Jarðskjálfti eða kjarnorkustyrjöld
Veist þú hvernig þú átt að bregðast við ef það kemur jarðskjálfti? En ef það kemur eldgos? Veistu hvernig á að bregðast við ef kjarnorkusprengju verður kastað? Ég veit hvernig á að bregðast við ef það kemur jarðskjálfti. Það stendur í símaskránni. Ég er búin að lesa það. Ef það kemur eldgos þá á ég að halda mig í burtu, ekki fara á staðinn til að fylgjast með. Það stendur reyndar ekki í símaskránni hvernig á bregðast við ef það kemur kjarnorkustríð. En það er nú ekki svo skrýtið í ljósi þess að lítið er hægt að gera. Ætti samt ekki að standa hvar kjarnorkubyrgin er að finna? Er kannski ekki pláss fyrir alla í þessum byrgjum? Þegar ég var að skríða á unglingsárin, greip um sig nokkur taugaveiklun í vinahópnum þegar við vorum að uppgötva hættur heimsins. Hætturnar sem við ráðum ekki við eins og náttúruhamfarir og stríð. Ég man eftir partíum þar sem við lásum leiðbeiningar um hvernig á að bregðast við jarðskjálftum og öðrum náttúruhamförum, í símaskránni. Síðan æfðum við okkur. Ég man líka eftir miklum umræðum og vangaveltum um hvernig færi ef kjarnorkusprengju yrði varpað á Ísland. Og ég man eftir óttanum sem stundum greip mig þegar ég var komin heim og lögst upp í rúm í myrkrinu. Alein. Þá fannst mér ég ósköp smá.
Spádómar Í dag er dagur spádómanna. Allir ritningarlestrar dagsins eru annað hvort spádómar eða fjalla um spádóma. Í Guðspjallinu segir Jesús fyrir um endalok heimsins eins og við þekkjum hann og um endurkomu sína. Lýsingarnar eru svakalegar þegar hann segir: „Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu falla í öngvit af ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina því að kraftar himnanna munu riðlast. Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð“.
Í fyrri ritningarlestrinum segir Jesaja spámaður fyrir um hvernig dómur frelsarans yfir mannkyninu muni verða. Hann segir m.a.: „Hann mun ekki dæma eftir því sem augu hans sjá og ekki skera úr málum eftir því sem eyru hans heyra. Með réttvísi mun hann dæma hina vanmáttugu og skera með réttlæti úr málum hinna fátæku í landinu. Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns, deyða hinn guðlausa með anda vara sinna. Réttlæti verður belti um lendar hans, trúfesti lindinn um mjaðmir hans. Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum. Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman og smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna verða saman á beit, ungviði þeirra hvílir hvort hjá öðru, og ljónið mun bíta gras eins og nautið“.
Síðari ritningarlesturinn úr Rómverjabréfinu útskýrir síðan fyrir okkur hvað spádómar eru og hvaða hlutverki þeir gegna en spádómar ritningarinnar voru ritaðir okkur til fræðslu og viðvörunnar. Þeir eiga að gefa okkur von og uppörva okkur. Hvað segja spámannlegar raddir dagsins í dag?
Ísland er gjaldþrota!
Atvinnuleysi fer vaxandi!
Við erum á góðri leið með að klára fiskinn í sjónum!
Ósonlagið þynnist hratt!
Það er hættulegt að borða kartöfluflögur!
Þú getur fengið krabbamein af því að tala í GSM síma!
Fátækum fjölgar á Íslandi!
Íslendingar fitna!
HIV mun drepa stóran hluta mannkyns!
Ég gæti haldið svona endalaust áfram. Þetta er bara lítið brot af fréttum sem við heyrum meira eða minna daglega og ala á ótta og hræðslu. Já, við erum vön að heyra allar þessar vondu spádóma. Sérstaklega síðasta árið. Sumir þessara spádóma eru sannir. Aðrir eru falskir. Einhverjir eru sjálfsagt eitthvað mitt á milli. Það er ekki auðvelt fyrir okkur að flokka allar þessar upplýsingar. Það er ekki alltaf auðvelt að verja sig fyrir þessum vondu fréttum. Þessum vondu spádómum. Við heyrum líka góða spádóma, góðar fréttir...þær bara týnast einhvernvegin í öllum þessum vondu sem eru svo miklu háværari.
Nýtt lif getur læknar ákveðna tegund krabbameins!
