Hvað er raunverulegt?

Hvað er raunverulegt?

En þegar skömmin er mikil, sterk og ríkjandi í þínu lífi þá aftengistu fólkinu í kringum þig. Þú fjarlægist, ert ekki uppburðamikill í samskiptum, dregur þig í hlé eða varpar frá þér ábyrgð. Allt lífið hverfist um óttann við að verða afhúpuð, að skömmin verði sýnileg.
fullname - andlitsmynd Sunna Dóra Möller
28. mars 2016
Flokkar

Hvað er RAUNVERULEGT? spurði Kanínan rugguhestinn, dag einn þegar þau lágu hlið við hlið rétt hjá aringrindinni áður en barnfóstran kom inn til að taka til í herberginu. Er það þegar hlutir suða inni í þér og þú ert með handfang sem vísar út?

Raunverulegt er ekki hvernig þú ert búinn til sagði rugguhesturinn, það er hlutur sem kemur fyrir þig. Þegar barn elskar þig í langan, langan tíma. Ekki bara þegar það leikur með þig, heldur raunverulega elskar þig, þá verður ÞÚ raunveruleg.

Finn ég til? Spurði kanínan.

Stundum sagði rugguhesturinn, vegna þess að hann sagði alltaf satt. En þegar þú ert raunveruleg, skiptir sársaukinn minna máli.

Gerist þetta allt í einu? Eins og að vera trekkt upp? Spurði kanínan eða gerist þetta skref fyrir skref?

Þetta gerist ekki allt í einu sagði rugguhesturinn. Þú verður raunveruleg. Það tekur langan tíma. Þess vegna gerist þetta ekki oft fyrir fólk sem bognar auðveldlega, eða hefur skarpar brúnir eða sem hefur verið verndað of mikið. Almennt séð, er það þannig að þegar þú ert orðin raunveruleg, þá hefur mest af feldinum þínum verið elskaður í burtu, augun orðin laus og samskeytin eydd. En þetta allt skiptir ekki máli, vegna þess að þegar þú ert raunveruleg, þá geturðu ekki verið óaðlaðandi, nema í augum fólks sem skilur ekki.

Ég býst við að þú sért raunverlegur sagði kanían, en um leið óskaði hann sér að hann hefði ekki sagt þetta, því hann hélt að rugguhesturinn kynni að vera viðkvæmur. En rugguhesturinn brosti bara! (lausleg þýðing sdm)

Þessi stutta frásögn kemur úr barnabókinni “The velveteen Rabbit” eftir Margery Williams. Ég rakst á þessa sögu um daginn á netinu og lestur hennar fékk mig til að staldra aðeins við þennan hluta hennar.

Ástæða þess er sú, að það er áhugaverð pæling að velta fyrir sér í nútíma samhengi hvað er raunverulegt og hvað ekki. Hvenær verður manneskja raunveruleg og hvenær ekki.

Ég hef verið að lesa afar áhugaverðar bækur í vetur eftir Brene Brown en hún er doktor í félagsfræðum og hefur rannsakað skömm undan farin ár og gefið út fjölda bóka um skömmina og áhrif hennar á líf okkar.

Ástæða þess að ég fór að tengja þetta saman, þennan texta og svo rannsóknir Brene er að hún segir meðal annars að: “Skömmin sé ein kraftmesta stýrandi tilfinning sem hægt að er að finna. Hún er óttinn um að vera ekki nógu góð/ur.”

Hún segir einnig að afleiðingar skammarinnar séu ótti, ásakanir og tengslaleysi.

Þetta er áhugavert í ljósi þess að hún segir líka að það sé enginn undanþeginn því að finna einhvern tímann á ævinni fyrir skammartilfinningum. Öll upplifum við það á eigin skinni á einum tíma eða öðrum að finna fyrir skömm. Hún segir þó að gera verði greinamun á sektarkennd og skömm. Sektarkennd er þessi tilfinning þegar við vitum að athafnir okkar hafa verið rangar og við reynum að bæta fyrir þær. Það er sem sagt verknaðurinn sem er rangur. Skömmin er sú tilfinning að það sé eitthvað að þér. Gildi þitt í grunninn sé minna en annrarra. Þú ert ekki nógu góð/ur.

Skömmin byrjar að myndast þegar við erum ung að árum og það getur margt orðið til þess að hún festi sig æ meir í sessi eftir því sem við eldumst, bæði uppeldislegir, félagslegir og umhverfistengdir. En þegar skömmin er mikil, sterk og ríkjandi í þínu lífi þá aftengistu fólkinu í kringum þig. Þú fjarlægist, ert ekki uppburðarmikill í samskiptum, dregur þig í hlé eða varpar frá þér ábyrgð. Allt lífið hverfist um óttann við að verða afhúpuð, að skömmin verði sýnileg. Að fólk sjái þig sem þá manneskju sem þú raunverulega ert. Að gríman falli. Og þegar hún fellur, þá hvíslar skömmin að þér: Nú getur ekki verið að nokkur manneskja geti elskað þig. Þú ert ekki verðug/ur.

Það er hið fullkomna varnarleysi. Hinn fullkomni vanmáttur, að verða sýnileg. Til að koma í veg fyrir að þetta gerist, byggjum við upp varnir, lag fyrir lag, til að tryggja það að við sjáumst aldrei, að við verðum aldrei raunveruleg í augum þeirra sem sjá okkur. Þess í stað fer öll orkan okkar í þrenninguna: Hver á ég að vera? Hvað á ég að vera? Hvernig á ég að vera? Eða eins og kanínan spurði í sögunni: Hvað er raunverulegt?

