Hamingjan sanna
Á löngum dögum sem hafa teigt úr sér í vikur og mánuði samkomubanns vegna Covid-19 hafa ófáir á tilfiningunni að hamingjan hafi orðið eftir úti i áveituskurði væntinga þeirra og eða tekið sóttina illa og henni haldið í öndunarvél þess sem var, en er ekki í dag.
Einhverjir vilja meina að hamingjan hafi ekkert úthald. Segja að hún drattist móð og másandi á eftir óskum okkar og ráðagerðum og þegar hún loksins nær okkur er það of seint fyrir okkur. Augnablikið farið hjá fyrir löngu. Farin veg allrar veraldaldar eins og veiran sem fer sannarlega veg allrar veraldrar þessi dægrin þrátt fyrir sannleikgsgildi og spádóma mánuðina á undan um eitthvað allt annað. Hvað sem hægt er að segja um allt annað þá er raunveruleikinn trunta; eins og skáldið sagði. Raunveruleikinn lætur sér fátt finnast um allt það sem við vildum að helst væri hverju sinni.
Við sem í dag lifum og komin á miðjan aldur einhver tæplega og aðrir rúmlega þá er ekki annað hægt að segja að við höfum lifað tiltölulega góða tíma heimssögulega utan kreppu sem „ beyglaði“ tilveruna um stund og rétti sig síðan af. Auk alls hins sem kastað hefur verið í safnþró þess sem hefur gerst utan garðhliðs okkar daglegu tilveru hér á norðuhveli jarðar, tíma friðar og farsældar.
Við höfum leyft okkur að umgangast hamingjuna eins og gæludýr sem við knúsum þegar sá gállinn er á okkur eða látum okkur fátt um finnast og opnum útidyr og glugga til að hleypa henni út í þeirri vissu að hún kemur aftur þegar svengdin og viðurkenninguna vantar. Hún skilar sér ekki alltaf heim á þófum vináttunar eða týnist í skurði raunveruleikans einhversstaðar fyrir einhverjum.
Ekki skal ég segja til um að svo hafi verið þegar hamingjan hitti fyrir þrjár manneskjur á misjöfnum stað í lífi þeirra eins og segir í gamalli sögn.
Hamingjan spurði þann fyrsta hvað mætti bjóða honum. Hann bað um fulla vasa fjár. Honum varð að ósk sinni og snéri glaður heim á leið. Hamingjan spurði þann númer tvö hvað hann vildi. Hann óskaði sér einskis heitara en að eignast fallega konu. Sá fékk ósk sína uppfyllta.
Kann að vera að við finnum okkur þessi misserin í áveituskurði ótta þess sem er og ekki síður þess sem kann að verða vaðandi upp að nára í örvæntingu og þreytu samkomubanns og sóttkvíar og eða einangrunar þess hvað verður. Sjáum vart uppfyrir brún skurðarins sem heimsbyggðin öll finnur sig í að vera. Huggun harmi gegn eins og einhver sagði gerum við manneskjunar allavega ekkert af okkur á meðan.
Af hamingjunni er það að segja að hún bar upp sömu spurningu við þann þriðja, hvað mætti bjóða honum. „Veistu, mér dettur bara ekkert í hug“ svaraði hann, sagði svo „en hvað má bjóða þér?“ Hamingjan svaraði hissa, „það væri nú gott að komast upp úr þessum skurði.“ Hann hjálpaði henni upp og hélt svo heim á leið. Og hamingjan elti hann.