrána, trúna.
Bernskuvinur minn átti merkilegan kuðung. Hann var ættaður úr suðrænum sjó, öllum kuðungum stærri. Hann bjó yfir undursamlegum leyndardómi. Þegar maður lagði hann að eyra sér barst úr iðrum hans sjávarniður, niður öldunnar sem forðum skilaði kuðungnum upp á framandi strönd.
Árið 2010 leið í aldanna skaut og 2011 gekk í garð við glaum og sprengjudrunur. Nú erum við á kyrrlátum nýársmorgni, saman komin til að hlusta og biðja. Þannig er það einatt á stóru stundunum að við þráum að hlusta saman á nið tímans og óm eilífðar. Það er okkur hollt og í raun nauðsyn sem einstaklingar og samfélag að leggja við hlustir og íhuga það sem á undan er gengið, jafnt hið sára og hið ljúfa til að læra af reynslunni, heyra nið genginna kynslóða og minnast þess að við erum á sömu för og þær. Við lifum í samhengi kynslóða sem koma og fara allar sömu ævigöng, sigra og ósigra, vonar og ótta, ástar og haturs. Ætíð er manneskjan með sömu þrá og von, þörf fyrir fyrirgefningu, ást og umhyggju annarra, með trúarþörf og löngun til að lifa í sátt við Guð og menn.
Sænski rithöfundurinn, Per Olov Enquist, talar í einni bóka sinna um himnahörpuna. Margir muna og enn má sjá, raf- og símalínur á tréstaurum. Ég man vel eftir þessu þar sem ég var í sveit á Stokkseyri. Frá símastaurnum lá línan að húsinu og hún var fest á vegg með hvítum postulínskúlum. Þessar línur kallar Enquist strengi himnahörpunnar, því stundum söng í línunni. Hann lýsir þessu sem bernskureynslu sinni. Barnið á að fara að sofa og hlustar á hljóminn og hugsar að strengirnir á húsgaflinum hljóti að vera festir við eitthvað annað, eitthvað sem er hátt uppi í stórum, köldum himni næturinnar. Í myrkrinu finnur barnið að húsið og rúmið er ómbotn himnahörpunnar. Þessi frásögn snerti við duldum strengjum bernskuminninga minna. Þegar hvessti var sem voldug hönd snerti strengina og spilaði undarlegt og framandi lag. Manneskjan kemst aldrei hjá því að hlusta út í nóttina. Hvað heyrir hún? Veðurhljóðin ógnvænleg eða hljóma frá himnahörpu, óma sem gefa hjartanu traust, öryggi, frið? Í trú og bæn nemum við óm himnahörpunnar, nið eilífðar, orðið og óma öryggis, trausts og friðar. Og hvað sungum við áðan?
Hann heyrir stormsins hörpuslátt, hann heyrir barnsins andardrátt, hann heyrir sínum himni frá hvert hjartaslag þitt jörðu á.Það er Guð, sem birti sjálfan sig í Jesú Kristi. Hvert sinn sem við skrifum ártalið 2011 erum við að vitna um fæðingu Krists í heim. Öll börn þurfa að fá að læra að þekkja hann og treysta.
„Bjarg – eða Breiðavík“ heitir ljóð eftir Matthías Jóhannessen skáld. Þar segir:
Án Krists værum við umkomulaus (uppáhaldsorð Heideggers. Samt var hann ekki kristinn)Jólin segja og kristnin endurómar: Við erum ekki umkomulaus! Lífið er ekki munaðarleysingjahæli, þrátt fyrir öll björg og breiðavíkur, svik og brot, spilling og svívirðu mannanna. Kristur lifir og er að vitja þín! Og það verður að heyrast og það verður að tjá, svo engri sálu verði hætt, ekkert hjarta hrætt, og ekkert barn þurfi að skelfast myrkrið og ofviðrin.Án Krists væri lífið munaðarleysingjahæli.
Mótun og rækt andlegs lífs og menningar gerist ekki af sjálfu sér. Undirstaðan er lögð á heimilum – eins og er svo augljóst hvað varðar móðurmálið. Ekkert getur komið í stað móður, foreldra og heimilisins í þessum efnum. En þau þurfa stuðning, ef trú er vikið út af hinu opinbera rými, ef foreldrar og trúsöfnuðir fá ekki uppörvun og stuðning samfélagsins við að bera börn sín til skírnar, kenna þeim bænir og vers og þekkja sögu, mynd og orð Krists og minna þau ungu á skapara sinn og lausnara, þá hverfur kristni úr vitund og menningu, nema hugsanlega sem fjarlægur niður úr horfinni tíð.
