Það eru margar ástæður til þess að mæla með því að kirkjan stilli sér upp við hlið réttlætisins og mæli með því að sömu lög gildi í landinu fyrir pör sem kjósa að ganga í hjónaband. Með því verður aðgreiningu eftir kynhneigð aflétt.
Margir hafa bent á að Þjóðkirkjan er aðili að alþjóðlegum kirkna samtökum, m.a. Lúterska heimssambandinu og Porvoo kirknasamfélaginu. Í þessum samtökum er afstaða til málefna samkynhneigðra umdeild og víða mikil átök. Aðeins tvær kirkjur þar sem prestarnir eru vígslumenn að lögum, þ.e. sænska kirkjan og Sameinaða mótmælakirkjan í Kanada, hafa samþykkt skilgreiningu ríkisvaldsins á einum hjúskaparlögum fyrir alla.
Ef þjóðkirkjan er kjörkuð tekur hún sér stöðu með þessum kirkjum, mælir með einum hjúskaparlögum og gleðst yfir því að prestar hennar hafi heimild til hjónavígslu tveggja einstaklinga sem unnast.
Við viljum áfram vera hluti hins alþjóðlega kirknasamfélags en við viljum einnig standa vörð um boðskap kirkjunnar. Það er ekki sjálfsagt að vera í samfélagi kirkna sem neita að vígja konur til prestsþjónustu og jafnvel líta á það sem skilyrðislausa kröfu að konur þegi á safnaðarsamkomum. En við látum okkur hafa það. Við verjum ekki valdníðsluna og óréttlætið. Við stillum okkur upp við hlið systra okkar sem búa daglega við ranglætið og styðjum þær í baráttunni. Við þolum að vera í samstarfi við kirkjur sem fordæma samkynhneigð og líta á hana sem synd. Það er ekki til þess að sýna kirkjustjórnum þar samstöðu. Við stillum okkur upp við hlið trúarsystra okkar og -bræðra sem þrá samfélag kirkjunnar og við tökum höndum saman um að búa þeim það rými sem þeim ber.
Það var ýmislegt reynt til að hnekkja á Jesú. Það var líka lögð mikil áhersla á að breytingar væru hættulegar. Þannig var komið með veikan mann til Jesú á hvíldardegi til þess að kanna hvort hann myndi voga sér að brjóta boðið um að halda hvíldardaginn heilagan. Hvað gerði Jesús? Kallaði hann saman ráðgjafarþing sem svo vísaði málinu í nefnd? Nei, hann læknaði manninn og kenndi viðstöddum þá mikilvægu lexíu að hvíldardagurinn væri til fyrir manninn en ekki maðurinn fyrir hvíldardaginn.
Þannig skulum við einnig leggja okkar lóð á vogarskálina við umfjöllun og afgreiðslu um ein hjúskaparlög. Munum að lögin eru sett til að vernda okkur öll en ekki til að mismuna.