Íslendingar eru hamingjusamir þrátt fyrir efnahagskreppu!
Lyf sem hægja á einkennum HIV smitaðra gera það að verkum að HIV smitað fólk getur lifað mörg góð ár áður en það fer að kenna sér nokkurs meins.
Ég verð að viðurkenna að þessar góðu fréttir eru ekki alveg nýjar. Ég fann enga spádóma, engar fréttir sem vekja von eða uppörva okkur í fjölmiðlum síðustu daga!
Spámenn Hverjar eru hinar spámannlegu raddir okkar tíma? Á hverja hlustum við? Hverjum tökum við mark á? Hverjum treystum við? Fjölmiðlafólki? Stjórnvöldum? Forsetum? Vísindafólki? Rithöfundum? Leikritaskáldum? Handritshöfundum? Listafólki? Kirkjunni? Flest vill þetta fólk vera hin spámannlega rödd í samfélaginu. En hverjum þeirra treystum við? Treystum við einhverjum lengur? Kannanir hafa sýnt að það eru ekki margar stofnanir sem við treystum lengur. Það var brotið á okkur af fólki sem við treystum og af stofnunum sem við töldum heiðarlegar. Fjölmiðlarnir eru flestir í eigu einhverra sem hafa hagsmuna að gæta og því er ekki mörgum þeirra að treysta. Ætli vísindafólkið séu ekki þau fáu sem við treystum enn. Þau vinna jú í þágu vísinda. Það sem spámenn dagsins í dag (eða þau sem telja raddir sínar spámannlegar) eiga sameiginlegt með spámönnum á tímum Biblíunnar er að þau vilja fræða okkur, vara okkur við og mögulega uppörva okkur. Því miður er þó stundum eins og fjölmiðlar, sem ættu að gegna spámannlegu hlutverki á okkar tímum, reyni frekar að hræða okkur. Vondar fréttir vekja mun meira athygli en góðar fréttir. Fréttir af heimsendi, kreppu og svínaflensu selur mun betur ef fréttir af hamingju, gleði og lífi. Því verðum við að gæta okkar. Við verðum að geta varið okkur fyrir hinum stöðugu vondu fréttum sem dynja á okkur alla daga.
Kirkjan Hefur kirkjan spámannlegt hlutverk í dag? Höfum við, þjónar Krists, eitthvað að segja? Hlustar einhver á okkur? Ég tel að kirkjan hafi spámannlegt hlutverk í dag þó það sé ekki í sama mæli og áður fyrr. Nú er kirkjan og kristindómurinn ein af mörgum spámannlegum röddum sem heyrast. En spurningin er hvort rödd kirkjunnar heyrist nógu vel. Hún er í það minnsta ekki háværust. Ekki var minnst orði á kristni eða fæðingu frelsarans í jólablöðum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins. Fulltrúi trúlausra fékk aftur á móti rými í Morgunblaðinu. Við, fólkið sem lætur sér kirkjuna og Kristni varða, erum að byrja að átta okkur á því að til þess að spámannleg rödd kirkjunnar nái eyrum fólks í dag þá er ekki nóg að taka kirkjudyrnar úr lás og vona svo að fólk komi í kirkju. Það er ekki nóg að vonast eftir því að fólk sæki eitthvað af því frábæra starfi sem fram fer í kirkjunum. Fólk verður að vita hvað hér erum að vera. Fyrir hvað kirkjan stendur. Hvað verið er að boða í kirkjum landsins. Því miður virðist gæta nokkurs misskilnings meðal margra hvað boðskap kirkjunnar varðar. Það á m.a. rætur að rekja til þess að fólk sem telur Þjóðkirkjuna vera óvin sinn, ber út óhróður og rangfærslur varðandi boðskap þann er þjónar þjóðkirkjunnar boða og þau gildi er kirkjan okkar stendur fyrir. Það hljómar falskt í mínum eyrum þegar ég heyri forstöðumann Lútersks safnaðar segja mig, og aðra presta þjóðkirkjunnar, boða bókstafstrú. Hann gæti varla verið fjær sannleikanum hvað það varðar. En þetta er ekki allt öðrum að kenna. Við, þjóðkirkjufólk eigum sjálf töluverða sök í þessu máli. Það er okkur að kenna að margt fólk trúir því að í kirkjunni boðum við, að Guð hafi í upphafi skapað einn karl og eina konu sem