Móður sinnar á morgni lífs barn er brjóstmylkingur. En í vetrarhríð vaxinnar ævi gefst ei skjól nema Guð.- segir Matthías Jochumsson.
Á árinu sem leið vorum við óþyrmilega minnt á varnaleysi okkar gagnvart ógnarkröftum náttúrunnar. Sú vitneskja ætti að vera okkur Íslendingum í blóð borin, vera órofa þáttur í grunnsögu okkar og sjálfsmynd. Sú þekking er ekki aðeins landafræði og jarðvísindi. Hin kristna saga sem mótað hefur uppeldi og menningu genginna kynslóða er sagan um það hvernig við sjáum okkur sem einstaklingar og þjóð í átökum náttúruaflanna í þessu landi, á bandi lífsins í baráttunni við eyðingaröflin, ógn og hel. Hún játar og áminnir að þrátt fyrir alla ógn og vá er annað afl, sem undirtökin hefur í tilverunni. Þrátt fyrir sortamyrkur og öskukóf þá er ljós í þessum heimi, ljóssins og lífsins máttur að verki. Sá máttur birtist ekki síst þegar umhyggjan kemst að og ræður för, kærleikur, von og trú.
Það sem mestu varðar er ávallt innri styrkur, skapgerð, vilji, lífsstefna, hvaða anda manneskjan lýtur og fylgir.
Það er stórháskalegt ef hreyfiaflið andspænis áföllum þjóðlífsins verður hin óhelga þrenning: reiði, hatur og hefnigirni. Svo margt ber því miður vott um það og það hve andi tortryggni, vantrausts og virðingarleysis sækir að. Það er ógnvænlegt, því verði sá andi ofan á þá er allt tapað. „Hjá þessari móðursjúku þjóð má nú ekkert satt segja.“ sagði skáldið Jón Trausti fyrir hundrað árum. Það á ekki síður við um þessar mundir. Inn í slíkar aðstæður tala jólaleikrit leikhúsa borgarinnar, Ofviðrið og Lér konungur. Þessi meistaraverk Shakespeares sem afhjúpa manninn á áhrifaríkan hátt, afhjúpa synd, varnaleysi og grimmd en líka að manneskjan er þrátt fyrir það elskuð og elskuverð, og það er fyrirgefning og kærleikur sem rjúfa fjötra og leysa úr álögum og er hreyfiafl lífs og frelsis. Undir fötum og umbúðum, áliti og orðstír, já og trú erum við varnalausar manneskjur í þeim ofviðrum sem yfir dynja eða innra með okkur geysa. Lokaorð leikritsins um Lé konung eiga vel við:
„Hörmungartímum við hljótum að gera skil, hug okkar segjum í stað þess sem ætlast er til.“Tökum nú höndum saman í sátt og samstöðu til uppbyggingar samfélags og menningar gagnkvæmrar virðingar, heilinda og trausts. Hingað til höfum við talist kristin menningarþjóð í fremstu röð í veröldinni. Treystum vor heit að svo verði áfram.
Guðspjallið segir frá fíkjutré sem engan ávöxt bar. Sagan fjallar um okkur, um Ísland, þjóð og kirkju, um mig og um þig. Um ávexti sem vænst var, um vonbrigði og árangursleysi okkar, og um biðlund og náð þess máttar sem lífið gefur. Í birtu þeirrar náðar megum við horfa til ársins nýja.
„Tíminn líður, trúðu mér, taktu vara því á þér.“ Tími og tilviljun hittir okkur öll fyrir. Jú. - En skáldkonan, Vilborg Dagbjartsdóttir, nálgast tímann með öðrum hætti í hugnæmu ljóði sínu, Viðhorf:
Þú segir: Á hverjum degi styttist tíminn sem við eigum eftir skref fyrir skref færumst við nær dauðanum(Vilborg Dagbjartsdóttir, Síðdegi)-en ég þræði dagana eins og skínandi perlur upp á óslitinn silfurþráðinn
Á hverju kvöldi hvísla ég glöð út í myrkrið: Enn hefur líf mitt lengst um heilan dag.
Að sjá dagana eins og skínandi perlur á óslitnum silfurþræði, það er yndisleg mynd. Nýársdagur sem við lítum nú fæðast úr skauti næturinnar er skínandi perla á þeim þræði. Taktu um þá perlu og hvíslaðu út í morgunbirtuna þökk fyrir lífið, Guði sé lof fyrir lífið! Gleðilegt nýár!
Guðspjall: Lúkas 13, 6 - 9.
6Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. 7Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? 8En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. 9Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“