Sr. Jóhann Þorkelsson, dómkirkjuprestur, sagði gjarnan við þau, sem hann hitti á hvítasunnunni, líka þau sem höfðu verið að slarka og hann mætti illa áttuðum á götu: “Gleðilega hátíð heilags anda.” Ávarpið varð jafnan til góðs.
Það er hátíð, hátíð hins góða anda Guðs. Ýmsar sögur eru sagðar um þennan anda. Sumar eru sérkennilegar flökkusögur, af skoptaginu og hvort menn hafi séð anda Guðs. Ein sagan er um gamlan mann, sem þáði niðurdýfingarskírn og eftir ítrekaðar niðurdýfingar kom hann upp með andköfum og sagði: “Ég sá hann skjótast!” Slíkar sögur líða ekki fyrir sannleikann! Þær byggja á, að andinn birtist mönnum í mynd ákveðinnar veru og oftast þá í fuglslíki. Sú myndhverfing á sér baksvið í sögunni um skírn Jesú, þegar andi Guðs kom í mynd dúfu yfir frelsarann. Síðan hafa dúfur verið tákn andans. Á norðlægari slóðum var dúfan ekki algengur fugl og meðal Kelta á Bretlandseyjum varð gæsin m.a. tákn hins guðlega anda. Það er ekki einkennilegt því gæsirnar leggja margt gott til lífsins og fljúga m.a. oft í oddaflugi. Í því geta táknsæknir menn líka séð þríhyrningstákn, logo fyrir þrenninguna.
Óvanr Í sögu Guðmundar Arasonar er sagt frá hvernig Heilagur andi birtist manni norður í Viðvík í Skagafirði. Guðmundur var þar prestur hjá Má Finnssyni, bónda. Í sögunni er greint frá að bóndi gekk til kirkju og svo segir: “En er hann kom í kirkju, þá sá hann, at fugl lítill fló upp af öxl Guðmundi presti í loft og hvarf honum þá. Hann þóttist eigi vita, hvat fugla þat var, því hann var óvanr at sjá heilagan anda.” Þarna kemur myndhverfing fram og ýmsar hliðstæðar sögur eru til í hefð okkar Íslendinga.
Hvað er svo með heilagan anda? Er andinn vera, sem kemur fiðruð og sest á öxl okkar eins og vel vaninn páfagaukur? Er hann það, sem menn sjá skjótast, þegar þeir líða fyrir andnauð. Þannig horfir málið við þeim, sem eru ekki aðeins óvanir að sjá heilagan anda, heldur einnig óþjálfaðir í samskiptum við þann anda og þar með slæmir til frásagnar og skýringar. En hvernig er þá þessi Andi Guðs? Tákn er eitt, en veruleikinn sem táknið vísar til, er stærri og meiri. Við gerum okkur ýmsar myndir, táknum með margvíslegu móti og skiljum raunar með fjölbreytilegu móti einnig. Og það er mikilvægt að skilja inntak og samhengi tákna.
Elskan Guðspjall dagsins er litla biblían, hin yndislegu orð úr Jóhannesarguðspjalli: “Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.” Marteinn Lúther sagði, að í þessu versi væri dregið saman það sem Biblían tjáir, í þessu versi væri “andi” Biblíunnar. Í fyrsta lagi elska Guðs. Í öðru lagi að sonurinn kemur vegna elskunnar. Og tilgangurinn er að gefa mönnum líf Guðs, það sem við köllum eilíft líf, og bjarga mönnum þar með frá guðleysi, villu og skorti. Ef menn skilja þetta, meðtaka þetta og viðurkenna þetta hefur Andi Guðs komið og haft gæfuleg áhrif í lífinu.
Andinn er elska Guðs. Andinn er huggarinn, sem styður okkur. Andinn verkar í skírn. Andi Guð tekur sér bólfestu í okkur. Andinn hvíslar að okkur í rödd samviskunnar. Andinn er að verki þegar við komum saman í kirkjunni, heyrum orðið frá Guði, opnum huga okkar og sálu. Andinn verkar í brauði, víni og samfélagi messunnar. Já andinn er alls staðar í hinu kirkjulega samhengi. Þetta getur kirkjuvant fólk samþykkt. En er þar með allt sagt um anda Guðs? Er andinn sértækur og aðeins bundinn við hið kirkjulega samhengi.
Nei, Andi Guðs er ekki sérsinna og smásmugulegur. Andinn er altækur, alls staðar þar sem Guð er. Andinn er í öllum táknum kirkjunnar en líka í öllu því sem er og verður. Kristinn maður sér í allri veröldinni Guð að starfi, í himinvíddum geimsins, í undrum lífsins, litlum folöldum, kími sem kemur upp úr vorsverðinum. Trúmaðurinn nemur andlegar strokur í vindgjólu og en líka í vetrarveðrum. Og það er mikilvægt að víkka út vitund okkar um anda Guðs til að við metum gæði lífsins vel og sjáum í þeim dýpri merkingu. Við þurfum trústrekkingu, strekkingu okkar eigin anda. Og kannski er okkar tími, nútíminn, góður fyrir vitundarvíkkun.
