Miklir staðir þjóna ýmsum og jafnvel ólíkum markmiðum. Skálholt er þannig staður, hefur mismundi áhrif á fólk, sem hefur því ólíkar skoðanir um hlutverk staðarins. Mér sýnist Skálholt jafnvel líða fyrir misvísandi hlutverk og skort á forgangsröðun. Nú er unnið að stefnumörkun staðarins og það veitir tilefni til að skilgreina hlutverk Skálholts til framtíðar.
Hver eru hlutverkin, sem Skálholt hefur eða gegnir? Í fyrsta lagi er það táknstaður þykkrar sögu og tengist flestu í menningu Íslendinga. Skálholt er einnig tónlistarvettvangur. Kirkjuhúsið er ómundur og hentar lágstemmdri tónlist og tónlist fyrir katedralhljóm. Innlendir og útlendir ferðamenn fjölmenna í Skálholt, sem er hentugur áfangastaður á gullna hringnum. Safnið, kryddreitirnir við skólann og Þorláksbúð þjóna t.d. ferðamönnum auk kirkjunnar. Skálholt er staður fegurðar, hrífandi augnhvíla og sunnlensk sjónarrönd, sem verður hvað stórkostlegust þegar regnbogar teikna friðartákn á himininn yfir staðnum. Þá verður kirkjan sannkölluð dómkirkja regnbogans. Í Skálholti er biskupsstóll og prestssetur. Skálholt er að auki pílagrímastaður og menningar- og fræðslu-miðstöð kirkjunnar. Svo er Skálholtskirkja sóknarkirkja, þjónustuhelgidómur uppsveita Árnessýslu og dómkirkja.
Skálholtshlutverkin eru mörg og ekki öll talin. En hvert þeirra er mikilvægast? Að mínu viti er það hlutverk helgistaðarins. Mikilvægasta hlutverk Skálholts er trúarlegt, að miðla nálægð og umhyggju Guðs. Skipulag, uppbygging, fjárnotkun og rekstur staðarins ætti að lúta því aðalmarkmiði. Þá getur Skálholt verið sú andlega aðveitustöð, sem helgur staður á að vera. Skálholt kemur til.