síðan hafi eignast börn með hvort öðru og þannig hafi mannkynið orðið til. Að við afneitum þróunarkenningu Darwins. Það er okkur að kenna að margt fólk stendur í þeirri trú að í hér í kirkjunni boðum við að Guð hafi í reiði sinni, eytt öllu lífi nema nokkrum útvöldum sem komust í Örkina hans Nóa. Og svona gæti ég haldið áfram lengi. Vandinn er kannski að við segjum þessar sögur í sunnudagaskólunum en við útskýrum ekki nógu vel hvað þær þýða eða hvers vegna við veljum að segja þær. Kannski erum við stundum hrædd við að segja hverju við raunverulega trúum og hvernig við raunverulega túlkum margar þessara sagna. Til þess að kirkjan okkar haldi sínu spámannlega hlutverki þarf hún að nýta sér þá miðla sem stór hluti fólks notar. Við þurfum að vera ófeimin við að láta í okkur heyra þar sem í okkur heyrist, þar sem fólkið er svo einhver hlusti. Jesús byggði sér ekki fallegt musteri, kom sér vel fyrir þar á góðri skrifstofu og beið svo eftir að fólkið kæmi til hans. Hann fór þangað sem fólkið var og hann skipti sér af því sem var efst á baugi. En það er ekki nóg að hafa hátt. Við þurfum líka að segja eitthvað. Við þurfum að nota öll tækifæri og nýjar leiðir til þess að koma gleðiboðskapnum áleiðis. Við höfum nefnilega svo mikið að segja! Og það er sérstaklega mikilvægt nú þegar allar þessar hryllilegu fréttir dynja á okkur alla daga og orsaka kvíða og áhyggjur, að kirkjan komi inn í umræðuna með sína spámannlegu rödd. Gildin sem fulltrúar þjóðarinnar á þjóðfundinum í Laugardalshöll um daginn töldu vera mikilvægust, eru einmitt gildin sem Kristin trú stendur fyrir. Þetta eru gildin sem Kristur boðaði. Kirkjan á að vera rödd vonar í vonleysinu, rödd kærleikans í skeytingarleysinu og við eigum að láta í okkur heyra!
Berðu höfuðið hátt Spádómur Jesú Krists um endurkomu sína og endalok heimsins er svakalegur. En hefur þetta ekki allt komið fram nú þegar? Er þetta ekki að koma fram á hverjum degi einhversstaðar í heiminum bæði í einkalífi fólks og í náttúrunni eða samfélaginu? Flóðbylgjur. Hvirfilvindar. Jarðskjálftar. Eldgos. Nýir sjúkdómar. Angist. Hræðsla. Þunglyndi. Bankahrun. Ég get haldið lengi áfram. Kannski verður persónulegur heimsendir á hverjum degi í lífi einhverra. Kannski var hrun efnahagslífsins hér heimsendir, fyrir marga. Við vitum að eftir einhverja miljarða ára mun jörðin okkar að öllum líkindum hverfa. Kannski er það heimsendirinn sem Kristur talar um. Kannski er dauði hverrar manneskju heimsendirinn sem hann talar um. Við vitum það ekki en við vitum að það sem hvert og eitt okkar upplifir sem endalok heimsins eins og við þekkjum hann er oft upphafið að einhverju nýju og betra. Það sem við getum gert er að velja hvaða spámannlegu rödd við ætlum að fylgja. Hvaða rödd er sönnust? Eru það raddirnar sem boða hræðslu og vonleysi, eiginhagsmuni og vinapólitík í stað náungakærleika, jafnrétti, réttlæti og heiðarleika? Kristin kirkja boðar trú á Guð sem varð manneskja, fæddist í heiminn sem lítið barn til þess að ná sambandi við þig og mig. Ef þú rannsakar hver Jesú Kristur var þá sérðu hver Guð er . Jesús Kristur er Guð. Guð er sá sem segir þér að rétta úr þér, bera höfuðið hátt og láta óttan ekki ná tökum á þér sama hvað á dynur. Guð er sá sem segir þér að vera ekki hrædd því hann elskar þig meira en allt! Það er ágætt að skoða viðbrögð við náttúruhamförum í símaskránni til þess að vera viðbúin ef eitthvað gerist. En réttu úr þér og berðu höfuðið hátt. Ekki láta óttan ná tökum á þér. Amen.