Það eru óvenjulegir tímar í samfélaginu okkar, síðustu vikur og mánuðir hafa litast af neikvæðum fréttum, fjöldamótmælum, jafnvel ólátum. Þann 1. desember héldum við uppá 90 fullveldis afmælis smáþjóðar, lítillar eyju langt norður í Atlandshafi í skugga efnahagskreppu. Með hækkandi meðalaldri í búa þessa landa eru þau mörg sem muna tímana tvenna og eru ekki í fyrsta skipti að upplifa efnahagsþrengingar. En yngri kynslóðir hafa búið við alsnægtir í veraldlegum skilningi, sum hver við ofgnótt. Þau sem hafa aldrei liðið efnahagslegan skort þurfa að aðlagast breyttu ástandi, eins og auðvitað þjóðin öll.
Kvíði og óróleiki eru óhjákvæmilegir fylgifiskar þessa ástands. En þátt fyrir kreppu, reiði og ólgu í samfélaginu minnir umhverfið okkur á hátíðina sem framundan er, hátíðina sem löngum hefur verið tengd við ljós og frið. Líklega finnum við enn sterkar en ella hvað við þurfum á slíkri hátíð að halda.
Í guðsþjónustu á aðfangadagskvöld óma þessi orð frá altari Drottins: Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Þessi orð eru tileinkuð Jesaja spámanni sem var uppi á síðari hluta áttundu aldar fyrir Krist. Hann starfaði í Jerúsalem fyrir tæpum 3000 árum. Það breytir því ekki að orðin tala beint inn í aðstæðurnar okkar. Þau hafa alltaf haft djúp áhrif á mig orð spámannsins.
Við erum staðsett norðarlega á jarðarkringlunni, í framhaldi orðanna um þjóðina sem gengur í myrkrinu segir Jesaja: Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna skín ljós. Í landi náttmyrkranna. Þau eiga því alltaf vel við og verða svo skiljanleg okkur sem þekkjum myrkur skammdegisins. Það nær raunar ekki aðeins yfir nóttina myrkrið sem ríkir. En þetta árið í skugga kreppu og þrenginga verða þessi orð spámannsins enn skýrari og almennari. Þau hafa alltaf talað sterkt inní aðstæður þeirra sem eiga um sárt að binda en nú finnst mér þau tala til þjóðarinnar allra með nýjum hætti.
Sú þjóð sem í myrkri gengur sér mikið ljós. Við verðum að halda fast við það. Við sleppum ekki undan myrkrinu í bókstaflegum skilningi en heldur ekki í yfirfærðri merkingu. Það að ganga í gegnum erfiðleika, missi og sorg er hluti af því að vera manneskja. Hér er það sagt sem segja þarf. Það verður myrkur í lífi okkar, erfiðleikar, kvíði, missir og sorg sem höggva nærri okkur.
Dagar líða og svo koma jólin og segja: Sú þjóð sem í myrkri gengur sér mikið ljós. Hvaða ljós er þetta? Það er ljósið sem guðspjallið greinir frá: Yður er í dag frelsari fæddur. Jólin bera með sér birtu og von, þrátt fyrir allt. Þau minna á Guð sem er að verki, Guð sem er nálægur í atvikum mannlegs lífs.