Eitt kvöldið nú á aðventunni rak ég eyrað inn á tónleika – það var verið að spila jass og syngja. Þetta gladdi og ýtti við hugsunum eins og ...
Spennandi að heyra flaum af óræðum tónum. Það er svo undursamlegt hvernig allt gengur upp að lokum þegar stríðir hljómar leysast upp í laglínu sem stundum er kunnugleg og stundum ekki. Þetta aðventukvöld voru það stundum stef kunnuglegra jólalaga.
Stórkostlegt þegar kraftmikill pákuslátturinn kallar inn gleði og eftirvæntingu, fagnaðarboð jólanna í upphafi Jólaoratoríu Bachs. „Fagna mjög, dóttirin Síon, lát gleðilátum, dóttrin Jerúsalem. Sjá, konungur þinn kemur til þín“ . Sak.9:9
Sefandi þegar að að við erum minnt á að erum í gæslu Guðs með undurfallegri aríu úr Messíasi Händels og orðunum frá Jesaja „Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga, taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu og leiða mæðurnar.“ Jesaja 40:11
* * *
Aðventan syngur og talar mál sem er ekki endileg ljúft eða sætt á tungu alltaf en í krassandi boðskap hennar þá er svo mikil eftirvænting – svo mikil ljúfleiki innan um harðan boðskap um dóm og eyðingu. Upp úr þessu sprettur fram dýrðarsöngur englanna.
Tónmálið er Guðsgjöf, blessunarlega laust við órætt og óskiljanlegt innihald orðaflaums samtímans. Hlustandinn fær rými fyrir eigin hugsanir og sefandi mátt gjafa Guðs –líka rými fyrir orðin sem læsa sig við tónana og eru líka uppspretta – hinir himnesku tónar sem láta mann finna hvernig vængir sendiboðanna snerta vangann og hvísla í eyra þitt – þér er fylgt á göngunni. Leiðsögnin felst í gjöfum Guðs - voninni, kraftinum; kjarki og dugnaði þeirra sem hafa komið á undan okkur og við göngum í þeirra fótspor.
* * *
Það koma jól – ekki sömu jólin og síðasta ár heldur jól þessa árs og þau verða kannski allt öðruvísi – ytri umgjörð önnur og óvissan meiri – nýtt lag – aðrir tónar. En það verða jólin þín og þau litast af tónum og tilveru upphafsins. Hin fyrstu jóla verða jólin þín, hver sem þú ert mannsbarn. Kjör okkar eru misjöfn – staða margra erfið en Guð gefur auðlegð sem fyllir hjartað – gefur von og kjark til að leita leiða úr óvissu og skynja tækifæri lífsins.
Jassinn er óræður, hann þeytir tónskyninu á flug – reglunni- skipulaginu, en þetta endar allt svo vel. Hljómur sem leysist, hrynjandi sem gengur upp. Gamla jólalagið kemur allt í einu í ljós í óreiðu jasstónanna. Tónlistin á töframál og gefur okkur frí frá orðaflaumi hversdagsins og dregur athyglina að því sem eru okkar eigin hugrenningar og pælingar. Stöldrum við í erlinum, annríkinu og hlustum á og horfum á tóna lita og hljóða lífsins sem alltaf fá nýtt innhald í hvert sinn sem við lifum aðra aðventu, enn ein jól.