Og er hann gekk þar sá hann Leví Alfeusson sitja hjá tollbúðinni og Jesús segir við hann: „Fylg þú mér!“ Og hann stóð upp og fylgdi honum.Svo bar við að Jesús sat að borði í húsi hans. Margir tollheimtumenn og bersyndugir sátu þar með honum og lærisveinum hans en margir fylgdu honum. Fræðimenn af flokki farísea, sem sáu að hann samneytti tollheimtumönnum og bersyndugum, sögðu þá við lærisveina hans: „Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum.“
Jesús heyrði þetta og svaraði þeim: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“
Lærisveinar Jóhannesar og farísear héldu nú föstu. Þá koma menn til Jesú og spyrja hann: „Hví fasta lærisveinar Jóhannesar og lærisveinar farísea en þínir lærisveinar fasta ekki?“
Jesús svaraði þeim: „Hvort geta brúðkaupsgestir fastað meðan brúðguminn er hjá þeim? Alla þá stund sem brúðguminn er hjá þeim geta þeir ekki fastað. En koma munu þeir dagar er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta á þeim degi.
Enginn saumar bót af óþæfðum dúk á gamalt fat því þá rífur nýja bótin af hinu gamla og verður af verri rifa. Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi því þá sprengir vínið belgina og vínið ónýtist og belgirnir. Nýtt vín er látið á nýja belgi.“
Svo bar við að Jesús fór um sáðlönd á hvíldardegi og lærisveinar hans tóku að tína kornöx á leiðinni. Farísearnir sögðu þá við hann: „Lít á, hví gera þeir það sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?“
Jesús svaraði þeim: „Hafið þið aldrei lesið hvað Davíð gerði er honum lá á þegar hann hungraði og menn hans? Hann fór inn í Guðs hús þegar Abíatar var æðsti prestur og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum.“
Og Jesús sagði við þá: „Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins. Því er Mannssonurinn einnig Drottinn hvíldardagsins.“ Mrk 2.14-28
Einföld frásögn. Engin stór orð. En það er komið víða við.
Við heyrum um fund sem breytir öllu. Guðspjallið fjallar um að sjást og þekkjast. Maður sem heitir Leví Alfeusson hittir Jesús. Líklega hefur Leví sjálfur sagt þessa sögu mun nákvæmar. Ætli hann hafi ekki sagt frá því hvernig veðrið var. Hvað hann var að hugsa þegar Jesús stóð þarna allt í einu. Hver veit nema hann hafi viljað deila með okkur hversvegna hann þráði breytingu. Sennilega talaði hann einnig um slæma samvisku og innri óróleika. Við könnumst við eitthvað sambærilegt. Við eigum öll slíkar sögur.
Jesús gekk ekki framhjá, hann staldraði við. Það var einhver sem beið hans. Hann gekk aldrei framhjá manneskjum hann gekk til þeirra. Hann gengur heldur ekki framhjá fólkinu sínu í dag. Hann kemur niður á torg þar sem fólkið flýtir sér framhjá hvert öðru. Hann er líka hjá þeim sem eru ekki að flýta sér, þeim sem hafa nægjan tíma vegna þess að gatan er heimili þeirra. Jesús gengur ekki framhjá nokkurri manneskju.
Jesús þekkti manninn hjá tollbúðinni með nafni. Við fáum oft að vita nöfn fólksins sem varð á vegi hans. Hann heitir Leví eða Lasarus, hún heitir María eða Marta. Það eru einnig frásagnir þar sem við fáum ekki að vita nöfnin. Stundum nægir að vera til staðar án þess að kynna sig sérstaklega. Staldra við stutta stund, hlusta og taka við áskorunum. Ekkert okkar þarf að að kynna sig fyrir Guði, þar erum við öll þekkt.
Leví stóð upp og fylgdi Jesú. Þegar við tökum mikilvægar ákvarðanir getum við líkt því við að standa upp. Við horfumst í augu við áskoranir og tækifæri. Janfvel þau sem eru bundin við sjúkrabeð eða hjólastól geta staðið upp innra með sér. Þegar við rísum upp endurvinnum við sjálfmyndina, mennskuna. Við rifjum upp að við erum sköpuð í Guðs mynd. Að standa upp er að sækja aftur verðmæti sem við höfum misst.
Það snýst um að koma heim. Jesús hitti fjölskyldu, vini og vinnufélaga Levís. Hann og lærisveinarnir settust til borðs með þeim. Farisearnir kunnu ekki að meta það sem þeir sáu. Þeir höfðu ríka þörf fyrir að skipta sé af lífsmáta annarra. Jesús er afgerandi þegar hann snýr sér að þeim og segir: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“ Hann var ómyrkur í máli. Hafi einhver haldið að hann flokkaði fólk eftir metorðum, stétt eða stöðu þá endurtók hann það aftur og aftur í orðum og verkum: Hann mætti þeim sem á vegi hans var og tilheyrði því samfélagi sem á hann kallaði og á þurfti að halda. Farisearnir voru uppteknir af því að sýna guðsótta og góða siði með því að færa fórnir og fylgja lögmálinu. Jesús kom með ný viðmið. Hann vildi umhyggju en ekki fórnir. Hann vildi réttlæti en ekki sjálfsréttlætingu. Það er oft sagt frá veislum og borðhaldi í guðspjöllunum og við heyum af einu slíku í dag. Það er engin tilviljum. Það að sitja saman við borð auðveldar okkur að endurnýja vináttu, skapa ný vinatengsl eða endurvinna félagsskap sem einhverra hluta vegna hefur rofnað. Við sjáum hvert annað. Við réttum hvert öðru það sem er á borðinu. Sendum á milli brauð og smjör, salt og sósu um leið og við tölum saman og njótum samfélagsins hvert með öðru.