Það er ekki nema von að þetta stýri líðan okkar og lífi, því skömmin er svo vond tilfinning. Hún getur verið svo ógnandi að þegar við upplifum hana, er eins og flóðbylgja skelli á okkur af fullum krafti og um leið er eins og tíminn frjósi og standi í stað, við erum aldrei eins einmana og aftengd andlega og líkamlega eins og þegar við erum í því ástandi. Í þessum aðstæðum er fyrsta hugsunin að fela sig fyrir heiminum. Að það sé farsælast fyrir alla að við sjáumst ekki. Skömmin elur af sér flótta frá lífinu og raunveruleikanum. Það sem er sorglegast í þessu öllu saman, er allt sem manneskjan fer á mis við þegar lífið hverfist um skömmina og flóttann sem henni fylgir.

Brene Brown segir á einum stað að það sé hægt að vinna á þessu, skömmin er eitthvað sem við losnum aldrei fullkomnlega við en það er hægt að vinna á henni, læra að þekkja hana og mynda með sér skammarþol.

Það gerum við með hugrekki, samvitund og mannlegum tengslum.

Hugrekkið felst í því að sjást. Að hafa það hugrekki að þora að láta einhvern sjá okkur, jafnvel þó að við séum þjökuð af ótta. Það er ekkert í lífinu, engar aðstæður, hvorki í fortíð, nútíð eða framtíð þess eðlis að við séum ekki þess verðug að vera hluti af og þátttakendur í.

Samvitundin myndast þegar við mætum manneskju, þorum að orða óttann okkar, skömmina og manneskjan segir á móti: Heyrðu ég hef lent í því sama, ég þekki þessa tilfinningu vel eða ég veit hvað þú ert að fara í gegnum. Um leið er eins og skömminn missi mátt sinn og vald yfir líðan okkar. Það er nefnilega þannig að skömmin þrífst best í myrkri, í dimmum skúmaskotum, þar sem leyndarmálin ríkja.

Og með því að færa skömmina í orð, að treysta öðrum fyrir því sem hendir okkur, þá er það þannig, að þegar hún hellist yfir okkur eins og snjóflóð sem gerir ekki boð á undan sér, þá eigum við samherja til að halda í og halla okkur að. Skömmin víkur fyrir samkennd, elsku og þeirri tilfinningu að þú sért ekki ein á ferð. Þú ert ekki skrýtin, þú ert ekki geðveik, þessar tilfinningar eru þekktar og sammannlegar og við erum öll samferða í því að böðlast í gegnum lífið sem þær ófullkomnu manneskjur sem við erum, gerum mistök, segjum ljóta hluti, hugsum slæmar hugsanir og finnum til.

Hugsið ykkur fólkið sem fylgdi Jesú á síðustu dögum lífs hans. Allt sem það gekk í gegnum á þessari viku frá því að hann reið inn í Jerúsalem fram að páskaatburðinum á páskadagsmorgni. Margir höfðu verið samferða honum lengi, hlustað á allt sem hann hafði sagt og séð allt sem hann hafði gert. Elskað hann og virt.

Samt voru þau full ótta, hans nánustu vinir afneituðu veru hans á örlagastundu, sumir þorðu ekki að standa við hlið krossins á Golgatahæð, hafa eflaust verið full skammar, sektarkenndar og sársauka þegar við þeim blasti nakinn, smáður líkami Jesú. Ofbeldið svo hrátt, svo nálægt og þögnin ríkjandi.

En sagan endar ekki þar. Páskadagsmorgun er morgunin þar sem allt verður heilt á ný. Þar sem atburðir dymbilvikunnar öðlast merkingu. Jesús birtist lærisveinunum sínum í morgunskímunni, þegar raddir vinkvenna hans, óma skilaboðin um víða veröld: “Hann er ekki hér, hann er upprisinn.” Þegar Jesús mætir Maríu vinkonu sinni í garðinum og hún þekkir Jesú þegar hann ávarpar hana með nafni og þegar Tómas þekkir vin sinn með því að snerta hann.

Þegar þau öll sem voru honum samferða, gangast við þeirri sögu og því lífi sem þau eru búin að vera hluti af, verður allt heilt á ný. Þegar þau finnast á ný, snertast og sjá að þau tilheyra hvert öðru, sorgin þeirra er sameiginleg, tilfinningarnar réttmætar og sá ótti, skömm og sektarkennd sem þau báru í brjósti eru eðlileg mannleg viðbrögð. Þegar þau finna fyrir þeim létti, að þau eru ekki ein lengur, þau eru samferða í því að halda áfram, þau eru sýnileg og þau eru elskuð. Jesús ávarpaði þau með nafni, hann mætti þeim í nándinni og sársaukanum og það er á þeim tímapunkti sem vera þeirra verður grímulaus og raunveruleg. Hann þekkti þau og hann þekkir okkur, alla veru okkar og það er alveg sama þó að við verðum örlítið máð og lífið risti rúnir sínar í andlit okkar. Í augum þess sem elskar þig ertu alltaf raunverulegur, aldrei óaðlaðandi. Nema kannski hjá þeim sem ekki skilur.

Því í djúpi sálarrökkursins, rétt fyrir sólarupprás er Guð að gera alla hluti nýja. Þar er upprisan og vonin! Gleðilega páska