Manneskjan hugsar eftir ýmsum leiðum. Sennilega er algengasta leiðin sú sem birtist í myndum. Hugsanir okkar um nánast allt eru í myndrænu formi. Við sjáum ýmislegt fyrir okkur og getum lýst því sem fyrir augu okkar ber. Manneskjan er vera sem notar myndir, býr til myndir, skoðar myndir og veröld hennar er veröld myndanna. Augu okkar láta sér ekki nægja að sjá manneskjurnar og hlutina í kringum okkur heldur búum við líka til myndir af þeim í huga okkar. Þessar myndir sem við drögum upp í tíma og ótima styðjast við minni okkar, ímyndunarafl og allar skoðanir okkar um lífið og tilveruna.
Hversdaglegt líf okkar er semsé búið til úr aragrúa mynda sem augu okkar nema staðar við. Þessa myndir eru ekki þöglar. Þær eru fylltar hljóðum eins og hverjar aðrar kvikmyndir sem við sjáum. Sama er að segja um þær myndir sem við sjáum í huga okkar. Hver dagur er settur saman úr ýmsum myndum sem segja frá því sem gerist í lífi okkar. Þegar við erum ein með sjálfum okkur og hugsunin fer fram og aftur er sem við séum að raða myndum saman og um leið og við gerum það erum við að búa til sögu. Þessi saga gleymist okkur kannski seint eða hún rýkur fljótt úr minni okkar. Þetta er lífssaga okkar og þegar tíminn líður verður hún í huga okkar heimildamynd um okkar eigin ævi. Mynd sem við getum séð í huga okkar.
Sumar myndir geta fyllt huga okkar óhug og við reynum að eyða þeim úr minni okkar. En það er sama hve mikið við reynum þá virðast þær ekki hverfa, þær eru fastar á harða diskinum. Ráð gegn óþægilegum myndum sem skjótast sífellt upp á hugarskjá okkar er að reyna að varpa upp þægilegri mynd – mynd sem lægir öldurót hugans. Allir eiga slæmar myndir í huga sínum og allir eiga líka góðar myndir sem þeir geta teflt fram gegn þeim slæmu enda eru þær nánast sem sjálfvirkur verndarbúnaður sem við búum yfir.
Öll búum við líka til myndir af okkur sjálfum sem við réttum að öðru fólki. Aldrei sjáum við okkur sjálf með augum annarra heldur með okkar eigin – hver manneskja þekkir sjálfa sig nokkuð vel svo ekki sé meira sagt; veit um kosti sína og galla. En við getum fengið ákveðnar hugmyndir um það hvernig aðrir sjá okkur og birtist það t.d. í framkomu þeirra gagnvart okkur. Það hefur alltaf verið kappsmál manna að myndin sem þeir gefa öðrum af sjálfum sér sé falleg og góð; að hún veki góðar tilfinningar og skilji eitthvað eftir sig. Komi það fyrir að blettur falli á þessa mynd reynum við yfirleitt að eyða honum eða fegra sjálfmynd okkar með öðrum hætti.
Ljóst er hvaða drættir skipta mestu máli í þeirri mynd sem við gefum öðrum af sjálfum okkur. Sennilega er skærasti liturinn þar góðvild sem felst meðal annars í því að sýna öðrum vinsemd og virðingu; vera reiðubúinn til að rétta fram hjálparhönd þegar á þarf að halda án þess að vænta nokkurs í staðinn. Góðvild eða góðsemi – það eru til mörg orð um þennan þátt – er eitt það jákvæðasta í fari einnar manneskju sem hægt er að hugsa sér. Góðvildin skapar þægilega tilfinningu fyrir viðkomandi og gerir lífið auðugra og léttbærara.
Við getum talið upp fleiri drætti sem styrkja góða mynd af sjálfum okkur: heiðarleiki, þolinmæði, skilningur, umburðarlyndi og hógværð. Allt þetta getum við tamið okkur en við vitum að það tekur tíma að þjálfa sig í þessum þáttum: Allt vandasamt tekur tíma. Andleg þjálfun tekur á og krefst mikils á sama hátt og líkamleg þjálfun. Í þessari þjálfun er ekki hægt að taka einhver heljarstökk eða skjótast skemmri leiðir. Allt lífið er æfingasalurinn fyrir þessi andlegu lóð og gildi sem gera okkur að betri manneskjum.
Oft er gott að staldra við og reyna að skoða sjálfan sig, virða fyrir sér hinn innri mann eða eins og maður er í innsta kjarna sínum. Hvað hugsar þú? Hver ert þú? Viltu breyta þér? Þarftu að taka einhverjum breytingum? Og ef svo er, þá hvaða? Hvaða leiðir skyldi þá best að fara?