Einföld frásögn, engin stór orð. En það er komið víða við í guðspjalli dagsins. Jesús var frjáls. Farisearnir héldu föstu og voru óhressir að lærisveinar Jesú gerðu ekki slíkt hið sama. Enn og aftur kemur Jesús inn á það að hann mætir sérhverri manneskju þar sem hún er stödd þá stundina. Hnn gleðst með glöðum og grætur með þeim sem gráta. Það var tími fyrir veislu hjá lærisveinum hans meðan hann var hjá þeim. Hann vissi hvert stefndi, tími föstunnar kæmi.
Um þessar mundir er ár líðið frá því að þáverandi forsætisráðherra íslensku þjóðarinnar sagði í beinni útsendingu: Guð blessi Ísland. Við skildum alvöruna sem bjó að baki þeim orðum. Í hönd fór tími uppgjörs, ásakana, búsáhaldabyltingar, kosninga, ótta og reiði. Við sjáum ekki fyrir endan á ósköpunum, enn ríkir mikil óvissa og þau eru mörg sem eiga um sárt að binda, hafa misst atvinnu, heimili eða lifa í stöðugum ótta við slíkan missi. Það var í byrjum mikið rætt um gamalt og nýtt. Gamla Ísland og nýja Ísland. Í guðsspjallinu er Jesús að tala um gamalt og nýtt. „Enginn saumar bót af óþæfðum dúk á gamalt fat því þá rífur nýja bótin af hinu gamla og verður af verri rifa. Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi því þá sprengir vínið belgina og vínið ónýtist og belgirnir. Nýtt vín er látið á nýja belgi.“ Erum við að sauma bót af óþæfðum dúk á gamalt fat? Setjum við nýtt vín á gamla belgi? Höldum við áfram að reisa veggi og girðingar á milli fólks, er stéttskipting að festa sig í sessi í landinu okkar? Við verðum að spyrja okkur þessara spurninga. Við þurfum kjark til að breyta. Við eigum að kalla eftir réttlæti. Það er mikil ábyrgð að eiga land eins og okkar, fallegt og gjöfult. Okkur ber að leita jafnvægis milli þess að nýta og vernda. Við eigum ekki að skorast undan þeirri ábyrgð. Ár er ekki langur tími í sögu þjóðar en það er nógu langur tími til þess að horfast í augu við það að skyndigróði gærdagsins er hrunin spilaborg. Við eigum að mæta hvert öðru hér og nú um leið og við horfum til framtíðar. Hugum að líðan hvers annars. Það hafa myndast gjár í samfélaginu okkar og við erum kölluð til brúarsmíðar. Verkfærin sem við fáum til þeirrar smíði eru ábyrgð, samvinna og réttlæti.
Og Jesús sagði við þá: „Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins. Því er Mannssonurinn einnig Drottinn hvíldardagsins.“ Lögvitrnigarnir fylgdust með, vonuðust til að hann gerði einhverja vitleysu, eða segði eitthvað sem þeir gætu hankað hann á. Hann ögraði þeim. Hann var róttækur og snéri öllu á hvolf sem þeir höfðu talið sér trú um að væri óumbreytanlegt. Við eigum ekki að spyrja hvort staður og stund sé viðeigandi. Ef náungi okkar þarfnast okkar og við getum komið til hjálpar eigum við að gera það. Ég segi stundum við fermingarbörnin mín að þegar þau lendi í þeim aðstæðum að þeim finnist þau ekkert geta gert til að hjálpa skuli þau muna eftir bæninni. Máttur bænarinnar er mikill. Hvern helgan dag er beðið í kirkjum landsins jafnt í efiðleikum og þegar vel gengur. Nú stendur yfir söfnunarátak þjóðkirkjunnar fyrir fjölskyldur og heimili í landinu í dag og næsta sunnudag með yfirskriftinni Biðjum og styðjum. Það er ljóst að þörf fyrir aðstoð er að aukast og við höfum sýnt það í gegnum tíðina að við stöndum saman sem þjóð og kirkja á erfiðum tímum. Þau sem eru aflögu fær eru hvött til þess að gefa í söfnunarbauka sem fermingrbörn munu standa með við dyrnar að guðsþjónustunni lokinni. Öllu söfnunarfé verður varið í innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar. Við skulum nota hvíldardag þessarar viku og þeirrar næstu til þess að gefa og þiggja, biðja og styðja.
Já, frásagnirnar af Jesú eru gjarnan einfaldar og skýrar. Hann talaði þannig að orðin hana skildust. Það eru margir flóknir textar Biblíunnar og kalla á að við liggjum yfir þeim til þess að skilja þau. En skilaboð Lexiunnar dagsins eru einföld og skýr og ég ætla að ljúka máli mínu á því að endurtaka þau og hvetja okkur til að taka þau sem nesti með í verkefnin sem bíða okkar:
Þvoið yður! Hreinsið yður! Fjarlægið illvirki yðar frá augum mínum. Hættið að gera illt, lærið að gera gott, leitið réttarins, hjálpið hinum kúgaða. Rekið réttar munaðarleysingjans. Verjið mál ekkjunnar. Jes 1.16-17