Margar fagrar líkingar eru til um kirkjuna. Eitt frægasta tákn hennar er skipið. Kirkjan er musteri byggt úr lifandi steinum. Fyrstu kristnu söfnuðirnir notuðu gjarnan tákn fisksins um sjálfa sig. Móðurmyndin er kristnu fólki hugstæð þegar það túlkar kirkjuna með myndum: „Kirkjan er oss kristnum móðir“ segir í frægum sálmi. Og síðan er það myndin af kirkjunni sem líkama Krists sem Páll postuli og þeir seinni tíma höfundar sem rit hans eru eignuð draga upp fyrir okkur í bréfum Nýja testamentisins. Hver mynd á sér sína styrkleika og vankanta og þess vegna er gott að eiga þær nokkrar í handraðanum.
Það sem mér finnst áhugaverðast við líkamsmynd Páls um kirkjuna er að megineinkenni líkama er að taka breytingum. Að þessu leyti eru líkingarnar af skipi og líkama gjörólíkar. Það er ekki hluti af eðlilegu ferli skipa að breytast. Þau verða fyrir hnjaski og stórsköðum og svo geta eigendurnir sent þau í slipp til meiri háttar breytinga og andlitsupplyftingar. En líkamar breytast af sjálfu sér í takt við tíma og ytri aðstæður. Þeir þroskast og stækka, fitna og grennast, styrkjast og bila. Sumir líkamar fæða af sér aðra líkama. Sum líffæri verða ekki virk fyrr en ákveðnum þroska er náð, eiga sín skeið og hætta síðan störfum. Önnur visna og deyja og líkaminn þarf að aðlagast nýju ferli. Að lokum deyr líkaminn og aðrir líkamar taka við.
Ég held að fátt kæmi Þjóðkirkjunni betur í upphafi nýs árs 2012 en að hugsa lífrænt og líkamsmiðað um þær breytingar sem fram undan eru í kirkjunni.
„Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá“ segir áramótasálmurinn góði (98). Er það ekki bara allt í lagi?
Það er þversögn fólgin í því að tíðahvörf kvenna skuli á íslensku vera kallaðar „breytingaskeið“. Í orðanna hljóðan liggur að einu breytingarnar sem verði á líkömum séu líkamar miðaldra kvenna, sem jafnframt falli í verði við breytingarnar. En líkamar eru á sífelldu breytingaskeiði. Á einum sprettur hár, hárið gránar og þynnist á öðrum, brýst út í ógurlegum augabrúnum og hökuhárum á þeim þriðja, sá fjórði fellir allt hár. Líkaminn spilar á raddbönd með nýjum hætti, tekur stakkaskiptum að vexti, frjósemi og heilsu, uppgötvar nýjar tegundir vellíðunar og nýjar þjáningar með. Og líkaminn endurnýjar sig stöðugt. Það sem áður var hluti af eðlilegu flæði getur staðnað, stíflað og skemmt líkamsstarfsemina. Líkaminn er breytingaskeið og stöðnun er helsta hætta sem hann stendur frammi fyrir.
Einhvern tímann las ég að allar frumur líkamans endurnýji sig á sjö ára fresti. Það þýðir að líkami Sigríðar Guðmarsdóttur sem kom heim frá námi í Bandaríkjunum fyrir rúmum sjö árum að taka við nýstofnuðu Grafarholtsprestakalli er allur dáinn og endurnýjaður. Ég er í vissum skilningi þátttakandi í sístæðri upprisu.
Hvert og eitt okkar á sér líkama sem er þátttakandi í stöðugu breytingaskeiði. Kirkjan er það líka og við ættum að taka hverju breytingaskeiði kirkjunnar opnum huga. Hún er lifandi. Hún er líkami. Okkar helsta verkefni ætti að vera að finna út hvernig við ræktum þennan líkama best, hvað haldi honum starfhæfum og samhæfðum, hvað fylli hann orku, gleði og heilbrigði.
Ég er sannfærð um að ef Páll (eða öllu heldur hinir pálínsku höfundar sem skrifuðu undir merki hans) væri að skrifa Pálsbréfin í dag myndu þeir ekki tala um Krist sem höfuð líkamans, heldur DNA líkamans. Það er að segja ef hann/þeir hefðu raunverulegan áhuga á því hvernig líkamar starfa. Forskriftin er ekki lengur fólgin í höfðinu eins og áður var haldið, heldur í hinum margvíslegu og sístarfandi frumum líkamans. Efesusbréf 21. aldarinnar myndi gera að yrkisefni sínu þessa merkilegu hæfni líkama til að stefna í ákveðna átt og móta frumur sínar eftir forskrift sem mótar bæði skyldleika þessa líkama við aðra félagslega líkama og sérleik hans. Og það myndi gera upp allt úrelta líkingamálið um að konur ættu að vera undirgefnar karlmönnum eins og kirkjan er undirgefin Kristi, en þessa samspyrðingu feðraveldisins og kirkjufræðinnar er að finna í þessum sömu textum.
Breyting er merkileg. Breytingar eru ekki allar til hins betra eða verra. Breytingar eru einfaldlega hluti af því að vera lifandi líkami. Og hví skyldu breytingar á líkama Krists vera eitthvað skelfilegri eða óeðlilegri en aðrar breytingar?
Það berst víða að ákallið um að Þjóðkirkjan, þessi líkami Krists á Íslandi taki breytingum. Kröfur um breytingar má heyra víða í samfélaginu. Nýverið birti Ríkisendurskoðun greinargóða skýrslu um stjórnsýslu kirkjunnar þar sem kemur fram að skipurit séu „flókin og nánast villandi“, að mikil þörf sé á að auka gagnsæi, umbreyta stjórnsýslueiningum,fækka sóknum, sameina sjóði og breyta verkaskiptingu milli biskups Íslands og annarra stjórnvalda kirkjunnar. Í skýrslunni eru einnig birtar niðurstöður af spurningalistum til presta þar sem þessir lykilstarfsmenn kirkjunnar kvarta yfir handahófskenndri stjórnsýslu og skorti á handleiðslu.
Verið er að vinna að nýju frumvarpi að Þjóðkirkjulögum á Kirkjuþingi sem m.a. miðar að því að auka vægi, vald og sjálfstæði þingsins og stuðla að skýrari verkaskiptingu milli Kirkjuþings og biskupsembættisins. Í umræðum um hið nýja frumvarp mátti heyra á máli margra þingmanna óþreyju eftir margháttuðum breytingum. Víða má heyra óskir um að kirkjan verði nútímalegri, lýðræðislegri, sinni betur þörfum barna sinna, að hún sé veitulli í garð þeirra sem ekki fylgja henni, að hún berjist með virkari hætti fyrir mannréttindum og gegn fátækt og að um hana blási ferskari guðfræðivindar.
Á næstu vikum ætla ég að skrifa nokkra pistla um þessi tilteknu efni. Ég ætla að fjalla um Biskupsstofu í fortíð, nútíð og framtíð, ræða lagafrumvarpið sem fram er komið og setja fram guðfræðilega framtíðarþanka mína. Takið endilega þátt í umræðunum það er svo örvandi fyrir blóðrás líkamans!
Þér eruð líkami Krists og limir hans hver um sig. Guð hefur gefið öllum hlutverk í kirkjunni. (1. Kor. 12:27-28a)
Við eigum að ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans sem er höfuðið, Kristur. Hann tengir líkamann saman og heldur honum saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti sem hann úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika. (Ef 4:16)
Kristur er höfuð líkamans, kirkjunnar, hann sem er upphafið. (Kól. 1:18a)