Innrýmið - guðsreynsla Trúarlíf fólk virðist vera breytast með þróun samfélagsins. Trúin verður æ minna arfbundin, hefðbundin og æ sjálfhverfari og innhverfari. Einstaklingarnir leggja áherslu á eigin þarfir, eigin skilning og vilja kannski kjörbúðarfyrirkomulag í trúarefnum – fara og búa til sína eigin trú skv. eigin þörfum. Áherslan verður á innrými einstaklinga fremur en útrými hefða, sem einstaklingar fá að búa í og þiggja hlutverk sitt af. Sumir munu kalla þetta einstaklingshyggju í trúarefnum, aðrir sálhverfingu (psykologiseringu) eða bara sjálfhverfingu.
Í efnislegri auðlegð - en einnig oft innantómu lífi margra í neyslusamfélagi hins ríka hluta heims - leitar fólk eftir reynslu. Við lifum í offlæði upplýsinga, staðreynda og fræðslu en búum um margt við skort á merkingarbærri reynslu. Allir þarfnast grunngæða, t.d. fæðu, skjóls, tengsla og fatnaðar. En þegar þessa er notið verður auður, matargnótt, íbúðaflottheit og neysla ekki til að skapa meiri hamingju, heldur magnar oft sáran sult hið innra eftir tilgangi og trú. Mér sýnist að vel alið samferðafólk okkar kalli æ meir og sterkar á guðsreynslu. Og það er alveg sama hvað mikið við segjum og fræðum. Ekkert kemur í stað reynslunnar af Guði. Guðsreynslan kemur fyrst og guðsfræðslan svo.
Við þörfnumst öll hamingjureynslu. Þar er reyndar stórt og mikið verkefni fyrir kirkju Krists að bregðast við fólki, sem leitar reynslu en ekki fræðslu. Víða hefur komið í ljós að fólk verður stofnanafælið í gildaleit sinni. Þetta sýna t.d. rannsóknir í Svíþjóð. Fjöldi fólks sækir íhugun og fræðslu utan hefðbundinna trúarstofnana. Félagssaga Svía er önnur en okkar Íslendinga en þó er vert að íhuga skilaboðin og ígrunda með hvaða hætti djúpþörfum fólks verður best sinnt.
Atburður og túlkun hans Már Finnsson var óvanur að sjá heilagan anda. Hann sá bara fugl. Við þurfum að læra að sjá og skilja. Reynsla fólks er eitt og túlkun reynslunnar er annað. Oft heyrum við prestarnir að fólk afsakar sig að það komi ekki í kirkju en hafi verið úti í náttúrunni og upplifað eitthvað mikilvægt og gott. Og svo segir fólk að náttúran sé eins og kirkja, musteri, helgidómur og á auðvitað við að þar er eitthvað gott og jákvætt. Og hver getur ekki samþykkt, að það sé mikilvægt að njóta náttúrunnar. Jafnvel ganga með Skerjafirðinum, einu mikilvægasta djásni Reykjavíkur, verður oft undraganga og fólk upplifir eitthvað gott. Fjallgöngumenn geta staðfest að fjallaklifur skilar oft stórkotlegri reynslu af einhverju verulega mikilvægu. Göngugarpar í ferðum Útivistar, Ferðafélagsins og allra gönguhópanna geta staðfest að göngur hafa ótrúlega mikil áhrif til góðs, ekki aðeins fyrir þreyttan skrokk, heldur þreyttan anda og sveltandi sál. Af hverju skyldi fólk sækja svo í göngur? Jú, við leitum öll í mótandi og inntaksríka reynslu. En hvað gerum við svo með undrið? Hvernig túlkum við reynslu okkar?
Tilefni upplifunar eru margvísleg; óvænt reynsla af hita og stillilogni á fjallstindi í norðlenskum tröllaskaga, milljónum hlægjandi stórdropum í sólböðuðum dýjamosabreiðum, stökki fisks upp úr á, vaðandi síldartorfu á spegilsléttum firði eða hamingjusamri lóumóður við kvakandi ungahreiður, hjalandi barn í fangi og augu traustsins fest á okkur.
Að sjá dýpra – sjá í samhengi Er þetta bara tilfinning fyrir að efnahvörf viðkomandi stundar hafi verið jákvæð, að við vorum án þjáningar, að áreynsla hafði deyft sársauka, kvíða, lægt áhyggjur í bili – og að við náðum að gleyma dauðaógn, endi lífsins og tilgangsleysi í bili? Það er vissulega túlkunarháttur margra - en átakanlegur og ófullnægjandi. Kristin maður getur séð í reynslunni anda Guðs, séð í dropum, litlum ungum, glitrandi og sjóðandi fjarðarspegli undur ávirks anda Guðs. Það er ekki sjálfgefið fyrir mann, sem er óvanur að sjá heilagan anda, að túlka reynslu í náttúrunni sem reynslu af hinu guðlega. En ef maður trúir á Guð getur maður séð fólk með öðrum augum, getur horft á furður lífsins með augum tilgangs og skapandi ævintýris og séð í sporðaköstum, fíngerðum háfjallablómum fjölbreytnigleði skaparans og garðyrkjumanns geimsins. Í atburði sér trúin bros Guðs, í upplifunum nemur trúin strokur hins elskandi, á krossgötum heyrir trúin sefandi huggunar- eða hvatningarorð. Trúin les í líf og atburði og setur í samhengi traustsins.
Niðurstaða hátíða kirkjunnar Ertu óvanur að sjá heilagan anda? Hvítasunnuhátíðin er þriðja hátíð kirkjunnar. Páskarnir hafa löngum verið mesta hátíðin því þá dó dauðinn og lífið lifnaði. Jólin koma á miðjum vetri og leggja áherslu á að Guð kemur í heiminn. En svo er þriðja hátíðin, þetta að Andi Guðs er gefinn, ekki aðeins skírðum, í sakramentum, heldur veröldinni allri. Allt nýtur Guðs anda, sem er einn og í öllum. Svo á öðrum hvítasunnudegi er eins og allt sé dregið saman í kjarna þessa biblíuvers í þriðja kafla Jóhannesar. “Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn, til að hver sem á hann trúi glatist ekki heldur hafi eilíft líf.” Já það er Andi Guðs sem gefur okkur þá sýn, þá skynjun, þann veruleika og þá trú. Það er verk Anda Guðs að gefa líf og það er meginverkefni þess anda að tengja okkur við lífið í Jesú Kristi, gefa trú og viðhalda henni.
Æfðu þig í að sjá heilagan anda. Þá ferðu að sjá að fuglar, skírn, kirkja, blóm, börn, gamalmenni, konur, karlar, samfélag, vatn, geimur eru allt tákn, þessir undursamlegu andlegu “fuglar” hins guðlega anda, tákn sem vísa okkur á fegurð, elsku, ljós og von hins guðlega.
Prédikun í Neskirkju, 2. hvítasunnudag, 12. maí, 2008.
Guðspjall Jh. 3.16-21 Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn heldur til þess að frelsa hann. Sá sem trúir á son Guðs dæmist ekki. Sá sem trúir ekki er þegar dæmdur því að hann hefur ekki trúað á nafn Guðs sonarins eina. En þessi er dómurinn: Ljósið er komið í heiminn en menn elskuðu myrkrið fremur en ljósið því að verk þeirra voru vond. Hver sem illt gerir hatar ljósið og kemur ekki til ljóssins svo að verk hans verði ekki uppvís. En sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins svo að augljóst verði að verk hans eru í Guði gerð.Lexían Jes. 44.21-23 Minnstu þess, Jakob, og þú Ísrael, því að þú ert þjónn minn. Ég hefi skapað þig til að vera þjón minn, þú, Ísrael, munt mér aldrei úr minni líða! Ég hefi feykt burt misgjörðum þínum eins og þoku og syndum þínum eins og skýi. Hverf aftur til mín, því að ég frelsa þig. Fagnið, þér himnar, því að Drottinn hefir því til vegar komið, látið gleðilátum, þér undirdjúp jarðarinnar. Hefjið fagnaðarsöng, þér fjöll, skógurinn og öll tré, sem í honum eru, því að Drottinn frelsar Jakob og sýnir vegsemd sína á Ísrael.
Minnstu þess, Jakob, og þú Ísrael, því að þú ert þjónn minn. Ég hefi skapað þig til að vera þjón minn, þú, Ísrael, munt mér aldrei úr minni líða! Ég hefi feykt burt misgjörðum þínum eins og þoku og syndum þínum eins og skýi. Hverf aftur til mín, því að ég frelsa þig. Fagnið, þér himnar, því að Drottinn hefir því til vegar komið, látið gleðilátum, þér undirdjúp jarðarinnar. Hefjið fagnaðarsöng, þér fjöll, skógurinn og öll tré, sem í honum eru, því að Drottinn frelsar Jakob og sýnir vegsemd sína á Ísrael.
Pistillinn. Post. 10.42-48a (Og Pétur sagði:) Og hann bauð oss að prédika fyrir lýðnum og vitna, að hann er sá dómari lifenda og dauðra, sem Guð hefur fyrirhugað. Honum bera allir spámennirnir vitni, að sérhver, sem á hann trúir, fái fyrir hans nafn fyrirgefningu syndanna. Meðan Pétur var enn að mæla þessi orð, kom heilagur andi yfir alla þá, er orðið heyrðu. Hinir trúuðu Gyðingar, sem komið höfðu með Pétri, urðu furðu lostnir, að heilögum anda, gjöf Guðs, skyldi einnig úthellt yfir heiðingjana, því þeir heyrðu þá tala tungum og mikla Guð. Þá mælti Pétur: Hver getur varnað þess, að þeir verði skírðir í vatni? Þeir hafa fengið heilagan anda sem vér. Og hann bauð, að þeir skyldu skírðir verða í nafni Jesú Krists.